13.6.2011

Rosabaugur fær góðar viðtökur.

Nú eru tæpar þrjár vikur síðan bók mín Rosabaugur yfir Íslandi kom út og hún er uppseld hjá útgefanda. Fyrstu tvær vikur eftir að bókin kom út var hún efst á metsölulista hjá Eymundsson.

Unnið er að annarri prentun og fyrir hana hef ég leitast við að bregðast við þeim athugasemdum sem fram hafa komið hafi menn bent mér á augljós pennaglöp eða lýst það rangt sem ég segi.

Í bókinni er sagt frá því að Davíð Oddssyni þótti skemmtilegt að sama dag og hann hætti beinni þátttöku í stjórnmálum 27. september 2005 birtist leiðari í Blaðinu, sem Karl Garðarsson og Sigurður G. Guðjónsson stofnuðu eftir að þeim var úthýst af Baugsmiðlunum, þar sem stóð að nú væri „allra brýnast að Alþingi taki upp á ný nýtt fjölmiðlafrumvarp“. Davíð sagði í samtali við Morgunblaðið að leiðarinn hefði „bersýnilega“ verið skrifaður af Sigurði G. Guðjónssyni. Hinn sami Sigurður G. kom mjög að fjölmiðlamálinu vorið og sumarið 2004 og lagðist þá eindregið gegn því.

Frá því að Davíð mælti þessi orð er nú liðin tæp sex ár. Ég hafði hvorki séð né heyrt neina athugasemd frá Sigurði G. vegna þessara orða Davíðs og taldi víst að þetta væri rétt mat: Sigurður G. hefði skrifað leiðarann. Nú bregður hins vegar svo við að Sigurður G. segir mig fara með fleipur þegar ég slæ því föstu í bókinni að hann sé höfundur leiðarans, þótt hann segi hins vegar ekki hver hafi skrifað hann.

Eðlilegt er að þess sé getið í 2. prentun bókarinnar að Sigurður G. kannist ekki við að hafa ritað þennan leiðara. Síst af öllu vil ég hafa hann fyrir rangri sök. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að breyta þeirri skoðun sem ég lýsi í bókinni að Sigurður G. hafi skrifað betri leiðara í Blaðið en Sigurjón M. Egilsson eftir að hann varð ritstjóri blaðsins.

Ég birti föstudaginn 10. júní yfirlýsingu hér á síðunni þar sem ég leiðrétti þá villu að Jón Ásgeir hafi verið dæmdur fyrir „fjárdrátt“.  Jón Ásgeir hlaut dóm samkvæmt 15. ákærulið fyrir meiri háttar bókhaldsbrot samkvæmt 2. mgr. 262 gr. almennra hegningarlaga. Þessi villa verður leiðrétt í 2. prentun.

Það brot sem Jón Ásgeir var sakfelldur fyrir varðar allt að sex ára fangelsi.  Það er sami refsirammi og við fjárdrætti.  en í 247. gr. almennra hegningarlaga segir.  Um refsiákvörðun sagði hæstiréttur 5. júní 2008:

„Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að hann [Jón Ásgeir] framdi þetta brot í starfi forstjóra almenningshlutafélags til að rangfæra niðurstöðu reikningsskila þess um verulega fjárhæð. Brotið var drýgt í samvinnu við aðra ákærðu. Honum til hagsbóta verður á hinn bóginn að líta til þess dráttar, sem orðið hefur á málinu, og jafnframt þeirrar röskunar, sem óhjákvæmilega hefur orðið á högum hans vegna umfangsmikillar lögreglurannsóknar og saksóknar, sem þó hefur ekki leitt til sakaráfalls nema í einum lið. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem einhverju gæti skipt við úrlausn þessa máls.“

