Dagbók: október 2006

Þriðjudagur, 31. 10. 06. - 31.10.2006 20:52

Eftir því sem fleiri dagar líða frá úrslitum í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna hér í Reykjavík, held ég, að fleirum verði ljóst, hve útlistanir fjölmiðlunga í þá veru, að ég hafi hlotið þar illa útreið eiga við lítil rök að styðjast. Í þeim útlistunum er augljóslega holur hljómur, þegar engir frambjóðendur nema Geir H. Haarde og Guðlaugur Þór Þórðarson náðu settu marki. Ég hélt þó mínu sæti, þriðja sætinu á listanum, sem er meira en unnt er að segja um ýmsa aðra. Það er sérstakt rannsóknarefni, hvaða mælistikur eru notaðar til að meta árangur manna - ég er vissulega stoltur af því, að mælikvarðinn virðist jafnan strangastur, þegar ég á í hlut.

Sé notaður sami mælikvarði á stöðu mína eftir prófkjörið og almennt er notaður við mat á slíkum úrslitum, sjá allir sanngjarnir menn, að fráleitt er að líta þannig á, að ég geti ekki ekki verið sáttur við niðurstöðuna, eins og ég sagði í pistli mínum síðastliðinn sunnudag.

Ég gef ekki mikið fyrir skýringar stjórnmálafræðinga úr háskólunum, hvort sem þeir eru í Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri. Ég veit til dæmis ekki, hvaðan Birgir Guðmundsson á Akureyri hefur vitneskju sína um mál innan Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur aldrei leitað skýringa á neinum málum, sem mig varða, hjá mér. Hvaða heimildir hefur hann fyrir niðurstöðum sínum? Ég hef aldrei lesið neina fræðilega grein eftir hann um stjórnmál, þar sem getið er heimilda. Skyldi hann hafa ritað slíka grein? Þá veit ég ekki, hvernig Gunnar Helgi Kristinsson við Háskóla Íslands getur dregið einhver pólitísk skil á milli mín og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar - hvar hafa þau birst honum? Byggist þessi niðurstaða á einhverjum rannsóknum, sem ekki hafa verið birtar opinberlega?

Í áratugi hef ég fylgst með umræðum um stjórnmál og greiningu á þeim í mörgum löndum bæði austan hafs og vestan. Frumstæðari umræðum um stjórnmál líðandi stundar af hálfu svonefndra álitsgjafa, sem vilja láta líta á sig sem hlutlausa, hef ég ekki kynnst annars staðar en hér. Ég hef einnig stundað slíka greiningu í óteljandi greinum, meðal annars hér á síðunni, en aldrei gert það í nafni einhvers hlutleysis, yfirlætis eða menntahroka á kostnað þeirra, sem taka að sér að vinna verk í þágu almennings með því að bjóða sig fram til þings eða sveitarstjórna.

 

Mánudagur, 30. 10. 06. - 30.10.2006 22:05

Margir hafa haft samband við mig í dag til að óska mér til hamingju með árangur minn í prófkjörinu, þetta hafi verið meira en góður varnarsigur miðað við það, hvernig í pottinn var búið. Ég þakka allar þessar góðu kveðjur.

Hér hafa verið fulltrúar franska stórfyrirtækisins EADS, sem meðal annars framleiðir Super Pouma þyrlur og hafa þeir verið að kynna sér starfsemi Landhelgisgæslu Íslands auk þess að hitta mig að máli í dag. Þeim finnst þjónusta við landhelgisgæsluna mjög spennandi verkefni, því að fáir aðilar reki leitar- og björgunarþyrlur við erfiðari aðstæður og geri því meiri kröfur til björgunartækjanna en gæslan okkar.

Miðvikudaginn 25. október, þegar hættuástand var boðað á Keflavíkurflugvelli vegna bilunar í vél tveggja hreyfla þotu á leið yfir hafið, sendi landhelgisgæslan í fyrsta sinn þrjár þyrlur á vettvang, sem fylgdu þotunni inn til lendingar. Þessi viðbúnaður hvarf hins vegar í skugga fjölmiðlaumfjöllunar um útkallið, sem var ekki alveg hrökrlaust en skilaði þó því, sem um var beðið á skömmum tíma, þegar þúsundir manna fóru í viðbragðsstöðu.

Ég sá kvikmyndina Hinir framliðnu (Departed) efir Martin Scorsese og þótti hún vel gerð. Leonardo DiCapro fer á kostum en mér þótti Jack Nicholson þó bestur og er ég ekki sérstakur aðdáandi hans - persónan, sem hann skapar þarna er með ólíkindum ógeðfelld en þó þannig, að hún virðist raunveruleg í meðförum Nicholsons. Hitt er svo umhugsunarefni, að mynd sem þessi skuli látin gerast í Boston, því að ímynd þeirrar borgar er ekki á þann veg, að samrýmst því, sem þarna er sýnt. Lögreglumyndir af þessu tagi hafa yfirleitt verið tengdar öðrum borgum í Bandaríkjunum og ekki Írum.

Sunnudagur, 29. 10. 06. - 29.10.2006 19:53

Var klukkan rúmlega 13.00 á Garðatorgi, þar sem Bjarni Benediktsson var að opna prófkjörsskrifstofu með þátttöku fjölda manns. Sigríður Anna Þórðardóttir, Ólafur G. Einarsson og Gunnar I. Birgisson fluttu ávörp auk frambjóðandans.

Ég hef ekki rætt við neina ljósvakamiðla í dag og vísað þeim á færslu hér á vefsíðu minni um úrslitin í prófkjörinu. Úrslitin eru skýr og ótvíræð og af minni hálfu ekkert meira um þau að segja.

Laugardagur, 28. 10. 06. - 28.10.2006 15:44

Var allan daginn á prófkjörskrifstofunni og fram á kvöld með stuðningsmönnum mínum. Hélt þriðja sætinu á listanum, en ég stefndi að öðru sætinu, og vann með því góðan varnarsigur.

