1.6.2008

Suðurlandsskjálfti - nauðsyn uppgjörs.

Um sömu mundir og frumvarp að nýjum lögum um almannavarnir var að komast á lokastig í meðförum alþingis fimmtudaginn 29. maí varð snarpur jarðskjálfti, 6.3 á Richter í Ingólfsfjalli með skaðvænlegum afleiðingum fyrir nágrannabyggðina, einkum í Hveragerði og á Selfossi.

Fyrir þinglok samþykkti alþingi síðan ný lög um almannavarnir en þau taka mið af reynslu síðustu ára og móta til dæmis örugga umgjörð um samhæfingarmiðstöðina við Skógarhlíð, sem sannaði gildi sitt enn og aftur í viðbrögðum við skjálftanum. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er einmitt til húsa við Skógarhlíð og ekki liðu nema fáeinar mínútur frá skjálftanum kl. 15.45, þar til stjórnendur almannavarna höfðu mannað stöðvar sínar í miðstöðinni og kallað út liðsauka til allra þeirra starfa, sem sinna þurfti.

Á undraskömmum tíma var um 400 manna lið komið á vettvang til að veita aðstoð á skjálftasvæðinu, en lögð var áhersla á að hafa samband við sem flesta. Auk björgunarsveitarmanna héldu hópur sérsveitarmanna og liðsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á vettvang. Bifhjólasveit lögreglunnar brunaði á vettvang og hef ég spurnir af því, að íbúum hafi þótt traustvekjandi að sjá bifhjólin á ferð um byggðalögin.

Við allar ákvarðanir hafði ég að leiðarljósi, að sem fyrst yrði komið á sambandi við sem flesta íbúa á svæðinu. Dró ég þar lærdóm af félagsfræðilegri athugun, sem gerð var eftir skjálftann á þessu svæði árið 2000. Hún sýndi, hve mikils virði er að sýna öllum nauðsynlega umhyggju og vilja til aðstoðar eftir því sem verða má. Störfuðu hinar fjölmennu sveitir bjögunarmanna og lögreglu í þessum anda og náðu miklum árangri á skömmum tíma.

Næsta skref var stigið föstudaginn 30. maí, þegar ríkisstjórnin samþykkti tillögu mína um að opna þjónustumiðstöð á skjálftasvæðinu, þar sem öllum spurningum yrði svarað á einum stað. Var ákvörðun ríkisstjórnarinnar og framkvæmd hennar kynnt á blaðamannafundi kl. 14.30 í Skógarhlíðinni, þar sem þeir Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, og Víðir Reynisson, forstöðumaður almannavarnadeildarinnar, fóru yfir stöðu mála.

Strax að fundinum loknum fóru þeir Jón og Víðir austur fyrir fjall og um kvöldið voru tvær þjónustumiðstöðvar opnaðar í bráðabirgða á Selfossi og í Hveragerði, á meðan leitað yrði að varanlegri aðstöðu fyrir miðstöðina á Selfossi. Fumlaus framkvæmd þessa máls einkenndi þetta starf stjórnenda almannavarnadeildarinnar eins og allt annað.

Boð um jarðskjálfta af þessu tagi berast um heim allan bæði í fréttum og einnig samkvæmt boðkerfum almannavarna á heimsvísu. Almannavarnamiðstöð undir handarjaðri Evrópusambandsins bauð strax aðstoð og frá Sameinuðu þjóðunum var einnig haft samband. Þá var eftirlitsskipi Dana við Grænland snúið í átt til landsins og sömu sögu er að segja um varðskip Færeyinga. Þegar staða mála skýrðist, var skipunum haldið að fyrri störfum.

Við brottför varnarliðsins í september 2006 ákvað ríkisstjórnin að búa lögreglu og björgunarsveitir tetra-fjarskiptakerfi og var Neyðarlínunni síðan falið að hrinda ákvörðuninni í framkvæmd og hefur það verið gert á undraskömmum tíma með góðum árangri, eins og enn sannaðist í þessum jarðskjálfta. Er það mat stjórnenda aðgerðanna, að þessi nýja fjarskiptatækni hafi valdið byltingu við alla framkvæmd á hættustundu.

Álagið á símkerfi verður jafnan mikið í tilvikum sem þessum og má þar nefna, að farsímakerfi Símans annaði tæplega 290 þúsund símtölum fyrsta klukkutímann eftir skjálfta og Vodafone um 260 þúsund símtölum. Þetta er rúmlega hálfa milljón símtala á 60 mínútum. Sýnir þetta mikinn styrk þessara kerfa.

Við þessar aðstæður vakna strax spurningar hjá stjórnendum lögreglu um það, hvernig á að fylla það skarð, sem myndast við framkvæmd venjulegra lögreglustarfa á heimaslóð, þegar stór sveit lögreglumanna er send til starfa annars staðar eins og nú gerðist. Um 30 lögreglumenn af höfuðborgarsvæðinu fóru til starfa á skjálftasvæðinu síðdegis fimmtudaginn 29. maí og enn var hópur manna þaðan við störf þar 30 maí.

Hér hefði komið sér vel að hafa haft í lögum heimild til að kalla út varalið til að fylla skörð í löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og einnig til starfa á skjálftasvæðinu. Vissulega er almannavarnaheimild til að kalla út menn til starfa við björgun og aðstoð í almannavarnaástandi, en heimildin nær ekki til varaliðs í þeim skilningi, að unnt sé að kalla menn til að gegna störfum í stað fullgildra lögreglumanna. Ég hef hingað til talað fyrir daufum eyrum of margra, þegar ég hef hvatt til þess, að sett verði í lög ákvæði um heimild til að kalla út varalið. Viðbrögðin hafa verið svo einkennileg hjá mörgum, að rökræður skila ekki einu sinni árangri. Ég átta mig ekki á því, hve alvarlegt atvik þarf að gerast til að opna augu andstæðinga varaliðsheimildarinnar fyrir nauðsyn liðsins.

Nauðsyn uppgjörs.

