11.7.2010

Deilur stjórnarflokkanna magnast vegna Magma


Fimmtudaginn 8. júlí birti iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fréttatilkynningu, þar sem sagði, að fimm manna nefnd um erlenda fjárfestingu, sem kjörinn væri af alþingi, hefði fjallað um tilkynningu HS Orku hf. frá 25. maí 2010 um fjárfestingu MES (Magma Energy Sweden AB) á 52,35% viðbótarhlut í HS Orku hf. Meirihluti nefndarinnar hefði komist að þeirri niðurstöðu með vísan til álits nefndarinnar frá 22. mars 2010, þegar nefndin fjallaði um kaup MES á hlut Orkuveitu Reykjavíkur, Sandgerðiskaupstaðar og Hafnarfjarðarkaupstaðar  í HS Orku, að fjárfesting  MES gengi ekki gegn ákvæðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Minnihluti greiddi atkvæði gegn þessari niðurstöðu.

Samkvæmt niðurstöðu nefnarinnar var eignarhlutur Magma Energy Sweden í HS Orku orðinn 98,5%. HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og það eina sem er í einkaeigu. Meirihluti nefndarinnar sagði í áliti sínu 22. mars, að í þeim gögnum sem lægju fyrir, kæmi fram, að Magma Energy Sweden væri stofnað í samræmi við sænsk lög og væri heimilisfast í Svíþjóð. Félagið stundaði efnahagslega starfsemi í gegnum fjárfestingu á hlutum í HS Orku hf. á sviði orkuvinnslu innan evrópska efnahagssvæðisins. Félagið uppfyllti því að mati meirihluta nefndarinnar skilyrði íslenskra laga um að teljast lögaðili með heimilisfesti á evrópska efnahagssvæðinu.

Á visir.is laugardaginn 10. júlí, 2010, má lesa, að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, telji augljóst, að farið hafi verið á svig við lög, þegar Magma Energy eignaðist HS Orku. Hún vilji, að fram fari opinber rannsókn á kaupferlinu. Svandís boðar lagafrumvarp, sem girði fyrir, að aðilar utan evrópska efnahagssvæðisins geti eignast auðlindir landsins.

Á visir.is er síðan sagt frá því, að Teitur Atlason, bloggari á DV, búsettur í Gautaborg í Svíþjóð, og Lára Hanna Einarsdóttir, bloggari á Eyjunni, hafi upplýst, að Magma Energy Sweden sé „augljóslega skúffufyrirtæki stofnað til að koma kanadíska fyrirtækinu framhjá lögum um erlenda fjárfestingu í orkufyrirtækjum á Íslandi.“

„Það eru upplýsingar sem ekki lágu fyrir, ég tel einboðið að nefndin þurfi að fá málið aftur til umfjöllunar," er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur á visir.is og verða orð umhverfisráðherra tæplega skilin á annan veg en þann, að augu hennar fyrir réttu eðli Magma Energy Sweden hafi opnast fyrir tilstuðlan bloggaranna, þótt hún í hinu orðinu segist alltaf hafa litið á Magma í Svíþjóð sem skúffufyrirtæki. Krefst hún rannsóknar á því, „hvernig salan á HS Orku varð að veruleika“ eins og það er orðað (frekar klaufalega) á visir.is, hafi hún rætt það við Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá segir Svandís:


„Það er augljóst í mínum huga að hér er verið að fara á svig við löggjöfina. Þarna er vísvitandi sjónarspil á ferðinni og það má velta fyrir sér hvar slíkar ákvarðanir eru teknar og hverjir standa að þeim. Þetta er óþægilegt mál fyrir Ísland og Íslendinga. Þarna koma erlendir aðilar og seilast í auðlindarnar. Þá er afar dýrmætt að við höldum vöku okkar til að við missum ekki auðlindarnar úr höndunum.“

Í ljósi þess, að það hefur verið á döfinni síðan sumarið 2009, að Magma Energy í Vancouver í Kanada, sem stofnaði sænska fyrirtækið, vildi fjárfesta í HS Orku og gekk frá kaupum á hlut OR, Sandgerðis og Hafnarfjarðar 29. september, 2009, með ofangreindu samþykki nefndar um erlenda fjárfestingu 22. mars, 2010, er með miklum ólíkindum, að Svandís Svavarsdóttir tali eins og hún gerði 10. júlí, 2010.

