3.3.2019 7:56

Uppnám á evrusvæðinu

Niðurstaðan er að Þjóðverjar hafi hagnast mest á evrunni, næstum um 1,9 trilljón evrur frá 1999 til 2017

Þýska hugveitan Centrum für Europäische Politik (CEP) sendi frá sér skýrslu 25. febrúar þar sem lagt er mat á hagnað og tap þjóða af því að hafa tekið upp evruna fyrir 20 árum. Niðurstaðan hefur vakið miklar umræður en metið er hve há verg landsframleiðsla (VLF) einstakra landa hefði verið ef þau hefðu ekki tekið upp evruna.

Niðurstaðan er að Þjóðverjar hafi hagnast mest á evrunni, næstum um 1,9 trilljón evrur frá 1999 til 2017. Það er 23.000 evrur á hvern íbúa landsins. Þá hafa Hollendingar einnig hagnast umtalsvert af evrunni. Grikkir koma einnig út með örlítinn hagnað þrátt fyrir tapið mikla frá 2011.

Önnur evrur-ríki hafa tapað. Frakkar 3,6 trilljónum evra, 56.000 evrum á mann og Ítalir hafa tapað 4,3 trilljón evrum, 74.000 evrum á mann.

Euro_banknotes_coinsEftir að skýrslan með matinu birtist varð uppi fótur og fit víða um lönd og sáu höfundarnir sig föstudaginn 1. mars knúna til að gefa út yfirlýsingu þess efnis að skýrslan sýndi ekki að það væri ríkjunum fyrir bestu að yfirgefa evru-svæðið. Þeir sem ekki hefðu hagnast á evrunni ættu frekar að vinna áfram að umbótum til að styrkja samkeppnisstöðu sína og hagnast á evrunni. Oftar en einu sinni væri vakið máls á þessu í skýrslunni. Brotthvarf af evrusvæðinu gæti haft stjórnlausa áhættu í för með sér og mundi hvergi stuðla að meiri velmegun miðað við óbreytt ástand. Umbætur væru því eini kosturinn.

Þá verja höfundarnir rannsóknaraðferð sína sem þeir segja að njóti viðurkenningar og virðingar í fræðaheiminum.

Þetta er ekki uppörvandi einkunnargjöf á 20 ára afmæli evrunnar. Vafalaust er rétt hjá höfundum að erfiðleikar og óvissa við að losna undan henni vekja mörgum ugg. Forræðisflokkarnir í evru-löndunum berjast ekki heldur lengur fyrir brotthvarfi út ESB heldur vilja þeir breytingar að innan eins og þeir boða nú í stefnuskrám sínum fyrir ESB-þingkosningarnar.