6.3.2013

Kosningaóráðsía - OR-húsið – Mikael á Fréttablaðið


Kosningaóráðsían

Óli Björn Kárason, blaðamaður og frambjóðandi til alþingis, ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag, miðvikudag 6. mars,  þar sem hann dregur saman áform ríkisstjórnarinnar um útgjöld sem kynnt hafa verið undanfarið án þess að minnsta tilraun sé gerð til að lýsa með hvaða fé eigi að standa undir því sem lofað er.

Óli Björn nefnir þessi nýlegu loforð:

Ríkisstjórnarfundur á Selfossi 25. janúar 2013:

Velferðarráðherra tilkynnti að nú yrði ráðist í miklar endurbætur á Sjúkrahúsi Suðurlands. Á þessu ári fara 350 milljónir króna í verkið en alls er áætlaður kostnaður 1.360 milljónir.

Umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði samning um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Þar með er búið að skuldbinda ríkið til að greiða 290 milljónir króna á ári næstu þrjú árin – alls 870 milljónir króna.

Menntamálaráðherra og fjármálaráðherra rituðu undir samning vegna hönnunarsamkeppni um helmingsstækkun á verknámshúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands. Áætlaður kostnaður er 650 milljónir og greiðir ríkið 60%.

Hús íslenskra fræða:

Áætlaður kostnaður 3,4 milljarðar króna. Ríkið leggur fram 2,4 milljarða. Happdrætti Háskóla Íslands 1 milljarð króna. Verkið boðið út fyrir kosningar með 150 milljóna kr. greiðsluskyldu á Háskóla Íslands. Enginn veit hvernig útvega skal 2,2 milljarða króna.

Iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík:

Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram frumvörp vegna málsins í „frumvörpunum eru engin áform um hvernig fjármagna megi þessi auknu útgjöld“ segir fjármálaráðuneytið um 3,4 milljarða króna útgjöld vegna frumvarpanna.

Lánasjóður íslenskra námsmanna:

Menntamálaráðherra leggur fram frumvarð til að hygla námsmönnum með breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Fjármálaráðuneytið áætlar að útvega þurfi sjóðnum 4,7 milljarða króna vegna breytinganna. Hvergi er gerð grein fyrir hvernig afla eigi þess fjár.

Almannatryggingar:

Velferðarráðherra leggur fram frumvarp að heildarlögum um almannatryggingar. Fjármálaráðuneytið telur að óbreytt muni frumvarpið auka ríkisútgjöld um 2-3 milljarða á þessu og næsta ári.  Frá og með árinu 2017 er áætlað að árleg útgjaldaaukning muni nema 9-10 milljarða kr. umfram áætlaða útgjaldaaukningu í núverandi kerfi. Gert er ráð fyrir að sú útgjaldaaukning umfram núverandi kerfi verði orðin um 20 milljarðar kr. árið 2040 eða sem nemur 65% af útgjöldum ársins 2012 og muni halda áfram að aukast eftir það.

Hér er aðeins vakin athygli á  nýjasta toppnum af útgjaldaáformunum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur kynnt í aðdraganda þingkosninganna. Ráðherrarnir hljóta að gera sér grein fyrir að engin innistæða er fyrir því sem á óskalistum þeirra stendur. Þeir eru að búa í haginn fyrir kosningabaráttuna og að fara í stjórnarandstöðu að kosningum loknum þar sem þeir geti setið og sagt að ríkisstjórn sem þá starfar standi ekki við hin og þessi loforð og fyrirheit.

Kosningastefnuskrá í gervi lagafrumvarpa á kostnað skattgreiðenda er ómerkilegt leikbragð sem ætla mætti að menn forðuðust ef þeir virtu  heilbrigða stjórnarhætti og lög um fjárreiður ríkisins.

Undir lok borgarstjórnarkosningabaráttunnar vorið 2002 hittust þau hátíðlega Jón Kristjánsson, þáv. heilbrigðisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáv. borgarstjóri, og rituðu undir dæmigerðan kosningaloforðasamning um 1 milljarð í útgjöld ríkisins vegna íbúða aldraðra.