Í Reykjavíkurbréfi blaðsins 1. júní , hinu síðasta, sem Styrmir Gunnarsson skrifar sem ritstjóri, en hann lætur af störfum 2. júní, segir meðal annars:

„Þegar Berlínarmúrinn féll [1989] og kalda stríðinu lauk vildu ungir og kappsfullir starfsmenn á ritstjórn Morgunblaðsins láta kné fylgja kviði og efna til uppgjörs við sósíalista vegna þess, sem hér hafði gerzt á árum kalda stríðsins. Þá vakti fyrir þeim að efna til víðtækrar leitar í erlendum skjalasöfnum að gögnum, sem sönnuðu tengsl stjórnmálahreyfingar sósíalista á Íslandi við kommúnistaflokkana í Austur-Evrópu, fjárstreymi hingað frá þeim og áform þeirra um að koma á sósíalísku þjóðfélagi á Íslandi með stuðningi hinna erlendu aðila.

Þessi áform um uppgjör runnu út í sandinn vegna þess, að Matthías Johannessen, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sem hafði síðasta orðið í málefnum ritstjórnar, sagði nei. Hann taldi nóg komið af sundrungu þjóðarinnar í kalda stríðinu og ekkert vit væri í því að halda lengra á þeirri braut. Á árunum á undan hafði Matthías lagt sig fram um að draga úr því sundurlyndi, sem orðið hafði í röðum rithöfunda og annarra listamanna í kalda stríðinu. Eins og þeir sem eldri eru muna var menningunni beitt mjög fyrir kaldastríðsvagninn.“

Ég starfaði á Morgunblaðinu til 1991 og var ósáttur við þessa ákvörðun, sem Styrmir lýsir þarna. Ég hef oft síðan hvatt til þess uppgjörs, sem felst í því að upplýsa þjóðina um alla þætti kalda stríðsins og þar á meðal óhæfuverk og stefnu kommúnista á Íslandi.

Í ræðu um skýrslu utanríkisráðherra á alþingi 9. febrúar 1995 sagði ég meðal annars:

„Sagt var þegar þetta breytingarskeið [eftir hrun kommúnismans] var að hefjast að eitt væri að endurreisa efnahag þessara þjóða og koma á lýðræðislegum stjórnarháttum, annað að lækna þau sálrænu mein sem af ofstjórninni leiddu. Það yrði erfitt fyrir marga að laga sig að frelsi og kröfum lýðræðisins. Auk þess væri ljóst að margir teldu sig hafa harma að hefna. Í Þýskalandi hefur verið gengið skipulega til verks að þessu leyti. Meðal ráðstafana sem stjórnvöld hafa gripið til er að opna verulegan hluta af leyniskjalasöfnum austur-þýsku öryggislögreglunnar Stasi. Tilgangurinn með því var í sjálfu sér ekki að koma höggi á neinn heldur leiða í ljós hina hliðina á hinu kommúníska þjóðfélagi til að menn gætu áttað sig á henni og því sem gerðist á bak við tjöldin. Þá var það einnig markmið með því að opna skjalasöfnin að almenningur ætti þess kost að vara sig á þeim sem höfðu starfað í skjóli Stasi. Í Þýskalandi voru þær upplýsingar sem sagt gerðar opinberar til að koma í veg fyrir að kúgarar fortíðarinnar og samstarfsmenn þeirra gætu kúgað og kvalið á ný.

Umræður urðu um Stasi-skjölin hér á landi strax eftir að austur-þýska kerfið hrundi. Sjálfur fór ég sem blaðamaður til Austur-Berlínar og Prag snemma árs 1990 og átti þess m.a. kost að heimsækja höfuðstöðvar Stasi í Berlín. Þá höfðu starfsmennirnir lagt þær undir sig. Síðan hef ég skoðað safn í Leipzig þar sem dregið er fram ýmislegt úr starfi Stasi. Minnir það allt mjög á söfn til minningar um starfshætti nasista og úrræði þeirra til að hrella fólk og ná tökum á því. Íslenskir sagnfræðingar og fréttamenn hafa síðan komist í skjölin sjálf. Þau staðfesta að formleg og mjög náin tengsl voru milli stjórnmálamanna hér á landi og ráðamanna kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi. Tveir hv. alþm. nutu m.a. góðs af þessari samvinnu þar sem þeir voru valdir á flokkslegum forsendum til að stunda nám í Austur-Þýskalandi. Hinn sálræni og pólitíski vandi sem tengist hruni kommúnismans teygir sig því hingað til lands og raunar inn fyrir veggi Alþingis. Er ekki unnt að láta þess ógetið þegar rætt er um þróun utanríkismála í lok þessa kjörtímabils.

Í upphafi þess hvatti ég þá sem starfa í Alþýðubandalaginu [lagt af með stofnun Samfylkingar og vinstri/grænna] til að gera upp við þessa fortíð sína og flokks síns. Þeim kröfum var í engu sinnt og gjarnan svarað með skætingi, flissi og útúrsnúningi. Ég heyri ekki betur en að tónninn hafi dálítið breyst eftir þann sjónvarpsþátt sem sýndur var hér á landi um síðustu helgi. Við höfum m.a. á þingi mann sem segist hafa flúið ófrelsið, eins konar pólitískan flóttamann sem þó var sendur á flokkslegum forsendum til náms í Austur-Þýskalandi. Ég hvet enn til þess að Alþýðubandalagið geri hreint fyrir sínum dyrum. Það fer ekki vel á því að skjöl frá útlöndum hreki menn úr einu víginu í annað.

Með leyfi hæstv. forseta, vil ég í þessu sambandi vitna í ummæli dr. Þórs Whiteheads, sagnfræðiprófessors við Háskóla Íslands, sem ræddi um Alþýðubandalagið og samskipti þess austur á bóginn í Alþýðublaðinu í gær. Hann sagði m.a.:

,,En uppgjörvið fortíðina hefur ekki farið fram heldur þvert á móti, þessi gamli kjarni í flokknum hefur alltaf færst undan öllu slíku. Þetta væri ekkert fréttaefni ef svo væri ekki. Hvers vegna sögðu þeir ekki frá þessum tengslum sínum við austur-þýsku leynilögregluna Stasi? Framburður þessara manna var ekki mjög trúverðugur í sjónvarpsþættinum.

Við höfum einungis séð toppinn á ísjakanum. Það eiga eftir að koma fram margvíslegar heimildir sem sanna það. Þetta er líka athyglisvert í því ljósi að það sýnir að hér á landi var háð alþjóðleg barátta á milli fylgismanna alræðisríkjanna annars vegar og lýðræðisríkjanna hins vegar.