*

Hinn 9. febrúar 2010 birtist frétt um það á visir.is, að kanadíska jarðhitafyrirtækið Magma Energy Corporation, sem þá átti 40,94% hlut í HS Orku í gegnum dótturfyrirtæki sitt Magma Energy Sweden AB, hefði sett á stofn dótturfyrirtæki hér á landi, Magma Energy Iceland ehf. Magma Energy Iceland ehf. væri til húsa í Reykjanesbæ og hefði Ásgeir Margeirsson, sem áður stýrði Geysi Green Energy, verið ráðinn forstjóri hins nýja félags. Nokkrir af fyrrum starfsmönnum Geysis hefðu og verið ráðnir til Magma Energy Iceland ehf.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins 11. desember 2009 ákvað stjórn Geysis Green Energy um það leyti, í samráði við viðskiptabanka félagsins, að vinna markvisst að lækkun skulda félagsins með sölu eigna þess á næstu. Í tengslum við þá stefnumótun tók Ásgeir Margeirsson ákvörðun um að hætta sem forstjóri félagsins. Alexander K. Guðmundsson, fjármálastjóri Geysis, var ráðinn í hans stað. Helstu eignir Geysis á þessum tíma voru sagðar 57,4% hlutur í HS Orku hf. og Jarðboranir hf.  

Eins og segir í tilkynningu iðnaðar- viðskiptaráðuneytisins  frá 8. júlí, 2010, keypti Magma Energy Sweden 25. maí, 2010, 52,35% eignarhluta Geysis Green Energy (GGE) í HS Orku. Samkvæmt Viðskiptablaðinu  greiddi Magma sextán milljarði króna fyrir hlutinn. Eftir að kaupin átti Magma  98,5% hlut í orkufyrirtækinu. Kaupverðið var greitt með reiðufé og yfirtöku skuldabréfs sem GGE gaf út og Reykjanesbær heldur á. Virði þess bréfs var sagt um sex milljarðar króna.

Ásgeir Margeirsson kom við sögu REI-málsins á sínum tíma, en haustið 2007 stöðvuðu sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins framgang þess. Varð það til þess, að framsóknarmenn slitu meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn í borgarstjórn og til varð 100 daga meirihluti Samfylkingar, vinstri-grænna og framsóknar með Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Í tilefni af því, að Ásgeir varð forstjóri Magma Energy Iceland birtist viðtal við hann í Viðskiptablaðinu 20. febrúar 2010, þar sem hann sagði meðal annars:

„Ég held að samruninn [REI og Geysis Green Energy] hefði orðið gríðarlega skemmtilegt tækifæri og það var svolítið súrt að þetta skyldi ekki ganga upp. Það má kannski skrifa það á að málið hafi ekki verið lagt rétt upp eða á einhvern hátt ekki verið farið rétt að því. En í mínum huga var þetta tækifæri sem hefði verið gaman að sjá þroskast.“

Samruni REI og GGE varð aldrei, þótt 100-daga meirihlutinn í borgarstjórn hafi ætlað að láta málið ganga eftir, ef marka mátti yfirlýsingar talsmanna hans við myndun hins nýja meirihluta.  Haustið 2007 var Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Réðst hann mjög harkalega á sjálfstæðismenn í borgarstjórn fyrir að spilla REI-GGE áformunum. Vildi hann og Dagur B. Eggertsson, að þau næðu fram að ganga. Síðar er betur ljóst en áður, að tengsl GGE við Orkuveitu Reykjavíkur og REI gátu skipt sköpum fyrir FL group, sem stóð að baki GGE.

Eftir að nýr meirhluti var myndaður í borgarstjórn Reykjavíkur, stýrði Svandís Svavarsdóttir nefnd allra borgarfulltrúa, sem falið var að fara ofan í REI-málið. Eftir að nefndin skilaði skýrslu sinni, var ekki lengur áhugi á samruna REI og GGE.

*

Þegar litið er til þeirrar stöðu, sem nú er vegna kaupa Magma Energy Sweden á hlut Geysi Green Energy í HS Orku, og hún borin saman við REI/GGE á sínum tíma, er augljóst, að salan á hlut GGE í HS Orku til Magma er gengin um garð, þegar Svandís Svavarsdóttir heimtar, að málið sé tekið til endurskoðunar. Sjálfstæðismennirnir brugðu fæti fyrir REI/GGE, áður en bindandi ákvarðanir voru teknar.  Þingkjörna nefndin um erlenda fjárfestingu hefur fjallað um kaup Magma á hlut GGE í HS Orku segir lög standa til þess, að Magma eignist 98,5% í HS Orku. Vinstri-grænir hefðu orðið að sporna við fæti sumarið 2009 til að hindra framgang Magma/HS Orku-málsins.

