17.4.2010

Sjálfstæðismenn ræða hrunskýrsluna

 

 

 

Sjálfstæðismenn héldu fund í flokksráði sínu í Stapa í Reykjanesbæ 17. apríl, þar voru einnig formenn sjálfstæðisfélaga um land allt og frambjóðendur í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, flutti ræðu í upphafi hans. Þar sagði hann meðal annars:

„Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að okkur var svo mikið í mun að losa um öll höft í atvinnu- og viðskiptalífi Íslendinga að við gættum þess ekki, að frelsi verður að fylgja aðhald.
 
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við trúðum um of á, að markaðurinn leysti sín vandamál sjálfur í stað þess að viðurkenna, að markaðurinn virkar ekki án eftirlits.
 
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að flokkurinn, sem ætlaði að ryðja bákninu burt lét það viðgangast að báknið blés út ár eftir ár.
 
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við einkavæddum án þess að við efldum eftirlitsstofnanir samfélagins nægilega mikið til þess að þær gætu fylgt einkavæðingunni eftir.
 
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að flokkur okkar og forystumenn létu bankana og peningana taka völdin í landinu á þess að veita þeim það pólitíska aðhald, sem þeir þurftu að fá.
 
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við hurfum frá stefnumörkun okkar um dreifða eignaraðild þegar við einkavæddum bankana.
 
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við hefðum aldrei átt að aðskilja seðlabankann og fjármálaeftirlitið með þeim hætti sem gert var.“

Þetta er einörð og afdráttarlaus lýsing á því, sem gerðist á vakt Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Ég sat ekki í henni frá mars 2002 til maí 2003, en á þeim tíma voru bankarnir einkavæddir. Snemma árs 2002 tók ég efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum og sagði af mér sem menntamálaráðherra. Ég sat hins vegar áfram á alþingi og var endurkjörinn til setu þar í kosningum í maí 2003 og varð þá dóms- og kirkjumálaráðherra.

Ég minnist þess, að á einhverjum ríkisstjórnarfundanna vakti Davíð Oddsson máls á því, að nú þyrfti að efla eftirlitskerfið með fjármálastarfseminni, því að hætta væri á því, að frjálsræðið, sem fékkst við einkavæðinguna yrði misnotað. Þótt ég tæki almennt ekki þátt í umræðum um efnahagsmál í ríkisstjórninni og sjaldan um önnur mál en þau, sem á mínu verksviði voru, lagði ég þarna orð í belg. Mín skoðun hefði verið sú, að næsta skref, eftir að einkaaðilum hefði verið heimilað að stofna háskóla,væri að efla bæri eftirlitskerfi með gæðum háskólastarfs og þar þyrfti hið opinbera að láta að sér kveða, ekki endilega menntamálaráðuneytið, heldur sjálfstæð stofnun, sem gæti bæði lagt mat á störf háskólanna og hvort ráðuneytið stæði við sinn þátt þeirra samninga, sem við þá yrðu gerðir. Hið sama ætti að gilda um einkarekna banka og eftirlit með þeim.

Þá man ég einnig eftir umræðum í ríkisstjórn um hættuna af því að hækka íbúðarlánin. Eins og nú liggur fyrir í hrunskýrslu rannsóknarnefndarinnar telur hún, að hækkun íbúðarlánanna sé dæmi um mistök í efnahagsstjórninni. Í kosningabaráttunni 2003 spilaði Framsóknarflokkurinn því allt í einu út, að hækka ætti íbúðarlán í 90%. Í útspili framsóknarmanna fólst pólitískt yfirboð og hafi tilgangurinn verið að koma okkur sjálfstæðismönnum í opna skjöldu eða illa, tókst það.

Ég minnist kosningafunda með starfsmönnum Kaupþings, sem þá var til húsa í Ármúla, muni ég rétt, þar sem spurt var, hvort ég og við sjálfstæðismenn áttuðum okkur ekki á því, hvílíkt ábyrgðarleysi fælist í því að hækka íbúðarlánin á þann veg, sem framsóknarmenn vildu. Hvort við ætluðum virkilega að láta þá komast upp með þetta? Fátt var líklega um svör hjá mér, því að ég hef aldrei verið sleipur í umræðum um peningamál eða hagfræði, enda tel ég stjórnmál snúast um margt annað en þá málaflokka, án þess að ég geri á nokkurn hátt lítið úr þeim.

