4.5.2011

Skemmdarverk á stjórnarráðinu

Ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna um breytingar á stjórnarráðslögunum eru nýjasta dæmið um vaxandi spennu í kringum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Hún segir „bull“ að hún vilji bola Jóni Bjarnasyni úr ráðherraembætti. Vinstri græni þingmaðurinn Þráinn Bertelsson lýsti yfir því 4. maí að hann vildi að Jón léti af ráðherraembætti.

Langar umræður urðu á alþingi fram á kvöld 3. maí um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingar á stjórnarráðslögunum. Þær miða að því að svipta alþingi íhlutunarvaldi um fjölda og skipan ráðuneyta og færa ákvörðunarvaldið í hendur forsætisráðherra. Að þessu leyti mælir frumvarpið fyrir breytingu til stjórnarhátta sem allir töldu að hefðu gengið sér til húðar við setningu stjórnarráðslaganna 1969.

Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi frumvarpið harðlega í umræðunum og spurði Álfheiði Ingadóttur, þingmann vinstri-grænna, um afstöðu þingflokks hennar til málsins. Í svarið við spurningum Einars Kristins sagði Álfheiður meðal annars:

„Við, þingflokkur Vinstri grænna, styðjum framlagningu þessa frumvarps og að við teljum nauðsynlegt að þau markmið sem sett eru með þessu frumvarpi um betri stjórnsýslu og meiri sveigjanleika í Stjórnarráðinu náist.“

Þeir sem þekkja til starfshátta á alþingi og vita hvernig talað er þar þegar um alvarlegan ágreining er að ræða milli stjórnarflokka átta sig strax á því að í orðum Álfheiðar um að vinstri grænir styðji „framlagningu“ frumvarps forsætisráðherra felst að þeir eru í raun ósáttir við frumvarpið en hafi látið undan þrýstingi Jóhönnu Sigurðardóttur um að það yrði lagt fyrir þing, án þess að ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir hafi rætt málið til þrautar.

Þegar stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar tala á þennan veg á þingi láta þeir jafnan eins og í orðum þeirra felist einhver siðbót í stjórnmálum, þeir séu jafnvel að fara að vilja rannsóknarnefndar alþingis sem skoðaði aðdraganda bankahrunsins. Þótt þessi búningur sé settur um orðin þarf ekki að efast um hvað í þeim felst: milli stjórnarflokkanna er bullandi ágreiningur um stjórnarráðsfrumvarpið. Jóhanna hefur böðlað því í gegnum ríkisstjórnina af dæmalausri frekju.

Vesaldómur vinstri-grænna gagnvart yfirgangi Samfylkingarinnar verður sífellt skýrari og birtist nú í leikaraskap Álfheiðar vegna stjórnarráðsfrumvarpsins. Fylgið fellur af flokknum eins og kannanir sýna og ríkisstjórnin sjálf stendur sífellt verr. Að við þessar aðstæður sé tekið til við að „rústa“ stjórnarráðinu til að þóknast lund Jóhönnu Sigurðardóttur er með öllu fráleitt.

Undir það skal tekið með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að með frumvarpi Jóhönnu er hún að hlaða undir sjálfa sig sem forsætisráðherra og skapa sér aðstöðu til að hóta ráðherrum með því að svipta þá ákveðnum málaflokkum fari þeir ekki að vilja forsætisráðherra. Að þessu leyti ýtir frumvarpið undir pólitísk hrossakaup um forystu mála innan stjórnarráðsins.

Ef einhver getur lesið út úr skýrslu rannsóknarnefndar alþingis að nefndin vilji að horfið verði til slíkra stjórnarhátta í þeim tilgangi að bæta stjórnarfar í landinu, er einkennilegt að umboðsmaður alþingis sem sat í nefndinni láti ekki til sín heyra um málið. Telur hann að minni afskipti löggjafans af því hvernig skipan er á Stjórnarráði Íslands sé besta leiðin til að bæta stjórnsýslu í landinu?

Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur við réttmætri gagnrýni á frumvarp hennar eru dæmigerð fyrir ofríkisáráttuna sem felst ekki í rökræðum heldur upphrópunum í hneykslunartóni. Um þá þingmenn sem gagnrýndu ofríkistilburði hennar sagði hún meðal annars á þingi 4. maí:

„Ég tel að þingmaður sem heldur slíku fram verði að rökstyðja það. Hverslags bull er slíkur málflutningur? Þetta er bara ekki boðlegt hérna í sölum Alþingis.“

Með þessum orðum vék Jóhanna ekki aðeins að Sigmundi Davíð heldur einnig Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem mælti gegn frumvarpinu að kvöldi 3. maí.

Af umræðum um frumvarpið má ráða að það sé einskonar millileið í deilu stjórnarflokkanna um það hvort leggja eigi niður ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar. Verði frumvarpið að lögum þarf ekki samþykki alþingis til niðurlagningarinnar heldur getur forsætisráðherra gripið til hennar á vettvangi stjórnsýslunnar.

Ákafasti stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar í þingflokki vinstri-grænna, Þráinn Bertelsson, lýsti yfir því á vefsíðunni dv.is 4. maí að hann styddi ekki Jón Bjarnason sem ráðherra vegna andstöðu Jóns við ESB-aðild. Ýtti hann með þeim orðum undir þá skoðun að leynt og ljóst vinni Samfylkingin og stuðningsmenn hennar að því að ýta Jóni Bjarnasyni til hliðar.