Föstudagur, 27. 10. 06. - 27.10.2006 23:19

Við Rut vorum í Valhöll um kl. 14.30 til að kjósa í prófkjörinu. Biðu sjónvarpsmenn okkar og voru forvitnir um mat á baráttunni og úrslitunum.

Fjöldi manns kom á kosningaskrifstofuna en rúmlega 18.00 fór ég í Kringluna, þar sem var verið opna Apple-verslun.

Klukkan 20.00 fórum við í Hallgrímskirkju og vorum við Hallgrímsmessu, þar sem herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði en jafnframt var 20 ára vígsluafmælis kirkjunnar minnst.

 

Fimmtudagur, 26. 10. 06. - 26.10.2006 21:42

Sjá vísan á Kosningablað mitt hér til hægri, þar sem vísað er til prófkjörsins.

Var klukkan 16.00 í Sjóminjasafni Reykjavíkur, þar sem stofnuð voru Hollvinasamtök varðskipsins Óðins en markmið þeirra er að skipið verði hluti af sjóminjasafninu og fluttum við ávörp af því tilefni Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, sem stjórnaði fundinum, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður safnsins, en skipinu mætti leggja við hlið safnsins og ganga um borð í það beint úr safninu.

Fór síðan á kosningaskrifstofu mína og hitti nokkurn fjölda fólks, sem kom þangað til að ræða við mig og leggja á ráðin um prófkjörið en kosið verður á morgun og laugardag.

Mér berast víða að kveðjur og ég heyri að kosningabæklingi mínum er vel tekið. Ógerningur er að gera sér grein fyrir því, hver úrslitin verða en ég tel augljóst af umræðunum, að andstæðingum Sjálfstæðisflokksins yrði það sérstakt fagnaðarefni, ef unnt yrði að túlka þau á neikvæðan veg fyrir mig.

Liður í baráttu andstæðinga Sjálfstæðisflokksins hefur verið rakalaus málflutningur þeirra um skjöl tengd hlerunum á tíma kalda stríðsins í Þjóðskjalasafninu. Í dag tilkynnti safnið, að allur almenningur gæti skoðað þessi skjöl á vefsíðu safnsins. Ég fagna þessari ákvörðun, því að ég hef lengi verið málsvari þess, að gögn af þessu tagi yrðu opin öllum.

Þegar þessi gögn eru skoðuð í samanburði við það, sem lá að baki rannsókn á vegum norska stórþingsins á hlerunum í Noregi á vegum nokkurra opinberra stofnana, sést enn betur en áður, hvílík firra það er að bera þessi mál saman og krefjast þess, að sérstök þingnefnd skoði þessi mál hér á landi.

Það ber að harma, að Þjóðskjalasafnið skuli ekki hafa birt þessi gögn jafnskjótt og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur fékk aðgang að þeim. Með því hefði verið unnt að forða þjóðinni frá langvinnum umræðum um þetta mál, sem notað hefur verið til að sverta minningu látinna manna og brigsla öðrum um óheilindi og blekkingariðju. Í raun er óskiljanlegt, hvernig unnt var að komast að þeirri niðurstöðu, að Guðna Th. væri einum heimilt að skoða þessi gögn eða hann léti eins og hér væri um eitthvert mikið órannsakað mál að ræða.

 

Miðvikudagur, 25. 10. 06. - 25.10.2006 22:12

Evrópunefnd kom saman í hádeginu.

Eftir þann fund fór ég og tók þátt í hringborðsumræðum, sem útlendingastofnun boðaði til að ræða málefni útlendinga og innflytjenda. Ég lýsti þar þeirri skoðun minni, að ríkið ætti að standa straum af kostnaði við skyldubundið íslenskunám útlendinga.

Um klukkan 15.15 var mér gert viðvart um, að samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefði verið mönnum vegna þess, að Continental-flugvél væri að koma til landsins með um 170 manns um borð og með bilaðan hreyfil. Væri mikill viðbúnaður vegna þessa á Keflavíkurflugvelli. Vélin lenti rúmlega 16.00 og gekk það allt vel.

Um klukkan 16.30 ræddi ég við þá Kristófer og Þorgeír á Bylgjunni. Við ræddum lífssýnabanka lögreglunnar, nauðganir og síðan hringborðsumræðurnar um útlendingamál. Þá vísuðu þeir til greinar í Morgunblaðinu í gær eftir Bjarnþór lögreglumann, sem fór mjög lofsamlegum orðum um störf mín sem dómsmálaráðherra og sagðist ég að sjálfsögðu innilega þakklátur fyrir, að störf mín væru metinn á þennan veg.

Björgvin Guðmundsson, ritstjórnarfulltrúi á Fréttablaðinu, ritar leiðara um stöðu mína í blaðið mánudaginn 23. október og leggur mat á hana með hliðsjón af prófkjörinu.

Í dag var 12 síðna kosningablaði mínu dreift til sjálfstæðismanna í Reykjavík og var því vel tekið eftir því, sem mér heyrist.

Þriðjudagur, 24. 10. 06. - 24.10.2006 18:43

Nú er komin lifandi mynd inn á vefsíðu mína og eru nýmæli að geta birt efni með þessum hætti. Myndbandi með lokaorðum ræðu Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins á fundi í Valhöll laugardag 21. október hefur verið hlaðið inn á vefinn youtube.com. Þaðan er svo myndbrotið birt á minni síðu og notendur vefjarins geta horft og hlustað á lok ræðunnar. Það á ekki að þurfa nein sérstök tæknileg skilyrði til að sjá myndbandið. Stundum er þó smá hliðrun myndar og hljóðs þannig að það fer ekki alveg saman.

Enn hefur verið staðfest, að í engu tilviki var gripið til þess ráðs að hlera síma á sjöunda áratugnum, án þess að dómari tæki þá ákvörðun. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið brást við tilmælum lögreglustjórans í Reykjavík um varrúðarráðstafanir vegna ótta við skipulögð mótmæli með því að skjóta þeim til dómara. Eftir að hafa farið yfir gögn málsins tók dómari ákvörðun sína. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir um, að heimild dómarans hafi verið nýtt, eftir að Kjartan Ólafsson, forvígismaður sósíalista og herstöðvaandstæðinga á þessum árum, fékk aðgang að gögnum, sem hann varðar í Þjóðskjalasafninu. Kjartani finnst gögnin rýr. Við hverju bjóst hann?

