15.1.2008 19:29

Þriðjudagur, 15. 01. 08.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri/grænna, var með fyrstu spurninguna í óundirbúnum fyrirspurnum á fyrsta degi alþingis eftir jólaleyfi. Henni var beint til forsætisráðherra og snerist um veitingu þriggja embætta. Því til stuðnings, að valdi ráðherra væru takmörk sett, vitnaði Árni Þór af velþóknun í Sigurð Líndal prófessor og þessi orð hans í Fréttablaðinu í dag:

„Hér skín í taumlausa vildarhyggju [í skipun Árna M. Mathiesen á Þorsteini Davíðssyni í embætti héraðsdómara] þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýskalandi eftir 1930.“

Að líkja íslenskum stjórnmálamanni við nasista er sem betur fer einsdæmi í seinni tíð að minnsta kosti. Sigurður Líndal telur sér sæma að gera það og það í grein, þar sem hann er að fjargviðrast á dæmalausan hátt yfir því, að einhver „ofstækisöfl“ hafi náð tökum á forystu Sjálfstæðisflokksins. Sigurður ætti að benda á þann í forystusveit Sjálfstæðisflokksins, sem hefur sýnt sambærilegt ofstæki í málflutningi og kemur fram í hinum tilvitnuðu orðum í grein hans sjálfs,

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði réttilega í svari sínu:

 „Ég tel þann málflutning sem hv. þingmaður vitnaði til í grein í Fréttablaðinu í dag viðkomandi höfundi til minnkunar og ekki til sóma að viðhafa málflutning af því tagi um þetta tiltekna mál?.. Ég fullyrði að iðnaðarráðherra hefur í sínum tveimur embættisveitingum stuðst við gild rök og bestu samvisku og dómgreind og sama á að sjálfsögðu við um hinn setta dómsmálaráðherra hvað varðar setningu héraðsdómara.

Matsnefndir og hæfnisnefndir eru góðar og þær eru nauðsynlegar til þess að fara yfir mál en þær eiga ekki að hafa síðasta orðið í málum sem þessum og það vita auðvitað allir sem þessi mál hafa kynnt sér. Ég hef sjálfur sætt ámæli fyrir skipun tveggja hæstaréttardómara sem settur dómsmálaráðherra. Ég veit ekki betur en að þeir dómarar hafi báðir tveir staðið sig mjög vel í starfi og dettur engum manni í hug að gagnrýna störf þeirra í dag þó að skipanirnar hafi verið umdeildar á sínum tíma. Ég hafna þess vegna þessari gagnrýni sem fram er komin. Ég tel að hún sé ekki á málefnalegum grunni reist og ég tel að ráðherrarnir báðir hafi verið fyllilega innan sinna valdheimilda.“

 

 

Sigurður Líndal er helsti talsmaður þess, sem nefnt hefur verið dómstólavæðing á íslensku og snýst um, hve langt dómstólar ganga inn á verksvið löggjafarvaldsins. Sigurður er einnig helsti talsmaður þess, að dómarar ákveði sjálfir, hverjir sitji í dómarasæti.

Almennt er litið á þetta sem andstæður – ef dómarar ætli að taka sér stjórnmálavald eigi að velja þá af kjörnum fulltrúum, það er stjórnmálamönnum. Dómstólar hafa gengið lengra hér á landi en til dæmis í Danmörku við það, sem nefnd er „framsækin lagatúlkun“, það er sókn inn á verksvið löggjafans. Ef dómari er ekki fylgjandi „framsækinni lagatúlkun“ skipta stjórnmálaskoðanir hans ekki máli, dómarinn dæmir aðeins samkvæmt lögunum. Hinn „framsækni“ fer hins vegar inn á hinn pólitíska vettvang.

Tilraunir til að þrengja að veitingarvaldi ráðherra við skipan dómara eru alkunnar hér á landi hin síðari ár. Ég er ekki málsvari þess, að svigrúm dómsmálaráðherra sé þrengt í þessu efni eða hendur hans bundnar af álitsgjöfum, hverju nafni, sem þeir nefnast, umfram það, að velja úr hópi þeirra, sem taldir eru hæfir af þeim, sem til eru kallaðir í því skyni að leggja á það mat.