Ásgeir Margeirsson kennir í Viðskiptablaðinu 20. febrúar, 2010, skorti á vönduðum undirbúningi og aðferðum um, að REI/GGE málið náði ekki fram 2007. Enginn hefur ætlað að detta í sama pyttinn vegna Magma og HS Orku, þegar hlutur GGE var keyptur. Í samtali við Pressuna 10. júlí, 2010, eftir að Svandís Svavarsdóttir hafði látið reiði sína í ljós á Stöð 2 sagði Ásgeir:

 „Bæði iðnaðarráðuneytið og lögfræðingar Magma bentu á þessa leið [að stofna fyrirtæki í Svíþjóð], hún er fullkomlega lögleg og ekkert við hana að athuga. Magma vildi stofna fyrirtæki hér en fékk ekki, því var þessi leið farin. Nefndin sem fjallar um erlenda fjárfestingu hér veit allt um þetta, það voru öll gögn lögð fyrir hana sem beðið var um. Það er ekkert nýtt í þessu. Að sjálfsögðu skilar fjárfesting Magma sér til Íslendinga þótt þetta sé erlend fjárfesting. Það er þegar búið að borga milljarða fyrir hlutinn í HS Orku sem áður var í eigu Hafnarfjarðar og Orkuveitu Reykjavíkur.“

Þá bendir Ásgeir á, að auðlindir séu ekki í eigu HS Orku heldur njóti félagið aðeins nýtingarréttar á þeim, raunverulegir eigendur þeirra  séu Reykjanesbær og Grindavíkurbær.

Raforkusala sé samkeppnismarkaður og því getur HS Orka ekki leyft sér að bjóða hærra verð en aðrir á markaðnum. Þetta sé mjög gott fyrir markaðinn.

 *

 Ummæli Ásgeirs Margeirssonar um, að iðnaðarráðuneytið hefði leiðbeint Magma um, hvernig öðlast mætti rétt til fjárfestingar á evrópska efnahagssvæðinu, hleyptu nýju lífi í umræðurnar um Magma/HS Orku-málið.

Voru ummælin og framganga Svandísar Svavarsdóttur rædd við Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, í hádegisfréttum RÚV 11. júlí. Katrín sakaði umhverfisráðherra um „ódýrt upphlaup“ í málinu.  Af frétt RÚV mátti ráða, að fréttamaðurinn tók afstöðu gegn Magma Energy og fullyrti, að farið hefði verið á „svig“ við lög með stofnun þess, það væri „lítið annað en skúffufyrirtæki“ eins og segir á ruv.is, sem hefði „engu að síður“ tvisvar sinnum komist í gegnum nálarauga nefndar um erlenda fjárfestingu vegna kaupa á hlut í HS Orku.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagði í samtalinu við RÚV, að hún sæi hvergi merki um leiðbeiningar  til Magma í skjölum iðnaðarráðuneytisins, enda væri það ekki ráðuneytisins að gefa slíkar leiðbeiningar. Hún vissi hins vegar ekki, hvað gerst hefði á fundum, sem hún hefði ekki setið. Þá segir á ruv.is 11. júlí:

„Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lítur málið alvarlegum augum, enda sé það grafalavarlegt mál ef stjórnsýslan er að ráðleggja fyrirtækjum hvernig eigi að fara á svig við lög. Hún vill að málið verði rætt í ríkisstjórninni. Katrín segist hafa kosið að Svandís hefði haft samband við ráðuneytið til þess að fá upplýsingar.“

*

Samkvæmt þessari frétt og öðrum er máli Magma Energy Sweden ekki lokið, hvorki á vettvangi ríkisstjórnar né alþingis. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, óskaði að kvöldi 10. júlí eftir fundi í iðnaðarnefnd Alþingis vegna frétta um, að iðnaðarráðuneytið hefði leiðbeint Magma um leiðir til að uppfylla skilyrði íslenskra laga um fjárfestingu í orkuiðnaði.

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður iðnaðarnefndar. Sagði hann við mbl.is 11. júlí, að stefnt væri að fundi í iðnaðarnefnd strax 12. júlí.

Til hvers á að halda iðnaðarnefndarfundinn?

