31.12.2015

2016: Ár forsetakosninga

Hvað sem Ólafur Ragnar Grímsson segir í nýársávarpi sínu 1. janúar 2016 slær hann sem forseti ekki á tilfinningar þjóðarinnar á sama hátt og honum tókst í sjónvarpsávarpi sem hann flutti blaðalaust við athöfn í Hörpu að kvöldi miðvikudags 30. desember þegar kynnt var tilnefning á íþróttamanni ársins. Boðskapur forsetans var gamalkunnur: Hin fámenna íslenska þjóð stendur í fremstu röð og gefur gott fordæmi á alþjóðavettvangi, að þessu sinni vegna glæsilegs árangurs íslenskra keppnisliða í hópíþróttum. Ekki sé einsdæmi að litlum þjóðum takist að eignast framúrskarandi einstaklinga í einstökum greinum, hitt sé sjaldgæfara eða jafnvel óþekkt að þetta gerist með keppnisliðum í knattspyrnu, handbolta og körfubolta en í öllum þessum greinum hafi Íslendingar náð frábærum alþjóðlegum árangri.

Strax eldsnemma að morgni gamlársdags mátti heyra að forsetinn hafði ekki aðeins hitt í mark með efninu sem hann valdi heldur einnig með flutningi þess og framgöngu allri. Ýtti þetta undir þá skoðun að hann hlyti ekki heldur beinlínis ætti að gefa kost á sér til endurkjörs þegar fimmta kjörtímabili hans lýkur sumarið 2016.

Verði Ólafur Ragnar ekki afdráttarlaus í nýársávarpinu 2016 um framtíð sína ætla ég að forðast túlkun á orðum hans. Eins og sjá má í dagbókarfærslu minni hér á síðunni frá 1. janúar 2012 taldi ég að skýra ætti ávarp hans þá á þann veg að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér til framboðs að nýju. Runnu að vísu á mig tvær grímur vegna málsins síðdegis á nýársdag þegar Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, kom í útvarpsfréttir og sagði að í orðum Ólafs Ragnars fælist glufa sem gæfi til kynna að hann væri ekki afhuga framboði.

Á árinu 2012 stóðum við Styrmir Gunnarsson og Friðbjörn Orri Ketilsson að útgáfu vefsíðunnar Evrópuvaktarinnar og sé ég í dagbók minni hér á síðunni að 1. og 2. janúar 2012 hef ég ritað pistla um nýársávarp Ólafs Ragnars á þá vefsíðu án þess að setja textann einnig á mína eigin vefsíðu og nú tekst mér ekki að opna Evrópuvaktina til að rifja upp útlistanir mínar.

Ég kýs því að skila auðu í umræðum um framtíð Ólafs Ragnars á forsetastóli. Tali hann óljósum orðum  um framtíðina bendir það til framboð til endurkjörs, hann kjósi þó að halda öllum dyrum opnum meðal annars til að fipa hugsanlega mótframbjóðendur og kalla fram áskoranir almennings.

Nokkurs óþols gætir hjá ýmsum vegna nýársávarpsins eins og til dæmis Guðna Th. Jóhannessyni sagnfræðingi sem er að mati fréttastofu ríkisútvarpsins helsta „átorítet“ landsmanna þegar forsetaembættið á í hlut. Hann segir í grein á vefsíðunni Kjarnanum miðvikudaginn 30. desember:

„Alls ekki er þó útilokað að á nýársdag tilkynni Ólafur Ragnar Grímsson að hann hyggist enn á ný vera í framboði til forseta Íslands. Geri hann það virðist hann eiga sigurinn vísan. Önnur forsetaefni yrðu fallbyssufóður. Sitjandi forseti sigrar alltaf. Það segir sagan að minnsta kosti. Á hitt er þó að líta að einhvern tímann verður allt fyrst. Öflugur frambjóðandi sem stæði einn andspænis Ólafi gæti heldur betur velgt honum undir uggum. Að því sögðu er forseti helst í essinu sínu að hann þurfi að berjast. Sá er einmitt kostur hans og galli.

