1.2.2012

Vinstri stjórn í 3 ár - dapurleg reynsla

Í dag, 1. febrúar 2012, eru þrjú ár frá því að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon mynduðu minnihlutastjórn með hlutleysi eða beinum stuðningi Framsóknarflokksins. Ólafur Ragnar Grímsson hafði ekki fyrir því að heimila neinar formlegar viðræður um stjórnarmyndun eftir að Samfylkingin sleit ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn með hinu undarlega útspili Ingibjargar Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi formanns Samfylkingarinnar, að krefjast þess að Jóhanna yrði forsætisráðherra í stað Geirs H. Haarde.

Strax á fyrsta degi sameinuðust Jóhanna og Steingrímur J. í hatri á Sjálfstæðisflokknum og hefur það verið límið í samstarfi þeirra síðan. Þegar stofnað er til stjórnarsamstarfs á svo neikvæðum forsendum og af illum huga að auki er ekki von að mikill árangur verði. Flest hefur einnig farið í handaskolum á vegum stjórnarherranna. Flokkar þeirra loga í átökum og vinstri-grænir hafa splundrast. Í hátíðargrein í Fréttablaðinu í tilefni af 3ja ára afmælinu 1. febrúar 2012 segja flokksformennirnir:

„Ýmislegt hefur gengið á og ekki hafa allir samherjar okkar sætt sig við framkvæmd einstakra stefnumála. En mótlætið hefur hert okkur og þroskað og þegar hér er komið sögu efumst við ekki um að takast muni að ljúka stórum og mikilvægum viðfangsefnum á þeim tíma sem eftir lifir kjörtímabilsins.“

Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar var að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Það hefur ekki gengið eftir. Fólk á besta aldri flyst úr landi vegna atvinnuleysis og skorts á stefnu í atvinnumálum. Verðbólga magnast að nýju. Loforð við gerð kjarasamninga eru svikin. Skattar hækka jafnt og þétt. Fjárfesting er minni en hún hefur nokkru sinni verið frá stríðslokum. Hagvöxt má rekja til þess að fólk gengur á lífeyrissparnað sinn.

Við stjórn efnahagsmála hefur ríkisstjórnin lotið forsjá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem beinir athygli sinni hér eins og annars staðar einkum að ríkisfjármálum. Í því efni hefur skipt sköpum hve ríkissjóður var vel settur og erlendar skuldir litlar þegar bankarnir hrundu. AGS krefst aðhalds í ríkisrekstri, samdráttar ríkisútgjalda og hækkunar skatta. Allt þetta hefur Steingrímur J. framkvæmt að fyrirmælum sjóðsins og hlýtur lof fyrir frá Washington. Þetta er sama stefna og The New York Times segir að sé að sliga mörg evru-ríki; Angelu Merkel væri nær að ýta undir hagvöxt en setja sífellt fleiri þjóðir í skrúfstykki með kröfum um niðurskurð.

Rétt er að minnast þess að Steingrímur J. Sigfússon lýsti andstöðu við AGS í stjórnarandstöðu en breyttist í ljúfling sjóðsins sem fjármálaráðherra.  Steingrímur J. lýsti einnig andstöðu við að samið yrði um lausn á Icesave-deilunni en beitti sér fyrir þremur samningum um hana og náði enginn þeirra fram að ganga, tveir voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010 og 9. apríl 2011. Er einsdæmi að lykilmál ríkisstjórnar fái slíka útreið og hún sé ekki aðeins gerð marklaus inn á við heldur einnig gagnvart öðrum þjóðum.

Óvild stjórnarherranna í garð Sjálfstæðisflokksins birtist í ýmsum myndum en þó skýrast í aðgerðum gegn tveimur fyrrverandi formönnum hans, Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde.

Fyrsta mál Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra var að beita sér fyrir breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands til að losna við þrjá bankastjóra þar, einn þeirra var Davíð Oddsson, og búa í haginn fyrir að Már Guðmundsson, kunnur vinstrimaður, fyrrverandi aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðherratíð hans, yrði ráðinn bankastjóri. Var það gert með því að setja á svið leikrit þar sem norskur bankamaður var kallaður á vettvang til að gegna stöðu seðlabankastjóra á meðan hópur fagmanna gekk frá tillögu um ráðningu Más. Svo illa var að málinu staðið af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur sem skipaði Má í embættið að hann á nú í málaferlum við seðlabankann vegna þess að hann telur sig hafa verið svikinn um laun sem honum hafi verið lofað þegar hann ræddi við þá sem réðu hann.

