14.3.2009

Vandræðaleg við vindhanans hlið.

Hinn 13. desember 2008 sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ókleift að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn vegna Evrópustefnu hans. Ætti Samfylkingin að sitja áfram í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum yrði hann að breyta um Evrópustefnu. Þegar þetta var sagt, hafði verið unnið að því síðan 14. nóvember 2008 innan Sjálfstæðisflokksins að endurskoða Evrópustefnuna. Var þeim Kristjáni Þór Júlíussyni, alþingismanni, og Árna Sigfússyni, bæjarstjóra, falið að leiða það starf og var þeim ætlað að skila niðurstöðu sinni í tæka tíð fyrir landsfund, sem átti að halda í lok janúar. Landsfundi var frestað og eru nú tæpar tvær vikur til hans, án þess að niðurstaða þeirra Kristjáns Þórs og Árna hafi verið kynnt.

Þess er vænst, að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hinn 26. til 29. mars komist flokkurinn að niðurstöðu um, hvernig hann vilji, að haldið verði á Evrópumálum á því kjörtímabili, sem hefst eftir þingkosningarnar 25. apríl. Hér skal engu spáð um niðurstöðu landsfundarins.  Kannanir sýna, að um 70% sjálfstæðismanna eru andvígir aðild að Evrópusambandinu (ESB).

Ég er í hópi þeirra, sem tel Íslandi ekki fyrir bestu að ganga í Evrópusambandið og hef meðal annars rökstutt það í bók minni Hvað er Íslandi fyrir bestu? sem kom út fyrstu dagana í janúar 2009.

Hafi verið nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að líta á Evrópustefnu sína í því skyni að koma til móts við Samfylkinguna í ríkisstjórnarsamstarfi, er sú nauðsyn ekki lengur fyrir hendi. Ég færði rök fyrir því í pistli hér á síðunni 3. janúar 2009,  að líkindi væru með atburðarrás í umræðum um Evrópumálin og því, sem gerðist 1956, þegar vinstri flokkarnir sameinuðust fyrir kosningar um haldlausa stefnu í varnarmálum til að einangra Sjálfstæðisflokkinn og hurfu frá henni nokkrum mánuðum eftir kosningar, þegar þeim hafði tekist að mynda ríkisstjórn.

Nú hefur komið í ljós, að krafa Samfylkingarinnar um að sjálfstæðismenn breyttu um Evrópustefnu, til að Samfylkingin gæti verið áfram í ríkisstjórn, var aðeins samfylkingar-átylla í leit flokksins að leið til að slíta stjórnarsamstarfið. Lokakrafan um, að Geir H. Haarde hyrfi úr forsætisráðherrastóli sprengdi hins vegar stjórnina að lokum 26. janúar 2009, því að dauðahald Samfylkingar í kröfu um aðild að Evrópusambandinu hefði gengið þvert á þann vilja hennar að hefja samstarf við vinstri-græna.

Ritstjórar dagblaðanna, Þorsteinn Pálsson á Fréttablaðinu og Ólafur Þ. Stephensen á Morgunblaðinu,  eru báðir áhugamenn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og bundu vonir við, að Samfylkingunni tækist að þvæla Sjálfstæðisflokknum í átt að skoðunum sínum. Þeir sitja nú eftir með sárt enni, eftir að hafa veðjað á samfylkingar-hestinn.

Vonbrigði þeirra urðu ekki minni, þegar þeir sáu, að Samfylkingin stóð að flutningi tillögu um breytingu á stjórnarskránni, án þess að setja þar inn ákvæði, sem tryggði, að stjórnarskráin stæði ekki í vegi fyrir ESB-aðild. Þorsteinn sagði í leiðara 10. mars:

„Forsætisráðherra Samfylkingarinnar getur ekki málað auðmýkingu flokksins sterkari litum en með því að opna stjórnarskrármálið án þess að opna möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Á sama tíma og heilbrigðisráðherra boðar niðurskurð ætlar forsætis-ráðherra að fjölga þingmönnum þjóðarinnar í eitt hundrað og fjóra og efna til fimm kosninga á næstu tveimur árum án þjóðaratkvæðis um afstöðu til Evrópusambandsins.“

Hinn 14. mars ritar Þorsteinn leiðara í Fréttablaðið undir fyrirsögninni: Kosningasvik. Þar segir meðal annars:

„För forsætisráðherra á fund Viðskiptaráðs [12. mars] er lýsandi fyrir stöðuna. Þar kallar hann á Evrópusambandsaðild. Rakleiðis þaðan heldur hann á Alþingi. Þar krefst hann þess að stjórnarskránni verði breytt jafnvel þó að þar með sé settur Þrándur í Götu Evrópusambandsaðildar.

