13.9.2012

Óvæginn fréttaflutningur - stöðnuð jafnréttisumræða

Eins og lesendur síðu minnar hafa séð fer ég nokkuð reglulega í Skálholt og tek þátt í qi gong kyrrðardögum. Þar hef ég kynnst mörgu góðu fólki, meðal annars Kristni Ólasyni sem var rektor skólans í Skálholti til skamms tíma. Þessi kynni hafa verið góð og ánægjuleg. Þess vegna kom mér í opna skjöldu rætinn fréttaflutningur sem tengdist honum og hófst í DV 13. ágúst 2012. Margt var óljóst sagt í fréttunum en það hefur skýrst eftir að Guðrún Guðlaugsdóttir skrifaði viðtal við Kristin sem birtist í Sunnudagsmogganum laugardaginn 8. september.

Guðrún minnir á að fréttaflutningur um séra Kristin Ólason hafi hafist 13. ágúst í sumar í DV með fyrirsögninni:  „Fyrrverandi rektor í Skáholti laug til um doktorsgráðu.“ Þar sagði að Kristinn hafi fengið hærri laun hjá HÍ vegna doktorsgráðunnar en mundi borga ofgreidd laun til baka og að háskólinn ætlaði ekki að kæra Kristin. Guðrún spurði Kristin um hve háa fjárhæð hann hefði greitt til baka og hann svarar: „Rétt rúmar sextíu og tvö þúsund krónur.“ Þá kemur fram að stundakennari með MS-próf hafi  nú við HÍ 1.790 krónur á tímann, þeir sem hafa doktorspróf fá nú 1.965 krónur á tímann.

Í samtali Guðrúnar og Kristins kemur fram að hann hafi verið í framhaldsnámi í Þýskalandi í tæp átta ár og lagt stund á gamlatestamentisfræði. Lokið öllum tilskildum námskeiðum og skrifað tæplega 350 blaðsíðna ritgerð sem hefði verið frágengin vorið 2003. Hann hefði hins vegar ekki lokið prófi úr völdum námsgreinum og þá hefði rítgerðin verið óútgefin þegar hann flutti heim til Íslands. Hann hefði gert þau „meginmistök“ að gefa hér til kynna að hann hefði lokið doktorsprófinu.  Hann hefði talið sér trú um að hann „mundi ljúka því sem upp á vantaði í prófunum og prentun ritgerðarinnar innan árs“ eftir heimkomuna.  Það hefði ekki tekist.  „Ég varð fljótt upptekinn af nýjum viðfangsefnum og próflok sátu á hakanum of lengi,“ segir Kristinn við Guðrúnu.

Allt dró þetta þann dilk á eftir sér að Kristinn missti kennslustarfið Háskóla Íslands en áður hafði honum verið sagt upp starfi rektors í Skálholti. Brá mér við þá ákvörðun því að hann hafði reynst mér einstaklega góður í samstarfi vegna verkefna þar og þá var ekki síður ánægjulegt að njóta leiðsagnar hans um staðinn. Fékk ég bæði leiðsögn hans fyrir Íslendinga og útlendinga, alltaf var hann boðinn og búinn, og eiginkona hans lét sitt ekki eftir liggja meðal annars með söng í Skálholtsdómkirkju til kynningar á tónlistararfi þjóðarinnar.

Þá var Kristinn að sögn ekki síður vel liðinn kennari við guðfræðideild en innan fræðigreinar sinnar beitti hann sér meðal annars með öðrum fyrir útgáfu tímaritsins Glímunnar.

Í viðtalinu við Guðrúnu Guðlaugsdóttur svarar Kristinn spurningu um viðbrögð sín við því sem fram kom í fjölmiðlum og prófgráðu hans: „Það hefur komið mér á óvart hversu óvæginn fréttaflutningur af þessu máli hefur verið.“ Þetta eru hógvær orð um einskonar galdraofsóknir. Eitt er að blað eins og DV fari út fyrir hófleg mörk í skrifum sínum annað að Háskóli Íslands skuli ekki skýra þannig frá málavöxtum að almenningi verði ljóst í hverju „brot“ starfsmanns skólans er fólgið – stjórnsýslureglur mæla fyrir um meðalhóf í málum sem þessum eins og öðrum. Þar er ekki aðeins um það að ræða hvernig tekið er á málum af yfirvaldinu heldur hvernig staðið er að miðlun upplýsinga um viðkomandi mál.

