25.10.2012

Hrægammasjóðir sækja gegn Íslandi

Viðvaranir í Morgunblaðinu fimmtudaginn 25. október vegna nauðasamninga þrotabúa föllnu bankanna minna aðeins á fréttir um að ekki væri allt með felldu í íslenska bankakerfinu fyrir hrun. Þar skapaði Morgunblaðið sér sérstöðu og sætti ámæli þeirra sem töldu ástæðulaust að draga of svarta mynd af ástandinu. Þá léku einstaklingar sér með fjármuni og lauk leiknum ekki fyrr en með falli bankanna. Nú eru opinberir aðilar í aðalhlutverki. Fyrir liggur skýrsla á þúsundum blaðsíðna um  rannsókn á falli bankanna 2008. Meginstef hennar er að viðbúnaður skuli hafður og tekið mið af hættumerkjum auk þess beri stjórnvöldum að starfa fyrir opnum tjöldum og upplýsa almenning um stöðu og gang mála.

Frásögn Harðar Ægissonar, blaðamanns Morgunblaðsins, ber með sér að leyndarhyggja ríki hjá opinberum aðilum. Enginn virðist vita hverjir kröfuhafar í þrotabú bankanna eru. Nauðasamningar slitastjórna Glitnis og Kaupþings öðlast þó ekki gildi nema Seðlabanki Íslands samþykki þá. Bankinn hefur einnig vald til að ákveða hvort kröfuhöfunum verði greitt í erlendri mynt samkvæmt samningunum. Viðmælendur Morgunblaðsins vilja að það verði ekki gert. Þeir hvetja til að greiðslurnar verði ákveðnar í íslenskum krónum enda um íslensk fyrirtæki að ræða.

Veruleg hætta er talin á að hvorki seðlabankamenn né stjórnarmeirihlutinn á þingi hafi burði eða þor til að veita erlendum kröfuhöfum nægilegt viðnám þegar þeir heimta að fá greiðslur í erlendri mynt.  Í Morgunblaðinu er hvatt til þess að erlendir kröfuhafar verði knúnir til að setjast að samningaborði til að ná sem hagstæðastri niðurstöðu fyrir íslenska þjóðarbúið. Sterkasta vopnið í því efni sé að halda í 1.800 milljarða króna erlendar eignir þrotabúanna og knýja fram lausn varðandi um 850 milljarða króna innlenda eign þrotabúanna en þessi tala er hluti vandans vegna snjóhengjunnar svonefndu eða aflandskrónuvandinn. Í Morgunblaðinu segir að snjóhengja aflandskrónanna nemi ríflega 1.150 milljörðum króna.

Snjóhengjan er helst talin standa afnámi gjaldeyrishaftanna fyrir þrifum. Vandinn er hins vegar sá að hvorki vinstri grænir (VG) né Samfylkingin hafa áhuga á að losna við snjóhengjuna á þennan hátt. VG-menn vilja halda í hana til að geta stjórnað í skjóli hafta, öfgafullum vinstrisinnum líður best í slíku andrúmslofti. Samfylkingarfólk vill halda í höftin til að nota þau í ESB-áróðri sínum: ekki sé unnt að losna við höftin nema með inngöngu í ESB. VG er á móti ESB-aðild og telur sig því geta búið við höftin til langframa. Stjórnmálamenn með þessar skoðanir hafa ekki áhuga á öðrum leiðum til að greiða fyrir afnámi haftanna.

Lýsing Morgunblaðsins ber með sér að verði ekki spyrnt við fótum við uppgjör þrotabúanna verði unnið gegn markmiðum neyðarlaganna frá því fyrir fjórum árum. Megingildi þeirra fólst í viðleitni til að láta erlenda lánardrottna sitja uppi með áhættuna sem þeir tóku með glannalegum viðskiptum við áhættusækna banka. Markmið laganna var að kröfum á hendur bönkunum yrði ekki velt á herðar íslenskra skattgreiðenda. Tvennar Icesave-kosningar sönnuðu að Íslendingar hafna allri slíkri sameiginlegri þjóðarábyrgð á óreiðuskuldum banka eða þrotabúum þeirra.

Í Morgunblaðinu er lýst hörmulegum afleiðingum þess fyrir þjóðina verði ekki staðið gegn erlendu kröfuhöfunum við uppgjör þrotabúa bankanna. Færð eru rök fyrir því að skuldir Íslendinga séu meiri en Grikkja og staðan yrði óbærileg ef Seðlabanki Íslands samþykkti kröfur erlendu kröfuhafanna á hendur þrotabúunum.

