15.6.2009

Hrun Guðna Th. - framtíðarsýn Þorkels.

 

Í nýjasta hefti Þjóðmála birtist umsögn mín um bók Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi, þar sem hann lýsir bankahruninu, orsökum og afleiðingum. Ég tel bók  Ólafs meingallaða, þar sem Davíð Oddsson skekkir honum sýn auk þess sem Ólafur dregur um of taum stjórenda bankanna.

Frá því að ég las bók Ólafs hef ég lesið bækur tveggja annarra höfunda, sem snerta sama mál: Hrunið eftir Guðna Th. Jóhanesson, sagnfræðing, og Ný framtíðarsýn eftir Þorkel Sigurlaugsson, framkvæmdastjóra, en báðir tengjast þeir Háskólanum í Reykjavík. Guðni er lektor við lagadeild HR en Þorkell framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs skólans.

Bækur þeirra Guðna Th. og Þorkels eru ólíkar að því leyti að Guðni settist niður eftir bankahrunið og skráði atburðarásina síðan, auk þess að skapa henni stærri umgjörð en þá, sem miðast við tímann frá því um mánaðamótin september/október 2008.

Þorkell hefur örugglega verið með bók sína lengur í smíðum en Guðni, enda snýst hún einkum um stjórnun fyrirtækja. Inn í textann er hins vegar skotið fróðlegri tengingu við bankahrunið og hvernig haldið hefur verið á rekstri ýmissa lykilfyrirtækja auk þess sem Þorkell leggur á ráðin um endurreisn þjóðarbúsins. Þá er þar lagt á ráðin um framtíðina og vonir bundnar við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hrun Guðna Th.

Forlagið er útgefandi bókar Guðna Th. og að ósk þess ritaði ég stutta umsögn um bókina og sendi því. Er hún á þessa leið:

„Ég las bók Guðna Th. Jóhannessonar mér til fróðleiks, þótt ég hefði verið beinn og óbeinn þátttakandi í atburðarásinni, sem hann rekur af kostgæfni, var það til að bregða skýrara ljósi á hana í heild að fylgja honum eftir um rústirnar eftir hrunið. Skipulag bókarinnar er gott og gefur honum færi á að draga í senn upp heildstæða umgjörð og fylla út í hana með greinargóðri samtímalýsingu. Mér finnst hann leitast við að gera ekki á hlut neins, þótt ekki sé ég sammála öllum ályktunum hans.

Guðni Th. segir frá atvikum og tímasetningum þeirra, sem ég þekkti ekki. Sá misskilningur er ríkjandi, að allir ráðherrar viti um allt, sem rekur á fjörur ríkisstjórnar. Svo er ekki, þegar um einstök málefni er að ræða.  Síðan er trúnaður manna á milli misjafnlega djúpur og af honum ræðst, hve mikil vitneskja þeirra er um pólitísk samskipti, sem aldrei rata inn á ríkisstjórnarfundi, þótt þau ráði kannski miklu um niðurstöðu í einstökum málum innan stjórnarinnar. Ég hef fylgt þeirri reglu innan ríkisstjórnar að sinna því, sem mér ber, en blanda mér ekki í mál annarra, nema eftir því sé leitað.

Þegar ég les lýsingar á atburðunum, eftir að mótmælendur tóku að láta að sér kveða í því skyni að trufla fundi ríkisstjórnarinnar og síðan alþingis, finnst mér þakkar- og aðdáunarvert, hve vel lögreglu tókst að halda á málum og stilla til friðar að lokum, þótt að henni væri sótt af skemmdarfýsn og illmennsku í skjóli mótmæla gegn ástandinu.

Ég saknaði lýsingar á því, þegar við ráðherrarnir vorum að klöngrast í niðamyrkri og hálku bakdyramegin inn í Ráðherrabústaðinn frá Suðurgötunni, af því að bílum okkar var beint þangað, þegar hópur mótmælenda hafði safnast saman fyrir framan bústaðinn á Tjarnargötu. Mótmælendur urðu hins vegar fljótt varir við þessa Suðurgötu-leið og varð lögregla að verja okkur hana. Leikskóli er skáhallt á móti Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og ollu þessi læti svo mikilli truflun þar, að fundir ríkisstjórnarinnar fluttust um tíma í Alþingishúsið, í fundarsal forsætisnefndar. Raunar er aðstaðan þar hin besta fyrir ríkisstjórnarfundi að mínu mati, mér finnst fundarherbergið í Stjórnarráðshúsinu ekki skemmtilegt.