Samningurinn kom sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og á þingi í opna skjöldu og braut í bága við öll vinnubrögð sem þá voru í heiðri höfð. Framsóknarmenn stóðu að R-listanum með Ingibjörgu Sólrúnu. Þetta var á þeim árum aðstandendur R-listans hreyktu sér mest af óráðsíunni í nafni Orkuveitu Reykjavíkur (OR), óráðsíu, sem nú kemur Reykvíkingum og allri þjóðinni í koll. R-listinn gat farið sínu fram vegna OR og sólundað fé. Jón Kristjánsson laut hins vegar agavaldi í ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar og lenti í miklum hremmingum með samninginn sem hann gerði við Ingibjörgu Sólrúnu án lögheimildar eða að höfðu pólitísku samráði. Var undarlegt að Davíð skyldi ekki víkja Jóni úr stjórn sinni vegna þessa glappaskots.

Nú er kosningaóráðsía á kostnað skattgreiðenda þungamiðja í störfum ráðherra í risaráðuneytum sem þeir telja greinilega að eigi ekki aura sinna tal eftir kosningar. Þetta eru sömu ráðherrar sem svelta heilbrigðiskerfið og lögregluna  af grimmd fyrir kosningar. Aðför Guðbjarts Hannessonar að landspítalanum er með því ljótasta sem hér hefur gerst á stjórnmálavettvangi hin síðari ár.

Einkennilegt er að ekki skuli hafa verið vakið rækilega máls á hinum nýju aðferðum ríkisstjórnarinnar við ráðstöfun á skattfé almennings langt fram í tímann fyrr en Óli Björn gerir það í þessari grein sinni. Varla telja allir fjárlaganefndarmenn sæma að gengið sé á svig við fjárveitingarvald alþingis á svo augljósan og glannalega hátt. Hvers vegna hefur ekki verið tekið á þessari óráðsíu á þann veg að almenningur átti sig á hvert stefnir?

Hvar eru ungir sjálfstæðismenn? Þeir fara reglulega í lúsarleit að því sem telja að megi spara og vekja undrun fyrir frumleika í tillögusmíði. Hvers vegna þegja þeir þunnu hljóði þegar vinstrisinnaðir stjórnmálamenn lofa upp í ermarnar á sér í von um að ná í einhver atkvæði á kostnað skattgreiðenda?

Hús Orkuveitu Reykjavíkur

Hús Orkuveitu Reykjavíkur (OR), sem nú hefur verið selt og leigt aftur af orkuveitunni án þess að hún þurfi á öllu þessu rými að halda, er tákn um pólitíska sóun á almannafé ef ekki hreina spillingu.

Ég flutti margar ræður gegn húsbyggingunni í borgarstjórn Reykjavíkur, skrifaði oft um hana hér á síðuna og á öðrum vettvangi. Ég hélt því fram að ráðamenn orkuveitunnar héldu vísvitandi fram röngum upplýsingum um kostnað við smíði hússins. Mig grunaði hins vegar ekki að um væri að ræða jafnmagnaðar falsanir og síðan hefur komið í ljós. Það var stundað dæmigert pólitískt „cover up“ í kringum þessa framkvæmd.

Blekkingarnar voru af þeirri stærðargráðu að erfitt er að koma þeim til skila á þann veg að allir skilji. Málið snýst ekki aðeins um opinbera fjármuni heldur vísvitandi ósannindi kjörinna fulltrúa og ofurhrokann sem setti svip sinn á stjórnarhætti R-listans síðustu misserin áður en hann leið undir lok.

