18.5.2012

Jóhanna leitar samninga við Hreyfinguna - ESB-málið hangir á bláþræði

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á alþingi föstudaginn 18. maí að ríkisstjórnin ætti í samningaviðræðum við Hreyfinguna um ýmis mál. Hún vildi ekki greina frá efni viðræðnanna enda gerðu menn það ekki í „miðjum samningaviðræðum“. Þá kynnti ríkisstjórnin um svipað leyti stóraukin ríkisútgjöld á kosningaárinu 2013. Jafnframt tók forætisráðherra af skarið að ekki yrði kosið um afstöðu til Evrópusambandsins fyrr en að loknum aðildarviðræðum.

Mikil gerjun í stjórnmálum birtist á alþingi að morgni föstudags 18. maí og er augljóst að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ríkisstjórnin geti seti fram til þingkosninga í apríl 2013.

Í fyrsta lagi ræða forystumenn ríkisstjórnarinnar við þrjá þingmenn Hreyfingarinnar um samstarf til að tryggja stjórninni meirihluta. Viðræður við Hreyfinguna hófust milli jóla og nýárs. Það er þó ekki fyrr en nú sem forsætisráðherra viðurkennir að þær snúist um líf og framtíð ríkisstjórnarinnar. Til þessa hefur verið látið í veðri vaka að viðræðurnar lúti að meðferð mála á alþingi og framgang gælumála Hreyfingarinnar eins og afgreiðslu á tillögum  stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í öðru lagi hafa Jóhanna og Steingrímur J. komið sér saman um að sigla ESB-málinu á þann veg að stærstu þættir viðræðna dragist fram yfir þingkosningar 2013. Það gefur Steingrími J. færi á að láta næstu mánuði eins og hann hafi til dæmis fallist á mikilvæga þætti í varnarlínum bændasamtakanna og ætli að sýna festu í makríldeilunni.

Verði hvoru tveggja fylgt eftir af þunga af Íslands hálfu leiðir það sjálfkrafa til þess að ekkert samkomulag næst við ESB og ekkert verður um að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er yfirlýst markmið Jóhönnu og Steingríms J. að slík atkvæðagreiðsla fari fram um samning við ESB. Gerist það ekki nema Steingrímur J. slái af þeim sjónarmiðum sem hann hefur kynnt undanfarið um andstöðu við niðurfellingu tollverndar á landbúnaðarvörum og innflutning á hráu kjöti.

Í makríldeilunni næst ekki samkomulag nema Íslendingar afsali sér tugum milljarða króna verðmætum. ESB segist ætla að beita refsiaðgerðum á árinu 2013 til að ná þessu fé af Íslendingum. Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt nein samningsmarkmið í sjávarútvegi sem tryggja óbreyttan aðgang Íslendinga að makrílstofninum samhliða aðild að ESB.

Í þriðja lagi hafa Jóhanna og Steingrímur J. sameinast um að ESB verði ekki kynnt tímamörk fyrir lyktir aðildarviðræðna. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur reifað tillögur í þessu efni. Jafnharðan hefur verið blásið á þær af stjórnarforystunni. Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahagsráðherra, lýsti þeirri skoðun í ræðu á fundi Samtaka atvinnulífsins  16. maí 2012 að til greina kæmi að þjóðin kysi um hvort halda ætti ESB-aðildarviðræðum áfram til að fá fram skýran vilja þjóðarinnar. Jóhanna sagðist 18. maí 2012 vera „gjörsamlega ósammála“ að fresta ESB-viðræðunum, þær væru í eðlilegu ferli.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði á alþingi 18. maí 2012 að skoðun sín á því að hag Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins hefði styrkst. Staða Evrópu væri flókin og vandséð að skynsamlegt væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Taldi hún nauðsynlegt að þjóðin fengi að kjósa um aðildarviðræður ekki síðar en í næstu alþingiskosningum. Svandís er ekki í armi með Ögmundi Jónassyni innan VG og vekja þessi ummæli sem hafa að geyma afbrigði af skoðun hans um að setja ESB tímamörk því meiri athygli en ella hefði verið.

Spurningin um framhald aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið hlýtur að vega þungt í viðræðum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar við Hreyfinguna. Fráhvarf frá stuðningi við þetta kjarnaatriði í stefnu ríkisstjórnarinnar birtist ekki aðeins hjá Árna Páli og Svandísi Svavarsdóttur. Jón Bjarnason, þingmaður VG, hefur fengið sig fullsaddan af málinu.

Framtíð ESB-viðræðnanna var rædd hvað eftir annað í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra á alþingi 26. apríl 2012. Þór Saari talaði þar fyrir hönd Hreyfingarinnar. Hann sagði að hið „alvitlausasta“ sem Íslendingar gætu gert á þessari stundu væri að hætta aðildarviðræðum við ESB „í miðju kafi án þess að klára þær“. Hann sagðist ekki vita hvaða afstöðu hann hefði sjálfur til ESB-aðildar. Þór Saari sagði þó jafnframt í þessum umræðum að hann mundi styðja að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort þjóðin vildi að aðildarumsóknin yrði dregin til baka. Hann er sem sagt beggja handa járn í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Jóhanna og Steingrímur J. gera sér hins vegar vonir um að hann standi með þeim reyni á ESB-málið í atkvæðagreiðslu á alþingi.