Hér skal tekið undir með Jóni Daníelssyni, prófessor í hagfræði og fjármálum við London School of Economics, sem segir í Morgunblaðinu:

„Íslenska ríkisvaldið á ekki að hika við að beita þeim úrræðum sem það hefur yfir að ráða til að verja langtímahagsmuni Íslands gegn erlendum kröfuhöfum, hrægammasjóðum, sem keyptu þessar kröfur [á þrotabú bankanna] á spottprís eftir að gjaldeyrishöft voru sett. Þessar kröfur falla undir íslensk lög og það verður ekki hægt að ganga að eignum íslenska ríkisins erlendis á nokkurn hátt. Þá staðreynd ber íslenskum stjórnvöldum að nýta sér. Alþingi getur breytt lögunum með þeim hætti að hagsmunum Íslands sé ekki teflt í tvísýnu á kostnað erlendra vogunarsjóða. Hótanir þeirra í garð okkar eru innistæðulausar. Að fara illa með erlenda vogunarsjóði hefði engin áhrif á trúverðugleika íslenska ríkisins. Þvert á móti myndi ríkja skilningur á því að verið væri að bregðast við sértækum aðstæðum með þeim hætti sem nauðsyn krefði.“

Þessi orð eru flutt í anda þess sem gert var í október 2008 þegar lagður var grunnurinn að því sem þó hefur áunnist eftir hrun. Hættan er hins nú að stjórnvöld hafi hvorki vilja né þrótt til að taka þann snúning á erlendum kröfuhöfum sem er nauðsynlegur til að sporna gegn eyðileggingu á ávinningi neyðarlaganna.

Ótti við að ræfildómur ráði ferð núverandi ríkisstjórnar og fylgismanna hennar er ekki ástæðulaus. Í Morgunblaðinu er fullyrt að fulltrúar erlendu kröfuhafanna í þrotabú bankanna, að stærstum hluta vogunarsjóðir í Bandaríkjunum og Evrópu, hafi „greitt aðgengi“ að ráðherrum, embættismönnum og þingmönnum til að kynna sjónarmið sín og hagsmuni. Hér sé tekið betur á móti þessum mönnum hjá ráðamönnum og eftirlitsaðilum annars staðar á Vesturlöndum. Af þessum orðum má ráða að þeir sem vinni með þessum aðilum á bakvið tjöldin hafi ekkert lært af rannsóknarskýrslu alþings. Hver heldur til dæmis að skráðar séu fundargerðir eftir viðræður trúnaðarmanna þjóðarinnar við fulltrúa hrægammasjóðanna?

Hörður Ægisson blaðamaður nefnir skýrt dæmi um eftirgjöf vegna krafna erlendu kröfuhafanna. Hún gerðist fyrir opnum tjöldum af því að lesa má um hana í þingtíðundum frá mars 2012 og Helgi Hjörvar (SF), formaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis, stjórnaði undanhaldinu. Hann sagði þegar hann kynnti breytingartillögu sem hann stóð fyrir í nefndinni að hún lyti að „umtalsverðum hagsmunum fyrir slitastjórnirnar“. Helgi auðveldaði erlendum kröfuhöfum að flytja fé úr landi. Í grein Harðar Ægissonar segir:

„„Menn fóru bara á taugum,“ segir heimildarmaður Morgunblaðsins, og bætir því við að þetta sé líkast til „stórkostlegustu mistök Alþingis“ á síðari tímum.“

Í landsdómsmálinu tókst saksóknara í umboði ríkisstjórnarflokkanna og fylgifiska þeirra á alþingi ekki að sanna annað saknæmt á Geir H. Haarde forsætisráðherra í aðdraganda hrunsins en hann hefði ekki látið bóka á ríkisstjórnarfundum vitneskju sína um alvarlega stöðu innan íslenska bankakerfisins. Hver er staðan nú þegar miklir þjóðarhagsmunir eru í húfi?

Nú láta ráðamenn íslensku þjóðarinnar og þó einkum Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem hafa ráð ríkisstjórnarinnar í hendi sér eins og allt hafi farið á hinn besta veg undir sinni stjórn og ekki sé við neinn vanda að glíma í peningamálum og fjármálum. Nú skuli menn einbeita sér að breytingum á stjórnarskránni og aðild að ESB. Ýta verði öðrum málum til hliðar. Hinn kvartsári Steingrímur J. vill láta hylla sig með lófataki á mannamótum annars telur hann sig vera við jarðarför ef marka má orð hans í ræðu á fundi LÍÚ fimmtudaginn 25. október þar sem hann gekk án lófataks í ræðustól.

Stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi og með leynd hafa fulltrúar hrægammasjóða megnað að hræða ráðherra, þingmenn og embættismenn. Staðan minnir aðeins á aðdraganda þess að upplýst var um inntak Icesave-samninganna, það átti að fara leynt og þannig í gegnum þingið.

Taki stjórnarandstaðan ekki stöðu þrotabúa bankanna til meðferðar og umræðu á alþingi á þann veg að eftir sé tekið innan lands og utan stendur hún ekki undir nafni.

Hvar er fyrirstaðan á alþingi? Hér með er skorað á þá sem bjóða sig fram í prófkjörum um þessar mundir að gera málstað þjóðarinnar að sínum í stríðinu við hrægamma vogunarsjóðanna.