9.1.2019 10:33

Félagssvið Eflingar - Sósíalistaflokkurinn

Lýsingin á „félagssviði“ Eflingar og verkefnum þess er í raun lýsing á Sósíalistaflokki Gunnars Smára.

Greinilegur klofningur er innan verkalýðshreyfingarinnar eins og fram kemur í mismunandi afstöðu þeirra sem leiða verkalýðsfélögin á Akranesi og Grindavík, Eflingu stéttarfélag og Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) annars vegar og Starfsgreinasambandið og félög í tengslum við þau hins vegar. Fyrrgreindi hópurinn nýtur stuðnings og ef til vill forsjár Gunnars Smára Egilssonar, stofnanda og hugmyndafræðilegs leiðtoga Sósíalistaflokksins.

Socialist-in-principle-strategy

Gunnar Smári er sérfræðingur í alls kyns sviðsetningum. Hann lét t.d. eins og allir helstu skemmtikraftar þjóðarinnar kæmu fram á fjáröflunarhátíð í Háskólabíói sem aldrei var haldin til að bjarga Fréttatímanum. Blaðið yfirgaf hann síðan án samúðar með launþegum á blaðinu.

Nú hefur Efling  stofnað nýtt svið sem kallað er félagssvið. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, telur að verkalýðshreyfingin sé of föst í því að bregðast við vandamálum sem þjónustustofnun. Með nýja sviðinu ætlar hún „að snúa vörn í sókn og ganga lengra í að virkja félagsmenn í baráttunni en hefur þekkst áratugum saman“ og segist „gríðarlega stolt af félagssviði Eflingar“.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir félagssviðið líklega stærstu nýjungina í starfi Eflingar undir nýju forystu félagsins. Hann segir þó áfram markmiðið að veita þjónustu og sinna vandamálum félagsmanna en félagssviðið auki „virkni félagsmanna sjálfra í stéttabaráttunni“. „Vonandi ryður félagssvið Eflingar braut fyrir stóreflda baráttu víðar í hreyfingunni og í samfélaginu,“ er haft eftir Viðari á vefsíðunni Kjarnanum þriðjudaginn 8. janúar.

Nokkrar umræður urðu í haust þegar fjármálastjóri Eflingar til margra ára fékk fyrirmæli um að fara í veikindaleyfi eftir að hafa gert athugaemd vegna reiknings frá eiginkonu Gunnars Smára til Eflingar. Það kæmi ekki á óvart þótt leiðtogi Sósíalistaflokksins yrði verktaki við að leiða félagssvið Eflingar. Hann gengur nú fram í fjölmiðlum með þann boðskap á vörunum að verkalýðshreyfingin verði að gerast flokkspólitískari. Vill hann í því efni hverfa áratugi aftur í tímann.

Lýsingin á „félagssviðinu“ og verkefnum þess er í raun lýsing á Sósíalistaflokki Gunnars Smára. Með því að beina fjármunum Eflingar (12 milljarðar eru sagðir þar í sjóði) til félagssviðsins opnast leið til að standa straum af kostnaði við flokkspólitíska starfsemi.

Vegna þess sem segir hér að ofan barst eftirfarandi bréf til bjorn.is frá Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Eflingar, dags. 9. janúar með afriti á Karl Ó. Karlsson, lögmann Eflingar og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar:

„Í pistli á vefsíðu þinni í dag ferð þú með alvarlegar rangfærslur um málefni Eflingar. Sem framkvæmdastjóri Eflingar er ég til þess bær að segja til um hvað er satt og logið um starfsmannahald og fjármál Eflingar. Vil ég með skeyti þessu koma á framfæri leiðréttingum við málflutning þinn og reikna með að þú dragir í kjölfarið umræddar rangfærslur þínar til baka.

Þú ritar: „Nokkrar umræður urðu í haust þegar fjármálastjóri Eflingar til margra ára fékk fyrirmæli um að fara í veikindaleyfi eftir að hafa gert athugaemd [svo] vegna reiknings frá eiginkonu Gunnars Smára til Eflingar.“

Það er rangt að fjármálastjóri eða nokkur starfsmaður Eflingar hafi „fengið fyrirmæli um að fara í veikindaleyfi.“ Leyfi vegna veikinda, fæðingarorlofs o.s.frv. eru samnings- og lögbundin réttindi sem starfsmenn Eflingar nýta sér að eigin frumkvæði að uppfylltum skilyrðum þegar tilefni er til. Stjórnendur Eflingar reyna að sjálfsögðu ekki að hafa áhrif á það hvenær eða hvernig starfsmenn félagsins nýta sér þau réttindi. Fullyrðingar um slíkt eru rógburður.

Mér er að fullu kunnugt um störf Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanns fyrir Eflingu og hef gert grein fyrir þeim opinberlega. Alda Lóa hefur annast hið glæsilega kynningarverkefni „Fólkið í Eflingu“ sem kynnt var og samþykkt á vettvangi stjórnar Eflingar á síðasta ári. Hvergi hefur komið fram athugasemd frá fjármálastjóra vegna reikninga frá Öldu Lóu, enda með öllu óskiljanlegt á hvaða forsendum fjármálastjóri hefði sett getað fram slíka athugasemd. Enginn starfsmaður Eflingar staðfesti Gróusögur sem blaðamaður, Agnes Bragadóttir, dreifði á síðum Morgunblaðsins þann 6. október 2018 um afgreiðslu reikninga. Gerð hefur verið grein fyrir þessu í yfirlýsingu minni og formanns Eflingar dags. 6.10.18 og áréttingu 12.10.18. Fullyrðingar þínar um þetta atriði eru dylgjur og ósannindi.

Ég geri enga athugasemda við að þú tjáir þínar skoðanir á áherslum og starfi verkalýðshreyfingarinnar en ég geri þá lágmarkskröfu að þú farir ekki með rangt mál um Eflingu í skrifum þínum á opinberum vettvangi. Ég óska þess að þú dragir rangfærslur þínar til baka.

Móttaka óskast staðfest.“

Tekið skal að móttakan hefur verið staðfest.