1.7.2009

Miðvikudagur 01. 07. 09.

 

Þegar ekið er í myrkri og komið á áfangastað um hánótt, er erfitt að gera sér grein fyrir aðstæðum. Hótel Maine bauð af sér mun meiri þokka en ætla mátti við næturkomuna og morgunverðarsalurinn var einstaklega glæsilegur og atbeini allur hinn besti. Bendi ég þeim, sem eiga leið um Eu, að huga að þessu hóteli, en ekkert okkar Íslendinganna vissi, að þessi borg væri til, áður en við komum þangað. Svava bjó heima hjá augnlækni og sýndi hann henni baðströndina, áður en við hittumst öll á hótel Maine um 08.30 og héldum af stað til les Murs.

Á Mcdonald‘s stað rétt utan við Chartres mátti tengja tölvu þráð- og kostnaðarlaust í ótakmarkaðan tíma. Þar sem við vorum þar um hádegisbilið nældum við okkur í hamborgara og ég sendi Óla Birni, ritstjóra amx.is, umsögn mína um bók Jóns F. Thoroddsens og birtist hún á amx.is á meðan við ókum til les Murs í allt að 33 stiga hita og glampandi sól.

Mcdonald´s lagar sig að kröfum tímans og býður fjölþætta þjónustu. Græn flögg blakta þar fyrir framan til að minna á umhverfisumhyggju staðanna. Að þeim stað, þar sem við áðum, streymdu foreldrar með börn sín í hádegismat. Datt okkur í hug, að 1. júlí hæfist sumarleyfi í skólum og börnum væri boðið í hádegisverðinn til hátíðarbrigða.

Klukkan var tæplega 14.30, þegar við renndum inn í kyrrðina í les Murs, og höfðum við þá lagt 832 km að baki á tveimur dögum. Ég ók Citroen 4C dísel og reyndist hann vel. Ég mældi ekk eyðsluna en dísillíterinn kostar 1,11 til 1,14 evrur eftir gæðum olíunnar.

Ekki til setunnar boðið í les Murs, því að klukkan 18.00 fluttu tónlistarmennirnir sömu verk og daginn áður. Að þessu sinni í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá setrinu, það er kirkjunni í þorpinu Méure.

Að tónleikunum loknum var hinum góða hópi gesta boðið hvítvínsglas af vínekru í nágrenninu á sólbakaðri flötinni framan við kirkjuna.  Hvítvínið er þurrt í ætt við Sancerre, enda ræktað á svipuðum slóðum.

Í tilefni af velheppnaðri ferð til Dieppe og tvennum tónleikum var efnt til hátíðarkvöldverðar í les Murs.

 

Í Le Figaro var sagt frá því að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefði, á flokksþingi sínu til undirbúnings þingkosningunum í september,  knúið fram,  að skattar yrðu lækkaðir á næstu á árum, þrátt fyrir fyrirsjáanlegan halla á þýska ríkissjóðnum. Hið sama er að gerast hér í Frakklandi. Nú 1. júlí lækkar virðisaukaskattur á matvælum, þar á meðal í veitingahúsum.

Má segja, að borgaralega sinnaðir stjórnmálamenn í Þýskalandi og Frakklandi grípi til annarra ráða en vinstrisinnar og sósíalistar á Íslandi, sem telja þjóð sinni helst til bjargar, að stórhækka opinberar álögur.

Gleymast fljótt sannindi um, að lægri skattar auka tekjur ríkis og sveitarfélaga. Einmitt það gerðist í góðærinu á Íslandi. Nú er því lokið og þá er hnykkt á erfiðleikum heimila og fyrirtækja með sósíalískum skattheimtuaðgerðum. Um leið og þung, svifasein hönd ríkisins leggst á atvinnulífið, seilist hún dýpra ofan í vasa einstaklinga og minnkar eða lamar frumkvæðisvilja þeirra. Opinber launajöfnunarárátta ber hið sama í sér og skilur eftir sig sár, sem  verða lengi að gróa.