15.2.2009

Þagnarmúr um formannssæti rofinn.

Jón Baldvin Hannibalsson sagði á fundi á hótel Borg laugardaginn 14. febrúar, að hann myndi bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, ef Jóhanna Sigurðardóttir gerði það ekki. Jóhanna aftók formannsframboð með öllu (1994 klauf Jóhanna Alþýðuflokkinn og stofnaði nýjan flokk, Þjóðvaka, til að losna undan formennsku Jóns Baldvins.)

Andrés Jónsson, samviska Samfylkingarinnar á vefsíðunni eyjan.is, kemst þannig að orði um fund Jóns Baldvins og niðurstöðu hans:

Ég heyrði það á skipuleggjendum þessa fundar í dag, að megintilgangur fundarins væri að klappa egóinu á Jóni Baldvini nægilega, til að hann væri ekki að asnast í eitthvað sérframboð í kosningunum.

Það sprakk aldeilis í andlitið á þeim.

—–

Ég legg til að Jóhanna setji garminum Jóni stólinn fyrir dyrnar og segi við hann: „Annað hvort verður þú til friðs, eða þú getur bara hundskast í þitt egóflipp í einhverja aðra pólitíska hreyfingu!“

Og sjálfur vil ég segja honum þetta: „Þó að þú sért orðhagur maður og hafir reformast í sendiherravistinni, þá gefur það þér ekkert leyfi til að koma svona fram við pólitíska samherja og vini.““

Framganga Jóns Baldvins verður líklega til að skapa enn meira los innan forystusveitar  Samfylkingarinnar, hann gaf mönnum leyfi til að ræða um formennsku og forystu Ingibjargar Sólrúnar á annan veg en áður. Hún sagði frá Kanarí-eyjum í tilefni af ummælum Jóns Baldvins, að hún hefði ekki tekið ákvörðun um að hætta formennsku í flokknum. Umræður  um þetta hafa verið „tabú“ meðal samfylkingarfólks af tillitssemi við alvarleg veikindi Ingibjargar Sólrúnar, Jón Baldvin hefur rofið þann þagnarmúr.

Reiði Andrésar Jónssonar sýnir, hve erfitt viðfangsefni forystumálin eru fyrir Samfylkinguna.

Ég tel líklegt, að það verði leitast við að leysa þau bakvið tjöldin, með einhliða yfirlýsingum og óvæntum nöfnum. Þessa skoðun byggi ég á því, sem gerst hefur, frá því að Ingibjörg Sólrún hætti sem borgarstjóri og tók við forystuhlutverki innan Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði af sér sem borgarstjóri í beinni útsendingu ljósvakamiðlanna um kvöldmatarleytið sunnudaginn 29. desember.  Þá hafði verið togast á um setu hennar á stóli borgarstjóra frá því í águst 2002, þegar stuðningsmenn hennar efndu til samblásturs gegn Össuri Skarphéðinssyni, sem þá var formaður Samfyljingarinnar.

Í borgarstjórnarkosningabaráttunni vorið 2002 hét Ingibjörg Sólrún að sitja út kjörtímabilið sem borgarstjóri, það er til ársins 2006. Aðeins örfáir mánuðir liðu hins vegar, þar til þess var krafist, að hún léti að sér kveða fyrir Samfylkinguna í þingkosningum vorið 2003. Með því mætti tryggja flokknum öruggan sigur. Þrátt fyrir heitstrengingar við kjósendur og samstarfsmenn innan R-listans um að hún mundi ekki bjóða sig fram til þings, varð ákvörðun hennar um þingframboð til þess, að henni var ekki sætt sem borgarstjóri. Atburðarásin var með ólíkindum.

