23.4.2012

Ofstækisfull ákæra missir marks í landsdómi

Dómur var kveðinn upp í landsdómi í dag í máli alþingis gegn Geir H. Haarde. Landsdómur hafnaði öllum efnistariðum í ákæru alþingis með því að sýkna Geir. Tilgangur ákærunnar var að breyta pólitískum ágreiningi í refsimál. Málatilbúnaður allur var skammarlegur.

Alþingi samþykkti ákæruna 28. september 2010. Hún var í fimm liðum. Í fyrstu liðum ákærunnar var vísað til þeirra ráðstafana varðandi aðdraganda fjármálaáfallsins sem gagnrýndar höfðu verið og lutu almennt að störfum Geirs sem forsætisráðherra á árinu 2008. Frávísunin leiddi til þess að þeir komu ekki til efnisúrlausnar í landsdómi. Eftir stóðu þá tilteknir ákæruliðir sem vörðuðu afmarkaðri aðgerðir, þ.e. eftirlit með tilteknum samráðshópi stjórnvalda, aðgerðum sem hefðu átt að stuðla að minnkun bankakerfisins á árinu 2008 og flutningi Icesave-reikninganna í dótturfélag í Bretlandi, og loks vegna ríkisstjórnarfunda.

Landsdómur sýknaði Geir af þremur efnisliðum ákærunnar en sakfelldi hann án refsingar fyrir að hafa ekki rætt málið og bókað á  ríkisstjórnarfundi.

Sama dag og alþingi samþykkti að ákæra Geir sagði ég hér á síðunni:

„Í dag, 28. september [2010], tókst 33 þingmönnum að breyta pólitískum ágreiningi í sakamál með því að ákveða, að draga skuli Geir H. Haarde fyrir landsdóm vegna bankahrunsins. Þetta er einsdæmi í Íslandssögunni. Að stjórnmálamaður skuli dregin fyrir refsidóms vegna þess, sem gerðist haustið 2008, er með öllu fráleitt.

Það er rétt, sem Geir sagði í viðtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2, að Steingrímur J. Sigfússon stendur á bakvið þennan málatilbúnað, sem stjórnast af pólitísku ofstæki. Hann og hans flokkur stóð einnig fyrir upphlaupum við alþingishúsið  í kringum áramótin 2008/09. Þeim lauk, eftir að Steingrímur J. varð ráðherra.  Vinstri-grænir, þingmenn Hreyfingarinnar og nokkrir þingmenn úr röðum Samfylkingar og Framsóknarflokksins stóðu að baki atkvæðunum 33, sem dugðu til að ákæra Geir.

Geir skýrði einnig frá því í sama samtali, að annað væri uppi á teningnum núna hjá Steingrími J. en eftir þingkosningar vorið 2007, þegar hann hefði viljað fá Geir til viðræðna við sig um myndun ríkisstjórnar í sumarbústað tengdaforeldra sinna. Þetta hef ég ekki heyrt Geir segja áður, hvorki á lokuðum fundum né í fjölmiðlum. Sýnir vel, hve mjög honum er misboðið vegna framgöngu Steingríms J., að hann skuli kjósa að upplýsa þetta baktjaldamakk að frumkvæði formanns vinstri-grænna nú.[…]

Ég hef oft áður lýst því, hve fráleitt er, að draga ráðherra fyrir landsdóm vegna pólitískra álitaefni á þeirri forsendu, að ekki hafi verið efnt til ríkisstjórnafunda eða skrifaðar fundargerðir.“

Geir H. Haarde var einmitt sakfelldur fyrir fráleitasta atriðið í ákærunni. Hann sagði í Þjóðmenningarhúsinu eftir að landsdómur féll 23. apríl að þessum lið hefði verið bætt inn í ákæruna á síðustu stundu í alþingi. Geir var ómyrkur í máli um sakfellinguna og taldi dómarana níu sem stóðu að henni hafa gripið til hennar til að réttlæta að til ákærunnar hefði verið stofnað og landsdómur komið saman. Mátti skilja hann á þann veg að um einskonar dúsu dómara fyrir meirihluta alþingis hefði verið að ræða.