Jóhanna Sigurðardóttir neitar allri ábyrgð á launamálum Más eins og reyndar flestu sem óþægilegt er talið af þeim sem veita henni vernd í forsætisráðuneytinu. Hún afsalaði sér stjórn efnahagsmála sem hafði verið meðal meginverkefna forsætisráðherra í rúm 100 ár, rak fólk úr forsætisráðuneytinu en flutti með sér embættismenn úr félagsmálaráðuneytinu og jafnréttismálin. Á þeim hefur verið haldið á þann veg í forsætisráðuneytinu að umsækjandi um starf hefur stefnt Jóhönnu fyrir dómstóla fyrir brot á jafnréttislögunum.

Eftir að rannsóknarnefnd alþingis skilaði skýrslu um bankahrunið vorið 2010 misnotaði Jóhanna hana til að gera aðför að stjórnarráðinu og setja ný lög um það sem gera henni meðal annars kleift að ráða upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar án auglýsingar. Á árinu 2010 var tæplega 40 umsækjendum um starfið hafnað en Jóhanna réð í ársbyrjun 2012  Jóhann Hauksson sem upplýsingafulltrúa sinn. Jóhann sinnti almannatengslum fyrir Baugsmenn sem blaðamaður á Baugsmiðlunum og hlaut verðlaun blaðamanna fyrir störf sín sem rannsóknarblaðamaður! Í RÚV-viðtali vegna ráðningarinnar sagðist Jóhann hafa fyrir prinsipp að segja satt.

Í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis er lögð áhersla á gegnsæi í stjórnsýslunni. Að ástunda það er víðsfjarri stjórnarherrunum eins og birtist skýrast í fyrirgreiðslu Steingríms J. Steingrímssonar fjármálaráðherra við mörg fjármálafyrirtæki þar sem tugum milljarða króna hefur verið ráðstafað án þess að tilgangur eða tilhögun sé ljós. Þá hafa tveir föllnu bankanna verið einkavæddir að nýju án þess að ljóst sé hverjir eru eigendur þeirra. Meira að segja úrskurðarnefnd upplýsingamála sem starfar á ábyrgð forsætisráðherra dregur von úr viti að svara óskum fjölmiðla um aðgang að upplýsingum, að því er virðist helst í þeim tilgangi að birtingargildi upplýsinganna sé fyrnt þegar þær koma fyrir sjónir almennings.

Ríkisstjórnin sagðist ætla að taka upp nýja siði við ráðningu manna í opinber störf. Margföldun á starfsmönnum í stjórnarráðinu sem ráða má án auglýsingar stangast á við þetta markmið og stjórn Bankasýslu ríkisins sagði af sér vegna pólitísks þrýstings um að hverfa frá ákvörðun um ráðningu forstjóra stofnunarinnar.

Þegar rúmt ár er til kosninga segjast forráðamenn ríkisstjórnarinnar ætla að nota tímann til að koma þremur meginmálum í höfn: breytingum á stjórnarskránni, breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Stjórnarskrármálið


Strax eftir að stjórnin tók til starfa kynnti hún með Framsóknarflokknum tillögur að stjórnlagaþingi og breytingum á stjórnarskrá. Ætlunin var að stjórnlagaþingið kæmi sem stjórnarskrárgjafi í stað alþingis. Sjálfstæðismenn risu gegn þessu á alþingi frá 1. febrúar 2009 fram að kosningum sem fram fóru 25. apríl 2009. 

