2.3.2009

Tvöfeldni Samfylkingar

Föstudaginn 27. febrúar lét Fréttablaðið hringja í 800 manns og spyrja hver ætti að leiða Samfylkinguna í næstu kosningum. Tæp 20% sögðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Rúm 60% sögðu Jóhanna Sigurðardóttir og tæp 13% Jón Baldvin Hannibalsson. Ef eingöngu er litið til þeirra sem sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna í næstu kosningum vildu 16% aðspurðra Ingibjörgu Sólrúnu, 70% Jóhönnu og 12% Jón Baldvin. Aðrir sem að komust á blað voru Björgvin G. Sigurðsson en 0,4% vildu að hann leiddi flokkinn. 3,1% vildu Dag B. Eggertsson og 1% Össur Skarphéðinsson.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti síðan yfir því að morgni 28. febrúar, að hún ætlaði að halda áfram virkri þátttöku í stjórnmálum, bjóða sig fram til þings og hefði hún af því tilefni tekið frá fyrir sig annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, hún hefði jafnframt ákveðið, að Jóhanna Sigurðardóttir yrði forsætisráðherraefni flokksins og hún ætti frátekið fyrsta sætið í Reykjavík, Össur Skarphéðinsson ætti frátekið þriðja sæti á listanum, síðan mættu aðrir góðfúslega berjast um önnur sæti. Enginn annar en sjálfur Jón Baldvin Hannibalsson stefnir að einu af átta efstu sætunum á listanum. Hann býður sig einnig fram til formennsku gegn Ingibjörgu Sólrúnu, hún verði að axla ábyrgð á bankahruninu og geti ekki leitt flokkinn.

Sunnudaginn 1. mars var Ingibjörg Sólrún í fréttaaukaviðtali sjónvarpsins. Þar segist hún líklega átt að hafa hætt og fara í veikindafrí í lok september 2008, það hefði komið sér betur fyrir hana heilsufarslega auk þess sem þá hefði hún losnað undan ábyrgð á bankahruninu! Þá hefði hún líklega einnig átt að beita sér fyrir því fyrr, að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.

Fyrir okkur, sem höfum setið með Ingibjörgu Sólrúnu í ríkisstjórn fyrir og eftir að hún veiktist og fyrir og eftir bankahrunið er einkennilegt að hlusta á þetta tal í sömu andrá og Ingibjörg Sólrún segir, að hún hefði vænst þess í apríl 2008, að seðlabankinn og fjármálaeftirlitið tæki að sér að hemja íslenska bankakerfið samkvæmt ábendingu frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum.

Áfall okkar Íslendinga vegna bankahrunsins er tvíþætt. Annars vegar snýr það inn á við og snertir fjármál heimila og fyrirtækja og endurreisn bankakerfisins. Hins vegar snýr það út á við og að kröfum erlendra ríkja á okkar hendur vegna starfsemi bankanna erlendis og þá ekki síður snýr hrunið að hinu almenna orðspori þjóðarinnar, sem beðið hefur mikinn hnekki.

Á tímum útrásar og útþenslu banka og fyrirtækja voru þeir, sem helst halda uppi flaggi lands og þjóðar út á við af hálfu ríkisvaldsins önnum kafnir við að skipuleggja og efna til alls kyns kynnisferða. Þar bar hvað með á forseta Íslands, ef litið er til háttsettra embættismanna. Við sögu bankahrunsins hafa meðal annarra komið furstar frá Kadar. Þeir Ólafur Ragnar og Össur Skarphéðinsson fóru saman til Kadar í janúar 2008 eins og Össur sagði frá á vefsíðu sinni. Þar stóð meðal annars 24. janúar 2008:

„Fjölmiðlar í Kadar eru töluvert uppteknir af opinberri heimsókn forseta Íslands til landsins. Forsíður og baksíður – að ótöldum myndasíðum – hafa verið lagðar undir frásagnir af heimsókninni, og viðræðum sendinefndarinnar við forystumenn í landinum. .....Samningurinn, sem ég undirritaði fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar ásamt fjármálaráðherra Kadars, að viðstöddum emírnum og forseta Íslands, opnar dyr til slíkrar samvinnu.....