Geir sagði réttilega að hann hefði leitt ríkisstjórn sína á sama hátt og gert hefði verið frá 1918 og því væri þetta ekki dómur yfir sér heldur þeim stjórnarháttum sem hér hefur tíðkast. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, sem rætt var við í RÚV sagði að þetta væri „mikill áfellisdómur“ yfir íslenskri stjórnsýslu.

Þeir sem telja þetta dóm yfir stjórnsýslunni verða að skýra mál sitt betur. „Stjórnsýslan“ ákveður ekki hvort efnt sé til ríkisstjórnarfunda eða hvaða mál eru tekin þar fyrir. Það gera ráðherrar viðkomandi málaflokks. Þeir geta einnig óskað funda um málefni sem þeim þykja brýn og þeim ber að skýra samráðherrum sínum frá þeim. Skyldan hvílir ekki á forsætisráðherra einum. Hann metur ekki síður en aðrir ráðherrar hvað nauðsynlegt er að ræða á ríkisstjórnarfundi. Meirihluti landsdóms telur sig vita betur en forsætisráðherra í ársbyrjun 2008 hvað átti að ræða þá á ríkisstjórnarfundi.

Ég er hinn eini sem hef verið ritari ríkisstjórnar og síðan ráðherra. Fyrir 37 árum eða svo tók ég saman einfaldar reglur um, hvernig mál skyldu lögð fyrir ríkisstjórn og hvernig staðið skyldi að frágangi fundargerða ríkisstjórnarinnar. Öll umsýsla um gögn á ríkisstjórnarfundum er á þann veg að auðvelt er að átta sig á því hvaða mál eru tekin þar til formlegrar afgreiðslu. Þetta er hin stjórnsýslulega hlið málsins.

Ráðherrum í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, var kunnugt um þessar reglur eða eins og ég sagði í dagbók minni hér á síðunni 25. maí 2007:

„Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar var haldinn í dag klukkan 09.30 og í tilefni dagsins var boðin terta á fundinum með kaffinu og teinu, en það er fastur liður að þeir drykkir eru í boði á fundunum fyrir utan vatn.

Eins og venja er við upphaf starfa eru ýmsar grunnreglur kynntar fyrir nýju fólki. Reglur um dagskrá ríkisstjórnarfunda, ritun fundargerða og varðveislu gagna eru að grunni til frá þeim tíma, þegar ég var ritari á ríkisstjórnarfundum undir lok áttunda áratugarins. Þá gildir sú regla í umræðum í ríkisstjórn, að ekki er vísað til ráðherra með nafni heldur embættisheiti.“

Ég hef aldrei litið á ríkisstjórnarfundi sem pólitíska málfundi. Til þeirra er efnt til að afgreiða mál, komast að niðurstöðu. Til að átta sig á henni eru lögð fram minnisblöð um það, sem tekið er til afgreiðslu. Þessi blöð eru fylgiskjöl fundargerða en niðurstaða er bókuð í fundargerðina. Nú hef ég ekki lesið landsdóminn (415 bls.) en þar hljóta að vera leiðbeiningar dómaranna níu sem sakfelldu Geir vegna skorts á ríkisstjórnarfundum um það hvenær skuli boða ríkisstjórnina til funda og kannski líka um það hvernig ríkisstjórnin skuli haga fundum sínum. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvort Jóhanna Sigurðardóttir sendir frá sér tilkynningu sem forsætisráðherra um hvort niðurstaða meirihluta landsdóms breyti starfsháttum ríkisstjórna hennar og þá á hvern veg.