Að verðleikum hefur forsætisráðherra [Jóhanna Sigurðardóttir] unnið sér traust á málasviði sínu fyrir stefnufestu. Í nýju hlutverki skipar ráðherrann sér hins vegar við burstina við hliðina á vindhananum. Illa fer á því. Hlutverk forsætisráðherrans er einfaldlega of stórt til að eiga þar heima.“

Hvað er Þorsteinn Pálsson að segja: Jú, það er ekkert að marka Jóhönnu Sigurðardóttur í Evrópumálum, hún er eins og hver annar vindhani, segir eitt á viðskiptaþingi og annað á alþingi. Þetta á ekki við Jóhönnu eina heldur Samfylkinguna í heild, en þar er hávær krafa um, að Jóhanna taki við flokksformennsku, líka frá þeim, sem segjast líta á aðild að ESB sem eina bjargráð Íslands.

Þorsteinn nefnir einnig, að með breytingu á stjórnarskránni, þar sem Jóhanna er fyrsti flutningsmaður sé sköpuð ný hindrun fyrir aðild Íslands að ESB. Hér vísar hann til greinar, sem Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur ritaði í Fréttablaðinu 13. mars 2009. Þar segir:

„Geri Ísland aðildarsamning við ESB eru verulegar líkur á að engar varanlegar undanþágur fáist frá hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins. Standist forsendur þær sem liggja til grundvallar auðlindaákvæðinu hefði innganga Íslands í ESB væntanlega í för með sér að íslenska ríkið hefði ekki „forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt" fiskveiðiauðlindarinnar á Íslandsmiðum. Verði auðlindaákvæðið að lögum mun innganga Íslands í ESB vera brot á ákvæðinu.

Sú framtíðarsýn er málefnaleg að Ísland eigi að ganga í ESB. Í stað þess að breyta stjórnarskránni í þá veru að engar lagalegar tálmanir séu því í vegi er nú lagt til að bætt verði ákvæði í stjórnarskrá sem geri slíka inngöngu að öllum líkindum torsóttari. Þetta eru merkileg tíðindi, ekki síst ef miðað er við þjóðfélagsumræðuna síðustu misseri um aðild Íslands að ESB.“

Helgi Áss nálgast niðurstöðu sína af varúð fræðimanns. Stjórnmálamaður mundi orða þessa hugsun á þann veg, að með breytingartillögu Jóhönnu Sigurðardóttur o. fl. á stjórnarskránni er verið að spilla fyrir því, að Ísland gangi í ESB, þótt Jóhanna segist fylgjandi aðild.

Í greinargerð með frv. um breytingu á stjórnarskránni segir meðal annars athugasemd við 1. grein frumvarpsins, sem snýst um þjóðareign á náttúruauðlindum og umhverfismál:

„Mikilvægt framlag hins nýja stjórnarskrárákvæðis er að þegar auðlindir falla á annað borð undir hugtakið þjóðareign verður tryggt að þeim verði ekki afsalað varanlega til einstaklinga eða lögaðila, sbr. regluna sem fram kemur í 2. mgr. ákvæðisins. Eins mundi það koma í veg fyrir að einkaeignarréttur stofnist á auðlindum í þjóðareign fyrir hefð. Loks getur þessi yfirlýsing haft gildi í tengslum við mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu að því leyti sem þar kynni að reyna á eignarhald náttúruauðlinda á borð við nytjastofna á Íslandsmiðum. Þótt íslenska ríkið mundi gangast undir framsal fullveldisréttar til stofnana Evrópusambandsins hvað varðar stjórnun fiskveiða og ráðstöfunarrétt nytjastofna í tengslum við úthlutun veiðiheimilda mundi stjórnarskrárákvæðið hindra að eignarréttur þjóðarinnar að fiskveiðiauðlindunum færðist yfir til Evrópusambandsins eða annarra ríkja.“

