29.9.2008 22:32

Mánudagur, 29. 09. 08.

Í morgun var skýrt frá því, að ríkið hefði eignast 75% í Glitni hf fyri 84 milljarði króna. Forráðamenn Glitnis leituðu aðstoðar hjá Seðlabanka Íslands sl. fimmtudag og við svo búið hófst ferli, sem lauk með því, að ákveðið var að ríkið hlypi undir bagga með bankanum.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, færði góð rök fyrir þessari óvenjulegu ráðstöfun á tveimur fundum, sem ég sat með honum í dag, og auk þess á fundi með fréttamönnum og í Kastljósi sjónvarps. Er enginn vafi á því, að þessi ráðstöfun er best til þess fallin af þeim úrræðum, sem fyrir hendi voru, eftir að Glitnismenn leituðu til ríkisins.

Greinilegt er, að á Baugsmiðlinum DV er mönnum ekki skemmt yfir þessari þróun eins og best sést á þessari klausu, sem birtist á dv.is kl, 21.11 í kvöld:

„Vakið hefur athygli hve kært er með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og Lárusi Welding, forstjóra Glitnis. Lárus er talinn hafa skipt um húsbónda um helgina til að tryggja sína stöðu. Innan úr Glitni heyrist að hann sé ekki lengur par hrifinn af þeim eigendum sem enn fara með stjórn bankans og hann sjái ekki sólina fyrir seðlabankastjóranum.“

Að lýsa einhverjum sem aðdáanda Davíðs Oddssonar er hið versta, sem unnt er að segja um nokkurn mann í DV.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur smitast af Davíðs-fóbíunni, ef marka má skrif hennar á eigin vefsíðu vegna sviptinganna í kringum Glitni. Fyrirsögn á pistli hennar er þessi: „Davíð var við stýrið - Geir farþegi um borð“.

Skrif Valgerðar eru aðeins til marks um óvild hennar í garð sjálfstæðismanna. Hún víkur meðal annars að því, að Landsbanki Íslands hafi fagnað aðgerðinni til bjargar Glitni og segir: „Landsbankinn telur aðgerðina jákvæða auk þess sem hún muni leiða til tækifæra á frekari sameiningu fjármálastofnana hér á landi. - Einn af stjórnarmönnum í Landsbanka Íslands er Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.“

Furðulegust eru þó viðbrögð Baugsskáldsins Hallgríms Helgasonar.

Hallgrímur er fremstur í flokki þeirra, sem haldnir eru Davíðs-fóbíunni og í tlefni af björgun Glitnis ritar hann grein á netið, sem ber fyrirsögnina: „Ég sofnaði í lýðræðisríki í gærkvöldi en vaknaði í konungsríki í morgun.“

Hallgrímur segir meðal annars:

„Svo bætast við sögur um að Glitnir hefði beðið um aðstoð Seðlabanka í síðustu viku en DO neitað honum um það, nema hann fengi að yfirtaka bankann. Davíð yfirtekur banka Baugs....Hversu traustvekjandi aðgerð er það?“

Hallgrími dettur að sjálfsögðu ekki í hug að velta því fyrir sér, hvers vegna svo var komið fyrir „banka Baugs“ að forráðamenn hans leituðu á náðir ríkisins og það sjálfs Davíðs Oddssonar - nei málið snýst um að sparka í þá, sem tóku málaleitaninni um aðstoð á þann veg, að ákveðið var að bjarga bankanum.

Fréttablaðið ræðir við Valgerði Sverrsidóttur um lausnarbeiðni Jóhanns R. Benediktssonar í morgun (29. september) og þar segir: „Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, segist telja að sjálfstæðismenn hafi lengi haft áform um að bola Jóhanni R. Benediktssyni, fráfarandi lögreglustjóra, frá embætti. Í þeim tilgangi hafi þeir látið vera að mæta fjárhagsvanda embættisins.“

Frásögn Valgerðar um að fjárhagsvanda embættisins hafi ekki verið mætt, þegar það flutti úr utanríkisráðuneyti í dómsmálaráðuneyti, er röng - tekið var á þessu máli í fjáraukalögum 2007.

Fullyrðing Valgerðar um að ég hafi viljað bola Jóhanni úr embætti stenst ekki skoðun frekar en tal hennar um fjármálin.

Þarna var lögreglustjóri, sem um síðustu páska sagði öllum nema mér, ráðherra sínum, að hann vildi viðræður um starfslok.
 
Skömmu síðar kemur að lokum skipunartíma hans og þá ákveð ég að auglýsa starfið, svo allir, þar með talið lögreglustjórinn, geti sótt um. Það telur lögreglustjórinn algera ósvinnu.
 
Valgerður Sverrisdóttir telur, að fyrir löngu hafi verið ákveðið að bola lögreglustjóranum í burtu - en engu að síður gerði ég það eitt, þegar fréttir bárust af þessari löngun hans til viðræðna um starfslok, að telja honum hughvarf. Ætli ég hefði ekki átt, þá strax samkvæmt kenningu Valgerðar, að kalla hann fyrir til starfslokaviðræðna?
 
Upphafleg ástæða fyrir því að Jóhann vildi starfslok var, að við vorum ekki sammála um skipulag embættisins. Við þær aðstæður hlýtur annar hvor að gefa eftir; annað hvort ráðherrann sem er með pólitískt umboð og á að marka stefnuna, eða embættismaður sem hefur ekki pólitískt umboð heldur á að framkvæma stefnumótun ráðherrans. Það er alveg furðuleg hugmynd að það sé lögreglustjórinn sem eigi að ráða slíku atriði en ráðherrann eigi bara að horfa á og kinka kolli.