Í bókinni Þingræði á Íslandi sem kom út haustið 2011 segir Þorsteinn Magnússon, stjórnmálafræðingur og aðstoðarskrifstofustjóri alþingis:

„Þannig eru nokkur dæmi um árangursríkt málþóf á síðustu árum. Einna áhrifaríkast verður að telja málþóf Sjálfstæðisflokksins í mars og apríl 2009 gegn samþykkt á frumvarpi til stjórnskipunarlaga sem borið var fram af fulltrúum flokka sem höfðu meirihluta á Alþingi, Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins. Andstaða sjálfstæðismanna byggðist ekki síst á því að þeir töldu að með frumvarpinu væri verið að svipta Alþingi hlutverki stjórnarskrárgjafa og rjúfa hefð um samráð um grundvallarreglur stjórnmálanna. Ríkisstjórnarflokkarnir og aðrir stuðningsflokkar frumvarpsins urðu að falla frá því að fá málið samþykkt þar sem málþóf sjálfstæðismanna leiddi til þess að ekki var möguleiki á því að fá það afgreitt áður en þingið lyki störfum fyrir alþingiskosningarnar í lok apríl það ár.“

Eftir kosningar 25. apríl 2009 mótaði meirihlutastjórn Samfylkingar og VG, norræna velferðarstjórnin eða fyrsta tæra vinstri stjórnin, nýja stefnu varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar, kosið skyldi stjórnlagaþing án þess að stjórnarskrárvaldið yrði tekið af alþingi. Kosið var til þessa þings haustið 2010 en svo illa var að kosningunum staðið að hæstiréttur ógilti þær snemma árs 2011. Ákvað stjórnarmeirihlutinn þá að sýna hæstarétti lítilsvirðingu og skipa stjórnlagaráð í stað þess að efna að nýju til kosninga. Þetta ráð skilaði tillögum sumarið 2011 og eru þær til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis.

Jóhanna Sigurðardóttir hafði boðað að tillögur stjórnlagaráðs yrðu bornar undir þjóðina samhliða kjöri forseta sumarið 2012. Hún virðist nú fallin frá þeirri hugmynd. Allt er enn á huldu bæði um málsmeðferð og efni stjórnarskrármálsins, stjórnarsinnar á þingi sýnast þó halda fast í þá trú að þeim takist að ljúka málinu fyrir lok kjörtímabilsins. Of snemmt er að hafa skoðun á efni málsins en ljóst er að margar tillögur stjórnlagaráðs eru út í hött enda virtist einhugur innan þess byggjast á þeirri aðferð að allir fengju eitthvað fyrir sinn snúð.

Stjórn fiskveiða

Eftir að ríkisstjórnin var mynduð með það að markmiði að breyta lögum um stjórn fiskveiða var stofnað til fjölmennrar nefndar undir formennsku Guðbjarts Hannessonar, þáv. alþingismanns núv. velferðarráðherra, sem skyldi leitast við að samræma ólík sjónarmið í málinu. Hlaut nefndin heitið „sáttanefndin“ af því að nefndarmenn töldu sig hafa náð bærilegri sátt um efni málsins. Jón Bjarnason tók við áliti nefndarinnar og klúðraði málinu á þann hátt að Össur Skarphéðinsson hefur líkt því við bílslys. Að lokum átti frumvarp Jóns engan málsvara nema kannski hann sjálfan. Við svo búið fékk Jón menn til að vinna að nýju frumvarpi fyrir sig sem hann kynnti á ríkisstjórnarfundi í nóvember 2011 við svo mikla reiði Jóhönnu Sigurðardóttur að hún krafðist afsagnar Jóns og naut sú krafa stuðnings Steingríms J. sem síðan tók við embætti Jóns 31. desember 2011.

Við brottför Jóns og Árna Páls Árnasonar úr ríkisstjórn 31. desember 2011 fluttist Steingrímur J. í ráðuneyti þeirra og hinn 30. janúar 2012 ávarpaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hann á þennan hátt í þingræðu: „sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskipta- og verðandi iðnaðarráðherra sem enn situr í stóli hæstv. fjármálaráðherra“ . Ávarpið gefur í senn til kynna hve fráleit skipan er orðin á stjórnarráðinu og hve Steingrímur J. hefur seilst til mikilla valda enda nefndur „allsherjarráðherra“ í fjölmiðlum.

Í 3ja ára afmælisgreininni 1. febrúar 2012 segja Jóhanna og Steingrímur J. að „innan fárra vikna“ sé stefnt það því leggja fram frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða „sem tryggja á landsmönnum forræði yfir auðlindum sjávar og að þeir njóti eðlilegrar rentu af þeim“. Þau segja þetta „margþætt mál“ og breytingar geri „ríkar kröfur til allra um samstarfsvilja“.