Hinn pólitíski þáttur frásagnar Guðna gefur til kynna, að alveg frá fyrstu dögunum í október hafi blundað með samfylkingarfólki að hlaupast undan merkjum og skella skuldinni á Sjálfstæðisflokkinn, ekki síst til að koma höggi á Davíð Oddsson. Ef skýr sameiginleg stjórnarstefna hefði verið mótuð, bæri frásögn Guðna þess merki, en svo er því miður ekki, þar sem viðbrögð ríkisstjórnarinnar einkenndust af því, að hún var með fangið svo fullt af vandamálum frá degi til dags, að hún náði því aldrei að komast á beinu brautina auk þess sem Samfylkingin vildi líklega aldrei halda inn á þá braut með Sjálfstæðisflokknum.

Minnihlutastjórninni eftir 1. febrúar tókst það ekki heldur en hún bjó til samstöðu um mál, sem átti ekkert skylt við bankahrunið, það er að breyta stjórnarskránni, eftir að draumurinn um að koma Davíð frá hafði ræst. Áformin um stjórnarskrána runnu hins vegar út í sandinn. Ríkisstjórnin, sem mynduð var 10. maí, hefur ekki enn hrundið neinni markvissri aðgerðaáætlun í framkvæmd.

Ég þakka Guðna Th. Jóhannessyni fyrir að taka þetta efni saman á jafnskömmum tíma og raun ber vitni og gera það á þennan greinargóða hátt. Hann segir sjálfur, að þegar frá líði eigi menn eftir að leggja mat á atburðina frá öðrum sjónarhóli en við getum gert á líðandi stundu. Þegar það verður gert, er hins vegar ekki unnt að ganga fram hjá því, sem segir í Hruninu.“

Ofangreindur texti reyndist of langur fyrir kynningu Forlagsins og er hann því birtur hér í fyrsta sinn. Ég vil skýra betur orð mín um samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar  og þá skoðun, að líklega hafi strax eftir hrunið brostið sá strengur, sem var nauðsynlegur til að halda því saman. Hér á ég einkum við tölvubréf frá 8. október 2008, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi  Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Össuri Skarphéðinssyni, staðgengli sínum, en hún var þá í New York að ná sér eftir heilaskurðaðgerð.

Af bréfinu verður ráðið, að Ingibjörg Sólrún bar þann hug til Davíðs Oddssonar, að henni var um megn að þola hann áfram sem seðlabankastjóra. Hve djúpstæð þessi óvild hennar í garð Davíðs var og ósætti hennar við, að hann sæti sem seðlabankastjóri, birtist mér í raun ekki, fyrr en ég las bréf hennar í bók Guðna Th.

Ingibjörg Sólrún var erlendis, þegar Davíð Oddsson kom á fund ríkisstjórnarinnar 30. september.  Mikið hefur verið rætt um þessa fundarsetu Davíðs og sýnist sitt hverjum. Guðni Th. segir í bók sinni:

„Meðal ráðherra fór tvennum sögum af fasi hans [Davíðs] og blæbrigðum í tali. Annað hvort „ruddist“ hann inn á fundinn og lagði eindregið til að þjóðstjórn yrði skipuð í landinu, eða hann hafði ósköp sakleysislega orð á þessu „í forbifarten“. Hvað sem því leið var í hæsta máta óvenjulegt að embættismaður talaði með þessum hætti á ríkisstjórnarfundi. En þetta voru óvenjulegir dagar og Davíð Oddsson var ekki venjulegur embættismaður. Fæstum (jafnvel engum) sem sat þennan ríkisstjórnarfund duldist að hann brann í skinninu að fá að taka stjórn aðgerða í sínar hendur.“ (bls. 72)

Vegna þessara orða Guðna Th. skoðaði ég vefsíðu mína til að sjá, hvað ég hefði sagt um þjóðstjórn þar og sló inn því leitarorði. Ég sé, að á sínum tíma taldi ég ekki neina töfralausn á ástandinu eftir bankahrunið að mynduð yrði þjóðstjórn. Hinn 6. desember 2008 vík ég að ríkisstjórnarfundinum 30. september 2008 á þennan veg:

„Ríkisstjórnarfundurinn komst í fréttir vegna þeirra orða Davíð, að aðstæður í þjóðfélaginu væru svo alvarlegar, að með þeim mætti rökstyðja nauðsyn þess að mynda þjóðstjórn.“