Guðmund Steingrímsson sem myndað hefur eigin flokk á alþingi, Bjarta framtíð stendur mun nær aðild að ESB en Þór Saari segist gerast. Virðist Guðmundur bæði hallast að framhaldi aðildarviðræðna og aðild að ESB að þeim loknum.

Lilja Mósesdóttir stofnaði flokkinn Samstöðu. Hún lýsti í umræðunum á alþingi 26. apríl að hún hefði skipt um skoðun á aðildarviðræðunum við ESB, það ætti ekki að leiða þær til lykta heldur gefa þjóðinni strax færi á að greiða atkvæði um hvort halda bæri umsóknarferlinu áfram. „Ástæðan er sú að ég óttast að umsóknarferlið muni standa yfir í mörg ár, meðal annars vegna vandræða Suður-Evrópuþjóða sem eru hluti af evrusvæðinu. Ég óttast að aðildarumsóknin skyggi á brýn úrlausnarmál í næstu kosningum ef ekki verður búið að taka afstöðu til þess hvort halda eigi aðildarumræðunum áfram,“ sagði Lilja og bætti við:

„Við erum ekki að tala um að leggja umsóknina á ís eða hætta henni, við erum að tala um að fólk fái að segja skoðun sína miðað við þá stöðu sem uppi er í aðildarviðræðunum hér og nú.

Hvað varðar stöðu Evrópusambandsins tel ég að það sé að koma betur og betur í ljós að þetta er nýfrjálshyggjubandalag.

Síðan vil ég geta þess að ég hef miklar efasemdir um það bandalag sem Evrópusambandið er. Ég fékk bréf frá hagfræðingi sem ég hef haft samskipti við í mörg ár, hagfræðingi sem býr í Grikklandi, sem gat þess að við síðustu skuldaleiðréttingu hefðu háskólar og spítalar verið neyddir til að setja reiðufé sitt til ríkisins með því að kaupa ríkisskuldabréf sem síðan voru lækkuð um helming að virði. Það var gert til þess að einkageirinn í Grikklandi þyrfti ekki að taka jafnmikið á sig og annars hefði orðið. Háskólar og spítalar voru látnir kaupa verðlaus ríkisskuldabréf til að hlífa einkageiranum og þá sérstaklega þýskum fjárfestum.“

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, sagði í umræðunum 26. apríl:

„Sumir [Ögmundur Jónasson] hafa talað fyrir því að flýta því að framkalla efnislega niðurstöðu og að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að draga viðræður á langinn. Ég tek einnig undir það. Það er talað um að setja tímamörk og leyfa þjóðinni að taka afstöðu eins og henni var lofað. Í það minnsta er í mínum huga alveg ljóst að það verður að endurskoða þetta viðræðuferli og stinga ekki hausnum í þann sand að láta eins og ekkert sé að gerast í Evrópu.“

Þá sagði Guðfríður Lilja að það þyrfti engan aðildarsamning til að taka upplýsta afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, langt í frá. Þess vegna væru ríkir og sterkir ESB-sinnar á alþingi og ríkir og sterkir ESB-andstæðingar, menn vissu í öllum meginatriðum um hvað spurningarnar snerust.

Sú afstaða stjórnarþingmanna núverandi og fyrrverandi sem hér er lýst veldur því að það rennur kalt vatn milli skinns og hörund á Jóhönnu Sigurðardóttur í hvert sinn sem hún gefur yfirlýsingar sem lúta að því að aðildarviðræðurnar að ESB séu á beinu brautinni. Hún veit í raun ekkert um hvort hald sé í þessum yfirlýsingum sínum.

Þegar við blasir að líf hinnar ömurlegu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur lafir á því að ESB-stefnan nái fram að ganga hljóta menn að spyrja hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem veittu ESB-málinu brautargengi á sínum tíma séu enn sama sinnis og telji öllu skipta að samningur náist. Nú er til dæmis ljóst að hann þýðir milljarða tekjutap vegna missi á einhliða rétti til makrílveiða auk þess sem grafið yrði undan íslenskum landbúnaði. Þessir þingmenn hafa ekkert leyfi til að þegja þunnu hljóði eða láta eins og ekkert hafi breyst hér á landi eða innan ESB frá sumri 2009.

Stjórnmálayfirlýsingar föstudaginn 18. maí 2012 og stjórnarmyndunarviðræður Jóhönnu og Steingríms J. við Þór Saari sýna í hvert pólitískt óefni er komið hér á landi vegna þrásetu ríkisstjórnarinnar og þrákelkni forsætisráðherrans. Verði losað um álög ESB-viðræðnanna og þeim kastað af þjóðinni yrði allt öðru vísi um að litast í íslenskum stjórnmálum og varðandi framtíð þjóðarinnar. Þá yrði unnt að líta á raunveruleg úrlausnarefni og horfið frá því að láta allt snúast um heimasmíðuð pólitísk vandræðamál.