Þeir sem vildu Sovét-Ísland hafa alltaf svarið af sér þessi tengsl og vilja draga upp þá mynd af sér að þeir hafi verið þjóðlegir verkalýðssinnar sem hafi barist gegn erlendum áhrifum af föðurlandsást. Mér finnst nú eins og vanti eitthvað upp á þjóðlegu reisnina þegar maður heyrir þeirra eigin lýsingar á samskiptum þeirra við þessa illræmdu leynilögreglu. Þeir lýsa sér sem ofsóttum minnihlutahópi í ríkjum þar sem þeir voru í raun heiðursgestir á vegum síns eigin flokks.““

Hjörleifur Guttormsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, hlustaði á ræðu mína og veitti við henni andsvar og sagði:

„Það var einn þáttur í máli hv. þm. sem ég vildi víkja að í andsvari. Hann kom í máli sínu að mínu mati með alveg sérstaklega ósmekklegum hætti að þeim sem hér talar og öðrum hv. alþm. sem hann tilgreindi þó ekki með nöfnum og notaði sjónvarpsþátt í íslenska Ríkissjónvarpinu á dögunum til þess að færa það mál inn á Alþingi Íslendinga. Hann tekur undir og gerir að sínum orðum dylgjur, sem komu fram hjá tilteknum söguprófessor í Alþýðublaðinu í gær, og er að láta liggja að því að nefndir þingmenn, ef ég hef skilið hv. þm. rétt, hafi verið með einhver tengsl við erlenda leyniþjónustu. Hann talaði um Stasi-tengsl í þessu sambandi með tilvitnun í umræddan sögupófessor. Ég verð að segja að mér finnst þetta það langt gengið að það er mjög erfitt að vita hvernig við skuli bregðast. Hvað mig snertir hef ég aldrei haft nein tengsl við erlenda leyniþjónustu fyrir austan tjald eða vestan það ég muni eftir eða viti til og ég hafði ekki meiri taugar til þess lands þar sem ég stundaði nám á sínum tíma en svo að ég sótti aldrei um vegabréfsáritun þangað eftir að ég fór þaðan 1963 til þess tíma að það ríki leið undir lok, aldrei nokkurn tíma. Ég kom einu sinni við á kaupstefnu þar sem ekki þurfti vegabréfsáritunar við, ég held 1975, á leið til annars lands. Það er satt að segja mjög sérkennilegt að hv. þm. skuli kjósa að fara upp með þessum hætti hér. Mér þykir satt að segja leitt þingmannsins vegna að hann skuli leggjast svo lágt.“

Ég svaraði Hjörleifi og sagði:

„Ég sé ekki ástæðu til að hefja gagnkvæma vorkunnsemi en ég skil vel aðstöðu hv. þm. og vandræði hans í þessu. Það liggur fyrir í þeim skjölum sem birt hafa verið að gagnvart stjórnvöldum í Austur-Þýskalandi dró hann til baka gagnrýni sína á stjórnarhætti í því landi og skýrir það þannig út að hann hafi orðið að gera það vegna aðstöðu sinnar í þessu þjóðfélagi. Við höfum þetta allt skjalfest og þetta er allt til þannig að það er alveg hægt að rekja þetta og ræða. Ég tel eðlilegt að ræða þetta mál í samhengi við stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi við stöðu Íslands í alþjóðamálum vegna þess að hv. þm. og flokksbróðir hans voru í Austur-Þýskalandi á sínum tíma á flokkslegum forsendum. Því verður ekki mótmælt. Það liggur alveg fyrir og í umræddum sjónvarpsþætti var það svo berlega staðfest að ekki er um það að deila. Það voru flokkslegar ástæður sem lágu fyrir því að hv. þm. var í Austur-Þýskalandi við nám. Þetta er pólitískt málefni sem snertir þróun alþjóðamála, þróun Evrópumála og þróun stjórnmála hér á landi og hvarvetna í nágrannaríkjunum.“

Enn veitti Hjörleifur andsvar og sagði:

„Ekki bætti hv. þm. úr með orðum sínum hér áðan. Hann leggur að jöfnu það að menn hafi dvalist í einhverju landi og það að þeir hafi haft tengsl við leyniþjónustu viðkomandi ríkis. Þetta er satt að segja alveg ótrúlegur málflutningur. Á hvaða forsendum sá sem hér talar hafi verið í þessu ríki? Hann gæti spurt ýmsa. Hann gæti spurt hæstv. núv. utanrrh. [Jón Baldvin Hannibalsson] hvers vegna hann hafi dvalist þar um skeið, að vísu sem ferðamaður eða bróðir hæstv. utanrrh., nú frambjóðandi Sjálfstfl. á Vestfjörðum [Ólafur Hannibalsson], hafi verið við nám í þessum ríkjum og átt þar dvöl og annað þessar háttar. Hvar ætlar hv. þm. að draga mörkin? Þetta er með slíkum fádæmum að ég mótmæli svona dylgjum harðlega. Mér finnst þær fyrirlitlegar. En það kom kannski ekki svo sérstaklega á óvart frá þessum hv. þm. Hann hefur verið mjög iðinn við þann kola að reyna að koma slíku að, bæði í ræðu og riti, en það er ekki sæmandi fyrir þingmenn á Alþingi Íslendinga að ganga fram með þessum hætti. Það er sjálfsagt mál að ræða alþjóðamál í ýmsu samhengi, einnig þá sögu sem er verið að víkja til. Ekki skorast ég undan því og ég hef verið þátttakandi í því. En ég mótmæli áburði og dylgjum af þeim toga sem hér eru hafðar uppi.“

Og ég svaraði á þennan veg:

