13.9.2001

Dapur septemberdagur – einstakur atburður – söguleg ákvörðun NATO – umboð frá utanríkismálanefnd.

Þriðjudagsins 11.september 2001 verður minnst í mannkynssögunni vegna hinnar fólskulegu árásar, sem var gerð á Bandaríkin og hinn frjálsa heim þann dag. Og menn munu minnast þess, hvar þeir voru staddir, þegar þeir heyrðu fyrstu fréttirnar af því, að flugvél hefði rekist á annan tvíburaturn World Trade Center (WTC) á Manhattan í New York, miðstöð alþjóðaviðskipta, þar sem um 50 þúsundir manna störfuðu og allt að 200 þúsund áttu eitthvert erindi hvern venjulegan vinnudag. Ég var á leið úr mötuneyti alþingis, þegar ég varð þess var rétt um klukkan eitt, að starfsstúlkurnar voru að kveikja á sjónvarpstækinu, til þess að fylgjast með einhverju sérstöku í því og í bílnum á leiðinni upp í menntamálaráðuneyti heyrði ég frá því sagt í dagskrárrofi á rás 1, að flugvél hefði rekist á annan af turnunum miklu. Þegar ég kom á skrifstofu mína kveikti ég á litlu sjónvarpstæki, sem þar var, og sá þá og heyrði hvers kyns var, að tveimur flugvélum hefði vísvitandi verið flogið á báða turnanna og úr þeim lagði mikinn reyk, sagt var að þetta hefði gerst, þegar fólk var að streyma til vinnu sinnar í þeim fyrirtækjum, sem þarna starfa og eru flest alþjóðleg í einum eða öðrum skilningi. Myndirnar voru teknar úr fjarlægð, jafnvel frá svipuðum slóðum og Sigríður Sól, dóttir mín býr, við Central Park með eiginmanni sínum Heiðari og syni þeirra Orra. Var mér að sjálfsögðu strax hugsað til þeirra og reyndi að ná símasambandi en tókst ekki, en klukkan 14.00 fór ég og hitti samstarfsaðila menntamálaráðuneytisins um verkefnið Hljóm, sem á að auðvelda greiningu á leshömlum hjá leikskólabörnum og rituðum við undir samning um styrk ráðuneytisins við verkefnið. Fyrr hafði verið ákveðið að aflýsa athöfn í Hlíðaskóla, sem átti að vera kl. 14.45 með fulltrúum Bændasamtaka Íslands og Búnaðarblaðinu vegna útkomu margmiðlunardisksins Fróðleiksfúsi í sveitinni, hafði ég því tíma til kl. 16.00 í skrifstofu minni en þá fór ég í Þjóðmenningarhúsið og opnaði Skólavefinn við hátíðlega athöfn. Þegar tóm gafst reyndi ég að hringja til New York, einu sinni náði ég í gegn og þá svaraði símsvari. Ég fékk símtal frá einum vina minna, sem spurði mig hvort sonur minn væri ekki í NY, ég sagði að dóttir mín væri þar, en ég hefði ekki náð sambandi við hana, hann sagði að vinkona samstarfs manns síns væri í vegalaus á Manhattan, hvort ég gæti gefið mér símanúmerið hjá dóttur minni, sem ég gerði. Klukkan 15.22 sendi Heiðar mér þennan tölvupóst:

“Símarnir virka lítið og illa. Ég reyni þennan tölvupóst.

Þetta er eins og stríð. Búið er að rýma allar byggingar. Loka öllum
göngum. Aflýsa öllum flugum og banna alla umferð. Eyjan er lokuð og verið er að reyna að rýma fyrir slökkviliði og sjúkraliði svo það komist á
slysstað. Þar er reyndar stór hluti af slökkviliðinu fast inn í byggingu
WTC sem er hruninn yfir það.