Viðskiptavinir orkuveitunnar súpa nú seyðið af þessu. Fyrirtækið sjálft er þannig á sig komið að það ber aldrei barr sitt að nýju nema takist að afskrifa skuldir þess á einn eða annan hátt. Hið furðulega er að meirihluti stjórnar OR leggst gegn afskriftum skulda fyrirtækisins með samningum við lánadrottna. Þar er Gylfi Magnússon, fyrrv. viðskiptaráðherra, fremstur í flokki. Að kalla hann til stjórnmálastarfa var mikið óheillaspor og furðulegt að enn skuli leitað sé álits hans á uppgjörsmálum í þjóðfélaginu eins og um óhlutdrægan fræðimann sé að ræða. Hann tók að sér það skítverk fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur strax eftir að hann varð ráðherra að bola bankastjórum seðlabankans úr embættum þeirra. Ræðurnar sem hann flutti af því tilefni á alþingi fyrir réttum fjórum árum mega ekki falla í gleymsku, stundum má ætla að Þór Saari alþingismaður hafi lært af Gylfa Magnússyni.

Mikael á Fréttablaðið

Þegar ég var menntamálaráðherra kom einu sinni til mín hámenntuð íslensk kona sem hafði sinnt rannsóknum og vísindastarfi við erlendar stofnanir. Hún hafði áhuga á að fá starf við sitt hæfi í Háskóla Íslands. Til að kanna líkur á að hún fengi slíkt starf yrði það auglýst kynnti hún sér aðstæður og viðhorf í háskólanum.

Samtalið við hana kemur oft í hugann vegna þess hve hún var innilega hneyksluð á því sem hún taldi sig hafa greint við athuganir sínar. Hún sagði að það yrði greinilega tilgangslaust fyrir sig að sækja um starf við Háskóla Íslands. Aðferðin þar væri sú að kennarar sem fyrir væru og réðu ferðinni innan hverrar deildar fengju til aðstoðar við sig eða tengdu á annan hátt einstaklinga skólanum eða deildinni til að tryggja þeim forskot við umsókn um starf. „Þarna eru hlöðukálfar og það þýðir ekkert að keppa við þá,“ sagði hún.

Þeir sem átta sig á því hvað felst í orðinu „hlöðukálfur“ vita að það er síður en svo niðrandi. Um er að ræða kálf sem nýtur þeirra forréttinda að vera fóðraður hlöðunni til að hann dafni sem best. Hann nýtur betra atlætis en allir hinir kálfarnir.

Í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi notaði ég orðið „hlöðukálfur“ til að lýsa stöðu Mikaels Torfasonar gagnvart Baugsmönnum. Þeir gerðu greinilega allt til að létta honum lífið. Lenti hann upp á kant við einhvern samstarfsmanna sinna innan Baugsveldisins var honum fundinn annar bás innan þess. Hann starfaði meðal annars við Nyhedsvisen með Gunnari Smára Egilssyni. Þegar upp úr samstarfinu slitnaði var ritstjóri Séð og heyrt rekinn svo að Mikael fengi starf við hæfi.

Nú hefur Mikael Torfason verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins.  Þetta er gert til höfuðs Ólafi Þ. Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, eftir að hann tók undir með Magnúsi Halldórssyni, blaðamanni hjá 365, þegar hann gagnrýndi afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar Baugsmanns af störfum blaðamanna 365. Jón Ásgeir er í óljósri stjórnunarstöðu innan 365 í krafti eignarhalds eiginkonu sinnar á fyrirtækinu.

Daginn eftir að Mikael var ráðinn sagði Ólafur Þ. Stephensen í viðtali við blað sitt (6. mars): „Ég tel að blaðinu sé mikill styrkur að ráðningu hans. Ég hlakka til að eiga við hann gott samstarf um að efla Fréttablaðið enn frekar og standa vörð um sjálfstæði ritstjórnarinnar.“

Það er broddur í fagnaðarorðum Ólafs. Hann hlýtur að vita um tengsl hins nýja ritstjóra við Jón Ásgeir. Ólafur veit örugglega einnig að Mikael kemst upp á kant við samstarfsmenn sína ef marka má starfssögu hans í þjónustu Baugsmanna og þeir taka málstað hans. Spurningin er hvort Mikael sé kominn á hinn endanlega bás í þjónustunni við Jón Ásgeir.