Þessa tilvitnun í dóm hæstaréttar er ekki að finna í bók minni enda er það ekki tilgangur minn með ritun hennar að rýna í efnisatriði dóma, hvorki í héraði né hæstarétti.  Ég geri grein fyrir efnistökunum í aðfaraorðum og segi meðal annars:  „Við varnir í [Baugs]málinu var gripið til aðferða sem eru einstæðar í íslenskri stjórnmála- og fjölmiðlasögu. Þessi bók snýst um þessar aðferðir.“

Þá segi ég einnig í aðfaraorðunum:

„Full ástæða er til að greina aðferðir sem beitt var til að móta almenningsálit í þágu Baugsmanna, vega að réttarvörslukerfinu og hafa áhrif á niðurstöðu dómara. Í bókinni er leitast við að gera það á hlutlægan hátt og draga saman niðurstöður að lokum.“

Til þessar orða vitna ég nú að gefnu tilefni í pistli á Eyjunni sem Stefán Snævarr, prófessor í heimspeki við Háskólann í Lillehammer, ritar 13. júní. Pistill Stefáns hefst á þessum orðum:

„Mér skilst að Björn Bjarnason segi í Baugskveri sínu að úttekt sín á málinu sé algerlega hlutlæg. Ekki kemur fram hvað Björn eigi við með hugtakinu um hlutlægni, á hann við að hann reki bara blákaldar staðreyndir um málið og felli ekki gildisdóm um það?

Sé svo þá hvílir sú sönnunarbyrði á Birni að sýna fram á að draga megi skörp skil milli staðreynda og gildisdóma.“

Stefán hefði átt að hafa fyrir því að lesa að minnsta kosti aðfaraorð bókar minnar áður en hann fullyrðir að ég segi að úttekt mín á Baugsmálinu sé „algerlega hlutlæg“. Ég hef einfaldlega hvergi sagt það. Þvert á móti tel ég mig jafnan hafa minnt á að bókin beri að sjálfsögðu með sér að hún sé rituð af mér. Ég leitast hins vegar við að greina aðferðir í áróðursstríðinu vegna Baugsmálsins á hlutlægan hátt.

Ég hef rekist á fjóra ritdóma, það er eftir Andrés Magnússon í Morgunblaðinu, Benedikt Jóhannesson í Vísbendingu, Inga F. Vilhjálmsson í DV og Pétur Gunnarsson í Fréttablaðinu. Egill Helgason, pistlahöfundur á Eyjunni og þáttastjórnandi á RÚV, hefur fjallað um bókina nokkrum sinnum á vefsíðu sinni.

Ég hef rætt við fjölmiðlamenn um bókina: við Ingva Hrafn á Hrafnaþingi, við þá Kristófer og Þorgeir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, við Frey Eyjólfsson á Morgunvaktinni á Rás 2, við Þorbjörn Þórðarson í fréttum á Stöð 2, við Þóru Arnórsdóttur í Kastljósi og Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Sunndagsmogganum. Þá hefur verið sagt frá bókinni í Frjálsri verslun. Fyrir allt þetta er ég þakklátur.

Mér þykir mestu skipta að heyra viðbrögð hinna almennu lesenda bókarinnar en þeir hafa margir sent mér tölvubréf, hringt eða rætt málið á förnum vegi. Dreg ég þá ályktun að tilgangur minn með ritun bókarinnar hafi náðst, það er að segja bregða því ljósi á Baugsmálið með þeim opinberu heimildum sem ég nota að sjá megi heildarmyndina.

Á ensku segja menn að nauðsynlegt sé að „connect the dots“ , það er að tengja saman punktana til að átta sig á því sem gerist í flóknum málum. Hafi mér tekist ætlunarverk mitt er Rosabaugurinn leiðbeiningarrit eða handbók um til hvers beri að líta til að átta sig á því hvernig framvinda mála getur orðið við meðferð flókinna efnahagsbrota innan réttarvörslukerfisins.

Þá er bókin einnig áminning um að ekki er minnst á þetta mikla mál í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið og aðdraganda þess sem að mati þeirra sem sömdu siðferðiskafla skýrslunnar mátti rekja til „hugmyndafræði eftirlitsleysisins“.