26.8.2009

ESB-krossaprófið hefst á vitlausum tíma.

 

 

Í aðdraganda þess, að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu (ESB), hafði ég oft á orði, að rangt væri að tala um aðildarviðræður, rétt væri að ræða um aðildarumsókn, þvi að þetta ferli líktist því, að sótt væri um eitthvað og síðan yrði umækjandinn látinn gangast undir krossapróf til að kanna, hvort hann kæmist á það stig að verða talinn hæfur umsækjandi. Yrði niðurstaðan sú, tæki ESB ákvörðun um, hve langan tíma umsækjandinn fengi til að laga sig að öllum kröfum þess. Engin undanþága yrði veitt frá reglum ESB, en tími til að laga sig að þeim kynni að verða samningsatriði.

Ég varð þess var, að samlíking við krossapróf féll ekki öllum í geð, síst þeim, sem telja, að umsóknarferðin til Brussel sé eins og innkaupaferð, þar sem unnt sé að kanna, hvort maður passi í þau föt, sem eru á boðstólum, en láti annars sérsauma á sig. Evrópusambandið tekur ekki að sér að klæðskerasauma neitt á neinn. Sé maður of feitur fyrir mál þess, er ekki um annað að ræða en grenna sig, krossaprófið á að vísa manni leiðina til þess.

Ómar Friðriksson ritar fréttaskýringu í Morgunblaðið 26. ágúst undir fyrirsögninni: Búa sig undir spurningaflóðið frá ESB. Þar segir, að íslenskum embættismönnum hafi verið skýrt frá því, að þeirra bíði mikil vinna við að svara spurningalista framkvæmdastjórnar ESB vegna aðildarumsóknarinnar. Ómar segir:

 „Skv. heimildum Morgunblaðsins verður þetta verkefni sett í algjöran forgang á næstu vikum og mánuðum í ráðuneytum og ríkisstofnunum og öðrum verkefnum ýtt til hliðar ef þörf krefur.“

 Ómar segir frá því, að Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, hafi farið til Svartfjallalands í júlí með lista með 2.178 spurningum á 368 blaðsíðum og ætli stjórnvöld Svartfjallalands, sem tóku einhliða upp evru um árið, að ráða 1000 manns og skipta þeim í 35 hópa, það er eftir köflum í ESB-löggjöfinni, til að svara spurningunum á ESB-krossaprófinu. Hverju svari verður að fylgja ítarlegur rökstuðningur eða greinargerð um það, hvernig viðkomandi krafa ESB hafi þegar verið framkvæmd eða hvernig eigi að standa að því að framkvæma hana.

Þótt Svartfjallaland hafi tekið einhliða upp evru, sem talið er prófsvindl, þegar Ísland á í hlut, stendur landið Íslandi að baki að því leyti, að það hefur ekki verið aðili að evrópska efnahagssvæðinu og hefur þess vegna ekki lagað löggjöf sína að ESB-löggjöf á sama hátt og gert hefur verið hér á landi. Ekki er víst, að spurningar, sem kynntar verða Íslandi, verði endilega færri en í Svartfjallalandi, en auðveldara er fyrir okkur að svara mörgum þeirra vegna EES-aðildarinnar.

Talið er, að í Svartfjallalandi taki 1000 manns 14 til 16 mánuði að svara spurningum ESB og er þá tekið mið af reynslu stjórnvalda í Króatíu og Makedóníu. Hvorugt þeirra landa hefur þó komist lengra en að skila spurningalistanum með svörum sínum. Slóvenar segjast ekki vilja ganga frá málum gagnvart Króötum á vettvangi ESB, fyrr en lausn finnst á deilu þjóðanna um miðlínu í Adríahafi. Grikkir vilja ekki sjá Makedóníu, fyrr en skipt hefur verið um nafn á landinu.

Í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007 segir, að Olli Rehn telji, að líklega þyrfti ekki fleiri en fjóra til fimm starfsmenn hjá ESB til að hefja aðildarviðræður við Ísland. Það væri því væntanlega auðvelt að fara í slíkar viðræður án tillits til annarra ríkja, sem sótt hefðu um aðild, Ísland þyrfti ekki að fara í neina biðröð og ekki ætti að skipta máli, hvernig staðan væri í samningaviðræðum við önnur umsóknarríki.

