7.3.2009

Ríkisstjórn með ranga forgangsröð.

Eins og við vitum var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mynduð til að takast á við aðsteðjandi vanda heimila og fyrirtækja. Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er, að stjórnin hefur ekki sinnt þessu verkefni af þeim þunga, sem við var að búast. Forgangsröðin er alröng. Ríkisstjórnin hefur varið mestum kröftum í að veitast að embættismönnum og stjórnendum Seðlabanka Íslands auk þess að hrekja formenn bankaráða úr sætum og amast við því að Ásmundur Stefánsson varð bankastjóri Landsbanka Íslands.

Ríkisstjórnarflokkarnir fengu sérfræðinga til að semja frumvarp til breytinga á kosningalögum í því skyni að innleiða svonefnt persónukjör, þótt allir flokkar séu nú að binda framboðslista sína með forvali eða prófkjörum. Frumvarpið ber einnig með sér, að það hefur ekki hlotið neina almenna umræðu á vettvangi stjórnmálaflokka, heldur er um hreina tæknikrata smíði að ræða, þar sem valið er á milli leiða, án þess að niðurstaðan sé rökstudd með nokkrum stjórnmálalegum rökum.

Frumvarpið hefur ekki neitt með bankahrunið að gera og snertir hvorki á hag almennings né fyrirtækja. Var broslegt að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar tala á þann veg á þingi, að persónukjör hefði getað ráðið einhverju um, hvort hér hefði orðið fjármálakrísa eða ekki. Þá var ekki síður undarlegt að hlusta á þá röksemd þeirra, að með þessu frumvarpi væri snúist gegn flokksræði. Eins og vitað er hefur flokksforysta Samfylkingarinnar ætlað sér öruggustu sætin á framboðslistanum í Reykjavík.

Umræður um frumvarpið fimmtudaginn 5. mars urðu snarpastar, þegar Steingrímur J. Sigfússon veittist dólgslega að Sturlu Böðvarssyni, fyrrverandi forseta alþingis, vegna greinar, sem Sturla birti þennan sama dag í Fréttablaðinu. Þar sagði Sturla meðal annars:

„Á mínum langa ferli í stjórnmálum hef ég ekki áður orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem Jóhanna og Steingrímur J. viðhafa á öllum sviðum. Og það er vert að minnast þess og rifja upp að þau komust til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn alþingi. Aðgerða sem ráðherra vinstri grænna hefur hreykt sér af að hafa staðið að baki og margir telja að hafi verið skipulagðar í skjóli vinstri grænna bæði innan þingsins og utan.“

Ég er sammála þessu mati Sturlu. Engum gat blandast hugur um, að vinstri-græn stóðu að baki mótmælum, sem efnt var til við alþingishúsið og annars staðar.

Hér á síðunni vakti ég á sínum tíma athygli á því, að Björg Eva Erlendsdóttir, ritstjóri Smugunnar.is, var komin að ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu snemma morguns með Drífu Snædal, starfsmanni þingflokks vinstri-grænna, í aðdraganda og við upphaf aðgerða til að hindra, að ráðherrar kæmust til ríkisstjórnarfundar. Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri-grænna, var í hópi þeirra, sem mynduðu keðju umhverfis þinghúsið um hádegisbil og urðu þingmenn að lúta mótmælendum til að komast til starfa í húsinu. Álfheiður Ingadóttir leyndi ekki stuðningi sínum við aðgerðasinna, þegar þeir gerðu aðsúg að þinghúsinu. Atli Gíslason lýsti vanþóknun sinni á því, að lögreglu væri boðin aðstaða í húsakynnum alþingis til að gæta gætt öryggis þingmanna.

Fyrir jólin vakti athygli, þegar Steingrímur J. hrópaði að mér í þingsalnum: „Étt‘ann sjálfur!“ þegar ég vakti máls á því, að vinstri-græn hefðu tafið framgang frumvarps um sérstaka rannsóknanefnd til að rannsaka bankahrunið. Hann lét ekki við það sitja heldur gekk ógnandi að mér í ræðustólnum og stóð þar dreyrrauður fyrir framan mig stundarkorn, áður en hann gekk að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og lagði óvinsamlega hönd á öxl honum .