Hér er fjallað um málið í stærra samhengi.

Mánudagur, 23. 10. 06. - 23.10.2006 20:44

Var í kvöld í Íslandi í dag með þeim Pétri Blöndal og Guðlaugi Þór Þórðarssyni en allir viljum við fá stuðning í 2. sætið í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna hér í Reykjavík. Hafi það verið tilgangurinn með að kalla okkur saman til viðtals að ýta undir deilur og ágreining meðal frambjóðenda í prófkjörinu, tókst það alls ekki. Hver um sig gerðum við grein fyrir okkar sjónarmiðum og lýstum nokkrum þáttum úr baráttu okkar.

Ég var til dæmis spurður að því, hvort það hefði komið mér á óvart eða í opna skjöldu, hvernig Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði á fundinum í Valhöll á laugardaginn um hlut minn. Ég sagði svo ekki vera, því að ég vissi vel og betur en aðrir, hve náið við hefðum starfað saman á vettvangi ríkisstjórnarinnar og ekki síst að varnar- og öryggismálum, eftir að hann varð forsætisráðherra. Hefði Geir talað á annan veg en hann gerði um samstarf okkar, hefði það komið mér á óvart, því að þá hefði hann ekki verið að lýsa því.

Þegar rætt var um skoðanir og kynningu á þeim, minnti ég á vefsíðuna mína góðu, en þar reifaði ég skoðanir mínar og enginn þyrfti að fara í grafgötur um þær, sem síðuna skoðaði. Ég hefði orðið þess var, að heimsóknum á síðuna hefði stórfjölgað vegna prófkjörsbaráttunnar síðustu daga.

Síðdegis var ég á kosningaskrifstofu minni og komu þangað margir góðir gestir á meðan ég hafði þar viðdvöl. Met ég það svo, að nú fari fólk að gera upp á milli frambjóðenda og ákveða hvernig það vilji sjá lista flokksins í Reykjavík.

Sunnudagur, 22. 10. 06. - 22.10.2006 21:48

Frá klukkan 14.00 og fram yfir 18.00 var ég í kosningaskrifstofu minni að Skúlagötu 51 og þangað var stöðugur straumur gesta allan daginn. Var fróðlegt að ræða við allt hið góða fólk, sem kom til að lýsa yfir stuðningi og ræða málið.

Ýmsir höfðu horft á Silfur Egils fyrr um daginn og höfðu á orði, að Jón Baldvin Hannibalsson hefði ekki aukið við hróður sinn með því, sem hann hafði þar fram að færa. Það sé til dæmis með ólíkindum, ef þáverandi utanríkisráðherra landsins grunaði, að sími hans væri hleraður af Bandaríkjamönnum, að hann skyldi ekki hafa aðhafst neitt í málinu og geri það ekki fyrr en meira en áratug síðar.

Mig undrar ekki, að fólk reki í rogastans, þegar þetta er borið á borð fyrir það, og síðan reyni Jón Baldvin nú að nota þetta tilvik til að koma höggi á pólitíska andstæðinga heima fyrir, af því að hann hafi ekki vitað á þessum árum, að starfandi væri „leyniþjónusta.“ Ég tek undir með þeim, sem segja þetta dæmalausan málflutning.

Í kvöldféttum sjónvarpsins sagðist Jón Baldvin aldrei hafa beint máli sínu til mín en fyrir rúmri viku, þegar hann var í Kastljósi sagði hann þetta gamla hlerunarmál, sem hann hefur verið að spinna, vera viðfangsefni dómsmálaráðherra - eftir að ríkissaksóknari ákvað að láta málið til sín taka, breyttist þessi afstaða Jón Baldvins og hann tók að ræða um rannsóknir vegna framgöngu jafnaðarmanna, flokksbræðra hans í Noregi!

Viðbrögð Jóns Baldvins við fræðilegri úttekt Þórs Whiteheads á þessum málum öllum staðfesta betur en nokkuð annað, að hann hefur enga burði til að ræða þessi mál með rökum eða á efnislegum grunni. Á mbl.is segir, að Jón Baldvin hafi sagt í Silfri Egils að Þór „sé fóstbróðir Björns Bjarnasonar“ og hafi í  grein í Þjóðmálum „verið að undirbúa farveginn fyrir frumvarp Björns um öryggisgæslu.“ Ætli Jón Baldvin telji, að með svona tali geti hann afgreitt sagnfræðiprófessor, af því að niðurstöður rannsókna hans stangast á við órökstuddar fullyrðingar hans sjálfs? Ef þetta er ekki til marks um ómerkilega málafylgju, hvað er það þá?

Ásbjörn Sveinbjörnsson, einn gesta minna í dag, gaf mér þessa vísu:

Manninn Björn met ég mest

mínum bregst ei vonum

en hann mun reynast okkur best

ef við fylgjum honum.

Laugardagur, 21. 10. 06. - 21.10.2006 22:09

Dagurinn hófst klukkan 09.00 í Grensáskirkju, þar sem kirkjuþing var sett og flutti ég ávarp og talaði blaðalaust, svo að ekki verður til þess vísað hér á síðunni. Ræddi ég meðal annars hið sögulega samkomulag frá því í gær um endanleg eignaskipti milli ríkis og kirkju.

Klukkan 10.30 héldum við Geir H. Haarde fund í Valhöll um öryggismál Íslands, gæslu ytra og innra öryggis. Fundurinn var fjölmennur og þótti mér mikils virði, hve Geir var afdráttarlaus í stuðningi við mig, þegar hann andmælti því, sem hann sagði „ógeðfellda aðför“ að mér og reynt væri að koma höggi á mig vegna prófkjörsins. Ræðu mína þarna flutti ég einni blaðalaust, svo að ekki verður til hennar vísað hér á síðunni.

