25.1.2013

Eftirmáli meiðyrðamáls

 

Fimmtudaginn 24. janúar felldi hæstiréttur dóm í máli sem ég hafði áfrýjað til hans vegna þess að Jón Finnbjörnsson dæmdi mig í héraði til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi 200 þúsund krónur í miskabætur fyrir „ólögmæta meingerð gegn æru“  hans og 200 þúsund krónur í birtingarkostnað auk hálfrar milljónar í málsvarnarlaun vegna ritvillu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Hæstiréttur sagði (þrír dómarar Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson):

„[V]erður að líta til þess að áfrýjandi [Björn Bjarnason] varð við kröfu um að leiðrétta hin röngu ummæli og biðja stefnda [Jóns Ásgeirs Jóhannessonar] opinberlega afsökunar á þeim bæði í dagblaði og á vefsíðu sinni. Verða ekki gerðar athugasemdir við síðarnefndu leiðréttingarnar. Verður að telja að hin ómerktu ummæli hafi upphaflega verið sett fram vegna mistaka áfrýjanda. Verður ekki talið að hin ómerktu ummæli, að teknu tilliti til leiðréttingar og opinberrar afsökunarbeiðni áfrýjanda og stöðu stefnda og þátttöku hans í opinberri umræðu um málefnið, hafi slík áhrif á persónu og æru stefnda að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma honum miskabætur úr hendi áfrýjanda. Verður áfrýjandi því sýknaður af þeirri kröfu stefnda. Með tilliti til leiðréttingar ummælanna verður heldur ekki fallist á að beita eigi heimild 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og dæma stefnda bætur fyrir kostnað við birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu.

Að teknu tilliti til krafna málsaðila í héraði og fyrir Hæstarétti og niðurstöðu máls þessa og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður hvorum málsaðila gert að bera sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla.

Áfrýjandi, Björn Bjarnason, skal að öðru leyti sýkn af kröfum stefnda, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.“

Ég lít á þessa niðurstöðu sem fullnaðarsigur minn í þessu máli. Enginn ágreiningur var af minni hálfu um ómerkingu ummælanna enda hafði ég leiðrétt þau og beðist opinberlega afsökunar. Ég segi enn hið sama og áður að hefði héraðsdómurinn staðið óhaggaður og mér verið gert skylt að greiða miskabætur og annan kostnað vegna ritvillu hefði verið farið inn á nýjar brautir við takmörkun á tjáningarfrelsinu.

Lögmaður minn var Jón Magnússon hrl. en Gestur Jónsson hrl. rak mál Jóns Ásgeirs.

Mér er ljúft að þessu máli er lokið. Það var tilefnislaust eftir að ég hafði leiðrétt ritvilluna og birt afsökun á henni. Kom niðurstaða héraðsdómarans mér mjög á óvart enda hefur hæstiréttur nú hnekkt henni að því er varðar þann þátt sem varð til þess að ég áfrýjaði honum, það er að ég hefði gerst sekur um „ólögmæta meingerð gegn æru“ Jóns Ásgeirs. Þrátt fyrir þessa meginniðurstöðu hæstaréttar sá fréttastofa ríkisútvarpsins ástæðu til að túlka dóminn á þennan hátt: „Dómur Hæstaréttar er að nokkru samhljóma niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, það er að segja að því leyti að tvenn ummæli eru ómerkt.“

Á vefsíðunni visir.is  birtist gömul mynd af mér þar sem ég sit í forstofu húss míns og að baki mér sést í málverk eftir Karólínu Lárusdóttur og uppstoppaðan fálka. Undir myndinni er þessi fyrirsögn:

Björn dæmdur í  Hæstarétti

 

Mér þótti fyrirsögnin svo fráleit að ég sendi Jóni Hákoni Halldórssyni, fréttastjóra á visir.is, þetta tölvubréf að kvöldi fimmtudags 24. janúar:

 „finnst þér fyrirsögnin á frétt þinni um fullnaðarsigur minn gegn vinnuveitanda þínum í HR í dag sæmandi? Ég hafði sjálfur ómerkt ummælin sem hæstiréttur ómerkir einnig um leið og hann hafnar öllum efnislegum kröfum Jóns Ásgeirs – en þið á visir.is takið  þann pól í hæðina að ég hafi verið dæmdur og setjið í fyrirsögn – ummælin voru dæmd ómerk en ég sýknaður af öllum kröfum.