Og hinn 3. febrúar 2009 segi ég hér á síðunni:

„Á þeim tíma, sem ég sat í ríkisstjórn með Samfylkingunni, man ég ekki eftir, að hún hafi lýst nokkrum efnislegum ágreiningi vegna ákvarðana bankastjórnar seðlabankans á fundum ríkisstjórnarinnar, nema þegar Össur Skarphéðinsson varð hræddur um stólinn sinn, af því að Davíð nefndi orðið þjóðstjórn en gat þess jafnframt, að hún væri ekki góður kostur, þar sem engin yrði stjórnarandstaðan.“

Ég tek undir með Guðna Th., að Davíð var enginn venjulegur embættismaður, hann hafði raunar setið í ríkisstjórn með mörgum okkar, sem hittum hann þarna 30. september bæði úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Í tíð Davíðs sem forsætisráðherra var ekki algengt, að embættismenn sætu fundi ríkisstjórnar. Hafði dregið úr því síðan á þeim tíma, þegar ég starfaði í forsætisráðuneytinu 1974 til 1979. Þá voru embættismenn oft kallaðir á ríkisstjórnarfundi til að ræða efnahagsmál eða landhelgisdeilur við Breta, svo að dæmi séu nefnd. Sögðu þeir ekki alltaf bara það, sem þeir töldu, að ráðherrar vildu heyra, heldur gáfu ráð með því að vekja máls á óþægilegum staðreyndum eins og vera ber.

Frásögn Guðna Th. af komu Davíðs á ríkisstjórnarfundinn gefur þá mynd, að ráðherrar hafi ekki áður kynnst jafnerfiðu viðfangsefni og Davíð lagði fyrir þá og sumir þeirra kusu síðan að grípa til hins gamalkunna ráðs að kenna boðbera hinna válegu tíðinda um það, sem hann hafði að segja.

Kenningin um, að Davíð hafi viljað taka mál í sínar hendur, byggist líklega á því, að innan seðlabankans höfðu menn kallað saman sérfróða menn til að leggja á ráðin um viðbrögð, en á vegum viðskiptaráðuneytis starfaði hópur embættismanna, sem hafði búið í haginn fyrir neyðaraðgerðir eins og síðan birtust með svonefndum neyðarlögum.  

Erfitt er að ímynda sér, að Davíð eða nokkur annar hafi „brunnið í skinninu“ af þrá eftir því að ráðskast með hin erfiðu viðfangsefni. Allir vildu helst geta bægt þeim frá sér, en undan vandanum varð ekki vikist.  Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, kann að hafa talið fram hjá sér gengið í máli Davíðs en Björgvin sagði síðar frá því á alþingi, að hann hefði ekki hitt Davíð síðan í nóvember 2007,  þar til á þessum fundi 30. september 2008.

Af ræðu, sem Davíð Oddsson flutti á landsfundi Sjálfstæðisflokksins  28. mars 2009 og birt er í sumarhefti Þjóðmála, má álykta, að hann hafi ekki borið traust til Björgvins. Davíð sagði, að vissulega mætti meta það við Ingibjörgu Sólrúnu, formann Samfylkingarinnar, að hún virtist hafa haft sömu skoðun og sjálfstæðismenn, þegar seðlabankinn boðaði ráðherra til fundar um bankamál í aðdraganda hrunsins að ekki væri

„tækt að Össur Skarphéðinsson eða Björgvin Sigurðsson sætu þessa fundi því yfirgnæfandi líkur væru á að þeir lækju öllu saman sem þar færi fram innan mjög skamms tíma og þá hefði illa farið.“

Allt bendir til, að Össur og Björgvin séu heimildarmenn Guðna Th. að þessari frásögn af ráðherrafundinum sögulega 30. september 2009.

Hitt er síðan annað mál, að í setningarræðu sinni á landsfundi sjálfstæðismanna 26. mars 2009 sagði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins:

 „Þegar horft er til baka [til hinnar pólitísku stöðu við bankahrunið í október 2008] er mín niðurstaða sú að hyggilegast hefði verið að freista þess strax í haust að mynda þjóðstjórn allra flokka. Hún hefði hugsanlega getað setið út veturinn, gert nauðsynlegar ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum og undirbúið kosningar. Vandinn var sá að vinstri grænir, sem vildu komast í þjóðstjórn, vildu láta kjósa strax í nóvember og voru algjörlega á móti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samfylkingin var hins vegar á móti þjóðstjórn af ýmsum ástæðum og ég gaf þennan kost frá mér að vandlega athuguðu máli.“

