1.12.2025 12:18

1. des ógnaði aldrei 17. júní

Tvö áhrifamikil blöð segja 1. des. ekki vera þjóðhátíðardaginn, annað nefnir veðrið og hitt að þjóðin sjái enga sérstaka ástæðu til fagna því sem gerðist 1. des. 1918.

Fullveldisdagurinn, 1. desember, er í dag. Þess er minnst af þeim sem hafa áhuga á stjórnmálasögu landsins og samskiptum þjóðarinnar við aðrar þjóðir að þennan dag árið 1918 var Ísland lýst fullvalda ríki á grundvelli sambandslagasáttmála Íslands og Danmerkur.

Þar var vissulega um mikilvægt skref til endanlegs sjálfstæðis að ræða. Það var stigið 17. júní 1944 þegar íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum.

Í Wikipediu, alfræðiriti á netinu sem margir nota sem heimild segir að 1. desember hafi smám saman orðið að „almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma“.

Í nýrri bók sem ber heitið Dagur þjóðar- þróun 17. júní hátíðarhalda á 19. og 20. öld eftir dr. Pál Björnsson, sagnfræðing og prófessor við Háskólann á Akureyri, er tekinn af allur vafi um að fullyrðingin í Wikipediu sé röng. Páll segir:

„Þegar rýnt er í umfjöllun blaða og tímarita um hátíðardaga á áratugunum fram að lýðveldisstofnun er ljóst að þar er langoftast talað um 17. júní sem þjóðhátíðardag Íslendinga (103).“

Páll segir að fullveldisdagurinn 1. desember hafi aldrei verið „einhlítur þjóðhátíðardagur Íslendinga“. Það hafi komið tiltölulega fljótt í ljós og þyngstu rökin gegn 1. des. hafi varðað veðráttuna. Í Morgunblaðinu sagði í febrúar 1919: „En 1. des. er ekki hentugur til að verða að þjóðhátíðardegi. Þá er venjulega kominn vetur og veður oftast mjög andstætt útisamkomum þeim, sem slíkir dagar tileinka sér.“

IMG_3079Veðrið réð miklu um að 1. des. varð aldrei þjóðhátíðardagur. Myndin er tekin í Reykjavík um hádegi 1. des 2025,

Í Tímanum sagði 4. desember 1920: „Reynt hefur verið að gera 1. des. að hátíðisdegi í tilefni af sambandslögunum. En það ætlar víst ekki að takast. Þjóðin finnur ekki til hrifningar og sennilega ekki til mjög mikils þakklætis í sambandi við hann atburð.“ (Dagur þjóðar bls. 102 og 103.)

Tvö áhrifamikil blöð segja 1. des. ekki vera þjóðhátíðardaginn, annað nefnir veðrið og hitt að þjóðin sjái enga sérstaka ástæðu til fagna því sem gerðist 1. des. 1918.

Í umsögn um bók Páls Björnssonar í Morgunblaðinu sem má lesa hér sagði ég að þeir sem minntust fréttamyndanna af Margréti 2. Danadrottningu þar sem hún sat berhöfðuð fyrir framan Stjórnarráðshúsið í norðanstreng 1. desember 2018 fengju í sig kuldahroll við það eitt og afskrifuðu daginn til útihátíða.

Tilvitnuð orð úr Tímanum eru annars eðlis. Þau má skilja á þann veg að það hafi einfaldlega ekki verið nein almenn stemning fyrir því að fagna sambandslögunum.

Orðið fullveldi var mönnum ekki eins tamt þá og nú og inntak hugtaksins örugglega óljóst. Að þessu leyti hefur 1. des. verið færður á hærri stall af síðari tíma mönnum en gert var á sambandslagaárunum. Þeir sem þekktu sambandslagasáttmálann og sjálfstæðisvilja þjóðarinnar vissu að hér var aðeins um skref til sjálfstæðis að ræða enda riftunarákvæði í sáttmálanum sem var nýtt á lögmætan hátt þegar lýðveldið var stofnað.

Merkur áfangi náðist 1. desember 1918 en ekki lokamarkmiðið.