22.1.2011

Í tilefni af ævisögu Gunnars Thoroddsens

Ævisaga Gunnars Thoroddsens eftir Guðna Th. Jóhannesson fær almennt góða dóma í fjölmiðlum.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa til dæmis þóst finna þar sannanir fyrir njósnastarfsemi á vegum Sjálfstæðisflokksins. Lýsing Gunnars á kosningavél Sjálfstæðisflokksins minnir þá á vinnubrögð austur-þýska Kommúnistaflokksins sem kom á fót öryggis- og leynilögreglunni Stasi til að tryggja völd sín.

Þetta er ekki annað en gamalkunnur rógur um Sjálfstæðisflokkinn. Raunar er ekkert nýtt í því sem Gunnar segir um störf Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í tíð Birgis Kjarans og Baldvins Tryggvasonar. Þar unnu menn skipulega að því að búa flokkinn sem best undir að ná góðum árangri í opnum, lýðræðislegum kosning.  Þær voru aldrei í Austur-Þýskalandi enda starfaði Stasi aldrei sem kosningavél fyrir Ulbricht og félaga. Allt annað vakti fyrir þeim en gefa fólki tækifæri til að segja hug sinn.

Allir sem koma að kosningum vita að þar skiptir mestu að átta sig á því hvar stuðnings er að vænta og fá sem flesta stuðningsmenn til að leggja frambjóðanda lið. Í bókinni segir oftar einu sinni frá því, hve Gunnar var duglegur sjálfur við að skrifa nafnalista í því skyni að átta sig á pólitískri stöðu sinni.

Í umsókn um Gunnars-bókina í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, meðal annars: „Stjórnmálafræðingar hafa bent á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt öflugustu kosningamaskínuna á Íslandi – og nefnt að hún hafi þess vegna verið notuð í þjóðaratkvæðagreiðslunni um slit á sambandinu við Dani 1944 þegar á miklu reið að smala sem flestum kjósendum á kjörstað.“

Ég man vel eftir kosningakerfi Sjálfstæðisflokksins á þessum árum. Kjörskráin var flokksmerkt eins og það var kallað, það er sett hafði verið S framan við örugga sjálfstæðismenn S? fyrir framan þá sem taldir voru volgir, sumir í skránni voru ómerktir en aðrir merktir öðrum flokkum. Þessar merkingar byggðust ekki á njósnum heldur mati þeirra sem sátu í fulltrúaráði flokksins.  Fulltrúar í kjördeilum skráðu hverjir komu á kjörstað. Þær upplýsingar bárust á kosningaskrifstofu og þar var merkt við í skránum og síðan lagt mat á hvernig kjörsókn stuðningsmanna flokksins væri háttað. Hringt var í þá sem ekki létu sjá sig. Sérstaklega var metið hvort aðeins ætti að hringja í S merkta, S? merkta og ómerkta.

Að kenna slíka kosningavinnu við njósnir er fráleitt. Ekki síst nú á tímum fésbókarinnar og  Google-leitarvélarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði að sjálfsögðu ekki nokkra vitneskju um hvernig fólk fór með atkvæðisrétt sinn á kjördag. Hann fylgdist hins vegar með hvernig hinir flokksmerktu skiluðu sér. Þá lagði flokkurinn ríka áherslu á að hvetja fylgismenn sína til kjósa utan kjörstaðar yrðu þeir fjarri heimili sínu á kjördag. Vann ég oft á utankjörstaðaskrifstofunni og þar komu hinar merktu skrár að miklum notum.

Kosningavinna hefur nú annan blæ enda eiga flokkar ekki lengur fulltrúa í kjördeilum til að fylgjast með því hverjir skila sér á kjörstað. Auðvelt er að færa rök fyrir því að hvatningarstarf stjórnmálaflokka á kjördag hafi verið mun virkara á þessum árum en það er nú. Skortur á því á áreiðanlega þátt í því að kjörsókn dregst saman.

Gunnar Thoroddsen tapaði illa fyrir Kristjáni Eldjárn í forsetakosningunum árið 1968. Varð hann bæði sár og reiður vegna úrslitanna og samkvæmt bók Guðna Th. leituðu Gunnar og nánustu samstarfsmenn hans annarra skýringa en snertu ágalla frambjóðandans sjálfs.

