11.7.2019 10:22

Gagnsæi í ráðuneytum

Því má velta fyrir sér hvenær þessi meiri og betri miðlun upplýsinga setur meiri svip á opinberar umræður um starfsemi ríkisins og ráðstöfun á skattfé.

Nýmælin sem leiða af lögum um opinber fjármál eru margvísleg. Alþingismenn og starfsmenn í stjórnarráðinu fylgja ákvæðum laganna með nýjum vinnubrögðum. Miðlun upplýsinga um meðferð opinbers fjár er mun meiri en áður. Má þar nefna ársskýrslur ráðherra þar sem finna má frásagnir af því sem hæst ber í störfum ráðuneytanna. Skýrslurnar komu út í annað sinn þriðjudaginn 9. júlí. Þá birtist þessi tilkynning á vefsíðu forsætisráðuneytisins:

„Ársskýrslur ráðherra eru nú gefnar út í annað sinn. Aukið gagnsæi um ráðstöfun og nýtingu fjármuna er markmiðið með skýrslunum sem er einnig ætlað að vera grundvöllur fyrir umræðu um stefnumörkun og forgangsröðun hins opinbera.

Ársskýrslur ráðherra eru birtar samkvæmt lögum opinber fjármál. Í lögunum er kveðið á um að hver ráðherra skuli birta slíka skýrslu þar sem gera skal grein fyrir útgjöldum málefnasviða og málaflokka og bera saman við fjárheimildir fjárlaga. Þá skal í ársskýrslum gera grein fyrir fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og leggja mat á ávinning af þeim með tilliti til aðgerða, markmiða og mælikvarða sem settir hafa verið fram í fjármálaáætlun.

Ársskýrslur ráðherra veita heildstæða samantekt um þróun útgjalda og mat á árangri. Samanburður er gerður við sett markmið í því skyni að skýra samhengi fjármuna og stefnumótunar. Þannig er tryggð yfirsýn og eftirfylgni með framgangi settra markmiða í fjármálaáætlun á einstökum málefnasviðum sem ráðherrar bera ábyrgð á.“

Transparency-pig-620x413

Því má velta fyrir sér hvenær þessi meiri og betri miðlun upplýsinga setur meiri svip á opinberar umræður um starfsemi ríkisins og ráðstöfun á skattfé. Umræðurnar um Íslandspóst um þessar mundir og hvernig opinberum fjármunum hefur verið ráðstafað þar sýnir að mikil þörf er á að auka gegnsæi þegar opinber hlutafélög eru annars vegar.

Á tímum gjörbreyttrar tækni er fráleitt að viðhalda opinberri fjölmiðlun í sömu skorðum og tæknilega var talið nauðsynlegt árið 1930 og á þeim grunni sé haldið úti fjölmiðli í krafti um 5 milljarða nefskatts árlega og fjölmiðillinn starfi undir leynd opinbers hlutafélags og þar sé því unnt að fara með fjármuni á sambærilegan hátt og gert var hjá Íslandspósti.