Ég hélt ræðu í gærkvöldi í stórum vinnumálsverði með fjármála- og orkurráðherrum Kadar, og forystumönnum í athafnalífi landsins. Forsetinn, og íslenska sendinefndin, voru þar einnig. Megináhersla mín var á samvinnu smáþjóða. Ég færði rök að þeirri skoðun minni, að 21. öldin verði öld öflugra smáþjóða, og að þær ættu að vinna saman. Þetta var eina formlega ræðan, svo fáir urðu til að mótmæla! ........

Ég vona að áður en hálft ár verði liðið muni menn sjá hversu árangursrík þessi opinbera heimsókn til Kadar hefur verið.....

Kadarar höfðu lesið heima um íslensku bankana. Þeir vissu af hraðri stækkun þeirra, og fara ekki í felur með, að þeir telja æskilegt að ná góðum tengslum við hina alþjóðlega framsæknu banka sem starfa á Íslandi. Um það hafa þeir ákveðnar hugmyndir sem þeir fóru ekkert í felur með. Sömuleiðis leggja þeir mikla áherslu á þróun heilbrigðisgeirans, og vilja gjarnan samvinnu við Íslendinga á sviði lyfjaframleiðslu. Þeir hlustuðu náið eftir lýsingum á hversu hratt Actavis hefur vaxið, og spurðu margs um það á vinnufundinum í gær. Actavis hefur ekki neina verksmiðju í þessum heimshluta og augljóst var, að Kadarar töldu það heldur miður.

Á næstu mánuðum hyggjast þeir senda sterka fulltrúa til Íslands til að skoða þá möguleika sem ræddir voru á ýmsum sviðum?. Heimsóknin til Kadar var því að mínum dómi mjög árangursrík, og forseti Íslands sýndi og sannaði, hversu öflugt embættið getur verið í því að fylgja eftir íslenskum hagsmunum.“

 

Af hálfu ríkisstjórnar gegna utanríkisráðuneyti og utanríkisráðherra forystuhlutverki í samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Ráðherrann og ráðuneytið gefa sendiherrum og sendiráðum Íslands fyrirmæli um áherslur við að vinna að því að styrkja lands og þjóðar út á við.  Fram að bankahruninu lutu þessi fyrirmæli að því, að enginn mætti draga af sér við að aðstoða og reka áróður í þágu útrásar og íslenskra fyrirtækja innan umdæma sinna eða aðstoða forystumenn þessara fyrirtækja á hvern þátt hátt, sem verða mætti.

Þegar allt lék í lyndi, taldi Ingibjörg Sólrún ekki eftir sér að halda málstað banka og annarra útrásarfyrirtækja stíft fram erlendis. Varð þess aldrei vart, að neinn efi væri í hennar huga um réttmæti þess, sem hún sagði um þau efni.

Furðulegt er, að samfylkingarfólk, sem sat með okkur sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn láti nú eins og enginn hafi vitað neitt eða enginn hafi verið að gera neitt til að gæta hagsmuna Íslands. Össur Skarphéðinsson  var að minnsta kosti á öðru máli, þegar hann ritaði á vefsíðu sína 31.mars, 2008 [feitletrun er mín vegna alls þess, sem sagt hefur verið um aðgerðarleysi Seðlabanka Íslands]:

„Litlu hagkerfin verða verst úti [vegna skelfingar í hinum alþjóðlega bankaheimi]. Ísland með örmynt sína er berskjaldaðra en flest. En Steingrímur J. Sigfússon hefur líklega verið í öðrum heimi, því hann hefur ekkert heyrt af klandri heimsins.

Lánsfjárkreppan, sem hefur skollið með vaxandi þunga yfir fjármálalíf heimsins, hefur farið algerlega fram hjá honum. Húsnæðiskreppa er skollin á í Bandaríkjunum og ógnar allnokkrum ríkjum Evrópu. Grímur hefur ekkert frétt af því. Allir Seðlabankar heimsins – að þeim íslenska meðtöldum – eru upp fyrir haus í aðgerðum til að koma í veg fyrir þyngri brest en þegar er orðinn. Það fór líka framhjá félaga Steingrími.