Fólk fer mikið upp í Central Park og í íbúðir Up town. Allt lokað og
sérkennilegt ástand. Maður mætir fólki grátandi, ælandi og í algeru uppnámi ef maður er neðarlega í borginni. Uppfrá þar sem ég bý er meiri ró yfir öllu og fólk reynir að sýna stillingu. Hér fær maður hroll ef maður horfir á sjónvarpið en verður annars ekki jafn var við allan óskapnaðinn.

Vonandi er þetta búið núna. Sagan segir að 7 flugvélar eigi að springa. 4
eru búnar.

Orri tekur þessu ekki hátíðlega og Ssól heldur ró sinni.

Bestu kveðjur,
Heiðar”

Mér létti þegar ég fékk þessi boð. Ég svaraði síðan Heiðari:


“Gott að heyra frá ykkur. Allur heimurinn fylgist með því, sem er að
gerast þarna. Þetta er allt með ólíkindum. Ég hef reynt að hringa, komst einu sinni í gegn og talaði inn á símsvarann en síðan hefur alltaf verið á
tali.

Hvað þýðir, þegar sagt er að rýma eigi Lower Manhattan - nær það til
ykkar?

Við skulum vona, að þetta taki enda sem fyrst, en veröldin verður ekki
söm eftir þessa atburði.

Bið að heilsa Ssól og Orra.

Með góðri kveðju
Björn”

Og hann svaraði aftur:

“Það er svo mikið af fólki og bílum og öðru sem tefur hjálparstarf. Nóg er af sjúkrahúsum niður frá. Því er verið að reyna að rýma frá ca 14 stræti og niðureftir að suðurodda eyjurnar. Skrifstofubygging okkar var rýmd 9.30 enda næst við Pan Am/met Life bygginguna og Grand Central, svo ekki sé talað um Sameinuðu þjóðirnar sem eru líka á 42 stræti.

Svo var farið að segja öllum að fara heim. Öllum midtown líka. Hins vegar er það þannig að einungis 1,5 milljónir búa hér og 5 koma inn til vinnu á hverjum degi. Eyjan er lokuð og því þarf að koma öllum eitthvað fyrir. Central Park virkar öruggastur á fólkið.

Þetta er svo skrýtið. Fólk úti á götu talar um stríð og flestir eru agndofa
og skilja hvorki upp né niður.

Verð í sambandi seinna í dag.

Bestu kveðjur,
Heiðar”

Skömmu síðar fékk ég tölvupóst frá vini Heiðars, sem var að reyna að komast í samband við hann vegna Íslendinga í New York og gat ég sagt honum, að Heiðar væri í tölvusambandi.

Á meðan ég var í Þjóðmenningarhúsinu að opna Söguvefinn kom þetta tölvubréf til mín frá NY:

“hæ langaði bara að segja að það er allt í lagi með
okkur, Heiðar er kominn heim úr vinnunni þar sem hans
skrifstofa var á hættusvæði.

Orri átti pantaðan tíma hjá lækni klukkan 11 og við
vorum að koma þaðan, það er ótrúlegt að vera úti á
götum. Þvílíkt öngþveiti og fólk grátandi.

Það virðist ekki vera neitt símasamband.
Tala við ykkur seinna.
Bestu kveðjur,
ykkar Sigríður Sól, Heiðar og Orri.”

Síðan náðum við símasambandi og fréttum, að Heiðar hefði farið að gefa blóð. Þessi stuttu bréfaskipti lýsa andrúmsloftinu – óvissan og óttinn nagar þá oft meira, sem eru fjarri, en hina á staðnum. Og hvern hefði órað fyrir því fyrir þennan dapra septemberdag, að slíkar orðsendingar um stríðsástand kæmu frá New York? Sannaðist þarna að netið er öruggara til samskipta en síminn, þegar álagið er mikið, enda var það bandaríski herinn, sem setti það á laggirnar til að eiga varaleið til fjarskipta.