Við Rut fórum síðan niður Skólavörðstíginn upp úr klukkan 14.00, þar sem boðin var kjötsúpu og nutum við hennar hjá Eggert feldskera, en þar margt fólk eins og alls staðar á stígnum.

Klukkan 16.00 var ég í Aðventkirkjunni og tók þátt í hátíð vegna 100 ára afmælis hennar - enn flutti ég blaðalaust ávarp og óskaði söfnuðinum til hamingju á þessum tímamótum.

Föstudagur, 20. 10. 06. - 20.10.2006 21:32

Klukkan 11.00 var ég á Grand hotel, þar sem hófst ráðstefnan Björgun 2006, sem haldin var af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu en þar rituðum við Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undir samning við félagið um tetra-væðingu þess, sem er stórt skref í öryggismálum þjóðarinnar. Auk þess var kynnt, hvernig yrði staðið að því að tetra-væða allt landið og verður Ísland þá fyrsta land, sem býr við slíkt öryggi í fjarskiptum á landsvísu.

Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og rituðum við Árni Mathiesen undir samning við biskup um yfirráð yfir prestssetrum og var með honum bundinn endir á áratuga langar deilur ríkis og kirkju.

Klukkan 18.00 voru við Rut í gömlu jarðhúsunum í Ártúnsbrekkunni, sem verið er að breyta í listamiðstöð. Er skemmtilegt að sjá, hve vel hefur til tekist.

Furðulegt var að hlusta á þau ummæli Jóns Baldvins Hannibalssonar, að ekki væri unnt að taka mark á orðum Róberts Trausta Árnasonar, fyrrverandi sendiherra og ráðuneytisstjóra, af því að hann væri alkunnur hægri maður. Hvernig er með Jón Baldvin? Eigum við, sem erum ósammála honum í pólitík ekki að taka mark á honum, þegar hann fabúlerar um hleranir? Hefur hann ekki einmitt krafist þess, að hann sé tekinn svo hátíðlega, að málið sé rannsakað? Síðan þegar það er gert, segir hann rannsóknina ekki munu skila neinu! Þetta minnir aðeins á dagana, þegar Jón Baldvin var virkur í stjórnmálunum og engu var líkara á stundum en orð og gerðir ættu aðeins hafa martækt gildi á milli fréttatíma.

Fimmtudagur, 19. 10. 06. - 19.10.2006 23:00

Klukkan 11.45 var ég í Háskólanum í Reykjavík og tók þar þátt í fundi á vegum Lögréttu, þar sem við vorum framsögumenn Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, Lúðvík Bergvinsson alþingismaður og ég. Við ræddum um þörfina á öryggis- og greiningarþjónustu lögreglunnar. Fundarsalurinn var þéttsetinn og svöruðum við spurningum að framsöguræðum loknum. Elías Davíðsson var á fundinum og gerði hróp að mér, sagði mig lygara vegna þess sem ég hefði ritað hér á síðuna skömmu eftir 11. september 2001 um Afganistan.

Síðdegis flutti ég framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum á þingi, það er um breytingar á keynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga og um flutning verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til sýslumanna.

Klukkan 17.30 var fundur um skólamál í kosningaskrifstofu minni og sóttu hann 30 til 40 manns en auk mín voru þau Már Vilhjálmsson, skólameistari Menntaskólans við Sund, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi ræðumenn en Helga Kristín Auðunsdóttir, varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, stjórnaði fundinum.

Klukkan 20,00 vorum við í Smárabíói á frumsýningu á Mýrinni eftir Baltasar Kormák. Skemmmtum við okkur prýðilega, enda myndin vel gerð og leikin. Tugir þúsunda Íslendinga munu sjá þessa mynd og auk þess heyrði ég Baltasar segja frá því, að hún vekti þegar athygli dreifingaryrirtækja í Bandaríkjunum.

Miðvikudagur, 18. 10. 06. - 18.10.2006 21:14

Þegar ég var að aka í qi gong um klukkan 08.00 heyrði ég sagt frá ályktun stjórnar SUS gegn því, að hér verði stofnuð öryggis- og greiningarþjónusta innan lögreglunnar í fréttum hljóðvarps ríkisins, en athygli mín á þessari ályktun hafði verið vakin kvöldið áður, þegar hún birtist á vefsíðum. Ég varð mest undrandi á því, þegar ég las ályktunina, að augljóst var, að höfundar hennar virtust ekki hafa haft fyrir því að kynna sér málið. Lét ég það sjónarmið í ljós í hádegisviðtali á Stöð 2 og síðan í fréttatíma Sjónvarpsins. Fréttamenn spurðu mig, hvort ég liti á þetta sem framlag stjórnar SUS til prófkjösrbaráttunnar, ég taldi það af og frá. Það væri í sjálfu sér ágætt að fá tækifæri til að ræða og skýra þetta mál, úr því að misskilningur í því væri jafn mikill og fram kæmi í ályktuninni.

Ég hef ekki lagt fram neinar tillögur um öryggis- og greiningarþjónustu heldur kynnt tvær skýrslur um málið eins og fram hefur komið hér á síðunni. Þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að leitað sé úrskurðar dómara, áður en hafin er eftirgrennslan auk þess sem ráðgert er að alþingismenn sitji í eftirlitsnefnd, samkvæmt þeim hugmyndum, sem fram koma í þeim skýrslum, sem ég hef kynnt en í ályktun stjórnar SUS er látið eins og hvorugur varnaglinn yrði sleginn.

Menn kunnugir málefnum SUS telja, að leita verði aftur til fjölmiðlamálsályktunar stjórnar SUS sumarið 2004 til að finna fjölmiðlaumfjöllun á borð við þessa. Hafi það verið tilgangur stjórnar SUS að komast í fréttirnar með því að álykta á þennan veg um mál á minni könnu, tókst það svo sannarlega.