Í ljósi reiði Samfylkingarinnar í garð Davíðs strax frá fyrstu viku hrunsins og kröfu Ingibjargar Sólrúnar 8. október , að „hann verði að fara“ er sérkennilegt, að Samfylkingin hafi snúist gegn þjóðstjórn á þessum tíma. Í bréfi sínu segir Ingibjörg Sólrún (Guðni Th. bls. 175):

„[V]ið í Samfylkingunni munum ekki sætta okkur við það að DO sitji við stjóra og útdeili skensi og skömm. Þess vegna verður hann að fara. Eins og þið sjáið er ég mjög ákveðin í þessari skoðun – og hef raunar verið lengi – en kaleikurinn er hjá forsætisráðherra. Hann þarf að finna leiðina. En það er ekki síst með hagsmuni hans í huga sem ég legg þetta til. Seðlabankastjóri sem vísar til forsætisráðherra með nafni en ekki titli í löngu viðtali er á sérkennilegri vegferð. Og ég lýk þessu eins og Cato gamli: „Að lokum legg ég til….““

Feitletrunin er mín, því að forvitnilegt er, að þau rök séu færð í máli sem þessu, að það varði við brottrekstur, að Davíð skuli hafa nefnt nafn Geirs H. Haarde í samtali við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi en ekki talað um forsætisráðherra. Þessi fáfengilegheit koma álíka mikið á óvart eins og reiðikastið yfir því, að Davíð skyldi hafa nefnt orðið „þjóðstjórn“  á fundi með ríkisstjórninni.

Í einhverju svipuðu hégómlegu samhengi eftir hrunið varð mér á orði á ríkisstjórnarfundi, að kæmust ráðherrar ekki yfir atriði sem þessi, væri ekki mikil von til þess, að stjórnin gæti tekið á því sem máli skipti og sneri að efni málsins.

Framtíðarsýn Þorkels.

Bók Þorkels Sigurlaugssonar Ný framtíðarsýn ber undirtitilinn : Nýir stjórnarhættir við endurreisn atvinnulífsins, bókafélagið Ugla er útgefandi.

Fróðlegt er að lesa mat Þorkels á því, hvernig til hefur tekist við stjórn einstakra fyrirtækja hin síðari ár. Hann segir meðal annars á bls. 68:

„Baldri Guðnasyni, forstjóra Eimskips á árunum 2004-2008, ásamt Magnúsi Þorsteinssyni, stjórnarformanni, tókst eins og fleirum sem voru í fjárfestinga- og útrásarham á þessum árum að búa sjálfum sér til einhverja fjármuni, en aðrir hluthafar og lánardrottnar tapa tugum milljarða. Þessir menn skilja hluthafa Eimskipafélagsins og fjármálastofnanir eftir með tugmilljarða tjón og er félagið nánast gjaldþrota þegar þetta er skrifað. Fífldirfska forstjóra og stjórnar Eimskipafélagsins á þessum árum var með ólíkindum og ábyrgðin liggur hjá stærstu eigendunum sem hafa leitt félagið áfram á undanförnum árum. Óskabarn þjóðarinnar varð að vandræðabarni Landsbankans og einn af leikendum í hrunadansi fjármálakerfisins. Eimskipafélagið var í upphafi 20. aldar eitt af mikilvægustu fyrirtækjum landsmanna í sjálfstæðisbaráttunni, en getur nú lítið lagt af mörkum við endurreisnina. Eimskip varð skyndilega eitt af skuldsettustu fyrirtækjum landsins, örlagavaldur í að stefna fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða og olnbogabarn landsmanna á 95 ára afmæli félagsins 17. janúar 2009.“

Hér er fast að orði kveðið og af tilfinningahita, enda átti Þorkell sinn þátt í því í forstjóratíð Harðar Sigurgestssonar hjá Eimskip að treysta stöðu félagsins sem leiðandi afls í efnahagslífi þjóðarinnar.

Bækur um leiðtoga og stjórnunarfræði fá aukið gildi við að taka dæmi eins Þorkell gerir og sakna ég, að hann greini ekki ýmislegt, sem hér hefur verið að gerast í viðskiptalífinu nánar með þekkingu sína og viðhorf til stjórnunar að leiðarljósi. Er honum það mun betur lagið en leggja á ráðin um, hvert skuli stefna í stjórnmálum og alþjóðamálum.

