1.10.2011

Ólafur Ragnar vegur að ráðherrum í þingsetningarræðu í skjóli stjórnlagaráðs


Þingsetningardagurinn 1. október 2011 var ekki alþingi til framdráttar. Sjónvarpsmyndir frá því þegar þingmenn gengu á milli þinghúss og Dómkirkju endurspegla ömurlegt ástand í þjóðfélaginu. Ekki tók betra við þegar rætt var við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra inni í þinghúsinu eftir að hún hafði gengið í gegnum eggja-drífuna sem felldi einn þingmann og hún lét eins og hún sætti sig við þetta. Þessi tvöfeldni eða látalæti hjá forystumönnum þjóðarinnar ýtir undir þá þjóðfélagsspennu sem birtist í mótmælunum á Austurvelli.


Eitt er að þjóð rísi upp til andmæla þegar bankakerfi hennar hrynur og ekki hefur tekist að fóta sig að nýju. Annað er að lagt sé til atlögu við alþingismenn á Austurvelli þegar þeir ganga til starfa sinna af því að fólki er nóg boðið vegna skorts á forystu og leiðsögn. Jóhanna Sigurðardóttir hefur frá fyrsta degi sem forsætisráðherra verið ófær um að gegna hinu háa embætti.

Við þingsetninguna varð einnig ljósara enn fyrr hve mikil spenna ríkir á milli forseta Ísland annars vegar og vinstri ríkisstjórnarinnar hins vegar. Sannast þar enn hve einkennilega stjórnmál þróast þegar helsti átakaöxul stjórnmálanna er á milli fyrrverandi samstarfsmanna í stjórnmálum.

Um miðjan tíunda áratuginn sagði Jóhanna sig úr Alþýðuflokknum og stofnaði nýjan flokk, Þjóðvaka, í kringum sig. Færði hún sig þá á milli Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins, flokks Ólafs Ragnars og Steingríms J. Sigfússonar. Fyrir Jóhönnu vakti að færa miðju stjórnmálanna til vinstri. Í lok janúar 2009 tóku þau Jóhanna, Ólafur Ragnar og Steingrímur J. síðan höndum saman og mynduðu minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins. Ólafur Ragnar misbeitti forsetavaldinu og veitti umboð til að mynduð yrði minnihlutastjórn án þess að beita hefðbundnum aðferðum í stjórnarmyndunarviðræðum.

Nú 33 mánuðum eftir stjórnarmyndunina og tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum sem Ólafur Ragnar ýtti úr vör síðar en báðar urðu ríkisstjórninni til niðurlægingar flytur hann ræðu við þingsetningu þar sem hann hæðist að ríkisstjórninni í túlkun sinni á tillögum stjórnlagaráðs og setur alþingi afarkosti við stjórnarskrárbreytingar, annars verði forsetakosningar 30. júní 2012 marklausar.

Í ræðu sinni minnti Ólafur Ragnar á að stjórnarskránni yrði ekki breytt nema á tveimur þingum með kosningum á milli. Með því að lýsa þeirri einföldu staðreynd hnekkti hann tali Jóhönnu Sigurðardóttur um að kjósa mætti um tillögur stjórnlagaráðs við forsetakosningarnar 30. júní 2012 og þar með væntanlega breyta stjórnarskránni. Er raunar með nokkrum ólíkindum að forseti lýðveldisins setji á þann hátt ofaní við forsætisráðherrann um stjórnskipunarmál. Sannar það enn veika stöðu Jóhönnu  í hinu háa embætti sínu að unnt sé að „hanka“ hana á slíku grundvallaratriði.

Jóhanna sagði í Kastljósi sjónvarpsins fimmtudaginn 29. september að hún vildi ekki kosningar „í augnablikinu“. Ólafur Ragnar krafðist í raun kosninga „í augnablikinu“ í þingsetningarræðunni þegar hann taldi óhjákvæmilegt að þingið tæki af skarið um nýja stjórnarskrá og þar með stöðu forseta Íslands fyrir forsetakosningarnar 30. júní 2012.

Þá vakti athygli hve lítið Ólafur Ragnar gerði úr verkefnum ráðherra samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Fór ekki á milli mála að hann lítur á tillögurnar sem traust á sig og forsetaembættið sem eigi að fá meiri völd en áður og að sama skapi vantraust á ríkisstjórnina

Þá telur Ólafur Ragnar að tillögur stjórnlagaráðs feli í sér „að leitast er við að styrkja Alþingi, auka sjálfstæði þess gagnvart ríkisstjórn og festa enn frekar í sessi eftirlit með störfum framkvæmdavaldsins“. Þingnefnd sé veitt heimild til að hefja rannsóknir á störfum ráðherra og skipa í því skyni sérstaka saksóknara.