Að óreyndu hefði ég ætlað, að í ljósvakamiðlunum yrði rætt um annað af sama meiði í dag. Vísa ég þar til greinarinnar í Fréttablaðinu eftir dr. Þór Whitehead, þar sem hann svarar rangfærslum Össurar Skarphéðinssonar og bendir á, að Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Steigrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, gerðu Róbert Trausta Árnason út af örkinni til að kanna STASI-skjöl: „Einkum vildi Jón Baldvin vita, hvort Svavar Gestsson hefði verið í hópi erindreka STASI,“ segir í skriflegri frásögn Róberts Trausta, en á þessum árum var Svavar menntamálaráðherra í stjórn með þeim Jóni Baldvini og Steingrími. Hvernig halda lesendur síðu minnar, að fjölmiðlamenn hefðu látið, ef Jón Baldvin og Steingrímur væru í Sjálfstæðisflokknum?

Jón Baldvin sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann hefði falið Róberti Trausta þetta verkefni, af því að Íslandi hefði ekki verið nein leyniþjónusta. Þá vitum við það!

Þriðjudagur, 17. 10. 06. - 17.10.2006 8:55

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 eins og venjulega á þriðjudögum. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gerði grein fyrir ákvörðun sinni um að heimila veiðar á 9 langreyðum og 30 hrefnum, en hún leiddi til þess, að Hvalur 9 lét úr höfn og hélt á miðin að kvöldi þessa sama dags eftir um 20 ára bið eftir leyfi til veiða.

Þegar saga þessa 20 ára hlés á hvalveiðum verður skrifuð, eiga menn eftir að undrast ákvörðunina um úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu í upphafi tíunda áratugarins. Ég studdi hana ekki á alþingi og taldi hana alranga - hið eina sem í raun gæti réttlætt hana, væri að við færum aftur í ráðið með fyrirvara vegna hvalveiðibannsins, sem við höfðum samþykkt, það er að við segðum okkur undan banninu við inngöngu í ráðið að nýju. Þetta gekk eftir og án þess hefðum við enga alþjóðlega réttarstöðu til að stíga þetta skref í dag, hvað sem segja má um það að öðru leyti. 

Til að halda lífi í hlerunarumræðunum hóf Ingibjörg Sólrún Gísladóttir máls á hlerunum í upphafi þingfundar í dag. Nú er línan sú, að Norðmenn hafi skipað þingnefnd til að leita sátta þar í landi, eftir að upplýst var, að Verkamannaflokkurinn hefði haldið leynilega skrá yfir andstæðinga sína. Svo virðist sem stjórnarandstaðan hafi sannfært sjálfa sig um, að eitthvað svipað hafi gerst hér og á grundvelli þeirrar sjálfsblekkingar sé nauðsynlegt að feta í fótspor Norðmanna við að upplýsa málið. Þetta byggist aðeins á ríku hugmyndaflugi en alls engum staðreyndum og er enn til marks um ógöngur stjórnarandstöðunnar í málinu.

Ég vakti máls á því hér í dagbókarfærslu í gær, hve ómaklegt væri að líta þannig á, að ríkissaksóknara, sjálfstæðum embættismanni, væri ekki treyst til að rannsaka fullyrðingar Jóns Baldvins Hannibalssonar og Árna Páls Árnasonar um að símar þeirra hafi verið hleraðir. Í umræðunum á alþingi rifjaði ég það upp, að við afgreiðslu lögreglulaga 1996 fann Össur Skarphéðinsson, núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að því, að í lögunum væri gert ráð fyrir því, að lögreglan rannsakaði sjálf meint brot lögreglumanna í starfi. Össur sagði meðal annars:

 

Lesa meira

Mánudagur, 16. 10. 06. - 16.10.2006 21:51

Ræddi við þá félaga Kristófer og Þorgeir á Bylgjunni síðdegis í dag um hlerunarmálin svonefndu. Samtal okkar var áður en fréttin barst rétt um klukkan 18.00, að ríkissaksóknari hefði ákveðið að hefja rannsókn vegna ummæla þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Árna Páls Árnasonar um, að símar þeirra hefðu verið hleraðir, þegar þeir störfuðu í utanríkisráðuneytinu um miðjan síðasta áratug.

Fór síðan í Kastljósið um klukkan 19.30, þar sem Sigmar Guðmundsson spurði mig einnig um hleranamálin. Áður en samtal okkar Sigmars hófst var rætt við Árna Pál, þar sem hann taldi af og frá, að rannsókn á vegum ríkissaksóknara skilaði neinu og var það helsta línan í spurningum Sigmars. Ég sagðist ekki skilja, hvernig unnt væri að álykta á þennan veg, áður en Ólafur Hauksson, sýslumaður á Akranesi, greindi frá því, hvernig hann mundi standa að rannsókninni í samvinnu við ríkissaksóknara, sem tilnefndi Ólaf til starfans. Hvernig Árni Páll gæti fullyrt, að saksóknari kæmist ekki til botns í málinu með rannsókn sinni hálftíma eftir að fréttin um ákvörðun hans birtist væri aðeins til marks um pólitískt eðli málsins að hans mati og viðleitni til að halda því á þeim vettvangi.

Ég fór hörðum orðum um þær ásakanir í garð Sjálfstæðisflokksins, að hann hefði rekið einhvers konar leyniþjónustu - það væri af og frá og ekki annað en rangtúlkun fréttamanns á NFS á orðum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings. Það er hins vegar dæmigert fyrir umræðuna, að hver étur þetta upp eftir öðrum - þetta væru kjaftasögustjórnmál.

Þá taldi ég fráleitt að láta að því liggja eins og Sigmar gerði, að ekki væri unnt að treysta ríkissaksóknara eða lögreglu í þessu máli, af því að ég væri sjálfstæðismaður. Ásakanir af þessu tagi í garð embættismanna og lögreglu eru að mínu mati til skammar fyrir þá, sem halda þeim fram og sýna aðeins, hve lítt þeim er annt um málefnalegar umræður.

