14.9.2018 11:01

Orkuauðlindin ekki hluti af EES

Við glötum ekki ráðum yfir orkuauðlindinni með aðild að 3. orkupakkanum svonefnda vegna EES-aðildarinnar.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, komst ekki að með ræðu sína í stefnu-umræðunum miðvikudaginn 12. september vegna tímamarka. Haraldur birti ræðuna á netinu. Hann benti á að íslensk stjórnvöld hefðu ekki nýtt til hlítar tækifæri til að gæta þjóðarhagsmuna innan EES-samningsins. Við ættum ekki að loka augunum fyrir því sem væri okkur að kenna við neikvæða framkvæmd hans. Aðildarumsókn Íslands að ESB væri eitt af því sagði Haraldur og einnig:

„EES samningurinn byggir á að þjóðabandalag og þjóðríki hafa samið um ákveðna tilhögun samskipta. Endurmat – endurskoðun og rýni af okkar hálfu undirbyggir að treysta það samband sem samningurinn tryggir – enda er hann ein af gildustu stoðum undir efnahagslega velferð okkar.

Framkvæmd EES samningsins er lifandi verkefni – samstaðan um hann hér á landi er undirbyggð á því að við látum ekki af hendi full yfirráð yfir því sem grundvallar tilveru okkar í þessu landi – að nýta náttúrugæði okkar – og hafa á þeim fulla stjórn.“

Það sem Haraldur nefnir er lykilatriði: að Íslendingar ráði sjálfir nýtingu auðlinda sinna til lands og sjávar. Með það í huga var rangt að sækja um aðild að ESB sem hefur sameiginlega stefnu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Að segja hið sama gild um orkumál innan ESB er rangt og einnig hitt að við glötum ráðum yfir orkuauðlindinni með aðild að 3. orkupakkanum svonefnda vegna EES-aðildarinnar.

Electricity2

Að breyta andstöðu við EES-samstarf í orkumálum í andstöðu við EES-samninginn er álíka mikil vitleysa og boðskapurinn um að sækja þurfi um aðild að ESB til að sannreyna að Íslendingar fái einhver sérkjör hjá Brusselmönnum ­– þau eru alls ekki í boði. Hjá orkupakka-andstæðingum er grunnt á EES-andúðinni eins og birtist meðal annars í grein Elíasar Bjarna Elíassonar í Morgunblaðinu miðvikudaginn 12. september:

„EES-samningurinn, eins hagstæður og hann virtist í upphafi, heldur áfram að kosta okkur meir og meir. Ekki aðeins með tapi sjálfræðis, heldur einnig með auknu skrifræði og nú með því að auka óhagræði orkugeirans, en fátt er landanum heilagra en auðlindirnar til sjávar, lands og fjalla. Sjávarauðlindina höfum við varið með kjafti og klóm, en hinar síður. Leita verður leiða til að snúa við þeirri óheillaþróun sem EES-samningnum fylgir svo hann haldi gildi sínu. Það er kominn tími til að spyrna við fótum.“