„Ég hef hvorki verið með áburð né dylgjur. Ég vitnaði í skjöl sem eru opinber og liggja fyrir og sanna það að hv. þm. var í Austur-Þýskalandi á pólitískum og flokkslegum forsendum sem námsmaður. Það liggur ljóst fyrir. Þetta mál er þess eðlis að hvarvetna ræða menn það fyrir opnum tjöldum og velta því fyrir sér. Vandinn hér á landi er sá að hvorki hv. þm. né flokksbræður hans hafa viljað kannast við að þetta sé pólitískt vandamál sem þeir eiga að takast á við en ekki aðrir. Það er full ástæða til þess að halda þessu vakandi svo lengi sem ekki er gengið þannig til verks af hálfu Alþb. í þessu máli að viðunandi sé miðað við það sem gert hefur verið í öllum öðrum löndum. Hvers vegna skirrast þessir menn við að taka á málinu öðruvísi en að byrja alltaf að kvarta og kveina yfir því þegar vakið er máls á þessum sögulegu staðreyndum að það sé eitthvað verið að dylgja eða hafa þá fyrir rangri sök? Málið liggur fyrir og í umræddum sjónvarpsþætti kom betur fram en áður að þeir sem tala um þetta af heiðarleika viðurkenna að sjálfsögðu að þeir voru þarna til þess að sinna ákveðnu pólitísku hlutverki og það var verið að búa þá undir að taka að sér pólitísk störf á Íslandi með það fyrir augum að koma á svipuðu kerfi hér á landi og var í Austur-Þýskalandi á þessum tíma.“

Ólafur Ragnar Grímsson sat á þingi á þessum tíma og var jafnframt formaður Alþýðubandlagsins. Hann sat í utanríkismálanefnd alþingis undir formennsku minni og taldi í ræðu sinni um skýrslu utanríkisráðherra mjög miður, að ég skyldi hafa minnst á þörfina á þessu sögulega uppgjöri, engin þörf væri á því. Ólafur Ragnar sagði meðal annars orðrétt:

„Þessi svokallaði sagnfræðingur [hér vísar Ólafur Ragnar til dr. Þórs Whiteheads], sem gegnir prófessorsembætti í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir í grein sem birtist í Alþýðublaðinu í gær, og hv. þm. vitnaði til, að „hugmyndafræðilegir erfingjar Einars Olgeirssonar ráði þar ríkjum innan Alþýðubandalagsins.“ Það vita allir, hv. þm., að sá sem hér stendur er ekki hugmyndafræðilegur erfingi Einars Olgeirssonar, fjarri því. Það vita líka allir að ávallt hefur verið grundvallarágreiningur milli mín og þessa látna stjórnmálaskörungs í afstöðunni til hugmyndafræði kommúnismans. Ég ætla ekki að fara í neina lýsingu á valdakerfi Alþýðubandalagsins en ég segi hins vegar: Maður sem lætur fara frá sér jafnfáránlega fullyrðingu og sagnfræðingurinn gerir í Alþýðublaðinu í dag um nútíðina ætti að athuga sinn gang hvað fortíðina snertir. Ég vil þess vegna biðja þá sem vilja vanda sig í þessari umræðu að átta sig á því að það er ekki sæmandi að þeir setji fram ályktanir sem standast ekki og af hálfu forustu Alþýðubandalagsins var stjórnkerfi Austur-Evrópuríkjanna afneitað formlega, skýrt og afdráttarlaust og það fordæmt og gagnrýnt löngu áður en það hrundi. Þeir sem vilja m.a. fá staðfestingu á því geta flett upp nokkur ár aftur í tímann þeirri áramótagrein sem ég skrifaði sem formaður Alþýðubandalagsins og bar heitið Hrun kommúnismans. Ég bið líka marga í þessum sal og ekki síst hv. þm. Björn Bjarnason að skemma ekki þá vegferð sem Íslendingar eru í í samtímanum að móta sameiginlega afstöðu til þeirra vandamála sem við glímum við nú með því að setja sig í dómarasæti yfir fortíðinni án þess að hafa öll málsskjölin. Vilji hv. þm. setja réttarhald yfir kalda stríðinu á Íslandi og öllum þeim þáttum þess og hinum hörðu stjórnmáladeilum þeirrar tíðar og samskiptum forustusveitar íslensku stjórnmálaflokkanna allra við erlenda ráðamenn, erlend ríki og leyniþjónustu þeirra ber að hafa það allt á borðinu, hv. þm., en ég tel það ekki þjóna neinum tilgangi. Ég tek undir að mér fannst ósæmilegt að reyna að bendla hv. þm. Hjörleif Guttormsson eins og gert var hér áðan hvað eftir annað af hv. þm. við leyniþjónustu Stasi þegar meginniðurstaða þáttarins er þvert á móti sú að ekkert er hægt að finna af neinu tagi sem bendir til þess.

Verkefni þessarar umræðu er hins vegar ekki að fara að setja á á Íslandi ný kaldastríðsréttarhöld og ég vona að hv. þm. Björn Bjarnason hugleiði í rólegheitum að sú braut sem ég tel að hann hafi verið á í starfi sínu sem formaður utanrmn. á undanförnum missirum er vænlegri fyrir íslenska samtíð og íslenska framtíð en að heyja í þingsalnum áfram ritdeilur fortíðarinnar úr Morgunblaðinu og Þjóðviljanum.“

Ég veitti andsvar við ræðu Ólafs Ragnars og sagði:

„Með ræðu minni áðan var ekki ætlunin að raska þannig hlutföllum í ræðu hv. síðasta ræðumanns að hann kæmi ekki að hugmyndum sínum um þróun íslenskra utanríkismála. Ég vil hins vegar taka fram í tilefni af ræðu hans að ég las grein hans sem hann vitnaði í, hv. þm., á sínum tíma. Ég tók það þá fram að það væri uppgjör við lenínismann eins og þarna kom fram. Það er staðreynd að það leiddi ekki til þess innan Alþýðubandalaginu, að menn teldu að uppgjörinu væri lokið því að skömmu eftir að greinin birtist sögðu margir menn sig úr Alþýðubandalaginu í Reykjavík vegna þess að þeir töldu að þetta uppgjör skorti. En þetta eru atriði sem lúta að innra flokksstarfi Alþýðubandalagsins., sem mér finnst ekki eiga heima hér, en liggur alveg ljóst fyrir og við getum rætt nánar ef vill.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um skrif Morgunblaðsins og um Víetnamstríðið og hvaðeina annað í utanríkismálum get ég fullvissað hv. þm. að ég þarf ekki að draga neitt til baka af því sem ég hef sagt. Og ég gleðst yfir því í hvert sinn, eins og t.d. í gærkvöldi þegar ég hlustaði á sjónvarpsþátt þar sem Árni Björnsson þjóðháttafræðingur viðurkenndi að Morgunblaðið hefði líklega haft rétt fyrir sér að verulegu leyti þegar það fjallaði um þessi mál í Austur-Evrópu og við skrifuðum margir og höfum skrifað margir mjög mikið um.

