29.11.2011

Sýndarréttarhöld Jóhönnu yfir Jóni Bjarnasyni


Í sýndarréttarhöldum valdhafa er meginregla að þeir setji fram sakirnar og síðan taki menn fullir valdasýki eða þrælsótta við að framkvæma óhæfuverkið.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var gerður afturreka á alþingi með frumvarp til laga um breytingar á fiskveiðistjórnun sem hann hafði lagt fram sem stjórnarfrumvarp og með samþykki þingflokka ríkisstjórnarinnar. Margir stjórnarsinnar höfðu lofað hann fyrir framtakið. Utan þings og ríkisstjórnar lögðust allir gegn frumvarpinu og lýstu því sem óskapnaði.

Jón tók málið til endurskoðunar og fól nokkrum mönnum ,Aðalsteini Baldurssyni, verkalýðsleiðtoga á Húsavík, Atl Gíslasyni, alþingismanni, Jóhanni Guðmundssyni, skrifstofustjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Jóni Eðvald Friðrikssyni, framkvæmdastjóra á Sauðárkróki, að taka saman hugmyndir um breytingar, hann lagði þessar hugmyndir fyrir ríkisstjórn til skoðunar þriðjudaginn 22. nóvember. Tveir ráðherrar, einn frá hvorum flokki, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri-grænna, og Guðbjartur Hannesson, sem hafði verið formaður í nefnd um fiskveiðistjórn, voru tilnefndir af forystumönnum stjórnarflokkanna til að fara yfir þessar hugmyndir.

Á ríkisstjórnarfundi, föstudaginn 25. nóvember, tilkynnti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að hann hefði ákveðið að hafna beiðni Huangs Nubos frá Kína um kaup á Grímsstöðum á fjöllum. Við þetta varð uppi fótur og fit í Samfylkingunni en hópur manna innan hennar hafði lagt á ráðin með Huang við kaupin og stóð honum innan handar. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti vonbrigðum með ákvörðun Ögmundar og að hann hefði kynnt hana fyrir Huang fyrir ríkisstjórarfundinn. Taldi Jóhanna þess vegna að málinu hefði verið lokið fyrir ríkisstjórnarfundinn.

Sunnudaginn 27. nóvember ræðst Jóhanna Sigurðardóttir harkalega á Jón Bjarnason í fréttatíma RÚV vegna vinnuskjalsins um fiskveiðistjórnun. Hann hefði haldið allri ríkisstjórninni og þingflokkunum utan við vinnu við smíði vinnuskjalanna. „Þetta eru auðvitað vinnubrögð sjávarútvegsráðherra sem eru algjörlega óásættanleg og ekki boðleg í samskiptum flokkanna,“ sagði Jóhanna. Ráðherrann væri „kominn ansi fjarri stefnu flokkanna í sjávarútvegsmálum og ljóst að þetta frumvarp óbreytt verður aldrei lagt fram sem stjórnarfrumvarp“.

Jóhanna bjó þarna til sakarefni á hendur Jóni Bjarnasyni. Allir sem setið hafa í ríkisstjórn vita að um viðkvæm efni er einmitt fjallað á þann hátt að viðkomandi ráðherra leggur fram hugmyndir, forystumenn stjórnarflokka tilnefna menn til skoða þessar hugmyndir, leitað er sameiginlegrar niðurstöðu og málið tekið fyrir að nýju. Að forsætisráðherra bregðist við með hætti Jóhönnu er einsdæmi. Verði forsætisráðherra einhverjum ráðherra svona reiður er rætt við hann í einrúmi eða einfaldlega beðist lausnar fyrir hann.

Eftir að Jóhanna hafði hent sakarefninu á loft hafði fréttastofa RÚV samband við Gunnar Helga Kristinsson, samstarfsmann Jóhönnu um bætta stjórnarhætti og prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Gunnar Helgi tók að spinna um málið í þágu Jóhönnu gegn Jóni Bjarnasyni og sagði að í „öllu venjulegu samhengi myndi ráðherra segja af sér,“ í stöðu Jóns „eftir að forræði yfir endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða var tekin af honum“.

Þetta er furðuleg niðurstaða hjá manni sem sagt er að hafi kynnt sér innviði stjórnarráðsins og starfshætti ríkisstjórna. Hvernig getur hann rökstutt ofangreinda skoðun sína? Málaflokkur er ekki tekinn undan forræði ráðherra þótt samráðherrar skoði tillögur um lausn pólitísks ágreiningsmáls á verksviði ráðherrans.

Gunnar Helgi taldi að það ylti á Jóni sjálfum hvað yrði um hann. Hann væri „augljóslega í svolitlum vanda“ af því að hann hefði verið sviptur „forræði yfir endurskoðun á stjórn fiskveiða“ og þar með „hafi verið lýst miklu vantrausti á störf hans og málatilbúnað“.