Ég hef kynnst stjórn fimm forsætisráðherra á ríkisstjórnarfundum, Geirs Hallgrímssonar, Ólafs Jóhannessonar, Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Geirs H. Haarde. Hver hafði sinn stíl við að ræða mál, sem ekki snertu afgreiðslumál líðandi stundar. Stundum gerðist það í upphafi fundar og hjá öðrum undir liðnum önnur mál. Hjá öllum snerust fundirnir þó fyrst og síðast um að afgreiða mál einstakra ráðherra. Því verr sem mál höfðu verið unnin fyrir fundinn þeim mun minni líkur voru á því, að þau hlytu afgreiðslu. Væri ágreiningur milli ráðherra, sem snerti embættisleg ábyrgðarsvið þeirra var unnið að því að jafna hann, áður en málið fór úr ríkisstjórn, því að allir ráðherrar voru samábyrgir út á við á stjórnarfrumvörpum. Væri um pólitískan ágreining að ræða tóku leiðtogar flokkanna að sér að leysa hann.

Þegar Davíð Oddsson gaf vitni fyrir landsdómi 6. mars sl. beindi verjandi Geirs til hans spurningum vegna ritunar fundargerða ríkisstjórnarinnar og lýsti Davíð því í smáatriðum hvernig staðið var að þeim og mótun dagskrár ríkisstjórnarfunda. Hver ráðherra getur óskað eftir að mál sé tekið fyrir og sett á dagskrá sem lögð er fram á blaði í upphafi fundar, ráðherra sendir tilkynningu um mál sem hann vill ræða til forsætisráðuneytis. Telji forsætisráðherra ótímabært að taka mál fyrir í ríkisstjórn mælist hann til þess við viðkomandi ráðherra að það sé ekki á dagskránni.

Athyglisvert er að saksóknari vék ekki að þessum ákærulið með spurningum til Davíðs og ekki var hann heldur spurður að því hvernig hann mæti ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar um að efna beri til ríkisstjórnarfunda um mikilvæg stjórnarmálefni. Enginn hefur setið lengur sem forsætisráðherra en Davíð og hefði mátt ætla að saksóknara eða dómurum hefði þótt fengur að því að heyra mat hans á því hvernig túlka ætti 17. gr. stjórnarskrárinnar.

Ríkisstjórn Íslands gat ekki hindrað bankahrunið haustið 2008 og Geir H. Haarde er ekki fundinn sekur fyrir neitt sem lýtur að aðgerðum eða aðgerðaleysi í því sambandi. Hann er hins vegar sakfelldur fyrir að fullnægja ekki kröfum um að halda ríkisstjórnarfundi um efnahagsmál snemma árs 2008. Felst ekki þverstæða í þessari niðurstöðu?

Íslensk stjórnmálasaga geymir dæmi um að í samskiptum flokka og forystumanna flokka gerast atvik sem móta afstöðu milli manna og flokka um langan aldur. Ákæran á hendur Geir H. Haarde er slíkt mál. Hún hefur rekið fleyg á milli flokka og manna á alþingi á þann veg að ekki grær um heilt nema fleygurinn sé fjarlægður. Það var ekki gert og nú hefur dómur verið felldur.

Ofstækisfullum þingmönnum Hreyfingarinnar finnst ekki nóg að gert, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari, kjósa að gera miklu meira úr sakfellingunni en efni standa til. „Þetta er mjög mikill áfellisdómur yfir störfum hans sem forsætisráðherra. Hann brást sem forsætisráðherra, landsdómur er að segja það,“ sagði Þór Saari á mbl.is.

Þetta er furðuleg yfirlýsing í ljósi þess að Geir var ekki fundinn sekur um nein efnisatriði. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði á mbl.is: „Mér hefði fundist, út af því að hann var sakfelldur, rétt að hann hefði verið látinn bera kostnað af þessu réttarhaldi.“ Samkvæmt dómnum er allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda Geirs. Á blaðamannafundi sagði Geir að aðeins hluti málsvarnarlauna sinna yrði greiddur úr ríkissjóði samkvæmt dóminum, taldi hann að alls mundi landsdómsmálið kosta skattgreiðendur um 200 milljónir króna.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði við mbl.is að hið fyrsta sem þingmenn gerðu þegar þeir tækju sæti á Alþingi væri að sverja eið að stjórnarskránni, undirstöðu stjórnskipunar landsins. „Því var það ætíð mitt mat að þessi liður væri skýrasti og jafnframt alvarlegasti hluti ákærunnar. Stjórnarskránni var ekki fylgt og afleiðingin var að mikilvægum upplýsingum var haldið frá ríkisstjórninni sem ógnun við efnahagnum, stjórnskipuninni og lýðræðinu í landinu og undir það tekur landsdómur.“

Þessi yfirlýsing Eyglóar er í besta lagi barnaleg afsökun hennar fyrir að hafa staðið að ákærunni á hendur Geir. Ef þetta er „skýrasti og jafnframt alvarlegasti hluti ákærunnar“ hvernig í ósköpunum stendur á því að sakfellt er án refsingar?