Sunnudagur 15.10.2006 - 15.10.2006 9:02

Var klukkan 13.30 um borð í bandaríska landgönguskipinu Wasp og skoðaði það undir leiðsögn skipherrans. Þetta er þriðja bandaríska herskipið með þessu nafni, sem kemur til landsins. Hið fyrsta kom í síðari heimsstyrjöldinni, annað árið 1962 og ef ég man rétt var flogið með gesti um borð í það og eru til ljósmyndir af gestum á flugþilfari þess. Þetta skip, sem er hér nú kom til sögunnar 1989. Um 1200 manns eru í áhöfninni en skipið hefur auk þess rými fyrir 1600 landgönguliða – en skipið er hannað með það fyrir augum að flytja landgönguliða hvert sem er í veröldinni og koma þeim í land með þyrlum, landgönguprömmum eða bryndrekum, sem eru jafnvígir á sjó og landi. Ég fékk tækifæri til að kynnast samskonar skipi Saipan, þegar ég tók sem blaðamaður þátt í flota- og heræfingum NATO við Noreg og í Noregi í mars 1984. Skrifaði ég greinaflokk um æfinguna í Morgunblaðið í apríl 1984 og birtist hann einnig í bók minni Í hita kalda stríðsins.

Að lokinni heimsókninni var ég fram eftir degi á kosningaskrifstofu minni og ræddi við þá gesti, sem þangað lögðu leið sína.

Laugardagur 14. 10. 06. - 14.10.2006 11:20

Fór síðdegis á kosningaskrifstofu mína vegna prófkjörsins, þar sem fjöldi áhugasamra stuðningsmanna var við störf. Fyrir frambjóðanda er ómetanlegt að verða var við þann áhuga, sem vaknar hjá mörgum, þegar barátta af þessu tagi hefst.

Fórum klukkan 17.00 í Háskólabíó, þar sem Edda I - Sköpun heimsins var frumflutt um 70 árum eftir að hún var samin. Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti ásam Schola Cantorum en einsöngvarar voru Gunnar Guðbjörnsson og Bjarni Thor Kristinsson. Hermann Baumer stjórnaði en Hörður Áskelsson stjórnaði kórnum.

Verkið er magnþrungið og með því vildi Jón Leifs skapa mótvægi við Hring Niflungans eftir Wagner - en hann er í fjórum óperum og áttu Eddurnar að verða fjórar - Jón lauk við tvær og lagði drög að þeirri þriðju. Hann heyrði þessi verk sín aldrei flutt. Í tónleikaskránni segir Árni Heimir Ingólfsson, að kaflar úr Eddu I hafi verið fluttir á Norrænum tónlistardögum í Kaupmannahöfn í maí 1952 en þá hafi verið flissað í salnum og Jón Leifs hljóp niðurbrotinn út úr salnum og neitaði að fara inn aftur.

Í tíð minni sem menntamálaráðherra beitti ég mér fyrir fjárveitingum í því skyni að tölvuskrifa öll verk Jóns Leifs en án þess væri ekki unnt að flytja þau. Úr því að loks tókst að flytja Eddu I við fögnuð áheyrenda er þess beðið með vaxandi eftirvæntingu að Edda II verði flutt en Jón Leifs lauk við að semja hana í maí 1966.

Föstudagur 13. 10. 06. - 13.10.2006 13:12

Funduðum fyrir hádegi um niðurstöður Washington-viðræðnanna og ákváðum tengiliði um frekara samstarf.

Ég komst kl. 12. 30 í bókaverslun, þar sem James Baker, fyrrverandi ráðherra og starfsmannastjóri í Hvíta húsinu, kynnti nýja bók sína og áritaði hana.

Héldum af stað akandi frá Washington rúmlega 17.00. Icelandair vélin fór af stað á áætlun klukkan 20.45 og við lentum í Keflavík klukkan 06.00.

Fimmtudagur 12. 10. 06. - 12.10.2006 21:30

Fyrir hádegi fórum við á fund hjá bandaríska heimavarnaráðuneytinu og ræddum samstarf við það á grundvelli yfirlýsingarinnar samstarf Íslands og Bandaríkjanna í öryggismálum. Við vorum þarna fyrir rúmum tveimur árum og hefur starfsemi ráðuneytisins vaxið og eflst á þeim tíma, sem síðan er liðinn.

Síðdegis fór ég ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra á fund hjá Mueller, yfirmanni bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Við ræddum samstarf á sviði löggæslu með vísan til yfirlýsingarinnar um samstarf í öryggis- og varnarmálum.

Ljóst er, að samstarf okkar og Bandaríkjamanna um öryggismál er að taka á sig nýja mynd og skiptir miklu framhaldið, að vel sé vandað til fyrstu skrefanna, sem stigin eru. Tilgangur okkar með þessum fundum er einmitt sá, að árétta nauðsyn þess.

Miðvikudagur, 11. 10. 06. - 11.10.2006 19:30

Var klukkan 10.30 í höfuðstöðvum bandarísku strandgæslunnar og hitti þar Thad W. Allen yfirmann hennar. Ræddum við samstarf strandgæslunnar og Landshelgisgæslu Íslands.

Klukkan 11.40 vorum við komnir í bandaríska utanríkisráðuneytið en klukkan 12.00 komu þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra þangað. Þau fóru á fund með Condoleezzu Rice utanríkisráðherra og síðan var samkomulag ríkjanna um varnarmál undirritað við hátíðlega athöfn í Treaty Room ráðuneytisins.

Klukkan 13.30 var ég með ráðherrunum tveimur í Pentagon, þar sem Donald Rumsfeld tók á móti okkur með formanni bandaríska herráðsins og fleiri nánum samstarfsmönnum sínum og ræddum við framtíðarsamstarf þjóðanna á um 40 mínútna fundi.

Klukkan 16. 30 vorum við í Paul H. Nitze School of Advanced International Studies (SAIS) í John Hopkins University, þar sem Geir H. Haarde flutti erindi: Iceland-U.S. Relations and future Defense Arrangements.