Skömmu eftir kosningar sá ég einnig, að ástæðulaust hefði verið fyrir mig að setja á langar ræður um yfirboð framsóknar í Kaupþingi í von um að fiska einhver atkvæði með því. Kaupþing og aðrir bankar gerðu sér einfaldlega lítið fyrir eftir kosningarnar og yfirbuðu framsóknarmenn með 100% íbúðarlánum.

Ég minnist umræðna  í ríkisstjórn um hættuna af því að hækka íbúðarlánin og til hvaða efnahagsvandræða það kynni að leiða. Engu síður var það gert, af því að um það hafði verið samið við gerð stjórnarsáttmálans. Þessi sáttmáli var á margan hátt sérstakur, því að samkvæmt honum komu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sér saman um, að Davíð léti af embætti forsætisráðherra á kjörtímabilinu og Halldór settist í forsætisráðuneytið.

Að báknið hafi stækkað á vakt Sjálfstæðisflokksins má til sanns vegar færa. Að halda því fram, að hér hafi nýfrjálshyggja ráðið við stjórn fjármála ríkisins, þegar ríkið jók hlutdeild sína úr 30% í 50% af þjóðarframleiðslu á mesta uppgangsskeiði Íslandssögunnar, stenst ekki. Eftir á að hyggja má þó líklega þakka fyrir, að ríkið tók svona mikið til sín. Þeir peningar fóru að minnsta kosti ekki í hít stjórnenda bankanna. Hlutdeild ríkisins í þjóðarframleiðslunni jókst, þrátt fyrir að skattar hefðu verið lækkaðir. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi skattalækkanirnar hart á alþingi, sagði þær varasamar á tímum mikillar uppsveiflu.  Nú er niðursveifla. Hvað gerir Steingrímur J. þá? Hann hækkar skatta. Steingrímur J. er samkvæmur sjálfum sér að því leyti, að í ráðherraembætti gerir hann allt á annan veg en hann taldi rétt að gera, þegar hann var ekki ráðherra.

Góður rómur var gerður að ræðu Bjarna á fundinum í Stapa. Hann vék sér ekki undan ræða ávirðingar Sjálfstæðisflokksins eða það, sem fundið hefur verið að honum sjálfum. Hann sagðist vilja flýta landsfundi flokksins, sem að öllu óbreyttu skal halda haustið 2011. Þar yrði látið reyna á traust flokksmanna í garð forystumanna sinna. Hann ætlaði að stofna til samræðna við flokksmenn og yrði fyrsti fundurinn í Valhöll miðvikudag 21. apríl síðan mundi hann fara um landið allt. Hann sagðist hafa verið á gangi í miðborginni, þegar hópur manna gerði hróp að honum. Hann hefði tekið þá tali og þeir síðan kvatt hann með virktum. Hann vildi fá tækifæri til að ræða við sem flesta.

Að lokinni ræðu Bjarna tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, til máls og sagði undir lok ræðu sinnar:

„Ég hef því eftir mikla umhugsun komist að þeirri niðurstöðu að það sé því best fyrir Sjálfstæðisflokkinn eins og sakir standa að ég láti af embætti varaformanns og að ég fari tímabundið í leyfi sem þingmaður.

Ég finn að trúverðugleiki minn sem stjórnmálamaður hefur skaðast og ykkar vegna, flokksins vegna, tek ég þessa ákvörðun.

Það er sárt að kveðja varaformannsembættið en ég get ekki horft fram hjá minni ábyrgð, minni samvisku og mínum trúverðugleika.

Ég vil ekki að persóna mín í embætti varaformanns skyggi á það endurreisnarstarf sem vinna þarf innan flokksins eða þær kosningar sem framundan eru.“

Þorgerður Katrín tók sögulega ákvörðun sína með því að vísa meðal annars til þessara orða sinna:

„Mín stærstu mistök, mistök okkar Kristjáns [Arasonar, eigimanns Þorgerðar Katrínar], voru að hafa ekki meira lífsþor. Hafna því að taka þátt í ríkjandi menningu bankanna .

