15.3.2019

Flokkafleygar Miðflokksins

Þetta segir maðurinn sem neyddist til að segja af sér sem forsætisráðherra fyrir tæpum þremur árum. Hann naut vissulega ekki lengur trausts innan eigin þingflokks.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), formaður Miðflokksins, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sest í stól álitsgjafa í samtali við vefsíðuna Viljann að kvöldi fimmtudags 14. mars og tekur til við að lýsa hættunni af því sem gerðist þegar Sigríður Á. Andersen hætti sem dómsmálaráðherra. SDG segir „stór álitamál um pólitískar afleiðingar málsins“ blasa við vegna afsagnar ráðherrans. Hann segir:

„Það eru engin önnur dæmi þess að stjórnarflokkur hafi þvingað annan flokk í ríkisstjórn til að skipta út ráðherra. Nú blasir við að VG neyddi Sjálfstæðisflokkinn til að skipta út ráðherra sem naut fulls stuðnings í eigin þingflokki.“

Midflokkurinn2.width-720Midflokkurinn2.width-720

Þetta segir maðurinn sem neyddist til að segja af sér sem forsætisráðherra fyrir tæpum þremur árum. Hann naut vissulega ekki lengur trausts innan eigin þingflokks. Má segja að þar með hafi verið sjálfgefið að hann segði af sér sem forsætisráðherra. Hvort hann naut trausts hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins veit enginn, á það reyndi ekki. Uppreisnin gegn SDG innan Framsóknarflokksins gat af sér Miðflokkinn.

Ályktun SDG um afsögn Sigríðar Á. Andersen er reist á hans eigin ímyndun. SDG er í sömu sporum og fréttamenn ríkisútvarpsins sem reyndu eftir öllum leiðum að fá þá kenningu sína staðfesta að VG hefði ætlað að gera eitthvað. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist ekki ræða stjórnmál í viðtengingarhætti. Að SDG kjósi að gera það er aðeins til marks um vandræðaganginn innan Miðflokksins. Markleysa hans er þó nóg fyrir.

SDG segir að VG sé nú komið á bragðið og ætli að neyða samstarfsflokkana og Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega til undirgefni. Þetta segir formaður Miðflokksins líklega í ljósi Klausturfundarins þar sem honum tókst að kljúfa Flokk fólksins eftir að hann klauf Framsóknarflokksins. Hann er flokkafleygur og telur sig nú hafa stöðu til atlögu gegn þingflokki sjálfstæðismanna. Það eru dapurlegt að þetta verði hlutskipti hans eftir eigið skipbrot.

Gunnar Bragi Sveinsson, handlangari SDG, gengur erinda hans meðal annars með árásum á Sigurð Inga, formann Framsóknarflokksins, fyrir að standa að samningi um landbúnaðarmál við ESB 17. september 2015. Gunnar Bragi var þá utanríkisráðherra og sagði:

„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Tækifærismennska ef ekki ósvífni flokkafleyganna í Miðflokknum er einstök.