Það sem hv. þm. gerði síðan einnig var --- sem ég þekki vel úr þessum umræðum því að ég er gamalreyndur í þessum deilum --- að hann greip til samanburðarfræðanna. Fyrst ég talaði um þetta þá væri rétt að víkja að einhverju öðru og komast síðan að þeirri niðurstöðu að mönnum færist ekki að tala svona af því að það væru einhverjir aðrir atburðir sem hefðu gerst einhvers staðar annars staðar sem réttlættu hugsanlegar ávirðingar. Vandinn er bara sá í þessu að enginn íslenskur flokkur hefur átt sams konar samstarf við erlenda flokka og Alþýðubandlagið og það er það sem við erum að tala um að þurfi að gera upp.“

Ólafur Ragnar svaraði á þennan veg:

Það er rangt hjá hv. þm. að Alþýðubandlagið hafi einn flokka á Íslandi haft samskipti við aðra flokka af því tagi sem hv. þm. var að tala um. Það er rangt, það stenst ekki sögulega, hv. þm. Ég þekki það ósköp vel, ég er búinn að gegna í þessum flokki bráðum í 20 ár embættum formanns framkvæmdastjórnar, formanns þingflokks og formanns flokksins. Og hv. þm. segir mér ekkert um það. Á þeim tíma hafa aldrei, aldrei farið fram nein flokksleg samskipti milli Alþýðubandalagsins og þeirra flokka sem hv. þm. er að vitna til.

Hins vegar er vitað og hefur lengi verið vitað að á tímum Sósíalistaflokksins, áður en Alþýðubandalagið. varð formlegur stjórnmálaflokkur, voru stunduð samskipti af ýmsu tagi. Ýmsir forustumenn, sem höfðu verið áhrifamenn í Sósíalistaflokknum, reyndu að draga Alþýðubandalagið inn í slík samskipti. En það var einmitt hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem flutti tillögu í miðstjórn Alþýðubandalagið., sem girti algjörlega fyrir að það væri hægt og eins og kom fram í þeim þætti sem þingmaðurinn vitnar til að Ragnar Arnalds, formaður Alþýðubandalagsins frá 1968--1977, kom einnig algjörlega í veg fyrir það.

En á sama tíma stundaði Framsóknarflokkurinn, hv. þm., víðtæk flokksleg samskipti við flokka í fleiri en einu Austur-Evrópulandi. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Það er ekkert rangt, hv. þm., vegna þess að í Búlgaríu starfaði flokkur sem var ríkur þáttur af valdakerfi þess lands sem forustumenn Framsóknarflokksins sóttu heim. (Gripið fram í: Þú hefur nú nóg með að svara fyrir sjálfan þig.) Hv. þm. er alveg velkomið að blanda sér inn í þessa umræðu ef hann vill og ræða um samskipti Framsóknarflokksins en það vill nú svo til að ég var einu sinni í þeim flokki og þekki nokkuð vel til þeirra samskipta. Hv. þm. þarf því ekki að segja mér neitt um það. (Gripið fram í: Ekki eftir að þú gekkst í Alþýðubandalagið.) Það er greinilega viðkvæmt fyrir Framsóknarflokkinn að rifja upp þessar staðreyndir og sýnir nú kannski hvað erfitt er að fara í umfjöllun af þessu tagi.

En ég vil bara segja við hv. þm., ég fór ekki í nein samanburðarfræði, ég var bara að reiða fram lýsingar á því hvað það þjónaði litlum tilgangi að ætla í umræðu um skýrslu utanrrh., á þessum degi að fara að innleiða þessar umræður.

Enn á ný fór ég í andsvar og sagði:

„Ég verð að mótmæla því sem hvað eftir annað hefur komið fram í ræðum hv. alþýðubandalagsmanna að ég hafi ekki mátt tala um þessi mál hér af því að það væri skýrsla utanrrh. Ég setti þetta inn í það alþjóðlega samhengi, sem er eðlilegt, þegar við ræðum um stöðu Íslands og pólitíska starfsemi í landinu. Það er því algjörlega fráleitt að vera alltaf með einhverjar ásakanir um það að um þetta mál megi ekki ræða. Ég skil vel að hv. alþýðubandalagsmenn vilji ekki að málið sé rætt, það er allt annað mál. En að saka menn um að vera að misnota aðstöðu sína hér í þessum ræðustól, að taka þetta mál upp, það er alveg fráleitt. og sýnir hvað málstaðurinn er illur.

Hitt er rétt og verður ekki mótmælt að Alþýðubandalagið. sem arftaki Kommúnistaflokks Íslands er eini flokkurinn á Íslandi sem hefur átt í þvílíku samstarfi við aðra flokka og hefur verið til umræðu. Það kom fram í umræddum sjónvarpsþætti að forustumenn Kommúnistaflokks Íslands voru meira að segja félagar í Kommúnistaflokki Þýskalands. Þeir menn sem voru sendir á vegum Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins til Austur-Þýskalands, voru sendir þangað til þess að þjálfa þá í stjórnmálastörfum með það í huga að þeir kæmu á svipuðu fyrirkomulagi hér á landi og var í Austur-Þýskalandi á þeim tíma. Þetta er yfirlýst. Þetta liggur fyrir. (Gripið fram í: Hvar?) Þetta kom fram í máli Þórs Vigfússonar í umræddum sjónvarpsþætti og þetta hefur komið fram margsinnis og liggur fyrir skjalfest og þar að auki viðurkennt af námsmönnum sem þarna voru. (Gripið fram í: Hvenær starfaði Kommúnistaflokkur Íslands?)“

Ólafur Ragnar svaraði þessu andsvari á þennan veg:

„Það er erfitt að bera kaldastríðsgrímuna, hv. þm. Það er erfitt að láta hana læsast svo um andlit sitt að maður nái henni ekki af sér. Hv. þm. getur ekki ruglað saman stjórnmálaflokki sem starfaði hér 1930--1938 og stjórnmálaflokki sem stofnaður var 1968, 30 árum eftir að Kommúnistaflokkur Íslands var lagður niður. Á ég að fara að tala um það þegar nasistaflokkurinn, sem starfaði á Íslandi, fór að sameinast Sjálfstæðisflokknum.? Auðvitað geri ég það ekki, hv. þm., vegna þess að það þjónar engum tilgangi. Eða á að fara að ræða tengsl Alþýðuflokksins við jafnaðarmannaflokkana í Skandinavíu og afstöðu Alþýðuflokksins gagnvart lýðveldisstofnuninni í framhaldi af því? Auðvitað þjónar það engum tilgangi, hv. þm.