Deilur um stjórn fiskveiða eru ekki síður innan stjórnarflokkanna en annars staðar. Steingrímur J. er þingmaður kjördæmis þar sem öll stærstu útgerðarfélög landsins hafa starfsstöðvar. Forráðamenn þeirra hafa ekki lýst mikilli trú á yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar, hún er þó aðeins kynnt í orði en Steingrímur J. hefur sýnt í hverjum málaflokknum eftir öðrum að hann fylgir hiklaust öðru sjónarmiði á borði þjóni það hagsmunum hans.

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Evrópuvaktarinnar, sagði eftir opinn fund um ESB-mál á vegum Samfylkingarinnar 31. janúar 2012 að þar á bæ teldu menn að sameiginlegt eignarhald þjóðarinnar á fiskimiðunum væri í meiri hættu innan frá en utan. Á Íslandi væru sterk öfl sem ynnu að því leynt og ljóst að koma fiskimiðunum í einkaeigu. „Stóra stríðið“ stæði um fiskimiðin en ekki hvað gerðist með hugsanlegri ESB-aðild. Taldi Styrmir þetta sjónarmið eiga miklu fylgi að fagna innan Samfylkingarinnar en þar ríkti mikill hiti í mönnum vegna kvótamála. Samfylkingin ætlaði að blanda ESB-málinu og kvótamálinu saman. Telur Styrmir þetta hættulegan leik með lífshagsmuni þjóðarinnar en gefi jafnframt til kynna framvindu umræðna um þessi mál.

ESB-aðildarumsókn


Eitt fyrsta stóra embættisverk Steingríms J. Sigfússonar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var að ræða við þrjá framkvæmdastjóra ESB í Brussel, stækkunarstjórann, landbúnaðarstjórann og sjávarútvegsstjórann. Nokkur leynd hefur hvílt yfir aðdraganda ferðarinnar og hvað þar var rætt. Steingrím J. er almennt ekki unnt að gagnrýna fyrir að liggja á skoðun sinni. Hann þegir hins vegar um hvað hann sagði við framkvæmdastjórana þrjá þegar hann ræddi íslensk lífshagsmunamál við þá.

Þau Jóhanna og Steingrímur J. eru sammála um að náð skuli samningi við ESB til að hann megi leggja fyrir þjóðina. Að mati Jóns Bjarnasonar, forvera Steingríms J., verður slíkum samningi ekki náð nema Íslendingar afsali sér forræði í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum þjóðinni og hagsmunum hennar til tjóns. Spurning er hvað Steingrímur J. vill slá mikið af til að ná samningi við ESB sem hann segist síðan ætla að hafna í atkvæðagreiðslu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, reyndi á alþingi 17. janúar 2012 að fá upp úr Steingrími J. hvað hann ætlaði að ganga langt samkomulags við ESB til að samningur lægi fyrir en fékk ekkert haldbært svar. Í ljósi Icesave og annars á ráðherraferli Steingríms J. er full ástæða til að hafa allan varann á gagnvart því að hann eigi í viðræðum við ESB um íslensk málefni.

Hvort niðurstaða næst í ESB-viðræðunum fyrir kosningar í apríl 2013 ræðst ekki af afstöðu ríkisstjórnar Íslands heldur vilja ESB. Af orðum forsætisráðherra, utanríkisráðherra og allsherjarráðherrans Steingríms J. má ráða að svör framkvæmdastjórnar ESB við óskum um að hefja viðræður um alla þætti aðildarmálsins séu loðnar og án þess að menn vilji festa sig í dagsetningum.

Endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB lýkur ekki fyrr en á árinu 2013 og af hálfu ESB skjóta menn sér á bak við hana þegar þeir segjast ekki geta sagt neitt um lyktir viðræðna við Íslendinga.  Að baki afstöðu ESB býr einnig sú staðreynd að Bretar og Írar krefjast þess að lyktir finnist á makríldeilunni áður en tekið verði til við að ræða um sjávarútvegsmál í aðildarviðræðum við Íslendinga. Þetta liggur svo í augum uppi miðað við það sem áður hefur verið sagt af hálfu sjávarútvegsráðherra þessara ríkja að með ólíkindum er þegar íslenskir ráðherrar láta eins og engin tengsl séu á milli makríls og aðildarviðræðnanna. Ráðherraráð ESB ákveður hraðann í viðræðunum og innan þess hefur hvert ríki neitunarvald. Hver trúir því að Bretar og Írar beiti ekki þessu valdi telji þeir að með því sé unnt að knýja Íslendinga til eftirgjafar í makrílmálinu? Trúi Steingrímur J. því sannar það enn hve illt er að láta hann sýsla með íslenska hagsmuni gagnvart útlendingum.