Vegna orða Sturlu í Fréttablaðinu þótti Steingrími J. sér sæma, að segja þetta á þingi í andsvari við ræðu Sturlu um kosningalagafrumvarpið:

„Þetta eru einhver ömurlegustu ummæli sem ég hef lengi séð frá stjórnmálamanni. Þetta eru ómagaorð, þetta eru órökstuddar og rangar dylgjur um starfsbræður hv. þingmanns í stjórnmálum og ég lýsi sérstakri skömm minni á því að Sturla Böðvarsson, hv. þingmaður og fyrrverandi forseti Alþingis, skuli leyfa sér málflutning af þessu tagi. Ég kýs að nota ræðustól á Alþingi til að lýsa skömm minni á þessum málflutningi hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og mun ekki svara því að öðru leyti.“

Við, sem fylgdumst með barsmíðunum við alþingishúsið, vitum, að lætin hættu jafnskjótt og vinstri-græn komu að því að ræða aðild sína að ríkisstjórn. Hömlulítil reiði Steingríms J. breytir engu um þær staðreyndir, sem við blasa. Eftir að vinstri-græn komust að ríkisstjórnarborðinu, blésu þau af öll hávaða-mótmæli eða ögranir í garð alþingis og ríkisstjórnar. Þeim hafði tekist að hræða Samfylkinguna til samstarfs við sig.

Sturla svaraði Steingrími J., án þess að flytja yfir honum fúkyrði, en benti honum á að kynna sér bókun á fundi forsætisnefndar alþingis 22. janúar, það er þegar mestur hiti var í aðförinni að alþingi. Steingrímur J. taldi sig ekki þurfa á neinni slíkri ábendingu að halda og sagði fullur yfirlætis:

„Mér er nákvæmlega sama hvað er bókað í forsætisnefnd Alþingis. Ég sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs veit fyrir hvað sá flokkur stendur og veit að hann hefur ætíð og alltaf lagst gegn hvers kyns notkun ofbeldis. Ég hvatti héðan úr þessum ræðustóli til þess þegar sem mestur óróleiki var í þjóðfélaginu að allir gættu stillingar og hófs og hef ævinlega og ætíð fordæmt allt ofbeldi. Það er algerlega óboðlegur óhróður sem er beint nánast að heilli ríkisstjórn og stjórnmálaflokki tal af þessu tagi að ríkisstjórn hafi komist til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn alþingi. Þetta er svo yfirgengilegur málflutningur að hann dæmir sig auðvitað algerlega sjálfur. Ég kalla það ekki gífuryrði nema þá það að vitna í hv. þm. Sturlu Böðvarsson. Það má auðvitað segja að það sé viss tegund gífuryrða að leggja það á alþingi og ræðutíðindin að vitna orðrétt í hv. þingmann en það var það sem ég gerði. Að öðru leyti hafði ég ekki um þetta önnur orð en þau að ég lýsti skömm minni á þessum málflutning hv. þingmanns. Þetta er með því allra lágkúrulegasta og fyrirlitlegasta sem ég hef séð íslenskan stjórnmálamann lengi reyna, að fara í opinberri blaðagrein fram með þessum hætti gagnvart ríkisstjórn og stjórnmálaflokkum og starfsfélögum sínum í pólitík að ekki bara láta að því liggja, heldur nánast segja það berum orðum að menn hafi komist til valda á grundvelli ofbeldisaðgerða gegn alþingi sem þeir hafi sjálfir skipulagt. Þetta er svo fjarri öllum veruleika og hv. þingmaður hlýtur að vita að það er alrangt, þetta er ósannur, ómaklegur og óviðeigandi óhróður sem er hv. þingmanni til sérstakrar skammar og að hann skuli kjósa að merkja starfslok sín á alþingi með þessum hætti er auðvitað ömurlegt. Þetta heitir að enda illa, frú forseti, verð ég að segja.“

Hér birtist dæmalaus forherðing hjá formanni vinstri-grænna. Hún endurspeglar vel, hve stigið hefur Steingrími J. til höfuðs að setjast í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Stóryrði Steingríms J. duga hins vegar ekki til að breyta þeim staðreyndum, sem við öllum blasa, sem kynna sér aðdraganda og hvatningu til mótmælanna.