Hinn 18. desember 2002 tilkynnti Össur Skarphéðinsson, að Ingibjörg Sólrún yrði í 5. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík-norður í þingkosningunum 10. maí 2003. Daginn eftir lýstu borgarfulltrúarnir Árni Þór Sigurðsson, fyrir hönd vinstri/grænna, og Alfreð Þorsteinsson, fyrir hönd Framsóknarflokksins, yfir því, að þessi ákvörðun Samfylkingarinnar jafngilti því, að borgarstjóri hefði ákveðið að yfirgefa embætti sitt, hún gæti ekki lengur verið sameiningartákn R-listans eftir ákvörðun um að bjóða sig fram gegn samstarfsflokkunum sínum í þingkosningunum. Ítrekuðu þeir með þessu mótmæli sín frá því september 2002, þegar Ingibjörg Sólrún lýsti afdráttarlaust yfir því, að hún færi ekki í framboð til alþingis, eins og þá var mjög til umræðu.

Síðdegis sunnudaginn 29. desember hittust leiðtogar flokkanna innan R-listans á fundi hjá Ingibjörgu Sólrúnu í ráðhúsinu. Þar kynnti hún þeim, að hún hefði í hyggju að segja af sér frá 1. febrúar og tillaga sín væri sú, að Þórólfur Árnason, fyrrverandi forstjóri Tals, tæki við af sér sem borgarstjóri. Síðar kom fram, að Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, nefndi fyrstur nafn Þórólfs, en Ingibjörg Sólrún sagðist hafa hringt í hann um hádegisbil laugardaginn 28. desember.

Tillaga Ingibjargar Sólrúnar um Þórólf kom samstarfsmönnum hennar í R-listanum á óvart, það er öðrum en Alfreð Þorsteinssyni.

Eftir vistaskipti Ingibjargar Sólrúnar og ákvörðun Össurar um, hvar hún skyldi verða á lista, var gengið til þess verks að skipa henni sess í forystusveit Samfylkingarinnar og var ákvörðun um það kynnt á blaðamannafundi þeirra Össurar og Ingibjargar Sólrúnar 12. janúar 2003. Hann skyldi verða formaður og umboðsmaður í stjórnarmyndunarviðræðum en hún talsmaður og forsætisráðherraefni. Síðan fór Svanur Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands, í langt viðtal á Rás 2 til að lýsa því „fræðilega“ að ekkert væri við þessa verkaskiptingu að athuga. Hún væri bara eðlileg.

Í þingkosningunum 2003 fékk  Samfylkingin ekki það brautargengi, sem Össur og Ingibjörg væntu. Ingibjörg Sólrún náði ekki kjöri, en komst síðan inn sem varamaður, þegar Bryndís Hlöðversdóttir hvarf af þingi og til starfa í háskólanum á Bifröst.

Við myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur reyndi á  undarlega starfshætti. Þar fékk Ingibjörg Sólrún umboð til stjórnarmyndunar sem formaður Samfylkingarinnar en skilaði því til Ólafs Ragnars 1. febrúar, sama dag og Jóhanna fékk það til að mynda stjórnina – en þá hafði Ingibjörg haft umboðið frá 27. janúar.

Ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar um Jóhönnu sem forsætisráðherraefni kom á óvart eins og ákvörðunin um Þórólf Árnason sem borgarstjóraefni á sínum tíma. Sunndaginn 25. janúar voru þau Ingibjörg Sólrún og Össur heima hjá Geir H. Haarde og sögðu honum, að þau vildu hann ekki áfram sem forsætisráðherra. Hann bauðst til að víkja fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Það dugði ekki en samfylkingarfólkið var ekki með neitt annað nafn á takteinum. Mánudaginn 26. janúar sagði Ingibjörg Sólrún frá því, að hún vildi Jóhönnu sem forsætisráðherra.

Uppnámið innan Samfylkingarinnar vegna formannsframboðs Jóns Baldvins er meira en ella vegna þess, að þar hefur tíðkast að taka ákvarðanir um menn í bakherbergjum og kynna þá til sögunnar á þann veg, að enginn fái rönd við reist. Flogið hefur fyrir, að þannig yrði staðið að því að kynna Dag B. Eggertsson til formennsku í flokknum. Ingibjörg Sólrún veit, að hún segir ekki Jóni Baldvini fyrir verkum. Hún getur því ekki verið viss um, að ráðagerðin um útnefningu á nýjum formanni heppnist. Hún veit hins vegar, að Jón Baldvin ætlar að bjóða sig fram gegn henni.