 Hvernig væri að leiðrétta þetta og biðja mig afsökunar?“

 

Að morgni föstudags 25. janúar hringdi Þorbjörn Þórðarson fréttamaður hjá 365 í mig og sagði mér að Jón Hákon hefði sagt sér frá bréfi mínu enda hefðu þeir staðið saman að gerð fréttarinnar og sett hana á vefinn en tekið hana út sl. nótt eftir að athugasemd mín hafði borist Jóni Hákoni.  Fréttin væri því ekki lengur á vefnum og sagðist Þorbjörn íhuga að birta aðra frétt þar sem áréttað yrði að ég hefði verið sýknaður, hann hefði lesið dóminn og sæi það. Þá tók hann fram að hann hefði ekki samið fyrirsögnina, það hefði Freyr Einarsson ritstjóri gert, hann hefði hringt og sagt að þetta yrði fyrirsögnin. Freyr vissi af því að Þorbjörn mundi hringja í mig og segja mér þetta.

 Í Fréttablaðinu birtist frétt um málið 25. janúar og þar sagði meðal annars:

„Hæstiréttur segir leiðréttingarnar þó ekki hafa verið nákvæmar og þær dugi ekki til að fría Björn sök í málinu.“

Mér er ekki ljóst hvar þetta stendur í dóminum. Eins og áður segir voru ummælin um að Jón hafi verið dæmdur fyrir fjárdrátt dæmd ómerk enda var hann dæmdur fyrir meiriháttar bókhaldsbrot.

Fálkinn flýgur

 Eins og áður sagði er uppstoppaður fálki fyrir aftan mig sem birtist á visir.is. Ég var á sinfóníutónleikum að kvöldi 24. janúar en opnaði símann í hléinu og sá þá þetta bréf:

„On 24.1.2013, at 19:53, "Ásta Sigrún Magnúsdóttir" <astasigrun@dv.is> wrote:

„Sæll Björn.

 Ég fékk í kvöld nokkrar ábendingar um mynd (sjá viðhengi) sem er verið að ræða á Facebook. Þar er verið að velta því fyrir sér hvort og hvernig þú eignaðist þennan fálka sem blasir við í bakgrunni myndarinnar. Ég sé að Ómar R. Valdimarsson, fréttaritari Bloomberg, er að velta þessu fyrir sér auk fleiri einstaklinga. Má segja að fálki þinn fljúgi á Facebook.  Hverju svarar þú þessari spurningu Ómars og hvað finnst þér um að hann sé að velta sér upp úr þessu.

 Með kveðju

Ásta Sigrún Magnúsdóttir

Blaðamaður“

 

 

Ég svaraði bréfi Ástu Sigrúnar á þennan hátt kl. 20.01:

 „Flest finna menn sér til dundurs á dv og netinu. Þennan fálka erfði ég frá föður mínum. Hve gamall hann er veit eg ekki. Hann er eldri en eg. Bj Bj.“ 



Þegar ég kom heim fór ég á fésbókina og sá þá þessi orðaskipti og blandaði mér í þau en afritaði til að geyma:

 „Omar R. Valdimarsson Hvernig eignaðist Björn Bjarnason þennan fálka? Í 5. gr. reglugerðar 262/1996 segir að óheimilt sé að versla með slíka fugla og að þá eigi að afhenda Náttúrufræðistofnun (sem getur afhent þá aftur finnanda, hafi þeir fundist dauðir).

Máni Atlason Hefur hann ekki bara eignast fálkan fyrir 1996?

Omar R. Valdimarsson Heldur þú það Máni? Var ekki einhver sambærileg reglugerð fyrir 1996?

Sigurður Már Jónsson Heldur þú að þú sért dottinn niður á nýtt Kollumál Ómar?

Omar R. Valdimarsson Haha, nei, ég er nú aðallega bara að vera með almenn leiðindi, Siggi!

Helga Vala Helgadóttir múhahahahah

Omar R. Valdimarsson Máni, skv. 2. mgr. 35. gr. eldri laga um fuglaveiðar og fuglafriðun nr. 33/1966 var "með öllu óheimilt" að eiga uppstoppaða fálka nema maður væri safn. Og Björn er spes, en hann er ekki safn...

