2.10.2010

Ríkisstjórn komin í þrot pólitískt og siðferðilega

Mótmælin á Austurvelli við setningu alþingis 1. október sýna, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur mistekist að viðhalda því jafnvægi í þjóðfélagsumræðunum, sem er forsenda þess, að einhver árangur náist um stjórn landsmála. Ásetningur ríkisstjórnarinnar hefur verið að „róa almenning“.  Jóhanna taldi Atla Gíslason, þingmann vinstri-grænna, gera það með því að leggja fram tillögu um, að fjórir fyrrverandi ráðherrar skyldu dregnir fyrir landsdóm.
Í umræðum á þingi snerist Jóhanna að vísu gegn tillögu Atla af ótta við, að með ákærunum yrði vegið of nærri sér, eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði sagt, að undirskrift sín undir lánasamning gagnvart Norðurlöndunum ætti rætur að rekja til þess, að Jóhanna hefði horfið af vettvangi í stað þess að skrifa nafn sitt á samninginn. Jóhanna sá hins vegar til þess, að nógu margir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með tillögu Atla, til að Geir H. Haarde yrði ákærður. Atli hafði nefnilega minnt á það í ræðustól þingsins, að ákærutillagan væri í samræmi við stjórnarsáttmálann!
Tveir fyrrverandi forsetar alþingis, Guðrún Helgadóttir, sem sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið, og Ólafur G. Einarsson, Sjálfstæðisflokki, afþökkuðu boð um að taka þátt þingsetningarathöfninni, vegna hneykslunar á landsdómsákærunni á hendur Geir. Er það jafnmikið einsdæmi í þingsögunni og hitt í kirkjusögunni, að gert sé áhlaup á guðshús, þegar fólk er þar við messu. Aldei fyrr hefur grjóti verið kastað í Dómkirkjuna við guðsþjónustu þar og rúða brotin.
Ríkisstjórnin er komin í þrot, pólitískt og siðferðilega. Við þær aðstæður á hún engan annan kost en segja af sér. Hver er talar helst gegn því? Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Eftir að hann tók að sér að þröngva Íslandi inn í Evrópusambandið, ber öllu að víkja fyrir því markmiði hans. Össur áttar sig á því, að hann á ekki vísa þingsetu að kosningum loknum. Hann gerir sér einnig grein fyrir því, að ólíklegt er, að haldið verði áfram á ESB-aðildarbrautinni af nýrri ríkisstjórn.
ESB-bröltið undir stjórn Össurar veikir innviði ríkisstjórnarinnar. Þeir færast nú í aukana meðal vinstri-grænna, sem tala gegn ESB-aðildarstefnu Steingríms J. Sigfússonar og Árna Þórs Sigurðssonar. Í nýlegum átökum meðal vinstri-grænna í Reykjavík varð ESB-stefna Árna Þórs undir. Steingrímur J. hefur ekki heldur áunnið virðingu neinna með aðförinni að Geir H. Haarde. Þar hélt hann um stjórnartaumana með Jóhönnu. Hún sá að sér fyrir atkvæðagreiðslu um Atla-tillöguna. Steingrímur J. sagði já við tillögunni en sagðist síðan vera með „sorg í hjarta“ vegna ákærunnar á hendur Geir!
Afstaða Steingríms J. til ESB er hin sama og til ákærunnar á hendur Geir. Hann sagði já við aðildarumsókn í þingsalnum en segist á móti slíkri umsókn utan þingsalarins. Já-ið vegur í báðum tilvikum þyngra en vælið utan þings.
Almenningur mótmælir ríkisstjórnin vegna þess að henni hefur mistekist að reisa skjaldborg um heimili og fyrirtæki. Jafnmikil ástæða er til að mótmæla ríkisstjórninni fyrir, hvernig hún hefur haldið á Icesave-málinu eða ESB-aðildarumsókninni. Ríkisstjórnin ræður ekki við neitt af þessum málum. Henni ber að víkja.