Þegar ég sá fyrstu myndirnar af logandi turnunum virkuðu þær á mig eins og um kvikmyndabrellu væri að ræða, þetta var of ótrúlegt til að vera satt, og ekki síður hitt að sjá myndir af farþegaþotunni taka stefnuna inn í syðri turninn. Mér var hugsað til þess, þegar ég sá reykinn, að gott væri að vindurinn beindi honum út á Hudson-flóann en ekki upp eftir Manahattan-eyju. Einhver sagði við mig, að hann hefði alltaf verið að bíða eftir að sjá Bruce Willis hlaupa út úr kófinu, svo að hann fengi staðfestingu á því, að þetta væri örugglega kvikmynd en ekki kaldur veruleikinn. Að farþegaþotu hefði verið flogið á Pentagon og sú fjórða hefði hrapað skammt frá Pittsburgh, jók aðeins á óraunveruleikann, en allt þetta reyndist hins vegar helköld staðreynd.

Persónlegar minningar koma upp í hugann, eins og þegar Tómas Á. Tómasson, þáverandi sendiherra Íslands í New York, bauð okkur Geir Hallgrímssyni, þáverandi forsætisráðherra, uppi í annan tvíburaturnanna, þegar við vorum á heimleið af Bilderberg-fundi, sem var haldinn skammt frá Princeton, og höfðum nokkra klukkutíma í New York. Ég gleymi því aldrei, þegar þeir gerðu grín af því, hve mér leið illa, þar sem við sátum á bar á efstu hæðinni og sáum meðal annars litla flugvél á sveimi í útsýnisflugi fyrir neðan okkur. Hefur mér sjaldan liðið jafnilla á nokkrum stað.

Fréttir bárust af því að George W. Bush Bandaríkjaforseti hefði flogið frá Florida, þar sem hann fékk fyrstu fréttina af voðaverkunum, þegar hann sat fyrir framan skólabörn í grunnskólastofu þeirra, til Louisiana og um Omaha, Nebraska, til Washington. Þá rifjaðist upp í huga mínum heimsókn mín í stjórnstöð Bandaríkjahers þar árið 1975, þegar farið var með mig niður í iður jarðar og ég sá miðstöðina, þaðan sem á svipstundu var unnt að ná til stöðva um allan heim og fá nákvæma vitneskju um stöðu mála, og mér var sagt frá flugvélunum, sem þar stæðu jafnan til taks, og hefðu það hlutverk að vera fljúgandi stjórnstöð Bandaríkjaforseta á hættutímum. Á þessum stað gafst Bush fyrst tækifæri til að ráðfæra sig á öruggan hátt við alla helstu ráðgjafa sína, en sagt er, að hann hafi ákafur viljað komast strax í Hvíta húsið en orðið að lúta kröfum öryggisvarðanna, sem töldu það of hættulegt á þessari stundu.


Þetta er ekki vettvangur til að rekja atburðarásina frekar, enda hefur það verið gert svo ítarlega í öllum miðlum, að ekki er neitt á það bætandi.

Einstakur atburður

Í mínum huga jafnast þessi einstaki atburður á við það eitt í samtímanum þegar Berlínarmúrinn hrundi – allir sjá nú tæpum tólf árum síðar hve mikil heimssöguleg áhrif það hafði. Milljónir manna fengu frelsi undan oki kommúnismans og skipting heimsins milli austurs og vesturs hvarf úr söginni. Fólskuverkið 11. september er einstakur atburður, sem kastar skugga yfir allt mannkyn. Kann að taka mörg ár, að þau sár grói, sem það opnaði. Til að uppræta grimmdina að baki verknaðinum kann einnig að þurfa langvinn átök.

Ég staldraði fljótt við, þegar hætt var að tala um hryðjuverk og þess í stað notað orðið “árás”, því að þar með voru viðbrögðin færð á annað stig. Vakti ég máls á þessu í útvarpssamtali á rás 2 að morgni miðvikudagsins 12. september og benti viðmælendum mínum á að taka eftir því, hvaða áhrif þessi skilgreining á atburðinum sem stríðsaðgerð mundi hafa.