Hver er þá niðurstaða hins vísa forsætisráðherraefnis VG um ástæður lánsfjárkreppu íslensku bankanna? Jú, hann sagði á Alþingi Íslendinga í dag að efnahagsþrengingarnar væru algerlega heimatilbúnar og fráleitt væri að kenna alþjóðlegri þróun um þær.

Á sama tíma og fjármálaeftirlit tveggja ríkja rannsakar atlögu alþjóðlegra spekúlanta að berskjaldaðri krónunni þá er efnahagssérfræðingur VG og forsætisráðherraefni flokksins svo gersamlega veruleikafirrtur að hann telur að alþjóðleg kreppa í fjármálum heimsins skipti engu máli fyrir þrengingar íslensku bankana.“

Eftir að bankarnir hrundu og síðan fyrirtækin og eftir að bresk stjórnvöld beittu okkur hryðjuverkatökum, hafa engar fréttir borist af því, að utanríkisráðherra Íslands hafi lagst í víking til að halda fram íslenskum málstað eða gæta íslenskra hagsmuna í samtölum við ráðherra í Bretlandi eða Hollandi, svo að dæmi séu tekin. Hvað þá heldur að ráðherrann hafi farið til Brussel til viðræðna við ráðamenn þar eða til Washington, þar sem bæði hefði verið ástæða til að ræða við bandarísk stjórnvöld og yfirstjórn alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hafi einhvern tíma verið þörf á markvissri útrás til að gæta orðspors þjóðarinnar af hálfu utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytis er það hina síðustu mánuði.

Helsta framlag Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar í þágu íslenskra hagsmuna út á við, eftir að íslenska fjármálakerfið hrundi, hefur falist í því að biðla til Brusselvaldsins og veitast að þeim heima fyrir, sem telja, að annað og mikilvægara sé um að hugsa í þágu íslensku þjóðarinnar en skríða inn í Evrópusambandið við núverandi aðstæður. 

Ekki er óeðlilegt, að þær spurningar vakni, hvort umhyggja samfylkingarfólks fyrir Evrópusambandinu og ímynd þess á Íslandi sé svo mikil, að þessir stjórnmálamenn vilji ekki fylgja fram íslenskum málstað af þeim þunga, sem þarf,  af  ótta við að spilla fyrir áformum þess að koma Íslandi í Evrópusambandið.

Það eru ekki aðeins forystumenn Samfylkingarinnar,  sem sýna Brusselvaldi Evrópusambandsins þessa undirgefni heldur einnig ritstjórar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Allt hefur þetta verið gert í þeirri trú, að á þennan veg sé best unnið að því að afla stuðnings meirihluta þjóðarinnar við aðild að Evrópusambandinu. Niðurstaðan er hins vegar þveröfug. Andstaða við aðild hefur aukist meðal þjóðarinnar samkvæmt könnunum og Evrópusambandið sýnir íslenskum sjónarmiðum engan skilning, enda enginn til að skýra þau út eða gæta þeirra með nauðsynlegum pólitískum þunga.

Nú er svo komið, að andstaða við þvermóðsku Brusselvaldsins og stærstu Evrópusambandsríkjanna er orðin meiri innan Evrópusambandsins sjálfs en af hálfu íslenskra stjórnvalda.  Forystumönnum Evrópusambandsríkjanna í austurhluta álfunnar er svo misboðið, hvernig Frakkar og embættismannavald sambandsins kemur fram, að þeir tala um nýtt járntjald í álfunni.