Margir eiga það því sameiginlegt að spyrja sig og aðra hvað sé eiginlega að Ólafi Ragnari Grímssyni. En fólk mælir nú sjaldnast einum rómi. Þjóð er ekki órofa heild og í þessum orðum skipta áherslur máli. Hvað er eiginlega  honum? spyrja þeir sem finnst forseti hafa setið nógu lengi á valdastóli, gamall valdakarl með sitthvað á samviskunni. Hins vegar eru þeir líka til sem spyrja: Hvað er eiginlega að forsetanum? Herra Ólafur hafi staðið sig vel, komið í veg fyrir Icesave og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, þau Ólafur og Dorrit séu landi og þjóð til sóma, ekkert forsetaefni sem standist samjöfnuð hafi komið fram og hann sé í fullu fjöri. Já, nýársávarpið verður óvenju spennuþrungið í þetta sinn.“

Bjóði Ólafur Ragnar sig fram að nýju skýrist enn betur en áður að hann hefur á ferli sínum algjörlega skipt um bakland. Hann sækir nú stuðning til þeirra sem skipa sér á miðjuna eða hægra megin við hana. Margir í þeim hópi sáu rautt þegar á hann var minnst á meðan hann sat á alþingi en mega nú vart til brottfarar hans frá Bessastöðum hugsa. Hinir sem sátu með honum í stjórnmálaflokki vilja sem minnst eða ekkert með Ólaf Ragnar hafa.

Svavar Gestsson, fyrrverandi samstarfsmaður Ólafs Ragnars í Alþýðubandalaginu, segir frá því í umsögn um bók Árna Bergmanns sem hann birti á vefsíðunni Herðubreið 8. desember 2015 að Magnús Torfi Ólafsson hafi varað sig sérstaklega við að leggja ekki lag sitt við Ólaf Ragnar án þess að Svavar tæki mark á þeirri viðvörun og síðar í umsögninni segir Svavar:

„Átakakenningin varð til þess að ganga af blaðinu [Þjóðviljanum] dauðu. Frá því segir Árni eina litla sögu sem segir þó allt sem segja þarf: „ Eitt atvik er mér minnisstætt. Haustið 1988 stóð til að ég færi í ferðalag en frétti áður að upp úr hefði soðið í stjórn Útgáfufélags Þjóðviljans út af því hvaða ritstjórar skyldu fara eða vera. Ég ákvað að reyna að tala við Svavar og Ólaf um að þeir hefðu hemil á sínum mönnum til að vandi blaðsins magnaðist ekki enn. Ég náði í Ólaf Ragnar á kvöldfundi á hóteli og hann hafði ekki heyrt síðustu fréttir. Viðbrögð hans voru þessi: „Svo þeir í stjórn Útgáfufélagsins ætla að hafa þetta svona. Vita þeir ekki að ég þarf ekki annað en að tala við Landsbankann og þá er þetta búið?“ Mér brá stórlega. Ólafur gaf til kynna að hann munaði ekki um að stöðva lánafyrirgreiðslur til Þjóðviljans og þar með stúta blaðinu ef meirihluti stjórnar Útgáfufélagsins makkaði ekki rétt.“ (bls. 306-307). Ólafur Ragnar var þarna nýorðinn fjármálaráðherra og hafði gaman af því að beita VALDI sínu við þá sem hittu hann að máli; nú átti að láta okkur hin í Alþýðubandalaginu finna fyrir því og jafnvel að loka blaðinu. Um þetta eru mörg dæmi en það að Árni segir frá einu í bók sinni sýnir að Ólafur Ragnar Grímsson var sjálfur stór hluti af því vandamáli sem að lokum gerði út af við Þjóðviljann.“