Af orðum hans hér að ofan má ráða, að hann telji markmið þeirra Baldurs Guðnasonar og Magnúsar Þorsteinssonar hafi frekar verið að „búa sjálfum sér til einhverja fjármuni“ en reka fyrirtæki á þann veg, að það dafnaði og skilaði sem bestum tekjum fyrir hluthafa og starfsmenn.  Ætla mætti að hlutafélagalög og samþykktir einstakra félaga ættu að veita tækifæri til þess aðhalds af hálfu eigenda, sem þarf til að koma í veg fyrir það, sem helst mætti kenna við skemmdarstarf, þegar litið er yfir farinn veg.

Annars vegar ræðir Þorkell um það, sem helst má prýða góðan stjórnanda eða leiðtoga, og hvernig halda beri á málum til að ná sem bestum árangri við stjórn og rekstur fyrirtæka. Á hinn bóginn kvartar hann oftar en einu sinni undan skorti á opinberu eftirliti og má ráða af því, að hvað sem líði allri þekkingu á góðum stjórnarháttum við rekstur fyrirtækja, sé það að lokum undir opinberu eftirliti komið, hvort illa fari eða ekki.

Pendúllinn hefur vissulega sveiflast frá því að skapa eigi stjórnendum og eigendum fyrirtækja sem mest frelsi og sjálfstæði, eins og var á tímum útrásar, og til þess nú,  að ríkið eða eftirlitsstofnanir þess skuli vera með puttana í sem flestu.

Ég sakna þess í bókum þeirra beggja Guðna Th. og Þorkels, að gerð sé úttekt á því, hvernig fjölmiðlar og allar opinberar umræður breyttust samhliða vexti fjármálafyrirtækja og útrás þeirra. Stjórnmálamenn og störf þeirra voru sett í annað eða þriðja sæti á eftir athafnamönnum og fjármálafurstum.

Þorkell sendir stjórnmálamönnum þessa ör á bls. 73:

„Árið áður varð alþingismaður uppvís að þjófnaði á opinberu fé í starfi sem honum var trúað fyrir en hann fékk síðan uppreisn æru og bauð sig fram til Alþingis í prófkjöri og komst inn.“

Þarna er vísað til máls Árna Johnsens, án þess að öll sagan sé sögð. Árni tók út refsingu með því að fara í fangelsi. Lög mæla fyrir um rétt hans til að fá uppreist æru, hefði honum verið neitað um þann gjörning, hefði hann verið settur skör lægra en aðrir borgarar. Árni hefur síðan tvisvar leitað eftir stuðningi í prófkjöri og  í bæði  skiptin hlotið annað sæti á lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Í kosningum hefur hann hins vegar fallið um eitt sæti vegna útstrikana.

Ég er ósammála Þorkeli, þegar kemur að því, sem er þungamiðjan í framtíðarsýn hans fyrir Ísland, það er að ganga í Evrópusambandið.  Rök hans eru ekki sannfærandi, annars vegar hræðsluáróður um, að án aðildar breytist Ísland í  fátæktargildru fyrir íbúa sína, og hins vegar „af-því-bara“ sjónarmið, sem eiga illa heima í bók, þar sem leitast er við að greina og færa rök fyrir ákveðnum niðurstöðum, meðal annars með því að vitna í viðurkennda fræðimenn um stjórnun eða reynslu mikilhæfra leiðtoga í atvinnurekstri. Þeir, sem Þorkell nefnir til sögunnar,  koma flestir ef ekki allir frá Bandaríkjunum.  Á fræðasviði stjórnunar eða við rekstur fyrirtækja höfum við ekki mikið að sækja til Evrópu, ef marka má bók Þorkels.

Þegar Þorkell ræðir um einkenni 21. aldarinnar  segir hann meðal annars:

Staða Íslands í alþjóðlegu samhengi, stefna í alþjóðamálum og samstarf við aðrar þjóðir mun allt ráða miklu um það hvernig til tekst að styrkja samkeppnisstöðu Íslendinga á þessari öld, nýta styrkleika hennar og koma í veg fyrir hugsanlega einangrun þjóðarinnar. Þar munu tengslin við Evrópu, efnahagsstjórnun, gjaldmiðlamál og innganga í Evrópusambandið skipta sköpum. Pólitískar ákvarðanir næstu misserin ráða miklu um lífskjör Íslendinga næstu árin og áratugina….