Þessi umræða sem hv. þm. ætlar hvað eftir annað að halda áfram í salnum er greinilega tilraun manns til þess að vekja upp á ný orðræðisstíl, málflutning og röksemdafærslu sem sjúkdómseinkenni á íslenskum stjórnmálum um langa hríð. Ég segi við hv. þm.: Ég ætla ekki að taka þann sjúkdóm. Ég hef aldrei verið haldinn honum og ætla mér ekki að taka hann. En hv. þm. er greinilega svo haldinn honum að hann losnar ekki við hann. Ég er alveg reiðubúinn að ræða við þingmanninn fram og aftur um þessar fullyrðingar hans en hann getur ekki reitt fram rök í málinu. Hann verður að hlaupa aftur til áranna 1930--1938 eða til áranna 1960 eða svo þegar forustumenn Sósíalistaflokksins voru að velja unga menn til þess að fara til náms í löndum Austur-Evrópu. Það eru engin ný fræði, hv. þm. En að ætla að setja Alþýðubandalagið undir þann hatt er rangt, hv. þm., ósæmandi og eingöngu gert til þess að villa um, bæði fyrir þingi og þjóð en þó kannski fyrst og fremst vitnisburður um sjúklegt hugarfar hv. þm.“

Steingrímur J. Sigfússon, núverandi formaður vinstri/grænna, var þingmaður Alþýðubandalagsins, brást ókvæða við ræðu minni og sagði meðal annars í umræðunum:

„Ég held að ræða hv. þm. í morgun verði örugglega lengi í minnum höfð sem einhver allra lágkúrulegasta og ómerkilegasta þingræða sem hefur verið haldin um mjög langan tíma. Og hvernig hv. þm. byggði upp ræðu sína utan um ummæli hins svokallaða sagnfræðings og prófessors, Þórs Whiteheads, var auðvitað með endemum því hv. þm. fléttaði inn í það tveimur núv. þingmönnum og var auðvitað ekki annað réð af samhengi og uppbyggingu ræðu hv. þm. en að um þessi Stasi-tengsl væri að ræða í því tilviki sem þeir kæmu að málum.“

Ég tók upp hanskann fyrir Þór Whitehead og sagði við Steingrím J.:

„Ég get fullvissað hv. þm. um að hlutskipti mitt í þessu efni er léttbærara en hlutskipti hans og þeirra sem starfa í nafni Alþýðubandalagsins enn þá í íslenskum stjórnmálum miðað við forsögu þess flokks. Ég tel að þessi hv. þm. hafi ekki efni á því að saka mig um lágkúru eins og hann talar hér og lét orð falla um dr. Þór Whitehead sagnfræðiprófessor og kallaði hann svokallaðan sagnfræðing, mann sem hefur doktorspróf frá háskólanum í Oxford í sagnfræði. Þetta sýnir hvernig þessir menn halda á þessum málflutningi sem hér er að reyna að verja þennan óverjandi málstað að þeir hlaupa úr einu víginu í annað og ráðast síðan á fjarverandi menn og bera þá lítilsvirðandi sökum.“

Steingrímur J. krafðist þess, að ég drægi orð mín um Stasi-tengsl tveggja þingmanna til baka en hann taldi mig vísa til þeirra Hjörleifs Guttormssonar og Svavars Gestssonar. Steingrímur J. sagði:

 „Ég held að hv. þm. ætti að vera maður til þess að koma hér upp og draga þetta til baka, segja að það sé rangur skilningur á orðum hans og biðjast afsökunar í leiðinni hvernig hann hagaði málum sínum hér fyrr í morgun. Hv. þm. er það að sjálfsögðu frjálst og það væri fagnaðarefni ef hann vildi sjá að sér en meðan þetta hangir svona í loftinu þá er ekki hægt að hafa um það önnur orð en að þetta voru ómerkileg, lágkúruleg og auðvitað algjörlega fráleit ummæli og framganga af hálfu hv. þm., honum til stórkostlegrar skammar og er þá mikið sagt.“

Alþýðubandalagsmenn tóku upp þráðinn frá Ólafi Ragnari og sögðu þetta ekki geta verið flokkslegan vanda Alþýðubandalagsins, það væri hreint af öllum tengslum við kommúnistaflokka í A-Evrópu. Ég sagði í andsvari við ræðu Hjörleifs Guttormssonar um þetta efni:

„Við höfum hlustað á það hér í dag að 1968 hafi Alþb. verið stofnað og síðan hafi það ekki átt í neinum samskiptum við þessa flokka í Austur-Evrópu. Við höfum heyrt það líka hér að 1976 taldi hv. þm. sig knúinn til að flytja tillögur á þingi Alþb. til þess að árétta það að Alþb. hefði engin tengsl við þessa flokka. Við höfum heyrt það að 1989 sá formaður Alþb. ástæðu til þess að skrifa sérstaka grein í blað til þess að sýna fram á að flokkurinn hefði engin tengsl við þessa flokka. (Utanríkisráðherra [Jón Baldvin]: Hann var á móti Lenín.) Og lenínisma. 1990 klofnaði Alþýðubandalagið í Reykjavík og menn gengu úr flokknum af því að þeir töldu að hann hefði ekki gert upp við þennan vanda. Það þýðir ekkert að koma hér og segja sem svo að 1968 hafi þessi vandi verið leystur í Alþýðubandalaginu. Hann er óleystur enn og það er þetta flokkslega vandamál og pólitíska vandamál sem við erum að fjalla um hér þegar við ræðum um stöðu íslenskra stjórnmála og íslenskra utanríkismála. (Gripið fram í.)“  

Svavar Gestsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, nú sendiherra, flutti ræðu og sagði meðal annars:

„Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það dálítið hart, svo ég segi ekki meira, að bregða samþingsmönnum sínum um landráð en það gerði hann [Björn Bjarnason] í dag. Ég tel að yfirlýsingar hans um það að einstakir þingmenn hafi Stasi-tengsl séu yfirlýsingar um landráð þessara manna. Það sé verið að segja að þeir hafi unnið fyrir tiltekna sveit í ofbeldisríki gegn Íslandi. Það eru landráð. Það er yfirlýsing um landráð. Ég segi fyrir mitt leyti þó ég hafi verið nokkuð lengi í stjórnmálum, satt að segja um áratuga skeið, frá barnungum aldri, þá finnst mér að yfirlýsingar af þessu tagi fyrir utan það að þær eru auðvitað ósanngjarnar og ósannar á allan hátt, þá finnst mér vont að heyra þetta nema hv. þm. vilji meiða okkur persónulega og honum sé persónulega í nöp við okkur sem hér erum með honum í þessari stofnun og það er auðvitað mjög alvarlegt ef hann setur sig þannig á bekk í almennri stjórnmálaumræðu að hann ýti samstarfsmönnum sínum hér úr öðrum flokkum persónulega til hliðar af einhverjum einkaástæðum sem ég kann ekki og skil ekki. Ég harma þess vegna ræðu hv. þm., hann veikir sína stöðu sem framtíðarforustumaður Sjálfstæðisflokksins og það tel ég slæmt vegna þess að það er nauðsynlegt að menn geti talað saman hvar svo sem þeir eru í stjórnmálaflokki.“

Í andsvari sagði ég:

„Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni [Svavari Gestssyni] að hér á þessum stað eigum við að ræða saman og ég hef gert það eins og hann sagði áður í umræðum um utanríkismál við hv. síðasta ræðumann og einnig við hv. formann Alþb. Við höfum átt ágæt orðaskipti hér um utanríkismál en miklu skiptir að forsendurnar séu skýrar. Mínar forsendur eru alveg skýrar, ég hef sett þær fram og set þær fram óhikað og er óhræddur við það.

Það sem hér hefur hins vegar verið sagt að ég hafi borið ákveðna alþingismenn þeim sökum að þeir hafi brotið gegn hagsmunum þjóðarinnar og framið landráð er náttúrlega algjörlega rangt.“ 

Svavar sagðist persónulega særður, þegar hann væri sakaður um Stasi-tengsl. Ég svaraði og sagði:

„Ég hef ekki sakað hv. þm. um nein Stasi-tengsl enda hafa engin skjöl fundist um hann í neinum Stasi-skýrslum þannig að það er ekki hægt að fjalla neitt um það hvernig þau voru eða hvort þau hafa verið. Það sem hv. þingmenn hafa hins vegar gagnrýnt mig fyrir var að vitna einnig í ummæli dr. Þórs Whiteheads sagnfræðiprófessors og hann sagði og ég hef lesið það áður, með leyfi hæstv. forseta:

,,En uppgjör við fortíðina hefur ekki farið fram, heldur þvert á móti, þessi gamli kjarni í flokknum hefur alltaf færst undan slíku. Þetta væri ekki fréttaefni ef svo væri ekki. Hvers vegna sögðu þeir ekki frá þessum tengslum sínum við austur-þýsku leynilögregluna Stasi?“

Þetta er það sem ég sagði og ég hef sagt og í þessi tvö skipti sem ég hef notað orðið tengsl. Þannig að það þýðir ekkert fyrir hv. alþýðubandalagsmenn að vera að færa þetta mál á eitthvert annað svið til þess að reyna að gera sig að fórnarlömbum hér. Þeir eru engin fórnarlömb, þeir eru með þessa sögulegu byrði á bakinu og þeir verða að reyna að komast undan henni. Ég held að með mínu framtaki í dag hafi ég auðveldað þeim það. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur hér gert grein fyrir skoðunum sínum. Ég sakna þess að hv. þm. Svavar Gestsson skuli ekki hafa gert það með sama hætti.“

Svavar Gestsson svaraði þessum orðum á þennan veg:

„Eini maðurinn sem er með fortíðarbyrði á bakinu í þessari umræðu er hv. 3. þm. Reykv. Hann hefur því miður staðfest það að hann er hér fulltrúi kaldastríðsviðhorfa og það ber að harma það. Hann hefur þar með dæmt sig úr leik til þess að ræða með eðlilegum og rólegum og hógværum hætti um þróun íslenskra utanríkismála á næstu árum. Mér finnst það leitt og ég hvet hann til þess að láta fara fram a.m.k. í sínum huga eðlilegt og hógvært uppgjör við fortíðina í staðinn fyrir að koma hér aftur og aftur eins og gangandi fulltrúi kalda stríðsins eins og hann gerði því miður hér áðan.“

Enn flutti Ólafur Ragnar Grímsson ræðu og ég sagði í andsvörum við henni:

„Hv. síðasti ræðumaður gaf til kynna að það væri ekki samanburðarfræðingurinn sem talaði heldur stjórnmálafræðingurinn. Það er rétt að hann lagði málið þannig upp að hann talaði eins og stjórnmálafræðingur um þetta sérstaka pólitíska vandamál sem við höfum verið að fjalla um í allan dag.

En mig langar til að spyrja hann þá á sömu forsendum: Hvers vegna heldur hann að sambærilegir flokkar og Alþýðubandalagið í Frakklandi og á Ítalíu og víðs vegar annars staðar í Evrópu hafi talið nauðsynlegt eftir hrun sovéska kerfisins og hrun kommúnismans að ganga í gegnum eigin sögu og jafnvel gjörbreyta um starfshætti, afneita fyrri stefnu og gera upp við fortíðina eins og hefur verið gert í þessum flokkum? Það er þetta sem við erum að tala um. Við erum að tala um að það vanti sambærilega umræður hér á landi innan Alþýðubandalagsins og fram hafa farið í þessum flokkum. Ef hv. þm. vill ræða þetta á fræðilegum grundvelli þá er ég tilbúinn til þess. Þá vil ég líka bera Alþýðubandalagið saman við þá flokka sem það bar sig alltaf saman við fyrr á árum, ekki bara austan tjalds heldur einnig vestan tjalds. Og þessir flokkar hafa gjörbreytt sér og hafa gengið í gegnum miklar þrengingar í einstökum löndum vegna þessa uppgjörs. Ef Alþýðubandalagið hefði gert það en menn hafa yfirgefið Alþýðubandalagið á þeirri forsendu að flokkurinn hafi ekki viljað horfast í augu við fortíðina. Hugmyndafræðilega er það rétt að gömlu stefnu Alþýðubandalagsins var kippt úr sambandi, önnur stefna sem kennd er við útflutning er komin í staðinn.