Þarna er gefið til kynna, að með þessu nýja ákvæði í stjórnarskránni kynni að verða unnt að tryggja náttúruauðlindum einhverja vernd gagnvart ásælni Evrópusambandsins. Staðreynd er, að ákvæðið veitir enga slíka vernd, því að það samrýmist einfaldlega ekki stofnsáttmála ESB og yrði því eitt af því fyrsta, sem yrði að breyta fyrir inngöngu í ESB. Yrði ákvæði sem þetta hluti af aðildarumsókn Íslands mundi framkvæmdastjórn meta það á þann veg, að nauðsynlegt væri að afnema ákvæðið innan umsamins tíma, en það fengi aldrei varanlegt gildi sem fyrirvari af Íslands hálfu.

Því miður er það hluti af blekkingarleiknum til að gera aðild að ESB álitlegri í hugum Íslendinga að semja texta á borð við þann, sem birtist í greinargerðinni með stjórnarskrárfrumvarpinu. Ég spurði Atla Gíslason, þingmann vinstri-grænna, í umræðum um stjórnarskrárbreytinguna, hvort hann liti þannig á, að breytingin auðveldaði aðild Íslands að ESB og taldi hann svo ekki vera.

Ritstjóri Morgunblaðsins varð ekki síður en Þorsteinn Pálsson leiður, þegar hann leiddi hugann að ræðu Jóhönnnu á viðskiptaþingi, hann segir í leiðara 14. mars:

„Um langt árabil hafa forsætisráðherrar mætt á Viðskiptaþing og sagt fundarmönnum að umræður í viðskiptalífinu um Evrópusambandið og evru væru ótímabærar. Nú varð breyting þar á. Jóhanna Sigurðardóttir orðaði það svo að innganga í ESB og upptaka evru væri forsenda langvarandi stöðugleika íslenzka hagkerfisins. Það vandræðalega við þennan hluta ræðu Jóhönnu var hins vegar að hún situr í forsæti ríkisstjórnar sem gerir nákvæmlega ekki neitt í málinu.“

Af þessum orðum ritstjóranna má ráða, að þeir hafa gefið frá sér alla von um, að Jóhanna Sigurðardóttir þoki málum í átt til Evrópusambandsins. Annar þeirra segir hana þvert á móti búa til nýjar hindranir en hinn lætur sér nægja að segja, að hún geri „nákvæmlega ekki neitt í málinu.“

Þessi vindahanaaðferð Jóhönnu í Evrópumálinu er einnig sýnilegur í afstöðu hennar til mála. eftir að hún varð forsætisráðherra. Um árabil hefur hún flutt tillögur á þingi um endurskoðun laga um landsdóm og ráðherraábyrgð í því skyni að auka aðhald að ráðherrum með skýrari ábyrgð þeirra og kröfum um, að þeir hlíti í einu og öllu reglum um stjórnsýslu og stjórnskipan.

Hér skal því enn einu sinni haldið fram, að Jóhanna Sigurðardóttir sé sá forsætisráðherra, sem gengið hafi af mestu virðingarleysi um þessar reglur. Hófst atlagan að góðum stjórnsýsluháttum strax á fyrsta sólarhring hennar í forsætisráðuneytinu með bréfinu til seðlabankastjóranna, sem hún birti meira að segja opinberlega, áður en þeir höfðu haft tök á að kynna sér efni þess.

Síðasta dæmið er svo ákvörðun Jóhönnu um þingrof frá kjördegi, 25. apríl, til að komast í kringum þá sjálfsögðu reglu, að þing ljúki störfum sem fyrst, eftir að ákvörðun hefur verið tekin um kjördag. Þegar stjórnarskránni var breytt árið 1991 á þann veg, að umboð þingmanna rynni ekki út fyrr en á kjördegi, þótt þing yrði rofið, datt auðvitað engum í hug, að þing yrði ekki rofið fyrr en á kjördegi, hefði ímyndunarafl tillögumanna náð til þess, hefðu þeir aldrei flutt tillögu sína, málið er ekki flóknara en það. Mistök þeirra fólust í því að þurrka ekki orðið þingrof út úr stjórnarskránni og láta við það sitja, að boðað skyldi til kosninga með ákveðnum fyrirvara og eftir þá boðun skyldi þingstörfum ljúka sem fyrst og aðeins afgreidd brýn mál, sem um væri samstaða meðal þingmanna.

