8.11.2019 10:36

Macron gefur NATO og Trump spark

Eins og jafnan þegar stjórnmálamenn draga upp fána sinn á þann veg sem Macron gerði í viðtalinu við The Economist búa eigin hagsmunir að baki.

„Við stöndum núna frammi fyrir heiladauða NATO,“ sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti í samtali við The Economist sem sagt var frá 7. nóvember, sjá hér . Hann sagði einnig að í öryggismálum væri ESB á „barmi hengiflugs“. Viðtalið var tekið 21. október þegar hneykslunaralda gekk yfir vegna ákvörðunar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að kalla bandaríska hermenn á brott frá Tyrklandi til að veita Erdogan Tyrklandsforseta svigrúm til að ráðast á Kúrda, helstu bandamenn Bandaríkjamanna og annarra vestrænna þjóða á átakasvæðinu.

Angelu Merkel Þýskalandskanslara þótti Macron kveða of fast að orði, hún væri honum ekki sammála. Annað hljóð var í Maríu Zakharovu, upplýsingafulltrúa rússneska utanríkisráðuneytisins. Hún sagði orð Macrons „gullvæg“. Þau eru „einlæg og snerta kjarna málsins,“ sagði hún á Facebook og einnig:„Rétt skilgreining á núverandi stöðu NATO.“ Frakklandsforseti fór þó jafnframt hörðum orðum um stjórnarhætti í Rússlandi í viðtalinu og sagði þá ekki „verjanlega“.

9e59833_05I88C8SV9AA7fEeNhW-hJM_Emmanuel Macron er nýkominn úr opinberri heimsókn til Kína. Þar var þessi mynd tekin.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (8. nóvember) er vakin sérstök athygli á vinsamlegum orðum Macrons um Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þykir harður í horn að taka á heimavelli og hallar sér gjarnan að „sterka manninum“ í Rússlandi, Vladimir Pútiín. Telur Macron að til lengri tíma litið verði Pútín að „sækjast eftir betri samskiptum við Evrópusambandið,“ eins og það er orðað í leiðaranum og síðan segir Morgunblaðið:

„Vert er að gefa þessum orðum Frakklandsforseta góðan gaum. Þó að ekki sé hægt að afsaka allar aðgerðir Rússa verður einnig að leiða hugann að því hvert lokatakmark refsiaðgerðanna gegn þeim er. Augljóst virðist að þær verða ekki til að knýja Pútín til þess að skila Krímskaganum og þá hlýtur að verða að svara því hvert markmiðið er. Væntanlega er markmiðið ekki að ýta Rússum í fangið á Kínverjum, en það kann þó að verða helsta afleiðing þeirra.“

Hvað sem tekst að gera varðandi Krímskaga í krafti refsiaðgerðanna gegn Rússum er markmiðið að sjálfsögðu að hindra að þeir leiki svipaðan leik gagnvart öðrum nágrannaþjóðum sínum eða öðrum þjóðum þar sem þeir seilast til ítaka eins og til dæmis á vesturhluta Balkanskaga.

Emmanuel Macron situr undir þungu ámæli fyrir að „yfirgefa“ Norður-Makedóníumenn og Albani með því að leggja stein í götu þeirra í leiðtogaráði ESB og beita neitunarvaldi þar gegn aðildarviðræðum við fulltrúa þjóðanna nema fallist yrði á tillögur hans um breytingar á aðildarskilmálum. Þótt hann hafi ekki skilið þjóðirnar eftir í lífshættu eins og Trump gerði við Kúrda með skyndiákvörðun sinni gaf Macron Pútín og félögum hans tækifæri til að herða enn frekar undirróður sinn í Balkanlöndunum.

Eins og jafnan þegar stjórnmálamenn draga upp fána sinn á þann veg sem Macron gerði í viðtalinu við The Economist búa eigin hagsmunir að baki. Spark í NATO og Bandaríkjamenn gleður franska gaullista. Macron vill ESB-herafla en þar hefðu Frakkar undirtökin sem eina kjarnorkuveldið innan ESB eftir brottför Breta.