Á síðasta ári nam aflaverðmæti makríls 25 milljörðum króna fyrir íslenska þjóðarbúið. Jón Bjarnason þorði ekki annað en ákveða veiðikvóta á makríl fyrir árið 2012 áður enn hann var rekinn úr ráðuneytinu. Í 3ja ára afmælisgreininni minnast Jóhanna og Steingrímur J. ekki á makrílinn sem er einn mesti búhnykkur þjóðarinnar hin síðari ár. Þau segja hins vegar: „Benda má á vaxandi loðnukvóta sem er góður búhnykkur og skilar milljörðum inni í hagkerfi okkar.“

Hvers vegna skyldu þau ekki minnast á makríl? Af því að þeim finnst það óþægilegt þegar þau búa sig undir að gefa eftir gagnvart ESB og Norðmönnum. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HBGranda, telur líklegt að við hefðum heimild til að veiða makríl fyrir 5 milljarða króna værum við ESB. Skyldu þau Jóhanna og Steingrímur J. hafa þá tölu í huga?

Lokaorð


Miðað við það sem gerst hefur á þremur árum má færa fyrir því sterk rök að á því eina ári sem eftir lifir af kjörtímabilinu muni Jóhönnu og Steingrími J. ekki takast að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar, þau nái ekki samkomulagi um stjórn fiskveiða og ESB-aðildarviðræðunum verði ekki lokið.

Það er í anda blekkingarinnar sem einkennt hefur stjórnarhætti ríkisstjórnarinnar frá 1. febrúar 2009 að láta eins og á næstu mánuðum myndist meirihluti á alþingi um efni nýrrar stjórnarskrár, stjórn fiskveiða og lyktir ESB-aðildarviðræðnnana. Eftirtektarvert er að Jóhanna nefnir þessi mál gjarnan án þess að lýsa nokkurri skoðun á efni þeirra. Nefndin sem stjórnar forsætisráðherra hefur ekki komist að niðurstöðu um hvaða skoðun hún eigi að hafa á þessum málum það fer eftir því sem talið er líklegast til að fleyta henni áfram sem forsætisráðherra.

Miðað við hve hörmulega hefur verið haldið á stjórn mála er með ólíkindum að þingmenn flokka sem ekki eiga aðild að stjórnarsamstarfinu skuli leggja málstað stjórnarinnar lið þegar um mál er að ræða sem ráða því hvort hún lifir eða deyir. Þetta sérkennilega ístöðuleysi kom strax í ljós þegar greidd voru atkvæði um ESB-aðildarumsóknina 16. júlí 2009. Þá fóru meira að segja tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í lið með stjórnarflokkunum. Mestu mistökin voru þó að leggja ríkisstjórninni lið í Icesave III. Hafi einhver haldið að með því eignuðust menn innhlaup við stjórn landsins hefur það reynst hinn mesti misskilningur.

Óvildin í garð Sjálfstæðisflokksins heldur stjórnarliðinu enn saman. Það sannaðist eftir að meirihluti alþingis hafnaði frávísun á landsdómstillögu Bjarna Benediktssonar. Þá ruku andstæðingar sjálfstæðismanna í hópi álitsgjafa upp til handa og fóta og hófu persónulegar árásir á Bjarna. Gripið var til aðferða sem dugðu á tíma Baugsmálsins í þágu Baugsmanna.  Hallgrímur Helgason, sem hlaut nafnbótina Baugsskáldið, fór þar fremstur í flokki í blaði Reynis Traustasonar, sem „skúbbaði“ í Fréttablaðinu gegn Davíð Oddssyni í þágu Baugsmanna.

Enn hefur sannast á þremur erfiðum árum að vinstristjórn er vondur kostur fyrir Íslendinga og að gagnvegur er á milli þeirra sem stóðu fastast með Baugi í aðdraganda hrunsins og núverandi stjórnarherra.