24.7.2010

Óhæf ESB-viðræðunefnd Íslands

Hér eru færð fyrir því rök, að viðræðunefnd Íslands við ESB sé óhæf til að gegna hlutverki sínu. Hún hafi þegar ákveðið, að Ísland skuli verða aðili að ESB.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lítur á það sem hápunkt pólitískra afskipta sinna að vinna að því að koma Íslandi í Evrópusambandið. Hann hefur árum saman gumað að því í ræðustól á alþingi, að hann sé þar fremstur meðal þeirra, sem vilji Ísland inn í ESB.

Össur gengur til ríkjaráðstefnunnar í Brussel þriðjudaginn 27. júlí, upphafs aðlögunarferils Íslands, með því hugarfari, að sérlausnir fyrir Ísland eigi að vera sambærilegar við það, sem Finnar fengu vegna landbúnaðar í landi sínu. Bændasamtök Íslands hafa kynnt sér hina finnsku sérlausn og segja, að hún hafi ekki skipt neinu, þegar á reyndi. Af hálfu utanríkisráðuneytisins og sérstaklega Kristjáns Guy Burgess, aðstoðarmanns utanríkisráðherra, hefur verið veist að bændasamtökunum fyrir að benda á veikleika í þessum málflutningi Össurar og utanríkisráðuneytisins.

Viðræðunefndin starfar undir formennsku Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra Íslands, í Brussel. Í skýrslu sendiráðsins yfir störf sín seinni hluta árs 2009, sem er að finna á vefsíðu þess, segir í inngangi, eftir að formennska sendiherra í viðræðunefndinni hefur verið tíunduð:
---
„Sendiráðið starfar í náinni samvinnu við samningahópa á Íslandi að undirbúningi aðildarferlisins og að því að tryggja upplýsingaflæði. Mikilvægt er að halda uppi reglulegum samskiptum við hin 27 aðildarríki Evrópusambandsins á öllum stigum, en þó sérstaklega við fastafulltrúa þessara landa gagnvart ESB og við fulltrúa í vinnuhópi ráðherraráðsins um stækkunarmál. Jafnframt er unnið náið með þeirri deild framkvæmdastjórnarinnar sem hefur umsjón með aðildarviðræðum við Ísland.“
---
Orðalagið sýnir þau markmið, sem sendiráðinu hafa verið sett. Þarna er ekki að finna neinn fyrirvara um „könnunarviðræður“, lykilorð ESB-aðildarsinna, þegar rætt var um nauðsyn þess, að alþingi samþykkti aðildarumsóknina. Sendiráðið segir beinlínis, að það vinni með „samningahópunum“ að því að undirbúa „aðildarferlið“. Upplýsingaflæði frá sendiráðinu miðar að því markmiði og einnig samvinna þess við stækkunardeild ESB. Var því sérstaklega fagnað sem „tækifæri“ í sendiráðinu, þegar fréttir bárust um, að ESB ætlaði að veita stórfé til að breyta íslenska stjórnkerfinu í þágu ESB-aðildar og styrkja áróðursherferð í þágu aðildarinnar hér á landi.

Sá viðræðunefndarmanna, sem helst hefur talað opinberlega og lýst afstöðu sinni er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, sendiherra og ritstjóri. Fimmtudaginn 22. júlí var rætt við Þorstein í útvarpi Sögu. Frosti Sigurjónsson, þáttarstjórnandi, benti Þorsteini á, að ekki væri allt sem sýndist varðandi samninga við ESB um sjávarútvegsmál. Þorsteinn gerði ekki mikið úr þeim vanda. Frosti minnti á, að Norðmenn hefðu tvisvar hafnað aðild. Þorsteinn blés á þau rök, hvers vegna alltaf væri verið að tala um Norðmenn, af hverju ekki væri litið til Dana. Þeir nytu sín vel í ESB. Á það var hins vegar ekki minnst í þættinum, að N-Atlantshafsþjóð, eins og Norðmenn eða Íslendingar, hefði sagt skilið við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, þjóð innan danska ríkisins, Grænlendingar, sem gerðu það árið 1985, af því að ESB-aðild var andstæð hagsmunum þeirra.

Ástæðulaust er að nefna fleiri atriði en þessi þrjú. ESB-viðræðunefnd Íslands undir pólitískri forsjá Össurar Skarphéðinssonar, skipuð mönnum með þau sjónarmið, sem hér hefur verið lýst, er óhæf til að gæta hagsmuna Íslands gagnvart ESB. Markmiðið er ekki að „kanna“ neitt, markmiðið er að skapa grundvöll fyrir aðild og síðan mæla með meistaraverkinu við þjóðina á sama hátt og Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson gerðu í Icesave-málinu.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri-grænna og formaður utanríkismálanefndar alþingis, hefur veitt hinni óhæfu viðræðunefnd pólitískt skjól og veganesti með máttlausu meirihlutaáliti utanríkismálanefndar á aðildartillögunni á þingi. Látalæti hans, þegar vakið er máls á vaxandi andstöðu við ESB-aðild, minna aðeins á gorgeirinn í Steingrími J. og Svavari, áður en þjóðin hafnaði Icesave-meistaraverkinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eftir að Árni Þór og Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri-grænna, höfðu óskað Össuri velfarnaðar í Brussel á fundi utanríkismálanefndar 23. júlí, sátu þeir neyðarfund þingflokks vinstri-grænna um Magma-málið, sem er um garð gengið í skjóli vinstri-grænna. Var rekið upp neyðaróp á fundinum, Samfylkingunni veitt áminning, en lögð áhersla á mikilvægi þess, að sitja áfram með henni í ríkisstjórn!

Ætla vinstri-grænir að gera hið sama í ESB-málinu? Þeir hafa hingað til fallist á allar kröfur Samfylkingarinnar, þar á meðal óhæfa forystu hennar í ESB-viðræðunum.  Ætla þeir ekki að halda neyðarfund í þingflokknum um ESB-aðildina, fyrr en ESB hefur komið fram vilja sínum?