27.1.2017 12:00

Föstudagur 27. 01. 17

Nú hefur Gunnar Smári Egilsson, útgefandi og ritstjóri furðublaðsins Fréttatímans, snúið sér til almennings með ósk um að fólk verji sem nemur andvirði eins kaffibolla á mánuði til að tryggja fjárhagsgrundvöll blaðsins. „Framlög almennings fara ekki til venjulegs rekstrar Fréttatímans heldur aðeins til að styrkja ritstjórnina,“ segir Gunnar Smári í blaðinu í dag. Hann er skráður fyrir 46% hlut í blaðinu.

Gunnar Smári ætlar að stofna félag, Frjálsa fjölmiðlun, til að efla frjálsa og óháða blaðamennsku á Íslandi „í fyrstu með því að efla Fréttatímann“.

Í tilefni af þessari fjáröflunarherferð Gunnars Smára segir Páll Vilhjálmsson á vefsíðu sinni:

„Gunnar Smári stofnaði nýlega sósíalistaflokk. Áður vildi hann gera Ísland að fylki í Noregi, eftir pólitískt ævintýri um að múslímavæða landið misheppnaðist.

Gunnar Smári velur sér einatt málstað á síðasta snúningi. Kortéri áður en Ólafur F. Magnússon missti embætti borgarstjóra nokkrum vikum fyrir hrun var Smárinn orðinn aðstoðarmaður hans. Örugga leiðin til að finna andstreymi umræðunnar er að kíkja á hvaða dyntir eru upp á pallborði Gunnars Smára. Nú stendur gamaldags fríblaðaútgáfa höllum fæti og auðvitað er Gunnar Smári þar í stafni.“ 

Meginstef í blaði Gunnars Smára hefur birst í greinum eftir Inga F. Vilhjálmsson um afskriftir eftir hrun. Ingi F. segir ekki alla söguna heldur beinir spjóti sínu einkum að Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og fjölskyldu hans. Leitað er að nýjum „vinklum“ til að endurtaka sömu söguna hvað eftir annað. 

Nú þegar Gunnar Smári hefur snúið sér með söfnunarbauk til almennings má vænta þess að Ingi F. geri lesendum Fréttatímans grein fyrir fjármálaumsvifum stofnanda félagsins Frjáls fjölmiðlun, útgefanda og ritstjóra Fréttatímans

Í nóvember 2008, eftir hrun bankanna, deildu Gunnar Smári og Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi Baugs, í fjölmiðlum um hve háar skuldir Jóns Ásgeirs væru. Taldi Gunnar Smári þær nema 1000 milljörðum króna. Sakaði Jón Ásgeir  Gunnar Smára um að telja ekki eignir á móti skuldum. Þá birtist þetta á dv.is:

„Ritdeila þeirra fyrrverandi félaga er merkileg í því ljósi að Gunnar Smári reisti fjölmiðlaveldi í skjóli Jóns Ásgeirs. Þar má nefna FréttablaðiðNFSNyhedsavisen og Boston NOW. Samanlagt tjón vegna ófara hluta þeirra fjölmiðla er talið vera yfir 20 milljarðar króna. Eina sem enn lifir er Fréttablaðið.

Væri Ingi F. samkvæmur sjálfum ætti hann að birta almenningi úttekt á fjármálaumsvifum Gunnars Smára svo að hann geti tekið upplýsta ákvörðun um að leggja honum til fjármuni.