Viðbrögð Gunnars Helga voru ekki fræðileg heldur samfylkingarleg, það er að skella skuldinni á aðra í stað þess að axla ábyrgð. Jóhanna mátti bera Jón þungum sökum en aðrir yrðu að annast aftökuna, helst Jón sjálfur.

Jón Bjarnason greip hins vegar til varna gegn ofríkinu. Þá gerðist hið óvænta, sótt var að honum úr hans eigin röðum. Steingrímur J. Sigfússon neitaði að lýsa trausti á Jón og helsti handlangari Steingríms J. við pólitísk skítverk innan þings og utan, Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, breytti sakargiftum Jóhönnu í pólitísk réttarhöld í þingflokki VG. Þingflokksformaðurinn sagði:

„Í stjórnmálum verður fólk að fylgja samþykktum og starfa samkvæmt umboðinu sem því er falið. Menn geta ekki farið fram úr sjálfum sér eða tekið sér vald umfram umboð þingflokks síns, eins og nú hefur gerst. Því hlýtur ráðherrastóll Jóns Bjarnasonar að vera farinn að rugga.“

Þetta eru einkennileg hótunarorð í ljósi þess að Jón hafði ekki gert annað en leggja fram hugmyndir fjögurra manna um lausn á pólitísku deilumáli. Í huga allra sanngjarnra manna hefði mátt ætla að samflokksmenn Jón snerust honum til varnar. Því var þó ekki að heilsa og á forsíðu Fréttablaðsins birtist þriðjudaginn 29. nóvember frásögn eftir Kolbein Ó. Proppé um að Jón Bjarnasyni yrði ýtt úr ríkisstjórninni einhvern tíma á næstunni í tengslum við uppstokkun innan hennar. Kolbeinn sagði að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nyti ekki trausts í eigin þingflokki, hvað sem hann sjálfur segði. Um sakargiftir á hendur Jóni sagði í Fréttablaðinu:

„Hann [Jón] þykir hafa rofið trúnað með því að vinna að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu á bak við félaga sína í þingflokki og ríkisstjórn. Þá eru margir félagar hans sérstaklega ósáttir við að hann hafi, án vitundar þeirra, leitað liðsinnis út fyrir raðir stjórnarflokkanna, til dæmis með því að fá Atla Gíslason, fyrrverandi þingmann Vinstri grænna, í starfshópinn.“

Af þessum orðum má ráða að engu er líkara en Jón Bjarnason hafi unnið sér það helst til óhelgis að kalla á Atla Gíslason inn í nefndina um fiskveiðistjórnunarmál. Innan þingflokksins er litið á það sem drottinssvik þar sem Atli hvarf úr þingflokknum vegna stjórnarhátta Steingríms J. og hans manna.

Eftir allt sem gengið hefur á frá því að ríkisstjórnin kom saman 25. nóvember er það í samræmi við annað á stjórnarheimilinu að hvorki skuli hafa verið rætt um framtíð ríkisstjórnarinnar né einstakra ráðherra á fundi stjórnarinnar þriðjudaginn 29. nóvember. Það er einnig í takt við starfshætti Jóhönnu Sigurðardóttur sem ögrar samstarfsmönnum utan funda en þorir ekki að eiga við þá orðastað augliti til auglitis.

Eftir ríkisstjórnarfundinn var Steingrímur J. enn spurður um hvort hann styddi Jón Bjarnason sem ráðherra. Steingrímur J. svaraði: „Já, Jón er ráðherra og nýtur að sjálfsögðu stuðnings meðan hann er þar … en það útilokar ekki breytingar.“ Fjármálaráðherra sagðist einnig ganga út frá því að menn mundu styðja ríkisstjórnina óháð því hvort þeir sætu í henni sjálfir eða ekki, annars yrðu 32 menn að sitja í ríkisstjórn!

Í upphafi var minnst á sýndarréttarhöld en það orð er notað til að lýsa því hvernig Stalín lét útrýma þeim sem hann taldi sér hættulega eða ekki nógu hlýðna á fjórða áratugnum. Frásagnir af skrípa- og sorgarleiknum í réttarsalnum varpa ekki síst skömm á þá sem gengu erinda einræðisherrans gagnvart gömlum samstarfsmönnum og niðurlægðu þá á allan hátt áður en ákveðið var að fela þá böðlum gúlagsins.

Við erum nú vitni að slíkum leik innan ríkisstjórnar Íslands þar sem Steingrímur J. tekur að sér að ryðja þeim úr vegi sem Jóhanna vill ekki hafa í kringum sig og Björn Valur Gíslason stjórnar réttarhöldunum í þingflokki vinstri-grænna.