Tvöfeldni í opinberum umræðum er ekki nýmæli, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á í hlut. Þeir, sem lesa þessar síður mínar hér á netinu, vita, að ég hef aldrei sætt mig við þessa tvöfeldni og geri það ekki heldur núna. Það er í senn ómaklegt og á ekki við nein rök að styðjast, að ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde séu eins og hvítþvegnir englar, af  því að Ingibjörg Sólrún og Össur Skarphéðinsson fóru á heimili Geirs sunnudaginn 25. janúar og kröfðust þess, að hann léti af embætti forsætisráðherra, annars myndu þau slíta stjórnarsamstarfinu.

Þessi framganga var alveg á skjön við allt, sem sagt var og gert á vettvangi ríkisstjórnarinnar og nægir þar að vísa til síðasta fundar hennar föstudaginn 23. janúar, þegar lagt var á ráðin um nýtt verklag vegna bankahrunsins.

Óskammfeilni málsvara Samfylkingarinnar nær út yfir allt, eins og sannast enn í Fréttblaðinu 2. mars, þar sem Guðmundur Andri Thorsson, einn helsti Davíðshatari síðari tíma kveður sér hljóðs undir fyrirsögninni Gangan langa og hefst pistillinn á þessum orðum:

„Ógleymanleg verður manni myndin af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þar sem hún er studd út af heimili Geirs Haarde af Össuri Skarphéðinssyni, sínum nánasta samverkamanni - og hafði risið af sjúkrabeði sínum til að bregðast við kröfu kjósenda um nýja ríkisstjórn, nýja forystu í landsmálum, ný úrræði. Að fara nú að gera eitthvað og hætta þessu ráðleysi.

Þetta er ein af myndum hrunsins. Þetta er eitt af augnablikunum. Eftir á er eins og ráðherrarnir hafi verið í miðju taugaáfalli - ekki síst Geir Haarde sem öllum spurningum svaraði með: „nei nei, alls ekki, auðvitað ekki, nei nei, við viljum bara fá vinnufrið.“

Þetta er sterk mynd: Gangan langa. Maður sér hana fyrir sér þar sem hún gekk hægt og hetjulega skref fyrir skref út úr þessari ríkisstjórn á vit óvissunnar og studdist við styrkan arm Össurar og eigin vilja og ekki fór á milli mála hversu brothætt hún var og sterk - útkeyrð og einbeitt.“

Hvað sem þessari dramatísku lýsingu líður, hefur komið á daginn, að þetta var ekki nein ganga út í óvissuna. Samverkamaðurinn sem leiddi Ingibjörgu Sólrúnu þennan sunnudag vissi, að Ólafur Ragnar Grímsson beið með faðminn opinn á Bessastöðum og framsóknarmenn voru til þess búnir, að veita rauðgrænni minnihlutastjórn stuðning.

Hugleiðingu sinni lýkur Guðmundur Andri á þessum orðum:

„Brást Ingibjörg Sólrún? Hún brást að minnsta kosti við. Hún sagði af sér ráðherradómi og skapaði nýja stjórn áður en hún fór heim að sofa. Hún reyndi að starfa af heilindum í vonlausri ríkisstjórn en tók af skarið um síðir og sýndi hvers konar leiðtogi hún er: leiðtogi sem hlustar - og bregst við.

Slíkur leiðtogi á að minnsta kosti rétt á því að bera það undir kjósendur hvort þeir vilja veita henni brautargengi.“

Sá, sem skrifar þannig og telur, að Ingibjörg Sólrún hafi komið fram af heilindum við Geir H. Haarde, hlýtur óhjákvæmilega að skipa sér á bakvið annars konar stjórnmálamenn en þá, sem leiða Sjálfstæðisflokkinn. Og telji Guðmundur Andri, að Ingibjörg Sólrún sé að bera eitthvað undir kjósendur í prófkjöri Samfylkingarinnar er það einnig alrangt. Hún er að segja þeim, að kjósa Jóhönnu í fyrsta sæti, sjálfa sig í annað og Össur í hið þriðja. Þríeyki Samfylkingarinnar, sem sat í ríkisstjórn Geirs H. Haarde og hreyfði hvorki legg né lið í aðdraganda bankahrunsins og brást á þann hátt við eftir það, að einkennst hefur af óheilindum gagnvart samstarfsmönnum.