Á þessu stigi er óráðið, hver verða örlög frumvarpsins um breytingu á kosningalögunum. Í sjálfu sér er með öllu óeðlilegt, að breyta reglum um framboð, eftir að boðað hefur verið til kosninga. Stangast það á við reglur fjölþjóðastofnana á borð við Evrópuráðið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE).

Hitt er einnig óráðið, hvernig staðið verður að afgreiðslu málsins á þingi. Sturla Böðvarsson benti í ræðu sinni á, að innan þings lægi fyrir lögfræðiálit þess efnis, að ekki væri unnt að afgreiða þessa breytingu á kosningalögunum nema tveir þriðju þingmanna styddu hana. Taldi Sturla, að allsherjarnefnd þingsins þyrfti að fara ofan í þetta og kynna sér lögfræðiálitið. Þingmenn ættu ekki að standa frammi fyrir því,  að talið yrði,  að afgreiðsla þeirra á kosningalögum stæðist ekki stjórnarskrána. Það gæti leitt til þess að kosningin yrði kærð.

Svo virðist sem ríkisstjórnin telji, að breyting á stjórnarskránni sé einnig nauðsynlegur liður í viðbrögðum við bankahruninu. Engin rök eru fyrir þessu frekar en breytingunni á kosningalögunum. Tillagan um stjórnarskrárbreytingu gerir meðal annars ráð fyrir, að komið verði á fót stjórnlagaþingi, en upplýst hefur verið, að þinghaldið kosti allt að einum og hálfum milljarði króna. 

Framsóknarmenn settu stjórnlagaþing sem skilyrði fyrir því að verja ríkisstjórnina vantrausti. Að hlaupið skuli á eftir henni við þær aðstæður, sem nú ríkja, hvort sem litið er til forgangsröðunar í störfum alþingis eða við ráðstöfun opinberra fjármuna,  sýnir,  að allt annað en umhyggja fyrir fjárhag heimila og fyrirtækja ræður ferðinni hjá ríkisstjórn.

Hvorki við gerð tillagna um breytingu á kosningalögum né stjórnarskrá var leitað eftir samvinnu allra stjórnmálaflokka eins og venjulegt er. Þetta undirstrikar þann vilja stjórnarflokkanna að fara sínu fram, hvað sem öllum venjulegum leikreglum líður. Hin einhliða framganga  gengur auk þess þvert á málflutning Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, þegar þau voru í stjórnarandstöðu og áttu ekki nógu sterk orð til að lýsa nauðsyn þess, að virða rétt hennar.

Fræg er sagan um ferðina í kringum jörðina á 80 dögum og hafa leikrit og kvikmyndir verið gerðar á grunni hennar. 80 daga stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur á eftir að verða langvinnt rannsóknarefni þeirra, sem fjalla um íslenska stjórnskipan og stjórnsýslu. Líklegt er, að frekjulegt tillitsleysi til þess, sem menn hafa talið eðlilega framvindu mála á stjórnmálavettvangi, hvetji til smíði tillagna um skýrari reglur og skyldur til að fylgja þeim fram.

Bankahrunið hefur kallað á miklar umræður um aðdraganda og ábyrgð. Rannsóknarnefnd og sérstakur saksóknari eiga að upplýsa um hollustu allra gerenda við lög og reglur. Svipaða úttekt er nauðsynlegt að gera á aðdraganda og stjórnarháttum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur – vítin, sem ber að varast, leynast víða.