Blaðamenn á Íslandi virðast nú hafa mestan áhuga á því, að Jón Baldvin Hannibalsson sagði síma sinn hafa verið hleraðan, þegar hann var utanríkisráðherra. Mér þykja þetta furðuleg ummæli og undarlegt, að hann veki máls á þessu núna. Hvað gerði hann í málinu á sínum tíma?

Þriðjudagur 10. 10. 06. - 10.10.2006 1:13

Flugum klukkan 16.50 til Baltimore og lentum þar klukkan 23.00 að íslenskum tíma eða 19.00 að bandarískum og ókum beint til Washington.

Mánudagur, 09. 10. 06. - 9.10.2006 22:43

Klukkan 10.30 var haldinn fundur í þingflokki sjálfstæðismanna þar sem Geir H. Haarde og Árni Mathiesen kynntu ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun á matvöruverði um 16% - mjög mikilvæga pólitíska ákvörðun, sem mun bæta hag allra landsmanna.

Klukkan 15.45 tók ég þátt í umræðum utan dagskrár á alþingi um mögulega leyniþjónustustarfsemi á vegum ríkisins og hér má lesa ræðu mína.

Sunnudagur, 08. 10. 06. - 8.10.2006 23:36

Ég opnaði kosningaskrifstofu mína klukkan 15.00 og komu hátt á sjötta hundrað manns þangað á skömmum tíma. Var mjög gleðilegt að hitta þennan breiða hóp góðra stuðningsmanna.

Á leið minni á skrifstofu mína leit ég inn hjá Birgi Ármannssyni, sem einnig var að opna kosningaskrifstofu.

Klukkan 20. 30 var ég í Listasafni Íslands, þar sem Kammersveit Reykjavíkur flutti nútímatónlist.

Laugardagur, 07. 10. 06. - 7.10.2006 22:51

Leit inn á kosningaskrifstofur Sigurðar Kára Kristjánssonar og Sigríðar Andersen síðdegis en hafði ekki tíma til að heimskja Ástu Möller, þar sem ég fór út á flugvöll rúmlega 16.00 og var þar að taka á móti þyrlu Landhelgisgæslu Íslands. Var það ánægjuleg stund, sem markar þáttaskil í sögu flugdeildar gæslunnar eins og ég lýsti í ræðu minni af þessu tilefni.

Föstudagur, 06. 10. 06. - 6.10.2006 19:51

Fór klukkan 14.00 um borð í varðskipið Tý sem var að koma úr endursmíði í Póllandi.

Ummæli Elísabetar Jökulsdóttur og Steingríms Ólafssonar, sem bæði eru andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, um mig vegna prófkjörsins hjá okkur sjálfstæðismönnum í Kastljósi voru vægast sagt óvinsamleg. Þeim er greinilega ekki kappsmál, að ég fái þar framgang. Ég leyfi mér einnig að efast um, að þau vilji Sjálfstæðisflokknum vel í komandi þingkosningum. Líking Steingríms var furðuleg, þegar hann ræddi um mig sem ritvél - ég hef ekki notað það tæki í tuttugu ár.

Carl Bildt er orðinn utanríkisráðherra Svíþjóðar, þvert ofan í það sem ýmsir spáðu kosningnóttina. Í stjórnmálum veit enginn æfi sína fyrr en öll er. Hann skrifaði þetta á vefsíðu sína vegna brottfarar varnarliðsins héðan á dögunum http://bildt.blogspot.com/2006/10/keflavik-moves-on.html

 

Fimmtudagur, 05. 10. 06. - 5.10.2006 22:29

Fjármálaráðherra flutti fjárlagaræðuna í dag á þingi og var ég þar fyrir hádegi, en enginn virtist eiga erindi við dóms- og kirkjumálaráðherra vegna frumvarpsins, svo að ég fór í hádeginu í ráðstefnusal Þjóðminjasafns, þar sem Heimssýn var með fund. Ég flutti þar stutta ræðu, áður en fyrirlesarinn á fundinum, Christopher Heaton-Harris breskur Evrópuþingmaður úr Íhaldsflokknum ræddi afstöðu Breta til Evrópusambandsins og spurninguna um það, hvort þeir kynnu að segja sig úr sambandinu.

Úrsögn Breta er ekki á döfinni, en þeir hafa ekki áhuga á evruaðild. aldsflokkurinn mun styðja aðild áfram svo framarlega, sem ekki verður krafist, að Bretar gangi lengra á samrunabrautinni. Hann spáði því, að Tyrkland kæmist aldrei í sambandið, sagði fiskveiðistefnu þess hörmulega, sagði Breta ekki hafa nein áhrif innan ESB, hið eina, sem Tony Blair hefði náð fram í formennskutíð Breta hefði verið lengri frestur til að íhuga stjórnarskrárvanda ESB. Hann sagði engan bresku flokkanna mæla með aðild Bretlands að Schengen, það myndi aðeins veikja landamæravörsluna.

Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og kynnti nýtt skipurit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nýja forystusveit liðsins undir stjórn Stefáns Eiríkssonar.

Klukkan 20.00 hélt ég fyrsta fundinn í kosningamiðstöð minni vegna prófkjörsins. Miðstöðin er að Skúlagötu 51 og opna ég hana sunnudaginn 8. október klukkan 15.00

Miðvikudagur, 04. 10. 06. - 4.10.2006 21:29

Við upphaf þings og í ræðum um stefnuræðu forsætisráðherra ræddu talsmenn stjórnarandstöðu flokkanna þriggja um það, að nú hefðu þeir náð höndum saman og byðu einhuga kost á móti ríkisstjórnarflokkunum.

