27.9.2008

DV, handtaka og yfirlýsing.

DV, handtakan og yfirlýsingin.

Föstudagskvöldið 26. september 2008 barst mér þetta bréf, en í upphafi þess er vitnað í pistil, sem ég hafði stuttu áður sett inn á vefsíðu mína:

„Sæll Björn. Fer fram á að þú færir rök fyrir ummælum á bloggi þínu um ósannindi: (Hérer Jónas [Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri] líklega að endurtaka ósannindi Baugsmiðilsins DV, sem ræðir ekki lausnarbeiðni Jóhanns Benediktssonar, án þess að geta þess, að Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi blaðsins, hafi átt yfir höfði sér handtöku síðsumar 2002 á Keflavíkurflugvelli og er gefið til kynna, að ég hafi komið þar við sögu sem dómsmálaráðherra – ég tók hins vegar ekki við embættinu fyrr en vorið 2003.)

1. Hver eru ósannindin?

2. Hvar hefur því verið haldið fram í DV að þú hafir verið dómsmálaráðherra á umræddum tíma árið 2002?

Veit ekki til þess DV hnafi haldið því fram að þú ættir beina aðild að því máli. Komi annað í ljós verður það að sjálfsögðu leiðrétt.

Kannast heldur ekki við að DV  hafi lýst því að þú sem dómsmálaráðherra hafir átt beina aðild að þeirri tilraun sem gerð var til að fá Jóhann R. Benediktsson til að undirrita ósanna yfirlýsingu um að ekki hafi staðið til að handtaka Jón Ásgeir Jóhannesson við komuna til landsins í ágúst 2002. Sú yfirlýsing var undirrituð af Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra en reynt var að fá Jóhann til að vitna með honum.

Með kveðju

Reynir Traustason, ritstjóri DV“

Ég svaraði þessu bréfi á þennan veg klukkan 23.09 26. september:

„Sæll Reynir,

ég sé ekki betur en Jónas álíti að ég eigi þarna einhvern hlut að máli að einhverju, sem ég veit ekki hvað er, og hann byggi það á frásögn DV, því að enginn annar hefur rætt [um þetta] í tengslum við þetta mál Jóhanns en DV – raunar gefur þú til kynna í þessu bréfi þínu til mín, að ég eigi óbeina aðild að þessu máli, sem ég veit ekki hvað er og snertir Jón Ásgeir.

Með góðri kveðju

Björn Bjarnason“

Reynir Traustason svaraði mér á þennan veg:

„Sæll Björn.

Ekki verður annað séð af svari þínu en þú getir ekki bent á dæmi um ósannindi DV. Skrif Jónasar Kristjánssonar eru á hans ábyrgð og DV með öllu óviðkomandi.

Ég fer fram á að þú leiðréttir þessar aðdróttanir í garð DV og biðjist afsökunar. Slík afsökunarbeiðni verður að sjálfsögðu tekin til greina.

Með kveðju

Reynir Traustason“

Ég svaraði þessu bréfi kl. 23.30 á þennan veg og notaði BlackBerry, sem skýrir stafanotkunina:

„Eg mun ihuga ad birta umkvortun thina a sidunni minni svo lesendur hennar kynnist vidhorfum thinum. Their kunna tha einnig ad fa betri syn a malid sem er mer oskiljanlegt. Bj. Bj. “

Reynir svaraði svona:

„Sæll aftur. Tel þar með að það sé þér að meinalausu að þessi samskipti verði birt á dv.is. Ítreka kröfuna um afsökunarbeiðni. Dreg mörkin þar sem DV er sakað um ósannindi. Hef ekki nennt að elta ólar við annað sem sagt hefur verið á ágætri heimasíðu þinni.

Kveðja

rt“

Athugun:

Í DV  26. september birtist Nærmynd af Jóhanni Benediktssyni, fráfarandi lögreglustjóra, en í upphafi hennar segir Baldur Guðmundsson blaðamaður:

„Jóhann R. Benediktsson, lögreglu- og tollstjóri [sá embættistitill er raunar hvergi lögfestur] á Suðurnesjum, hrökklast nú úr starfi. Margt hefur gengið á í samskiptum hans við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra undanfarna mánuði. Hermt er að upphaf þeirra deilna megi rekja til þess þegar Jóhann neitaði að standa að handtöku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við komu hans til landsins í ágúst 2002.“

Síðar við upphaf nærmyndarinnar segir blaðamaðurinn frá því, að vorið 2008 hafi  DV  birt fréttaskýringu um þessi áform um að handtaka Jón Ásgeir en bæði ríkislögreglustjóri og RÚV hafi hafnað fullyrðingum í þeirri fréttaskýringu með yfirlýsingu en Jóhann hafi neitað að ritað undir hana, af því að hann vildi ekki gefa út ósannindi.

Jónas Kristjánsson leggur út af þessu á þennan veg: „Duglegur lögreglustjóri er rekinn fyrir að neita að falsa skjal fyrir ráðherrann ?“

Og ég segi af þessu tilefni og vísa til orða Jónasar um að Jóhann hafi neitað að falsa skjal fyrir mig:

„Hér er Jónas líklega að endurtaka ósannindi Baugsmiðilsins DV, sem ræðir ekki lausnarbeiðni Jóhanns Benediktssonar, án þess að geta þess, að Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi blaðsins, hafi átt yfir höfði sér handtöku síðsumar 2002 á Keflavíkurflugvelli og er gefið til kynna, að ég hafi komið þar við sögu sem dómsmálaráðherra – ég tók hins vegar ekki við embættinu fyrr en vorið 2003.

Niðurstaða:

Reynir leggur fyrir mig tvær spurningar í fyrsta bréfi sínu:

1. Hver eru ósannindin?

2. Hvar hefur því verið haldið fram í DV að þú hafir verið dómsmálaráðherra á umræddum tíma árið 2002?

Ég held, að fáir geti lesið upphaf nærmyndar DV á annan veg en þann, að ég hafi verið dómsmálaráðherra árið 2002, þegar blaðið telur, að handtaka hafi átt Jón Ásgeir á Keflavíkurflugvelli og síðan bætir Jónas Kristjánsson gráu ofan á svart með því að skilja DV á þann veg, að það hafi átt að falsa eitthvert skjal í mína þágu vegna þessa máls, þegar um er að ræða yfirlýsingu frá ríkislögreglustjóra og RÚV þess efnis, að fréttaskýring  DV sé röng.

Spyrja má: Stendur Reynir við fyrirheit sitt um leiðréttingu?