Omar R. Valdimarsson Jon Hakon Halldorsson, síðan hvenær er mynd GVA? [þ.e. myndin af Bj. Bj. með fálkanum.

Jon Hakon Halldorsson Ég yrði að fá að svara þeirri spurningu seinna, enda kominn heim úr vinnunni. Fullyrði þó að hún er tekin eftir 1996. Ég hvet þig til að senda Birni póst enda er hann jafnan fljótur að svara. Ég geri svo fastlega ráð fyrir að um þetta verði fjallað á Bloomberg.

Omar R. Valdimarsson Haha, það yrði þá að vera í stærra samhengi, t.a.m. í grein um veltuna í verslun með friðaða fugla á Íslandi!

Jóhannes Albert Kristbjörnsson Getur ekki verið að báðir séu staddir (búsettir) á Náttúrufræðistofnun!

Egill HelgasonÞeir eru báðir uppstoppaðir.

Thorvaldur Örn Kristmundsson Ómar, þú ættir að skoða híbýli á norðurlandi.. þar þykir eðlilegt að hafa fálka ( sem auðvitað lést af slysförum.. not ) og jafnvel gætu leynst í veiðihúsum og veitingarhúsum svona gripir.. nánast því sprelllifandi

Máni Atlason Björn hreyfir sig daglega og kraftbloggar, hann er fjarri því að vera uppstoppaður. Ég hef séð uppstoppaða fálka víðar, má vera að þeir hafi verið stoppaðir upp fyrir 1966 og gangi í arf? Hvað segir dýraréttarfræðingurinn Árni Stefán Árnason?

Björn BjarnasonBloomberg hefur lifandi fréttahauk hér á landi og umræðustjóri ríkisútvarpsins heldur auðvitað vöku sinni, leggur gott eitt og efnislegt til þessa máls eins og annarra. Einhverjum hefði líklega komið til hugar að láta dómstóla skera úr um hvort í orðum þeirra felist meingerð við æru.

Omar R. Valdimarsson Þú ert lögfræðingur, Björn, ef ég man rétt, og hefur einhverja reynslu í meiðyrðamálum. Heldur þú að eitthvað hér að ofan brjóti í bága við meiðyrðalöggjöfina?

Björn BjarnasonDómarar ráða því ef til þeirra er leitað. Héraðsdómur taldi ritvillu meingerð við æru Jóns Ásgeirs en hæstiréttur ómerkti þann dóm. Hvað skyldu dómarar segja um dylgjur um brot á reglugerð 262/1996? Eða ummæli umræðustjórans? Orð manna sem starfa fyrir Bloomberg og ríkisútvarpið hafa meiri vigt en venjulegra skriffinna á netinu. Meiðyrðamál eru ekki áhugamál mitt en álitaefnið er þess virði að velta því fyrir sér og skoða í ljósi dóma sem fallið hafa í meiðyrðamálum.

Þór Jónsson DV spurði Björn um fálkann og hann svaraði: „Þennan fálka erfði ég frá föður mínum. Hve gamall hann er veit ég ekki. Hann er eldri en ég.“

Omar R. Valdimarsson Þetta er eitt af mikilvægustu lögfræðilegum álitaefnum nútímans, Björn. Að undanskildu Icesave. Kannski.“

Þeir sem leggja orð í belg í því sem vitnað er til hér að ofan eru lögfræðingar og fjölmiðlamenn. Er skrýtið að Ómar R. Valdimarsson, fréttaritari Bloombergs, skuli telja hinn uppstoppaða, gamla fálka hið fréttnæmasta þegar um er að ræða spurninguna um tjáningarfrelsið og síðan klykkja út með því að gera lítið úr því sem hann sjálfur kaus að gera að umræðuefni.  Orð Egils Helgasonar bera með sér illkvittni – eða skyldi þetta eiga að vera fyndið?

Ég birti þetta hér á síðunni til að það geymist sem heimild um þessi málaferli. Lýsingin á því sem gerðist innan 365 miðla þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson starfar nú sem yfirráðgjafi sýnir að andi Baugsmiðlanna svífur þar enn yfir vötnum.