25.9.2008 21:10

Fimmtudagur, 25. 09. 08.

Í morgun tók ég þátt í aðalfundi Sýslumannafélags Íslands, sem haldinn var á Hvolsvelli, flutti ég þar erindi um endurskoðun lögreglulaga og svaraði fyrirspurnum fundarmanna. Umræður um lögreglumál hafa verið mikil á opinberum vettvangi undanfarið og er kveikjan að þeim að nokkru minnisblað frá mér sem sent var í júlí og óskað svara við fyrir 15. september en í því er fjallað um álitaefni, sem tengjast endurskoðun lögreglulaga. Hefur þetta kveikt umræður víða og kallað á, að tekin sé afstaða til mála, sem setja almennt ekki svip á umræður um lögreglumál.

Nú hafa sjónarmið allra umsagnaraðila verið kynnt mér og fór ég yfir þau á fundinum í morgun. Næsta skref er að vinna málið áfram og verður það gert innan ráðuneytisins.

Staða mála á hjá lögregluembættinu á Suðurnesjum setur svip sinn á fréttir og ræddi ég við útvarps- og sjónvarpsmenn í dag. Mig undrar að vera sakaður um einelti í garð Jóhanns R. Benediktssonar. Þeir menn, sem þannig tala, vita einfaldlega ekki, hvað í hugtakinu felst.

Jóhann R. Benediktsson setti sig upp á móti þeirri tillögu minni, að tollstjórn yrði aðskilin frá lögreglustjórn. Á fundi sýslumanna í dag var einhugur um að þetta ætti að gera og stofna eitt tollumdæmi í landinu.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, fer mikinn og slær um sig sem málsvari lögreglumanna. Hinn 13. mars 2008 vildi hann hins vegar „ bíða með að vopna lögreglu þar til hún verður fyrir skotárás,“ svo að vitnað sé í fréttir Stöðvar 2. Sjá nánar hér:

Stöð 2 fréttir !3. 03. 08.

„Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna, vill bíða með að vopna lögreglu þar til hún verður fyrir skotárás. Þetta sagði hann í samtali við Bítið á Bylgjunni þar sem sýknudómur yfir tveimum Litháum frá í gær var til umræðu. Lögreglufélag Reykjavíkur segir dóminn hneyksli.

Þrír menn voru ákærðir fyrir árás á lögreglumann í miðbænum í janúar síðastliðnum og í gær var einn þeirra sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur en hinir tveir voru sýknaðir þar sem ekki þótti sannað að þeir hefðu staðið fyrir árásinni. Í yfirlýsingu frá Lögreglufélagi Reykjavíkur segir að sýknudómurinn sé hneyksli og að dómarinn í málinu eigi að skammast sín. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna, var ásamt Pétri Blöndal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, gestur Bítisins á Bylgjunni í morgun þar sem sýknudómurinn var til umræðu. Snerist umræðan að mestu um það hvort öryggi lögreglumanna í borginni væri nægjanlegt og hvort rétt væri fyrir lögreglu að vera betur vopnum búin en hún er nú. Atli sagðist vilja bíða í lengstu lög með að vopnbúa lögreglu.



Heimir Karlsson: Eigum við að bíða eftir því Atli að lögreglumaður lendi í alvarlegu slysi af því að við viljum ekki taka af skarið?

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna: Þeir náttúrulega eru að lenda í slysum en ég er að tala um skotvopn fyrst og fremst ...

Heimir: Já eigum við að bíða eftir því að lögreglumaður verði skotinn áður en að við tökum upp skotvopn?

Atli Gíslason: Svei mér þá ég held ég geti svarað þessu játandi, ég bara vil ekki efla vopnabúnað, ég held að ofbeldi kalli á ofbeldi ...

Heimir: Þannig að þú vilt bíða eftir því að lögreglumaður verði skotinn áður en að við ...?

Atli Gíslason: Ef þú orðar það þannig skilurðu ...

Heimir: Ég get ekki orðað það ...

Atli Gíslason: Nei, auðvitað vil ég ekki að lögreglumaður verði skotinn, það finnst mér alveg ....

Heimir: Ég veit þú vilt það ekki, en eigum við að bíða þangað til ...?

Atli Gíslason: Við eigum að bíða lengur, mér finnst ekki vera komin nógu sterk rök.

Þegar ég kom út úr útvarpshúsinu í kvöld, sat þar fyrir mér blaðamaður frá Fréttablaðinu og heyrði ég á spurningu hans, að nú er verið að mata blaðið á röngum upplýsingum um, hverja ég hef valið til að taka við yfirstjórn embættisins 1. október.

Ég er ekki hissa á því, að sögusagnasmiðir um lögreglumál á Suðurnesjum velji Fréttablaðið til að láta villuljós sín loga á síðum þess, því að Jón Kaldal, ritstjóri blaðsins, skrifar enn einn reiðileiðarann í minn garð í blaðið í dag. Til marks um fátæklegan málatilbúnað hans vitna ég í texta hans þar sem segir:

„Það er að ýmsu leyti lýsandi fyrir stöðu löggæslumála landsins að á sama tíma og lögreglumenn á Suðurnesjum funduðu í safnaðarheimil Keflavíkurkirkju í gær, var dómsmálaráðherra í Háskólanum á Bifröst að lýsa hugmynum sínum um stofnun þjóðaröryggisdeildar. Hlutverk slíkrar deildar væri meðal annars að koma í veg fyrir möguleg hryðjuverk og landráð með forvirkum rannsóknarheimildum.

Það þarf einhver að taka að sér að kippa dómsmálaráðherra inn í íslenskan hversdagsleika. Hann er örugglega, ekki jafn spennandi í augum ráðherrans og alþjóðlegar njósnir, en hlýtur þó að eiga að vera í forgangi.“

Fyrir mörgum vikum hafði Jón Ólafsson, prófessor á Birfröst, samband við mig og bað mig að koma í skólann og ræða forvirkar rannsóknarheimildir og nefndi tímann kl. 13.00 til 14.30 miðvikudaginn 24. september. Ég tók boðinu, samdi mitt erindi og flutti það. Skyldi Jón Ólafsson hafa vitað, þegar hann boðaði til fundarins, að þann dag ætlaði Jóhann R. Benediktsson að kveðja samstarfsmenn sína? Af leiðara Jóns Kaldals mætti ætla það. Sé svo, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því, að hér sé skortur á forvirkum rannsóknum.