Hitt er síðan sérstakt álitaefni, hve langur frestur til að greiða atkvæði utan kjörstaða þarf að vera, en yfirlýsingu sína um þingrof 25. apríl og boðun kosninga þá gaf Jóhanna 13. mars, til að 45 dagar gæfust til að greiða atkvæði utan kjörstaða. Í mörgu tilliti er einkennilegt að hafa þann frest lengri en svo, að vitað sé, hverjir bjóði fram í kosningunum. Nú hafa til dæmis nokkrir boðað framboð, án þess að hafa kynnt listabókstafi eða í hve mörgum kjördæmum þeir verða í boði. Hvað með þá, sem vilja ljá þessum framboðum liðsinni, en kjósa að greiða atkvæði utan kjörfundar? Eiga þeir að búa við skemmri frest en hinir, sem kjósa fjórflokkinn og frjálslynda?

Sagt var frá því 11. mars, að Þórhallur nokkur Vilhjálmsson markaðsfræðingur boðaði til blysfarar að heimili Jóhönnu Sigurðardóttur til að hvetja hana til að verða við óskum um að taka að sér formennsku í Samfylkingunni. Daginn eftir birtust fréttir í blöðum, að Þórhallur hefði einn komið til blysfararinnar – enginn hefði hlýtt kalli hans nema nokkrir fjölmiðlungar.

Vandræði samfylkingarfólks vegna ágreinings um eftirmann Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur tekur á sig ýmsar myndir. Það verður vandræðalega vindhanalegt fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að lýsa yfir því nú um helgina, að hún taki að sér að gegna formennsku í Samfylkingunni næstu tvö árin, þar til hún hættir í stjórnmálum.

Hvað sem þessum vindhanagangi líður á Jóhanna sér dygga stuðningsmenn. Ég verða tveir bloggarar nefndir til sögunnar. Þeir tóku upp hanskann fyrir hana, vegna þess sem ég setti hér á síðuna í dagbókarfærslu 13. mars.

Baldur Elís Bjarnason, fæddur 1949, fluttist 1989 til Gautaborgar og hefur í 19 ár unnið hjá Volvo í Torslanda ritar meðal annars á bloggsíðu sína 13. mars:

Björn Bjarnason efast um að Jóhanna átti sig á ábyrgð sinni, það eiginlega hlítur að vera að maðurinn þjáist af sýrubrist, ef það er einhver sem gerir sér grein fyrir ábyrð sinni fyrir landi og þjóð þá er það Jóhanna Sigurðardóttir.

Hver var ábyrgð þín þegar bankahrunið átti sér stað, hver voru viðbrögð þín, hvað gerði Björn þá, svarið er einfallt EKKERT. Mér finnst komin tími til fyrir þig að halda þverrifunni á þér saman, því að úr henni kemur bara bölvaður þvættingur.“

Ég viðurkenni, að mér er ekki ljóst, hvað það er að vera með „sýrubrist“ og get því ekki upplýst Baldur Elís um, hvort hann þjaki mig. Af hinu hef ég meiri áhyggjur, þegar gripið er til upphrópana af þessu tagi í opinberum umræðum um alvarleg mál.

Carl Jóhann Lilliendahl frá Siglufirði heldur úti vefsíðunni Klæðskerinn skrifar á netinu. Hann segir þar 13. mars:

„Björn Bjarnason er reiður núna út í Jóhönnu og yfir því að geta ekki boðið Sjálfstæðismönnum lengur sérréttindin. Gefur skít í þjóðina og heldur að aðeins Sjálfstæðismenn geti stjórnað, Sjálfstæðismenn og hann sem settu þjóðina á hausinn. Það verður engin eftirsjá af þessum manni heldur hamingja við að losna við hann.“

Carl Jóhann hlýtur að skrifa þessar skammir í minn garð í trausti þess, að enginn kanni, hvort orð hans um að ég gefi „skít í þjóðina“ eigi við rök að styðjast. Svo er einfaldlega ekki og aldrei hef ég krafist sérréttinda fyrir sjálfstæðismenn. Að bæta þurfi málstað Jóhönnu Sigurðardóttur með slíkum ósannindum er ekki traustvekjandi, svo að ekki sé meira sagt. Hinu fagna ég, að Carl gleðjist yfir brotthvarfi mínu af  þingi, því að þá hættir hann væntanlega að fara með lygar um skoðanir mínar.