17.10.2017 14:47

Brauðfótaaðför vegna lögbanns

Ekkert af þessari uppsetningu allri var tilviljun frekar en viðbrögð óvinahers Bjarna í heimi bloggara. Aðförin að Bjarna hefur auk þess alþjóðlega hlið þar með breska blaðið The Guardian er með í spilinu.

 Augljóst er að rík viðleitni er hjá mörgum að gera ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að verða við kröfu Glitni Holdco ehf., sem heldur um eignir sem áður tilheyrðu slitabúi Glitnis, um lögbann gagnvart Stundinni mánudaginn 16. október að flokkspólitísku máli eða óvildarmáli í garð Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Þetta birtist vel í fréttatíma ríkissjónvarpsins kl. 19.00 mánudaginn 16. október þegar brugðið var á skjáinn klippum frá Stundinni sem sýndu aðförina gegn Bjarna og fjölskyldu hans með tilvísun til gagnanna sem um er að ræða. Jafnframt eru þessar klippur notaðar sem kynningarmynd með frétt um málið á ruv.is

Ríkissjónvarpið sendi einnig í höfuðstöðvar Stundarinnar fréttamann sinn Ægi Þór Eysteinsson sem var spyrill í samtalsþætti við Bjarna í ríkissjónvarpinu án þess að vita neitt að gagni um málefni en var þeim mun kappsamari um að sækja að Bjarna persónulega.

Ekkert af þessari uppsetningu allri var tilviljun frekar en viðbrögð óvinahers Bjarna í heimi bloggara. Aðförin að Bjarna hefur auk þess alþjóðlega hlið þar sem breska blaðið The Guardian er með í spilinu. Þeir sem standa að henni tvinna ef til vill saman flokkspólitíska og fjárhagslega hagsmuni sína. Frá því var greint í fyrra að breskur fjárfestir hefði eignast hlut í Stundinni. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur einnig verið í eigendahópnum.

Í Morgunblaðinu dag (17. október) er rætt við Ingólf Hauksson, framkvæmdastjóra Glitnis HoldCo. Hann segir að upplýsingarnar í Stundinni séu „klárlega úr kerfum Glitnis fyrir hrun þannig að við óttumst að þarna séu upplýsingar um fjölda viðskiptamanna og það er nú aðalástæðan fyrir þessari lögbannsbeiðni“.

Þá segir í Morgunblaðinu:

„Spurður um hvort lögbannið sé eitthvað tengt Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, vísar Ingólfur því til föðurhúsanna. „Já, ég vísa því til föðurhúsanna. Auðvitað er þetta sett upp þannig af Stundar-mönnum. Þarna er fyrst og fremst gögnum stolið eða gögnum lekið með einhverjum hætti og auðvitað beinast spjót að okkur sem störfum þarna og við viljum líka hreinsa okkar mannorð í leiðinni.“

Í tilkynningu Glitnis HoldCo ehf. mánudaginn 16. október segir:

„Nánar tiltekið var þess krafist að lögbann yrði lagt þá þegar við birtingu Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf. á öllum fréttum eða annarri umfjöllun er byggði á eða væri unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum Glitnis HoldCo ehf. sem bundnar væru bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Nefnd krafa var lögð fram þar sem Glitnir HoldCo ehf. taldi yfirgnæfandi líkur á því að umfjöllun umræddra fréttamiðla byggði á gífurlegu magni gagna sem innihéldi upplýsingar um persónulega fjárhagsmálefni þúsunda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis HoldCo ehf. Stjórn Glitnis HoldCo ehf. taldi því nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að gæta hagsmuna sinna viðskiptavina.“

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sem ekki hefur verið hampað af flokki sínum eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bylti flokksformanninum, hefur kynnt sem formaður stjórnskipunar- og eftirlistnefndar alþingis að nefndin ætli að koma saman og ræða lögbannið á Stundina. Að þingmenn fari þannig inn á verksvið dómstóla samkvæmt stjórnarskránni og reglunum um þrískiptingu valdsins er aðeins til marks um að nú eigi að nota úrskurðinn sem tæki til að vekja athygli á sér í kosningabaráttunni.

Kenningin um að Bjarni Benediktsson standi að baki örþrifaráðinu sem gripið var til gegn Stundinni mánudaginn 17. október heldur ekki vatni. Hún er því enn ein brauðfótaaðförin að Bjarna.