10.6.2009 23:02

Miðvikudagur, 10. 06. 09.

Eva Joly, nýkjörin á ESB-þingið og sérlegur ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, vill, að Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, verður settur af og ráðnir verði þrír saksóknarar til að starfa sjálfstætt undir forræði hins sérstaka saksóknara.

Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur þegar sett Björn L. Bergsson, hrl., ríkissaksóknara í málum, sem varða bankahrunið. Ragna sagðist taka ábendingar um að efla ætti embætti sérstaks saksóknara enn frekar alvarlegra, en til þess þarf mikla aukafjárveitingu.

Sérkennilegt er, að heyra Evu Joly segja í öðru orðinu, að hér á landi sé verið að rannsaka eitthvert mesta fjársvikamál sögunnar eða að minnsta kosti í Evrópu, og gefa í skyn í hinu, að hinn sérstaki saksóknair, Ólafur Þór Hauksson, hafi ekki þá reynslu til að takast á við málið sem skyldi. Spyrja má: Býr nokkur lögfræðingur yfir nægilegri reynslu til þess? Eru ekki allir lögfræðingar í raun á byrjunarreit gagnvart viðfangsefni af þessu tagi?

Með því að stofna með lögum sérstakt saksóknaraembætti og veita því meiri heimildir en almennt gilda um saksóknara ákvað alþingi, að þessi mál skyldu tekin sérstökum tökum. Enn var sérstaðan áréttuð með því að fá Evu Joly sem ráðgjafa. Nú gefur hún ráð í Kastljósi og gefur jafnframt til kynna, að hún hætti ráðgjöfinni, verði ekki að þessum tillögum sínum farið.

Rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu hefur verið til umræðu vegna hæfis Sigríðar Benediktsdóttur, hagfræðings og kennara við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri fjármálaeftirlitsins, taldi ástæðu til að efast um hæfi Sigríðar vegna orða, sem hún lét falla í viðtali við skólablað í Yale. Taldi hann þau benda til þess, að hún hefði mótað sér skoðun fyrirfram á máli, sem henni hefði verið falið að rannsaka.

Páll Hreinsson er formaður rannsóknarnefndarinnar en hann er doktor í lögfræði og fjallar doktorsritgerð hans einmitt um hæfi og hæfisreglur, þannig að hann veit manna best, hvernig taka ber á málum sem þessum að íslenskum rétti. Þær réttarreglur verður að virða í störfum rannsóknarnefndarinnar, annars er starf hennar unnið fyrir gýg.

Rannsóknarnefndin beindi þessu álitaefni til forsætisnefndar alþingis, sem taldi, að rannsóknarnefndin yrði sjálf af leiða það til lykta. Í dag birtast síðan greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu eftir tvo hagfræðinga, austan hafs og vestan, í hvoru blaði. Telja þeir, ef rétt er skilið, að ekki sé aðeins vegið að Sigríði heldur hagfræðingum almennt, ef niðurstaðan yrði, að hún þyrfti að víkja úr rannsóknarnefndinni.

Hagfræðingar hafa verulega látið að sér kveða í umræðum vegna bankahrunsins - bæði innlendir og erlendir - og leitað hefur verið til þeirra um hagfræðileg álitaefni. Hin hagfræðilegu viðhorf, sem kynnt hafa verið, sýna ótvírætt, að niðurstöðurnar verða stundum jafnmargar og mennirnir, sem lýsa þeim. Í fljótu bragði hefði mátt ætla, að hagfræðingar  ættu fullt í fangi með verkefni á eigin fræðasviði en létu öðrum eftir að fjalla um lögfræðilega hlið mála. Greinar hagfræðinganna vegna Sigríðar Benediktsdóttur og hæfis hennar sýna annað og raunar umhugsunarvert, að þær skuli birtast sama dag og fyrst er sagt frá umræðum um vanhæfi hennar opinberlega.

Allt frá fyrsta degi var ljóst, að erfitt yrði að búa þannig um hnúta  við rannsókn bankahrunsins í okkar fámenna þjóðfélagi, að ekki yrði dregið í efa, að rannsakendur væru hæfir, hvað sem liði hæfni þeirra.

Eva Joly telur Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, ekki hæfan. Valtýr hefur ákveðið að víkja sæti vegna bankahrunsins og dómsmálaráðherra setur annan í hans stað.

Málsaðili telur einn rannsóknarnefndarmann, hagfræðing, vanhæfan vegna yfirlýsinga hans. Fjórir hagfræðingar skrifa greinar í blöð til að mómæla kröfunni um vanhæfi. Látið er í veðri vaka, að krafan sé almenn óvirðing við hagfræðinga.