Með orðinu „átakakenningin“ er vísað til stefnu og starfa Ólafs Ragnars. Í hausthefti Skírnis 2015 ritar Svanur Kristjánsson prófessor grein um stjórnarhætti Ólafs Ragnars í grein sem hann kallar Hið nýja Ísland eftir hrunið. Þar er að finna fróðlega upprifjun á því hvernig Icesave-málið varð til þess að bjarga Ólafi Ragnari og tryggja honum sigur í kosningunum 2012 en við ákvörðun um framboð sitt fékk hann góðan stuðning Guðna Ágústssonar, fyrrv. ráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem safnaði nöfnum undir áskorun á Ólaf Ragnar um að gefa kost á sér til endurkjörs. Svanur segir (bls. 349):

„Eftir synjun forsetans [á Icesave-samningnum 2011] leituðu íslensk stjórnmál í fyrri farveg heiftarlegra átaka. Þar naut Ólafur Ragnar sín vel. Í forsetakosningunum [2012] tókst honum þannig með miklu harðfylgi að snúa baráttunni sér í hag. Þann 30. júní 2012 var Ólafur Ragnar Grímsson endurkjörinn forseti Íslands með rétt yfir 50% [53%] atkvæða meirihluta að baki sér.“

Menn minnast þess úr kosningabaráttunni 2012 að Ólafi Ragnari hafi tekist að „jarða“ Þóru Arnórsdóttur, helsta andstæðing sinn, í einu útvarpsviðtali eins og það er gjarnan orðað. Hann spyrti hana við Samfylkinguna, Jóhönnu Sigurðardóttur og aðildarumsókn að ESB – hinn eitraða kokkteil. Gefi hann kost á sér að nýju 2016 kann reynsla Þóru frá 2012 einfaldlega að fæla menn frá að taka slaginn við hann.

Eftir 20 ára setu Ólafs Ragnars í forsetaembætti er óhjákvæmilegt að forsetakosningar snúist um hvernig forseti fer með vald sitt – frambjóðendur verða að taka afstöðu til þess.

Í nýlegri tímaritsgrein hafa tveir fræðimenn við Háskóla Íslands, Björg Thorarensen lagaprófessor og Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði, fært rök fyrir því að Ólafur Ragnar hafi haft endaskipti á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Í því efni hafi hann meðal annars stuðst við kenningar Svans Kristjánssonar prófessors. Undir lok fyrrnefndrar greinar í Skírni segir Svanur að Ólafi Ragnari hafi tekist „að gera forsetaembættið að „miðdepli íslenska valdakerfisins með synjunarvald yfir allri löggjöf og sjálfstæða utanríkisstefnu“. Hann hagi „málflutningi sínum og athöfnum eftir eigin valdahagsmunum og geðþótta hverju sinni“.

Þetta eru stór orð sem ættu að vera hverjum sem ber virðingu fyrir grunnþáttum stjórnskipunarinnar áhyggjuefni. Þau endurspegla þó ekki aðeins ofríki Ólafs Ragnars heldur einnig hikandi andspyrnu gegn honum meðal alþingismanna og ráðherra sem láta hann ganga á rétt sinn. Komi til kosningabaráttu við Ólaf Ragnar á árinu 2016 hljóta spurningar sem snúa að þessu að setja stóran svip á hana. Hún verður stórpólitísk í eðli sínu.

Grein Svans Kristjánssonar dregur fram hinar hatrömmu deilur sem voru milli Ólafs Ragnars og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Í samanburði við þær voru orð sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lét falla á dögunum um veisluhöld á Bessastöðum og forgangsröð í þágu aldraðra og öryrkja vegna ummæla Ólafs Ragnars um þau mál hreinn barnaleikur. Þau urðu engu að síður tilefni þess að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, velti fyrir sér í grein á vefsíðunni Hringbraut hvort ummæli forseta kynnu að leiða til þess að hann ritaði ekki undir fjárlögin á ríkisráðsfundi á gamlársdag 2015.

Fjárlög fyrir árið 2016 voru staðfest á Bessastöðum í dag. Að unnt sé að vekja umræður um óvissu varðandi fjárlögin vegna geðþóttaákvarðana forseta Íslands sýnir í hvert óefni er komið við skoðun manna á valdi forseta. Þessari óvissu verður að eyða á árinu 2016, tækifæri gefst til þess í forsetakosningum.