Viðbrögð Eyglóar og Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, sem taldi sakfellinguna réttlæta allt umstangið, renna stoðum undir þá skoðun að dómurinn sé friðþæging fyrir þingmennina sem stóðu að ákærunni. Þingmenn úr hópi ákærenda hengja hatt sinn á formbrotið eftir að öllum efnisatriðum málsins hefur verið ýtt til hliðar. Geir telur að með sakfellingunni hafi níu dómarar vilja „draga að landi“ þá þingmenn sem stóðu að ákærunni, minnihluta þingsins.

Steingrímur J. Sigfússon sagði á ruv.is 23. apríl:

„Nú er búið að leiða þetta mál til lykta í samræmi við okkar stjórnarskrá og landslög. Það er fallinn dómur og ég held að menn hljóti að vera því fegnir burt séð frá því hvaða tilfinningar menn hafa gagnvart dómnum.“

Nú segir Steingrímur J. að menn hljóti að vera „fegnir“ vegna lykta málsins, eftir að hann samþykkti ákæruna á þingi 28. september 2010 sagðist hann hafa greitt ákærunni atkvæði sitt með „sorg í hjarta“.  Hér skal því spáð að þess verði aldrei minnst af neinum feginleika að til þessa máls var stofnað. Það verður ætíð talið þeim til skammar sem að því stóðu.  Þá segir hann á mbl.is:

„Auðvitað höfum við vitað alveg frá því við sameinuðumst formenn stjórnmálaflokkanna um að flytja frumvarp um rannsóknarnefnd Alþingis að eitthvað af þessu tagi gæti beðið okkar. Þar var komið inn á það að nefndin skyldi m.a. líta til ábyrgðar stjórnmálamanna eða ráðherra og Alþingi bjó sig undir niðurstöður rannsóknarnefndarinnar með því að skipa sérnefnd til að taka við skýrslunni. […] Málið fór í þennan farveg til Landsdóms og niðurstaðan nú fengin. Ég tel að hún sýni að málið átti erindi þangað sem það fór.“

Ég fullyrði að engum sem stóð að því að samþykkja skipan rannsóknarnefndar alþingis hafi dottið í hug að starf hennar mundi leiða til þess að forsætisráðherra yrði sakfelldur án refsingar fyrir að efna ekki til ríkisstjórnarfundar en öllum efnisatriðum vegna aðdraganda bankahrunsins yrði hafnað annaðhvort með frávísun eða sýknu. Má ég enn minna á að í þingumræðum um viðbrögð alþingis vegna hrunsins og skipunar rannsóknarnefndar alþingis tók Steingrímur J. æði í þingsalnum, öskraði að mér „Étt‘ann sjálfur“ æddi að ræðustólnum og starði á mig tryllingslega og gekk síðan að Geir H. Haarde sem sat í stóli forsætisráðherra og lagði á hann hendur.

Í mínum huga er þessi ofsafengna framkoma Steingríms J. og krafa hans um ákæru á hendur Geir H. Haarde ávallt nátengd. Þegar ég les ummæli hans núna sannast að litlu verði Vöggur feginn.

Ofstæki meirihluta alþingis í garð Geirs H. Haarde missti marks. Þingmönnunum 33 sem stóðu að ákærunni tókst ekki að breyta stjórnmálaágreiningi í refsingu á hendur pólitískum andstæðingum. Þeir hreykja sér nú af því að meirihluti dómenda hengdi hatt sinn á formsatriði. Skömm þeirra vegna þessa máls verður lengi minnst.