Ólafur Ragnar segir að stjórnlagaráðið hafi „dregið mjög úr valdi ríkisstjórnar og einstakra ráðherra“. Þeir muni ekki lengur eiga sæti á Alþingi né heldur fastan seturétt á þingflokksfundum; atbeini þeirra við setningu laga sé verulega takmarkaður. Ráðherrar muni ekki að jafnaði geta tekið þátt í umræðum á alþingi nema þeir séu sérstaklega til kvaddir. Einnig sé skertur réttur ráðherra til að skipa í embætti.

Forseti telur tillögur stjórnlagaráðsins einnig þess eðlis að vægi stjórnmálaflokka og flokksforingja í gangvirki stjórnkerfisins verði til muna minna en verið hafi allan lýðveldistímann. Alþingi verði í ríkum mæli vettvangur einstaklinga sem náð hefðu kjöri í krafti persónufylgis; tök flokkanna á störfum þingsins myndu veikjast til muna.

Um tillögur stjórnlagaráðs um forseta Íslands segir Ólafur Ragnar að þær muni „efla umsvif forsetans á vettvangi stjórnkerfisins, færa embættinu aukna ábyrgð“. Stjórnlagaráðið vilji ekki breyta ákvæðum í 26. gr. núverandi stjórnarskrár, það er um málskotsréttinn svonefnda. Engin takmörk séu því sett um hvaða mál komi þar til greina vilji forseti neita að skrifa undir lög frá alþingi. Forseti þurfi að samþykkja val á dómurum og ríkissaksóknara og geti aðeins tveir þriðju hlutar Alþingis hnekkt ákvörðun hans.

Hlutverk forseta við myndun ríkisstjórna taki einnig miklum breytingum; verði mun sjálfstæðara. Í stað þess að formenn stjórnmálaflokka móti valkosti forsetans eins og tíðkast hafi frá lýðveldisstofnun myndi forseti sjálfur hafa frumkvæði að viðræðum við einstaka þingmenn og þingflokka. Hann gerði síðan tillögur til Alþingis um forsætisráðherra og væri þá ekki bundinn af því að velja þingmann til þess embættis.Yrði fyrsta tillaga forsetans ekki samþykkt hæfi hann að nýju viðræður við þingmenn og þingflokka.

Í stað þess forystuhlutverks sem formenn flokka hafi í áratugi haft við myndun ríkisstjórna feli tillögur stjórnlagaráðs í sér nýja skipan þar sem beinar viðræður forsetans við þingmenn yrðu afgerandi. Ríkisráð yrði lagt niður og ráðherrar mundu ekki lengur leggja lagafrumvörp fyrir forseta til samþykkis. Það yrði verkefni forseta alþingis sem jafnframt yrði í forföllum forseta eini handhafi forsetavalds. Forsætisráðherra hefði ekki tillögurétt um þingrof. Það yrði ákveðið af alþingi og staðfest af forseta. Þannig ykju tillögurnar á ýmsan hátt bein tengsl forseta Íslands og alþingis.

Ólafur Ragnar segir tillögur stjórnlagaráðs fela í sér mun valdameiri forseta en þjóðin þekki nú. Hann telur þess vegna brýnt „að afstaða Alþingis til þessara tillagna liggi fyrir í tæka tíð“ fyrir forsetakosningarnar 30. júní 2012. „Annars bæri Alþingi ábyrgð á því að þjóðin vissi ekki hver staða forsetans yrði í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu. Forsetakosningarnar yrðu þá algjör óvissuferð,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ekki eru allir sammála túlkun Ólafs Ragnars á niðurstöðum stjórnlagaráðs, einn ráðsliða, Eiríkur Bergmann Einarsson, sagði við DV eftir að hann hafði hlustað á ræðu Ólafs Ragnars:

Mér fannst þetta brött túlkun á tillögum stjórnlagaráðs og ekki gefa rétta mynd. Tillögur stjórnlagaráðs fela ekki í sér mikla vægisbreytingu á stöðu forseta Íslands. Það er hinsvegar skýrt frá hinni óskýru stöðu sem er í núverandi stjórnarskrá. Vægi þess er engu að síður sambærilegt því sem það er í núverandi stjórnarskrá.„

Af orðum Eiríks Bergmanns má ráða að Ólafur Ragnar skjóti sér á bakvið stjórnlagaráð til að upphefja sig og embætti sitt á kostnað ríkisstjórnar og einstakra ráðherra. Þessi ágreiningur er aðeins forsmekkur þess sem koma skal við meðferð tillagna stjórnlagaráðs. Boðað hefur verið að skýrsla verði lögð fram um þær á þingi í október. Að þær verði afgreiddar, þing rofið, gengið til kosninga og tillögurnar verði samþykktar að nýju fyrir 30. júní 2012 er fjarlægur draumur.

Það er eftir öðru á þessum örlagatímum í stjórnmálasögu þjóðarinnar að deilur þingmanna, forseta og ríkisstjórnar og kraftar hinna talandi stétta snúist um þessi stjórnlagamál. Sást spjald með hvatningarorðum um þá forgangsröð á Austurvelli við þingsetninguna?