Eitt er víst að ég áttaði mig ekki á málavöxtum fyrr en ég las viðtal Guðrúnar. Af því er ljóst að of þung högg hafa verið látið dynja á Kristni á opinberum vettvangi miðað það sem í húfi hefur verið. Enn hefur ekki verið upplýst hvað veldur þessari hörku í málinu, hvaða hagsmunir séu þar að baki eða almennt að baki því að gera þetta að fjölmiðlamáli.

Stöðnuð jafnréttisumræða

Nokkrar umræður hafa orðið um jafnréttismál. Þær eru allar á þann veg að gert sé á hlut kvenna og látið er í veðri vaka að ekkert hafi áunnist síðan ég lét hin frægu orð falla um páskana 2004 vegna álits kærunefndar jafnréttismála að teldi nefndin sér skylt að komast að þeirri niðurstöðu sem hún gerði þá teldi ég það til marks um að lögin væru „barns síns tíma“.

Stundum er verra á vera undan tímanum en eftir. Ég hef líklega verið það 2004 ef marka má tvær nýjar bækur um stöðu kvenna, önnur í Bandaríkjunum The End of Men  en höfundur hennar er Hanna Rosin, hin í Bretlandi The Richer Sex en Liza Mundy er höfundur hennar.

Liza Mundy skrifar grein í tímaritið The Spectator 8. september 2012 undir fyrirsögninni: The great pay shift og undir henni segir að fyrr en nokkur vænti verði breskar konur ríkari en breskir karlar.  Hún segir að í Bretlandi séu konur 58% allra sem ljúki háskólaprófi, helmingur þeirra sem öðlist lögmannsréttindi, 56% allra læknanema í samanburði við 25% á sjöunda áratugnum. Hún bendir á að hertogaynjan af Cambridge , Kate Middleton, verði líklega fyrsta drottning Bretlands með háskólapróf.

Í greininni segir að stúlkur hafi farið fram úr piltum innan skólakerfisins í Bretlandi um miðjan níunda áratuginn og þær standi framar piltum í öllum félagslegum hópum. Þá setji konur sér hærri markmið en karlar. Hagfræðingar hafi sýnt að eftir að pillan kom til sögunnar hafi ungar konur endurmetið framtíð sína. Þær hafi tekið að fjárfesta í menntun og þjálfun þegar líkur á að óvænt þungun mundi ekki raska áformum þeirra. Sömu sögu sé að segja um foreldra. Ný rannsókn í Bandaríkjunum sýni að konur vænti hærri tekna og meiri starfsframa en karlar.

David Brooks, dálkahöfundur hjá The New York Times, segir í tilefni af The End of Men í dálki sem birtist 10. september að lesendur sínir viti vafalaust um meginstraumana; tekjur hafi aukist í samræmi við menntun undanfarna áratugi en þetta virðist hafa farið fram hjá körlum. Í lok dálksins segir Brooks:

„Fyrir fjörutíu árum aðhylltust karlar og konur ákveðna hugmyndafræði um það hvað það táknaði að vera karl eða kona. Rosin segir að nú á tímum séu ungar konur frekar eins og óskrifað blað, þær hafi sagt skilið bæði við feminíska og for-feminíska fordóma. Karlar haldi enn í karllægar reglur sem valdi þeim þröngsýni og hefti för þeirra.

Hafi hún rétt fyrir sér verða karlar að hverfa frá því að hafa Akkilles sem fyrirmynd og beygja aðra undir vilja sinn, þeir eiga frekar að líta til Ódysseifs hins úrræðagóða og snjalla. Þeir verða að viðurkenna að þeir eru ókunnir menn í ókunnu landi.“

Hér á landi er þróunin hinn sama og í Bandaríkjunum og Bretlandi þegar litið er til háskólamenntunar og skiptingarinnar milli karla og kvenna. Hins vegar eru umræður um jafnréttismál með fornaldarblæ hér á landi miðað við lýsingar á efni hinna nýju bóka. Það er kannski engin furða að þeir sem eigna sér forystu í jafnréttisumræðum hér á landi taki illa að minnst sé á „barn síns tíma“ í þeim umræðum, lögin er ekki hið eina sem þarf að skoða í því ljósi. Færa má fyrir því rök að íslenska orðræðan sjálf hafi staðan á einhverjum tíma sem er löngu liðinn.