Hjá þeirri staðreynd verður ekki horft að minn elskulegi eiginmaður – og þar með ég sjálf með einum eða öðrum hætti - stöndum í eitt þúsund og sjöhundruð milljón króna skuld við kröfuhafa lána sem við tókum. Líkt og ég sagði áðan eru skuldir okkar Kristjáns ekki nýjar fréttir en með útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar er þessi veruleiki enn áþreifanlegri en áður.“

Enginn getur sett sig í spor Þorgerðar Katrínar. Ræða hennar og ákvörðun er til marks um pólitískt hugrekki og heiðarleika. Hennar fylgja góðar óskir, þegar hún lætur af embætti varaformanns. Hún ætlar að snúa aftur tvíefld til þingstarfa, þótt síðar verði. Tvö kvöld í röð hafa mótmælendur setið um heimili þeirra Þorgerðar Katrínar og Kristjáns í Hafnarfirði, en Gunnar, vinur minn, faðir Þorgerðar Katrínar, tók þá tali í gærkvöldi og var sýnt frá því í Stöð 2 að kvöldi 17. apríl.

Bjarni Benediktsson sagði, að miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kæmi saman mánudaginn 19. apríl til að ákveða, hvernig staðið yrði að því að fylla skarð varaformanns. Flokksráð fer með æðsta vald í málefnum flokksins milli landsfunda.

Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna og þingmaður Reykvíkinga, tók sér leyfi frá þingstörfum 16. apríl. Hann sat í stjórn Sjóðs 9, peningamarkaðssjóðs hjá Glitni banka. Í hrunskýrslunni er ekki talið, að sjóðsstjórnin hafi tekið refsiverðar ákvarðanir. Á hinn bóginn vísaði rannsóknarnefnd alþingis með almennum hætti málum peningamarkaðssjóða til athugunar hjá sérstökum saksóknara. Illugi telur, að við það hafi myndast óvissa, sem sé til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á störfum hans á alþingi. Jafnframt kunni þessi óvissa að skaða Sjálfstæðisflokkinn í þeirri miklu vinnu, sem framundan sé við endurreisn íslensks efnahagslífs og samfélags. Við það geti hann ekki unað.

Bjarni Benediktsson sat lengi fyrir svörum á fundinum í Stapa og snerust spurningarnar allar um efni og afleiðingar hrunskýrslunnar. Bjarni skaut sér ekki undan að svara neinu, sem að honum var beint. Allt fór fram í vinsemd og af gagnkvæmri virðingu, sem bar vott um traust í garð Bjarna hjá hinni fjölmennu framvarðarsveit flokksins, sem fyllti hvert sæti í hinum glæsilega sal í Stapa.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti alþingis og ráðherra, kynnti stjórnmálaályktun fundarins. Ólafur Örn Nielsen, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, kynnti stefnumótun SUS. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ræddi um stöðu sveitarstjórnarstigsins. Þá voru pallborðsumræður sveitarstjórnarmanna undir stjórn Þorgerðar Katrínar, en Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður í suðurkjördæmi, var fundarstjóri.

Í lok fundarins var lýst eindregnum stuðningi við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Er sú niðurstaða í samræmi við það mat, að Bjarni hafi staðist mikla áraun, frá því að hann var kjörinn á landsfundinum í lok mars 2009.

Ræður Bjarna og Þorgerðar Katrínar, yfirlýsing Illuga og fyrirspurnir á Stapafundinum snerust ekki um að sjálfstæðismenn leituðu að sekt hjá öðrum stjórnmálaflokkum. Menn litu í eigin barm og tóku á málum á þeim megingrunni, að sjálfstæðisstefnan stæði óhögguð en bregðast yrði við áfalli bankahrunsins af einurð og undanbragðalaust. Þeir vilja, að flokkurinn geri hreint fyrir sínum dyrum.

Þetta var mikilvægur fundur í sögu Sjálfstæðisflokksins. Hann veitir flokknum viðspyrnu til að hefja nú markvissa kosningabaráttu vegna sveitarstjórnakosninganna.