Öryggismál fólks og þjóða munu taka á sig nýja mynd í kjölfar hryðjuverka og nýrra viðhorfa til hernaðar, þar sem hryðjuverkaárásin á World Trade Center og Pentagon markaði sérstök þáttaskil. Innrásin í Írak, átök fyrir botni Miðjarðarhafs, pólitísk og hernaðarleg uppbygging Rússlands, trúarbragðastyrkjaldir, skæð flensuveira, SARS, og svínaflensa eru dæmi um öryggis- og heilbrigðismál sem jarðarbúar þurfa að fást við. Það má vel vera að 21. öldin verði sú öld sem leiði hvað mestar hörmungar yfir jarðarbúa og þá af þeirra eigin völdum.“

Undarlegt er, að þarna er hvergi minnst á breytingarnar, sem eru að verða á norðurslóðum vegna nýtingar orkulinda á norðurskautinu eða siglinga í Norður-Íshafi. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sagði þó fyrir fáeinum dögum, að hann myndi selja Ísland gagnvart Evrópusambandslöndum með því að benda þeim á, að aðild Íslands opnaði ESB nýja leið að norðurskautinu. Ég feitletraði lokasetninguna, því að í henni felst dapurleg spá að nýlokinni öld tveggja heimsstyrjalda. Til hvaða framtíðarhörmunga er Þorkell að vísa?

Málsvarar ESB-aðildar eru þeirrar skoðunar, að án hennar sé Ísland dæmt til að einangrast. Það er jafnvel gefið til kynna, að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) skipti engu fyrir Ísland í alþjóðlegu tilliti, þótt innan NATO sé eins og hvarvetna annars staðar vaxandi áhugi á norðurslóðum.

Þorkell telur, að með bankahruninu hafi Ísland tapað sjálfstæði sínu. Hann segir (bls. 187): „Þjóðin hefur í raun tapað sínu fjárhagslega sjálfstæði. Allt tal um sjálfstæði þjóðarinnar hljómar ótrúverðuglega.“ Þess vegna vill hann að ríkisstjórnin sæki um aðild að Evrópusambandinu. Hann telur lífsnauðsynlegt  fyrir Ísland að „verða órjúfanlegur hluti af Evrópusambandinu og þar með alþjóðasamfélaginu.“  Og hann segir (bls. 188):

„Sjálfstæði þjóðarinnar stendur mest ógn af einhverri ímyndaðri sjálfstæðisbaráttu utan Evrópu og að við þurfum að ráða yfir okkar auðlindum til sjávar og sveita. Það voru mikil vonbrigði þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók afstöðu gegn aðild að Evrópusambandinu á síðasta landsfundi flokksins, en rökin voru talin þau að öfgafullir andstæðingar Evrópuaðildar hefðu að öðrum kosti gengið úr flokknum eða gripið til annarra róttækra aðgerða. Það var ekki hægt að ræða þetta málefnalega.“

Fyrir okkur, sem sátum landsfundinn og tókum þar þátt í umræðum um Evrópumál, er með ólíkindum að lesa þennan texta. Þar er einnig skautað fram hjá þeirri staðreynd, að hinn 14. nóvember 2008 var hleypt af stokkunum Evrópuumræðum innan Sjálfstæðisflokksins, sem stóðu fram að landsfundi í lok mars 2009 með þátttöku hundruð ef ekki þúsunda flokksmanna. Sjónarmið skoðanabræðra Þorkels urðu einfaldlega undir í þessum umræðum. Að segja þær hafa einkennst af hótunum um úrsögn úr flokknum af hálfu þeirra, sem eru andvígir aðild, er umsnúningur á staðreyndum. Nokkrum dögum fyrir kosningar gerðu aðildarsinnar innan flokksins aðför að samstöðu innan hans með herferð undir kjörorðinu sammala.is og eftir kosningar hóta þeir að stofna nýjan flokk, ef þingmenn flokksins ganga á svig við samþykkt landsfundar.

Þorkell gefur ekki mikið fyrir yfirráð Íslendinga yfir auðlindum sínum og hann lætur hjá líða að ræða geopóltískar stórbreytingar á norðurslóðum, þegar hann spáir einangrun Íslands á alþjóðavettvangi, þá minnist hann til dæmis ekki á alþjóðalega glæpastarfsemi, þegar hann ræðir öryggismál. Við mótun framtíðarsýnar sinnar hefði Þorkell átt að leita víðar fanga og ekki láta Evrópusambandið villa sér sýn.