Dagbók: september 2007

Miðvikudagur, 12. 09. 07. - 12.9.2007 21:58

Var klukkan 16.00 í Fossvogskirkjugarði, þar sem afhjúpaður var minnisvarði um herflugmenn, sem dvöldust hér á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og þá, sem fórnuðu lífi sínu með þátttöku í stríðinu. Arngrímur Jóhannsson flugstjóri og Flugmálafélag Íslands beittu sér fyrir því, að minnisvarðinn var reistur og að hertoginn af Kent kom hingað til lands til að afhjúpa hann og flytja ávarp við athöfnina í kirkjugarðinum. Hertoginn sagði mér, að hann hefði sérstakan áhuga á örlögum flugmanna í stríðinu og Íslandi, því að faðir sinn hefði farist árið 1942 í flugslysi í Skotlandi, en hann var sagður á leið til Íslands til að hitta yfirmenn bandaríska heraflans hér.

Afskipta Baugsveldisins af útgáfu- og fjölmiðlamálum verður minnst sem skrautlegs tímabils mikilla fjárfórna í fjölmiðlasögunni.

Í nýjasta hefti Þjóðmála, sem er að koma á markað, rekur Guðbjörg H. Kolbeins, fjölmiðlafræðingur, ótrúlega viðskiptasögu Dagsbrúnar, fjölmiðlafyrirtækis Baugs. Yfirlýst markmið félagsins var að tvöfalda umsvif sín á 12-18 mánaða fresti, en Dagsbrún var skipt upp í einingar eftir tæplega 7 milljarða tap árið 2006.

Næstum daglega berist fréttir um ráðstöfun á fjölskyldusilfri Dagsbrúnar undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns, svo að ekki sé minnst á uppsagnir og tilfærslur á húsbændum og hjúum fjölmiðlakónganna.

Þegar þessari furðusögu er lokið og hún hefur verið skráð að fullu, skilja menn kannski betur en ella, hvers vegna talin hefur verið argasta móðgun í samtímanum að nota orðið Baugsmiðlar.