Gunnar taldi að hann ætti greiða leið til Bessastaða án þess að þarfnast opinberrar aðstoðar Sjálfstæðisflokksins eða föður míns. Eftir því sem nær dró kjördegi breyttist þessi afstaða Gunnars og faðir minn gekk opinberlega fram fyrir skjöldu Gunnari til stuðnings að hans ósk. Sömu sögu var að segja um Morgunblaðið.

Samkvæmt bók Guðna tóku stuðningsmenn Gunnars að velta því fyrir sér að loknum kosningunum hvernig heimtur hefðu verið fyrir hann á kjördag. Er meðal annars látið í veðri vaka í bókinni á við Sigríður, móðir mín, höfum ekki kosið Gunnar. Ef Guðni Th. hefði haft fyrir því að spyrja mig,  hefði ég sagt honum, að frá því að ég fékk kosningarétt í forsetakosningum hefur sá sem ég veitti stuðning aldrei náð kjöri.  Að geta sér þess til að móðir mín hafi ekki kosið Gunnar þykir mér mikil bíræfni.

Guðni Th. hafði samband við mig við ritun bókar sinnar og óskaði eftir aðgangi að skjalasafni föður míns sem við systkinin höfum afhent Borgarskjalasafninu. Þar sem ég taldi að ganga þyrfti frá samningi við safnið og nákvæmari frágangi skjala gat ég ekki orðið við beiðni hans. Síðan hefur markvisst verið unnið að því að setja skjöl föður míns inn á vefsíðu Borgarskjalasafnsins eins og hér má sjá 

Ég er undrandi á því að Guðni Th. skuli ekki hafa leitað fyrir sér um það, hvernig ég fór með atkvæði mitt í forsetakosningunum 1968 úr því að honum þótti ástæða til þess á annað borð að nefna mig í sambandi við kosningarnar.

Lesandi bókarinnar kann að draga þá ályktun af lestri hennar að óvild hafi sett svip á samskipti mín og Gunnars eða hans fólks. Þeir sem álíta það hafa rangt fyrir sér. Við Þorvaldur Garðar Kristjánsson vorum góðir vinir og hittumst oft til skrafs og ráðagerða þegar ég bauð mig fram í fyrsta sinn í prófkjöri árið 1990 og síðan eftir að ég settist á þing. Hann lagði mér ómetanlegt lið og virkjaði mér til stuðnings hóp fólks sem Guðni Th. nefnir til sögunnar sem nánustu stuðningsmenn Gunnars eins og Þorstein Bernharðsson, kaupsýslumann, og Braga Hannesson, bankastjóra. Þá skrifaði Vala Thoroddsen fúslega nafn sitt á stuðningsmannalista sem ég birti í fyrsta prófkjörsblaði mínu.

Ég starfaði sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu 1974 til 1979 þegar Gunnar var iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Hvarf ég úr ritarastörfum ríkisstjórnarinnar skömmu áður en Benedikt Gröndal myndaði minnihlutastjórn sína haustið 1979 og hóf störf á Morgunblaðinu þar sem ég skrifaði um stjórnmál þegar Gunnar klauf Sjálfstæðisflokkinn og myndaði ríkisstjórn sína. Ég gagnrýndi stjórnina allan tíma á meðan hún sat.

Pálmi Jónsson, landbúnaðarráðherra í stjórn Gunnars, sat enn á þingi þegar ég kom þangað 1991 og tókst með okkur vinskapur innan þingflokksins.

Lýsing Guðni Th. á átökum innan Sjálfstæðisflokksins er of svart/hvít, gráa svæðið í flokknum hefur jafnan verið stórt. Enginn kemst til forystu innan flokksins án þess að ná inn á það svæði. Sjónarhorn Guðna Th. er þröngt eins og í bók hans Óvinir ríkisins. Þór Whitehead gagnrýnir þá bók Guðna Th. á málefnalegan hátt í nýjustu bók sinni Sovét Ísland óskalandið en hún ber með sér endanlega úrvinnslu heimilda og brýtur blað í stjórnmálasögunni.

Fengur er af ævisögu Gunnars Thoroddsens. Hún bregður upp nærmynd af söguhetjunni og innri átökum hennar og lýsir einstökum ferli manns sem gegndi öllum æðstu embættum þjóðarinnar þótt hann kæmist aldrei á Bessastaði.