Ástæða er til að draga í efa, að þetta mat stækkunarstjórans reynist rétt, þegar til kastanna kemur. Í fréttum hefur verið gefið til kynna, að ESB ætli að setja á laggirnar skrifstofu hér með á annan tug starfsmanna til að vinna að mati framkvæmdastjórnarinnar. Þótt utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna hafi sent aðildarumsókn Íslands frá sér til framkvæmdastjórnarinnar 27. júlí, táknar það ekki, að ráðherrarnir séu sammála um, að Ísland sé utan biðraðar. Austurríski utanríkisráðherrann hefur sagt, að svo sé ekki.

Evrópunefndin telur í skýrslu sinni, að hugsanlegt sé, að innan við ár taki að komast að niðurstöðu um umsókn Íslands og þau atriði, sem þurfi að ræða sérstaklega vegna hennar. Hins vegar megi gera ráð fyrir því, að allt aðildarferli Íslands, það er frá því að umsókn er lögð fram og þar til Ísland gangi formlega í sambandið, taki 2-3 ár, sé miðað við reynslu Finna.

Allt eru þetta í raun aðeins orð á blaði, þar til ljóst er, hvernig staðið verður að málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Fjárlagagerð fyrir árið 2010 er á seinni skipunum vegna vandræða ríkisstjórnarinnar, sem hafði ekki meirihluta á alþingi fyrir Icesave-málinu og kaus að láta fjárlaganefnd alþingis takast á um það í margar vikur í stað þess að leiða það til lykta á öðrum pólitískum vettvangi.

Boðað hefur verið, að almennur niðurskurður á ríkisútgjöldum eigi að verða 10% árið 2010 með undanþágu fyrir félagsmál og heilbrigðismál (5%) og menntamál (7%). Allir skynsamir menn og ekki síst þeir, sem þekkja innviði stjórnarráðsins, vita, að við aðstæður sem þessar, þegar gera þarf uppskurð á öllum þáttum í ríkisrekstrinum, þurfa embættismenn að einbeita kröftum sínum að því verkefni. Þá kemur hins vegar dagskipun frá Brussel og utanríkisráðuneytinu: ESB-krossaprófið á að fá algjöran forgang og engir nýir starfsmenn verða ráðnir til að svara því, fyrir utan þýðendur í þjónustu utanríkisráðuneytisins.

Ómar Friðriksson segir í fréttaskýringu sinni, að ESB-aðildarferlið og vinna vegna þess „ sé um margt sambærileg samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma en þá þurfti aðeins að bæta við örfáum starfsmönnum í utanríkisráðuneytinu en engin fjölgun átti sér stað af þeim sökum í öðrum ráðuneytum.“  

Ástæða er til að draga réttmæti þessa samanburðar í efa, nema ákveðið hafi verið, að hafa einhverja skemmri skírn í samskiptum við framkvæmdastjórnina vegna spurningalistans langa. Hér skal eindregið varað við slíkum vinnubrögðum, því að þau koma mönnum aðeins í koll síðar, eins og sannast hefur í Icesave-málinu, þar sem athuganir og umræður hafa sýnt, að hagsmuna Íslands var ekki gætt sem skyldi vegna fljótaskriftar.

Óðagotið við að knýja aðildarumsóknina í gegnum alþingi er vísbending um, að nákvæmni og vönduð vinnubrögð einkenna ekki stíl Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, í ESB-málinu. Engu er líkara en hann sé í kapphlaupi og honum sé sama, þótt alls ekki sé ljóst, hvernig hann kemst á leiðarenda.

Þeir, sem eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu, ættu ekki að hafa sérstakar áhyggjur af þessum flumbrugangi öllum. Hann eykur aðeins enn frekar líkur á, að þjóðin hafni ESB, þar sem gengið er um of á hagsmuni hennar með aðild. Efnisleg andstaða er eitt en hinu á einnig að mótmæla að setja ESB-aðildarvinnu í forgang innan íslenska stjórnkerfisins við núverandi aðstæður og krefjast þess, að öðrum verkefnum sé ýtt hliðar, þegar mestu skiptir að allir kraftar hugar og handa séu nýttir til að bjarga þjóðarskútunni úr bráðum vanda – ESB-aðild eftir nokkur ár, gerir það ekki. Vinnu við hana á að slá á frest í fjögur til fimm ár.