24.1.2015

Bjorn.is 20 ára - UA skilar áliti um samskipti Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar


Í gær 23. janúar 2015 voru rétt 20 ár liðin frá því að efni var í fyrsta sinn sett inn á síðuna bjorn.is. Þetta var gert með leynd í tilraunaskyni á þeim tíma eins og lesa má í skýringu sem ég setti á síðuna og sjá má hér í upphafi textans.  Um er að ræða gamla grein úr Morgunblaðinu sem ég ákvað að setja á veraldarvefinn að hvatningu áhugamanna um vefsíður. Ég þekkti þessar síður ekki frekar en aðrir almennir borgarar á þessum árum.

Það sem hófst sem tilraunastarf á upphafsmánuðum vefsíðugerðar einstaklinga hefur staðið í 20 ár á byltingartímum í upplýsingatækni og miðlun efnis á netinu. Undarlegt er hve íslenskir stjórnmálaflokkar láta lítið að sér kveða í netheimi og er það í góðu samræmi við hve aftarlega íslensk stjórnvöld standa við nýtingu þessarar tækni í alþjóðlegum samanburði. Er það í hróplegri andstöðu við netvæðingu þjóðarinnar og aðgengi hennar að netinu.

Fyrir þá sem starfað hafa innan íslenskrar stjórnsýslu er fróðlegt að lesa hina löngu álitsgerð Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns alþingis (UA), um samskipti þeirra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, eftir að ríkissaksóknari ákvað að hafin skyldi lögreglurannsókn á innanríkisráðuneytinu vegna leka á trúnaðarskjali sem snerti hælisleitandann Tony Omos frá Nígeríu.

Tilefni þess að UA hóf athugun sína var frétt í DV, enginn kærði málið til UA heldur var um frumkvæðisathugun hans að ræða. Álitsgerðin beinist nær eingöngu að framgöngu Hönnu Birnu og kann að verða til leiðbeiningar fyrir ráðherra um það hvernig þeir hagi sér við þær sérkennilegu aðstæður sem sköpuðust gagnvart innanríkisráðuneytinu, sérstaklega kann álitið að verða þeim ráðherrum að gagni sem bera pólitíska ábyrgð á lögreglumálum. Að oft verði leitað leiðsagnar í álitinu er ólíklegt því að tilvikið sem um ræðir er svo einstakt: að ríkissaksóknari gefi fyrirmæli um rannsókn í ráðuneyti lögreglumála, að ólíklegt er að nokkru sinni eigi slíkur atburður eftir að endurtaka sig.

Þá er þetta mál einnig einstakt að því leyti að aðstoðarmaður Hönnu Birnu leyndi því í tæpt ár að hann hefði lekið skjalinu og hélt raunar hinu sanna ekki fram fyrr en komið var að réttarhöldum í máli hans. Að slíkt eigi eftir að endurtaka sig innan stjórnarráðsins er mjög ólíklegt.

Í 110 ára sögu dómsmálaráðuneytisins er þetta eina tilvikið um lögreglurannsókn gagnvart því og í 45 ára sögu aðstoðarmanna ráðherra hefur það aldrei fyrr gerst að aðstoðarmaður hafi komið ráðherra sem hann á að aðstoða í þann vanda sem blasir við Hönnu Birnu.

Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, var mun harðorðari í garð Hönnu Birnu í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins í hádeginu laugardaginn 24. janúar en UA sem nálgast viðfangsefnið frá lögfræðilegum og stjórnsýslulegum sjónarhóli.

Þetta er síður en í fyrsta sinn sem umboðsmaður segir í áliti að eitthvað megi betur fara innan stjórnsýslunnar, oft áður hefur hann fundið að störfum ráðherra og talið að þeir mættu standa betur að embættisfærslu. Viðbrögð Stefaníu Óskarsdóttur voru í samræmi við dramatíkina í opinberum umræðum um málið. Hvort hún ræður eða yfirvegað mat kemur í ljós þegar fram líða stundir.

Vegna þess hve UA er mikið með hugann við innanríkisráðherrann, Hönnu Birnu, veitir hann ekki hinum aðila málsins, lögreglustjóranum, næga leiðbeiningu um hvað betur megi fara hjá honum. Við rannsókn mála á lögreglustjórinn síðasta orðið en ekki ráðherrann. Lögreglustjórinn hefði því einfaldlega getað sagt við ráðherrann að hann væri ekki til viðtals um málið og þar með hefði samtölum um það milli þeirra lokið.

Af áliti UA má ráða að hann hafi átt í nokkrum vanda við að færa niðurstöðu sína í lögfræðilegan búning og seilist hann því langt í röksemdafærslu sinni. Honum reyndist það þess vegna mikilvægt haldreipi að Hanna Birna ritaði honum bréf eftir að hafa rætt við hann og viðurkenndi mistök í samskiptum sínum við Stefán Eiríksson. Ber bréfið með sér að í því felist einskonar samkomulag um lyktir málsins þótt UA geri athugasemdir við orðalag.

Um þetta mál verður þjarkað enn um sinn á pólitískum vettvangi og þeir munu tala þar mest sem sjá sér hag af því að slá sér upp á kostnað Hönnu Birnu. Er umhugsunarvert að velta fyrir sér muninum á umfjöllun um mál Björgvins G. Sigurðssonar sem neyddist til að segja af sér sem sveitarstjóri Ásahrepps og um mál Hönnu Birnu. Bæði hafa setið í opinberum störfum og bæði hafa viðurkennt mistök. Fréttir ríkisútvarpsins af Hönnu Birnu eru í hefðbundnu fari og sé tónninn í þeim réttur vill fréttastofan að hún hverfi af alþingi.

Þegar ég las álit UA minntist ég frásagnar sem ég las um ástandið í Hvíta húsinu á tíma Bills Clintons þegar eitthvert mál honum tengt var til opinberrar rannsóknar, ef til vill það sem tengdist leynilegu sambandi hans við Monicu Lewinski. Þá birtust fréttir um að innan Hvíta hússins þyrðu starfsmenn ekki að tala saman nema helst með lögfræðing við hlið sér af ótta við að eitthvað sem þeir segðu yrði rannsakendum tilefni til fyrirspurna og ályktana.

„Samstarfsmannasamtöl“ innanríkisráðherrans og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um mál sem þeim var báðum eðlilega ofarlega í huga hafa orðið að einhverju allt öðru en þau væntu.