Söguleg ákvörðun NATO

Miðvikudagurinn 12. september er einstæður í sögu Atlantshafsbandalagsins (NATO), því að í fyrsta sinn ákveður fastaráð þess, að bregðast við á grundvelli 5. gr. Atlantshafssáttmálans, þar sem segir, að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll, og þeim beri að bregðast við í því skyni að brjóta árásina á bak aftur. Leitinni að sökudólgnum er ekki lokið, en finnist hann verður ekki látið sitja við það eitt að refsa honum heldur einnig þeim, sem veita honum skjól til að búa sig undir svo grimmdarlega árás.

Merkilegt er, að fyrst eftir lyktir kalda stríðsins reynir á ákvarðanir af þessu tagi hjá NATO og í raun enn merkilegra, að það skuli vera vegna árásar á sjálf Bandaríkin. Kannski er þetta þó ekki merkilegt í ljósi þess, að í kalda stríðinu var stundum svo stutt í það, að tekist væri á af fullum þunga, að ríki og skjólstæðingar þeirra forðuðust í lengstu lög að eiga við kveikjuþráðinn af fífldirfsku eins og þeirri, sem við höfum orðið vitni að í ýmsum myndum síðustu 10 ár.

Umboð frá utanríkismálanefnd

Til að unnt sé að ákveða það á vettvangi NATO að beita 5. gr. sáttmála þess er nauðsynlegt, að öll aðildarríkin séu á einu máli. Þessi samstaða náðist og áður höfðu utanríkisráðherrar landanna leitað eftir því umboði, sem þeim er nauðsynlegt, hver í sínu landi. Hér þarf utanríkisráðherra meðal annars að ráðfæra sig við utanríkismálanefnd alþingis og var það gert miðvikudaginn 12. september en nefndin samþykkti einróma þessa ályktun:

“Utanríkismálanefnd alþingis fordæmir harðlega árás hryðjuverkamanna á Bandaríki Norður-Ameríku og vottar bandarísku þjóðinni sína dýpstu samúð vegna þeirra þjáninga sem atburðir gærdagsins haf leitt yfir hana.

Utanríkismálanefnd lýsir yfir samúð og stuðningi við Bandaríkjastjórn og leggur áherslu á að þeir sem bera ábyrgð á voðaverkunum verði dregnir til ábyrgðar. Brýnt er að þjóðir heimsins sameinist í baráttu gegn hryðjuverkamönnum og þeim sem veita þeim skjól.”

Þessi ályktun verður ekki túlkuð á annan veg en þann, að utanríkisráðherra Íslands hafi fengið nauðsynlegt umboð frá utanríkismálanefnd alþingis til að samþykkja, að 5. gr. Atlantshafssáttmálans verði virk.

Þegar hlustað var á hádegisfréttir 13. september hefði mátt ætla, að einum utanríkismálanefndarmanna, Steingrími J. Sigfússyni, leiðtoga vinstri/grænna, hefði snúast hugur, því að hann tók til við að ræða um það, að nú þyrfti að fara að þæfa um viðbrögðin í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, dró hann þar með ótvíræðan rétt NATO til að snúast gegn illvirkjunum í efa. Margir minnast málflutnings af þessu tagi frá tímum kalda stríðsins, þegar andstæðingar varnarsamstarfs vestrænna þjóða leituðust við að drepa málum á dreif með innantómu tali um “nýtt alþjóðlegt öryggiskerfi” undir handarjaðri Sameinuðu þjóðanna. Undruðust þá margir, hve ýmsir í lýðræðisríkjunum gengu langt til að tala máli hins illa í heiminum og hve annt þeim var um, að grafa undan samstöðu þeirra, sem vildu láta að sér kveða í nafni frelsis og mannúðar.