15.8.2008 6:29

Föstudagur, 15. 08. 08.

Fyrir framan Ráðherrabústaðinn voru fréttamenn klukkan 09.30, þegar ríkisstjórnin kom þar saman til fundar, og spurðu þeir um afstöðu ráðherra til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég sagðist fagna honum. Þá var spurt, hvort ég teldi mistök að hafa myndað meirihluta með Ólafi F. Magnússyni. Ég sagðist hafa sagt álit mitt á þeim meirihluta, þegar hann var stofnaður og hefði engu við þau orð að bæta.

Einar Þorsteinsson fréttamaður ræddi við Ólaf F. Magnússon á rás 2 síðdegis og gekk nær honum með persónulegum spurningum en við eigum að venjast. Frægt er samtal þeirra Ólafs F. og Helga Seljan í Kastljósi á dögunum, þegar þeir töluðu báðir í senn og Ólafur F. átaldi Helga fyrir að komast aldrei að efni málsins heldur snerist samtalið um aukaatriði. Í Kastljósi kvöldsins var Helgi kurteisari við Ólaf F. en áður en gekk einnig nálægt honum persónulega. Stjórnendur Íslands í dag á Stöð 2 sögðu, að Ólafur F. gæti ekki komið þangað í kvöld vegna flensu.

Í sjálfu sér er sérstakt umhugsunarefni, hvernig fjölmiðlamenn fjalla um málefni brogarstjórnar Reykjavíkur. Oft er það gert í einskonar skætings- eða hneykslunartón. Í síðdegisþættinum á rás 2 var til dæmis birtur reiðilestur Össurar Skarphéðinsson á tröppum Ráðherrabústaðarins í garð hins nýja meirihluta með þeim formála fréttakonu, að Össur segði oft, sem margir hugsuðu, en þyrðu ekki að segja.

Elín Albertsdóttir ritar leiðara í 24 stundir og lýsir reiði sinni yfir því, að borgarfulltrúar hafi ekki viljað ræða við fjölmiðla, þegar þeir voru að ræða viðkvæm mál í eigin hóp. Elín segir af þessu tilefni: „Það (borgarfulltrúarnir) er fólkið sem ætlar enn um sinn að stjórna borginni. Það telur sig ekki skulda kjósendum sínum nein svör. Það ætlar að pukrast áfram í leynihornum.“ (!)

Þessi orð standast einfaldlega ekki, þegar litið er til þess, sem gerst hefur strax eftir að nýr meirihluti var myndaður. Ekki heldur fullyrðing Elínar, að Sjálfstæðisflokknum muni „ekki takast að ná upp á klettasylluna með Óskar Bergsson í forystusveit. Hann er þegar byrjaður að segja ósatt.... Kjósendur eru ekki fífl og þeir eru fyrir löngu búnir að fá nóg af óstjórninni.“

Hver er lausn Elínar Albertsdóttur á þeim ósköpum? Jú, henni finnst „dapurlegt“ að sveitarstjórnarlög heimili ekki stjórnarslit og nýjar kosningar. Hún telur hið eina rétta í stöðunni að efna til kosninganna. Hún vill, að lögum sé breytt á þann veg. Reiðilestrinum lýkur hún á þessum orðum: „Borgarbúar eiga ekki að þurfa að skammast sín fyrir þá sem þeir kusu í síðustu sveitarstjórnarkosningum.“

Þetta er einkennileg þula hjá leiðarahöfundinum. Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga og bæjarstjóri á Ísafirði, hefur svarað því með skýrum rökum, að það yrði stjórn sveitarfélaga ekki til framdráttar, ef unnt yrði að efna til kosninga, sé ekki öruggur meirihluti í sveitarstjórn um málefni á vettvangi hennar. Það sé hreinlega skylda sveitarstjórnarmanna að leita leiða til að stjórna sveitarfélögum sínum í fjögur ár, eftir að þeir hljóta kjör.

Að halda því fram, að kosningar í tíma og ótíma bæti stjórn sveitarfélögum stenst ekki.

Marsibil Sæmundsdóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, styður ekki nýjan meirihluta en segir jafnframt, að hún ætli ekki að bregða fæti fyrir hann. Af sumum spurningum fjölmiðlamanna mætti ætla, að meirihluti í borgarstjórn ráðist af afstöðu varaborgarfulltrúa. Svo er auðvitað ekki.

Kjarni málsins er þessi: Samfylking og vinstri/græn hafa þrisvar sinnum tapað í valdatafli innan borgarstjórnar Reykjavíkur á þessu kjörtímabili. Þeim tókst ekki ekki að endurreisa R-listann með frjálslyndum í upphafi kjörtímabilsins, þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn tóku höndum saman um meirihluta. Eftir deilur um OR/REI, breyttist R-listinn í Tjarnarkvartettinn í beinni útsendingu að Ólafi F. Magnússyni fjarverandi og samstarf sjálfstæðismanna og framsóknarmanna slitnaði. Sjálfstæðismenn voru utan meirihluta í 100 daga en tóku þá upp samstarf við Ólaf F. Því er nú lokið og sjálfstæðismenn hafa að nýju myndað meirihluta með framsóknarmönnum. Samfylking og vinstri/græn sitja eftir með sárt enni. Sjálfstæðismenn hafa eignast nýjan oddvita og borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Hanna Birna sýndi og sannaði í samtali við Helga Seljan í Kastljósi kvöldsins, að hún er öflugur málsvari og leiðtogi.

Helgi vildi endilega fá Hönnu Birnu til að játa, að samstarfið við Ólaf F. hefði verið mistök eins og fréttamennirnir, sem spurðu mig, á tröppum Ráðherrabústaðarins í morgun. Spyrja má: Hvaða máli skiptir slík játning núna? Og enn: Hafa ekki fjölmiðlamenn verið iðnastir við að lýsa því, hve mistækur Ólafur F. gat verið sem borgarstjóri? Eða svarendur í skoðanakönnunum?