Hefði iðnaðarráðuneytið neitað að leiðbeina Magma Energy Sweden, hefði ráðuneytið ekki farið að lögum um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Embættismenn munu benda Katrínu, iðnaðarráðherra, á ákvæði stjórnsýslulaga, þar sem segir: „Stjórnvald skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.“ Ætla þingmenn að koma saman í iðnaðarnefnd og mótmæla því, að iðnaðarráðuneyti hafi farið að lögum?

Þingkjörin nefnd um erlenda fjárfestingu hefur tvisvar sinnum komist að niðurstöðu um lögmæti kaupa Magma á hlut GGE í HS Orku. Ætla þingmenn að ræða niðurstöðu nefndarinnar? Til hvers? Ákvarðanir í þessu máli eru ekki í þeirra höndum.

Er það tilgangur nefndarfundarins að gefa nefndarmönnum tækifæri til að kynnast sjónarmiðum hver annars? Þeir hljóta að vita, að himinn og haf er á milli skoðana Samfylkingar og vinstri-grænna í málinu. Það hefur verið á dagskrá síðan sumarið 2009.

Nefndarformaður iðnaðarnefndar, Skúli Helgason, telur, að sjálfsagt sé að heimila erlendum fyrirtækjum á borð við Magma Energy Sweden að fjárfesta í fyrirtækjum á borð við HS Orku. Hann sagði  til dæmis á Eyjunni 25. september 2009:

„Ég fæ ekki séð að kanadískt eða bandarískt fjármagn sé eitthvað verra en búlgarskt eða pólskt fé.  Verkefni stjórnvalda er fyrst og fremst að tryggja að auðlindirnar sjálfar verði í þjóðareigu, umgengni um auðlindirnar styðji við sjálfbæra þróun og að almenningur fái sanngjarnt auðlindagjald fyrir leigu á nýtingarréttinum.  Við eigum að vera með gagnsæjar og skýrar reglur um erlenda fjárfestingu sem mismuna ekki fjárfestum eftir þjóðerni en undirstrika að við viljum taka vel á móti öllum þeim sem vilja aðstoða okkur við að byggja upp íslenskt atvinnulíf, sérstaklega þeim sem eru tilbúnir að verja arðinum í frekari fjárfestingar hér heima.“

Vinstri grænir ályktuðu hins vegar á flokksráðsfundi á Hvolsvelli 29. ágúst 2009, þegar sala Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæ á hlut sínum í HS Orku var á döfinni:

„Í þeirri vá sem nú vofir yfir þar sem Magma Energy og GGE eru nálægt því að eignast þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og auðlindir á Reykjanesi er það brýnna en nokkru sinni fyrr að Vinstri græn stöðvi þessi áform. Flokksráðið beinir því til ráðherra sinna, þingmanna og sveitarstjórnarmanna að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með því að halda HS Orku í samfélagslegri eigu. Aðeins þannig er hægt að tryggja að Hitaveita Suðurnesja var stofnuð um, árið 1974. Ljóst er að ekki er seinna vænna að breyta lögum og reglugerðum þannig að almannahagsmunir séu varðir og að samfélagslegt eignarhald orkufyrirtækja og orkuauðlinda sé tryggt.“

Hér er með öðrum orðum um djúpstæðan ágreining innan ríkisstjórnarinnar að ræða. Ekki hinn eina í lífi hinnar lánlausu stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Hið einkennilega er, hve vel stjórnarflokkunum tekst að breiða yfir ágreining sinn í stóru sem smáu.

Fá mál eru stærri um þessar mundir en spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir yfirlýstan ágreining um aðildina milli vinstri-grænna og Samfylkingar, hefur verið samin einhver uppskrift á stjórnarheimilinu, til að málið stytti ekki líf ríkisstjórnarinnar. Þjóðarhagsmunir eru settir í annað sæti.

Enginn veit, hver er hin raunverulega afstaða ríkisstjórnarinnar, eftir að dómur hæstaréttar um myntkörfulán á bíla féll. Ráðherrar segja eitt í dag og annað á morgun. Lilja Mósesdóttir, þingmaður vinstri-grænna og formaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis, telur Gylfa Magnússon, ráðherra málaflokksins, ekki starfi sínu vaxinn og sakar hann um aðgerðarleysi, en hann hafi staðið í vegi fyrir því, að gripið yrði til almennra aðgerða til að taka á skuldavanda heimilanna.

Hér hefur því áður verið haldið fram, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beri að segja af sér. Hún sé óhæf til að veita þjóðinni forystu. Deilan vegna Magma Energy Sweden er aðeins enn eitt dæmið.