Í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um niðurstöðu varnarviðræðnanna á alþingi í dag kom glöggt fram, að stjórnarandstaðan er síður en svo samstiga í öryggis- og varnarmálum. Samfylkingin skilar auðu, vinstri/græn vilja Ísland úr NATO og friðlýsingu eins og áður, frjálslyndir vilja koma hér upp vopnuðum sveitum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði Samfylkinguna ekki taka pólitíska ábyrgð á samkomulaginu við Bandaríkjastjórn. Þar með hefur hún markað allt aðra stefnu en jafnaðarmenn hafa haft, því að þeir hafa hingað til stutt aðild að NATO og varnarsamstarf við Bandaríkin. Hver er ástæðan fyrir þessari stefnubreytingu? Jú, að það hvíli leynd yfir varnaráætlunum samkvæmt samkomulaginu við Bandaríkjamenn.

Gylfi Þ. Gíslason sagði frá því, að hann hefði ekki getað stutt aðild Íslands að NATO 1949 vegna leyndar yfir samningsgerðinni, hins vegar hefði hann getað stutt varnarsamninginn 1951 vegna þess að þá hefðu verið veittar nægar upplýsingar. Þeim samningi fylgdu áætlanir og viðaukar, sem voru huldir leynd og ekki kynntir öðrum en ráðherrum og embættismönnum. Þetta leyndartal Samfylkingarinnar er aðeins fyrirsláttur og breiðsla yfir þá staðreynd, að flokkurinn er ósamstiga í öryggis- og varnarmálum. Hann skilaði auðu í málunum á síðasta landsfundi og hefur ekki enn náð vopnum sínum.

Í umræðunum á þingi í dag taldi ég sundurþykkju stjórnarandstöðunnar stóru fréttina auk þeirrar stefnubreytingar jafnaðarmannaflokksins, Samfylkingarinnar, að vilja ekki axla pólitíska ábyrgð vegna samkomulagsins við Bandaríkjamenn. Þar með væri samstaða svonefndra lýðræðisflokka á tímum kalda stríðsins, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks rofin. Sjónarmið Alþýðubandalagsins hefðu enn náð yfirhöndinni meðal jafnaðarmanna.

Í NFS var sagt frá þremur ræðum samfylkingarfólks í umræðunum - ekkert annað komst að á þeim bæ. Aðeins var sagt frá ræðum stjórnarandstæðinga í fréttum sjónvarpsins kl. 19.00.

 

Þriðjudagur, 03. 10. 06. - 3.10.2006 22:42

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman í hádeginu í dag og þar tilkynnti Geir H. Haarde, flokksformaður, að fyrir nokkrum mánuðum eða ári, hefði Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, sagt sér, að hann hefði hug á að láta af starfi sínu, enda hefði hann gegnt því þá í aldarfjórðung, nú í 26 ár. Síðan hefði verið hugað að eftirmanni Kjartans og nú vildi hann gera tillögu um Andra Óttarsson lögfræðing, hann mundi starfa undir handarjaðri Kjartans um nokkurt skeið og síðan yrði það verkefni formannsins og Kjartans að ganga endanlega frá ráðningu hans sem framkvæmdastjóra. Var þessi tillaga samþykkt umræðulaust.

Geir H. Haarde flutti fyrstu stefnuræðu sína sem forsætisráðherra á alþingi í kvöld og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti jómfrúrræðu sína í umræðunum. Þær voru næsta máttlitlar af hálfu stjórnarandstöðunnar og án nokkurra nýmæla. Fróðlegt var að heyra hvernig gömlu herstöðvaandstæðingarnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon töluðu í tilefni af brottför varnarliðsins. Ingibjörg Sólrún sagði, að „gamall draugur“ hefði verið kveðinn niður og ætti að „grafa stríðsöxina“. Steingrímur J. sagði Morgunblaðið hafa „svívirt“ herstöðvaandstæðinga í Staksteinum í gær og síðan tönnlaðist hann enn á því, að sama ástand hefði verið hér á landi og í Noregi, þar sem norskir jafnaðarmenn nýttu aðstöðu sína í ríkisstjórn til að stunda víðtækar hleranir hjá þúsundum manna. Hvernig Steingrími dettur í hug að einn, tveir eða kannski þrír starfsmenn lögreglunnar í Reykjavík hefðu getað leikið þetta eftir er mér hulin ráðgáta.

Mánudagur, 02. 10. 06. - 2.10.2006 23:21

Alþingi var sett klukkan 13.30 í dag.

Sunnudagur, 01. 10. 06. - 1.10.2006 22:04

Fyrstu skrifstofurnar fyrir prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík voru opnaðar í dag, það er hjá Illuga Gunnarssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Í fréttum var sagt frá því, að 70 herstöðvaandstæðingar hefðu farið í mannauða herstöðina á Keflavíkurflugvelli. Í aðdraganda atburðarins héldu talsmenn hópsins, að hann yrði svo fjölmennur, að hleypa yrði inn í hollum - það var ekki sagt frá því í fréttum, að þessum hópi hefði verið skipt, þegar hann fór inn á varnarsvæðið.

Björgvin Guðmundsson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag:

„..er óskiljanlegt af hverju vinstrimenn á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið andvígir því að landvarnir landsins séu tryggðar í samstarfi við aðrar þjóðir. Íslendingar höfðu ekki og hafa ekki enn burði til þess einir og óstuddir.

Séu vinstrimenn sammála því hlutverki ríkisins að verja borgarana hverja fyrir öðrum hljóta þeir einnig að vera sammála því hlutverki ríkisins að verja borgarana gagnvart órétti borgara annarra ríkja. Annars eru þeir ekki samkvæmir sjálfum sér.

Það er ekki hægt að afgreiða öryggismál þjóðarinnar með því að segja að engin ógn steðji að landinu. Við verðum að gera ráðstafanir og vera reiðubúin að bregðast við. Hvað hafa vinstri grænir annað fram að færa í umræðu um öryggis- og varnarmál Íslands en að skamma bandaríska herinn fyrir mengun á varnarsvæðinu? Eru vinstri grænir ekki samkvæmir sjálfum sér?

Miðað við getu þjóðarinnar til að verjast utanaðkomandi ógn, vilja Bandaríkjamanna til varnarsamstarfs og stöðu heimsmála er niðurstaðan í varnarviðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda fullkomlega ásættanleg. “