23.12.2019 15:25

Gjörbreytt viðhorf til miðlunar og móttöku

Byltingin í upplýsingamiðlun kallar á breytt viðhorf. Aðgangur að alþjóðlegu sjónvarpi og netinu gerir okkur að þátttakendum í stórviðburðum líðandi stundar. Þetta gjörbreytir viðhorfi til miðlunar og móttöku.

Nú dregur að því að þessi vefsíða, bjorn.is, hafi verið 25 ár á lofti í netheimum. Breytingarnar sem orðið hafa í upplýsingatækni á þessum árum eru gífurlegar. Við sem höfum tekið þátt í þróuninni erum staddir í gjörbreyttu starfsumhverfi.

Við göngum með háþróaðan upplýsingatæknibúnað í símanum. Að við kunnum að nýta hann til fulls er af og frá. Nú nægir að horfa á símtækið til að posinn samþykki greiðslu. Kortið er á undanhaldi. Hvað með bankana?

Framleiðendur símans nýta okkur eigendur tækisins eins og þeim er frekast unnt. Þeir selja okkur símtækið og skapa sér síðan verðmæti úr notkun okkar á því. Unnt er að fylgjast með því sem við gerum og selja niðurstöðurnar þeim sem framleiða og bjóða vöru og þjónustu.

Blaðamenn sem rita skoðanadálka The New York Times hafa leitast við að kortleggja þá söfnun persónuupplýsinga sem leiðir af notkun farsíma. Þeir birtu niðurstöður laugardaginn 21. desember sem sýndu að eftir örstutta þjálfun í notkun Google-leitarforrits gátu þeir til dæmis rakið ferðir fólks sem tók þátt í mótmælafundum. Þeir telja að á þennan hátt sé unnt að hafa skoðanamyndandi áhrif. Stjórnmálaflokkar sækjast nú eftir að kaupa upplýsingar af þessu tagi.

March

Til að róa þá lesendur sína sem fylltust óhug við lestur lýsinganna birtu blaðamennirnir leiðbeiningar í þremur liðum sem minnkaði líkur á að fylgjast mætti með ferðum símeiganda. Þetta felst í því að breyta stillingum í símanum.

Öll árin 25 sem bjorn.is hefur lifað hafa ekki síður birst fréttir um neikvæðar hliðar þróunarinnar en jákvæðar. Hvað sem allri neikvæðni líður hefur útbreiðsla tækninnar aukist. Tækin sjálf eru minni og öflugri. Ljósleiðarinn hér um allt land veldur gjörbyltingu. Við verðum enn háðari rafmagni en áður og þess vegna verður einnig bylting í tækni sem gerir okkur kleift að vera tengd þótt rafmagnslínur slitni í ofsaveðri. Til að tryggja tengingu hefur ávallt þurft að sýna fyrirhyggju, þörfin fyrir hana hverfur ekki þótt ljósleiðari taki við af mótaldi. Vandræði eru til að læra af þeim en ekki til að hneykslast á þeim. Vandræði geta orðið við allar aðstæður. Við þurfum að læra til að kunna á tækin og nota þau.

Byltingin í upplýsingamiðlun kallar á breytt viðhorf. Aðgangur að alþjóðlegu sjónvarpi og netinu gerir okkur að þátttakendum í stórviðburðum líðandi stundar. Þetta gjörbreytir viðhorfi til miðlunar og móttöku.

Nú dregur að því að Golden Globe kvikmyndaverðlaunin 2020 verði afhent. Af fimm kvikmyndum sem taldar eru bestar má sjá þrjár á Netflix: The Irishman, Marriage Story og The Two Popes. Myndirnar eru hver annarri betri.

Það eitt að láta sér til hugar koma að semja kvikmyndahandrit um páfana tvo sem nú eru uppi og gera úr því þetta meistaraverk er virði verðlauna. Samtölin eru mögnuð, samin af Anthony McCarten sem gerði handritið að The Darkest Hour um Sir Winston Churchill þegar hann varð forsætisráðherra.

Til þess að Íslendingar standist samkeppni á þessum nýja, sameiginlega heimsmarkaði þarf endurskoðun og umbætur á mörgum sviðum. Standa verður vörð um það sem er mest virði í okkar eigu og nýta tæknina í þess þágu en leyfa hinu að fjúka.