Þessar umræður hér í dag hafa mér fundist mjög gagnlegar og ég þakka hv. þm. Alþýðubandalagsins fyrir það hve viljugir þeir hafa allt í einu orðið til að taka þátt í umræðum um þetta mál í þingsölunum. Ég hef beðið eftir því allt kjörtímabilið og það var ekki seinna vænna. Ég tel að þær hafi verið mjög gagnlegar og þær séu skref í rétta átt og þeir lýsi núna meiri vilja en áður til að ræða þessi mál.  

-----

„Í ræðu sinni leitaðist hv. þm., formaður Alþýðubandalagsins, við að bera saman hin sérstöku tengsl Alþýðubandalagsins við flokkana í Austur-Evrópu og samskipti sem menn hafa átt við alþjóðlegar stofnanir sem Ísland á aðild að. Þetta er náttúrlega algerlega fráleitt. Eins og fram hefur komið og margsinnis hefur verið sagt voru þessi flokkslegu tengsl við flokkinn í Austur-Þýskalandi m.a. þess eðlis að menn voru sendir þangað til náms á flokkslegum forsendum til að búa sig undir þátttöku í íslenskum stjórnmálum. Þetta er gjörsamlega ósambærilegt við það að fara í kynnisferðir til alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að og að taka þátt í fundum þar í boði slíkra stofnana. Þótt hv. þm. hafi undir lok ræðu sinnar dottið í hug orðið samanburðarfræði, sem gengur út á það að komast að þeirri niðurstöðu að aðrir séu kannski ívið verri en kommúnistar og Sovétríkin, þau snerust um það, ræðan var svolítið í þeim dúr að þó þetta væri slæmt þá væri kannski ýmislegt annað sem væri slæmt líka, þá bið ég hann að detta ekki í þá pytti því að það er staðreynd að þessi flokkslegu tengsl voru í pólitískum tilgangi, til þess að hafa pólitísk áhrif og hlutast til um málefni Íslands.“

Í lokaræðu sinni sagði utanríkisráðherra Jón Baldvin Hannibalsson meðal annars:

„Svo ég taki dæmi af bróður mínum [Arnóri Hannibalssyni], sem nefndur var til sögunnar af formanni Alþýðubandalagsins [hann nefndi raunar Ólaf Hannibalsson til sögunnar]. Hann fór til Sovétríkjanna árið 1954, stundaði þar nám og lauk því 1959 og var fyrstur manna frá vestrænu ríki eftir stríð til þess að ljúka prófi frá sovéskum háskóla. Hann hafði hins vegar ekki verið lengi þar í landi þegar honum var ljóst að allt var þetta lygi og fals. Að allt það sem honum hafði verið innrætt af höfuðskáldum og leiðtogum þessarar sósíalísku hreyfingar voru ósannindi. Og hann geymdi ekki að gera það upp við sig, samvisku sína og við sína þjóð og Íslendinga almennt. Hann lét ekki stjórnast af þeim hyggindum sem í hag koma að skrifa leynibréf. Hann hegðaði sér ekki með þeim hætti að segja: Það er búið að ljúga svo miklu að almenningur á Íslandi sem trúir þessum mönnum má ekki við því að meðtaka sannleikann. Og hann lét það ekki bíða í einn eða tvo áratugi.


Ræða Ólafs Ragnars Grímssonar hv. þm. hér var óþörf þegar hann var að sanna það að hann hefði skrifað tímamótagrein, vafalaust tímamótagrein, árið 1989, á móti Lenín. Lenín dó upp úr 1920 svo að það kostaði prófessorinn hvorki kjark né spádómsgáfu að ráðast á hann, 70 árum síðar.

Ef menn vilja tala um hlutskipti þessarar kynslóðar þá er spurningin þessi: Hvers vegna var það úr því að þeir kynntust þessu af eigin reynd að þeir gerðu ekki upp á sjötta og sjöunda áratugnum? Hitt er mál Alþýðubandalagið hvort það sem flokkur hefur einhvern tíma gert þetta; hvort það sem flokkur hefur nokkurn tíma gert þetta með ærlegum hætti og hvort þeir hafa nokkurn tíma dregið réttar ályktanir af því sem þeir sannarlega höfðu rangt fyrir sér með. Hver er prófsteinninn á þau sinnaskipti? Hefur það breytt afstöðu þeirra til Atlantshafsbandalagsins? Hefur það breytt afstöðu þeirra til samstarfs lýðræðisríkja? Hefur það breytt afstöðu þeirra til þátttöku erlends fjármagns í íslensku atvinnulífi? Hefur það breytt afstöðu þeirra til EFTA, til EES? Spurningin er: Hvernig var það með Alþýðubandalagið hér út af hinu stóra máli EES? Var ekki afstaðan sú sama og gagnvart EFTA? Greiddu þeir ekki atkvæði allir sem einn gegn útflutningsleiðinni? Jú, jú. Hvað hefur þá breyst? Það er kannski þetta fyrst og fremst sem er ótrúverðugt.“ 

Hafi einhver gefið sér tíma til að lesa allar þessar tilvitnanir sér sá hinn sami, að málflutningur alþýðubandalagsmannanna í febrúar 1995 er keimlíkur því, sem hann er núna hjá þeim, sem krefjast afsökunar vegna þess að dómari heimilaði að ósk lögregluyfirvalda, að símar yrðu hleraðir í tengslum við sérgreind atvik, sem kröfðust sérstakrar árvekni af hálfu lögreglunnar. Þeir verða að fórnarlömbum, sem gera kröfu til þess, að þurfa ekki að sæta því, að um fortíðina sé rætt á öðrum forsendum en þeir kjósa. Auk þess eigi að biðja þá afsökunar.

Þetta er sem sagt alltaf sami söngurinn, þótt þeir, sem flytja hann séu ekki alltaf þeir sömu. Nú tekur Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, undir hann í grein í Morgunblaðinu 1. júní. Ég held, að það sé tímabært fyrir Mörð og þá, sem kjósa að breytast í fórnarlömb, þegar rætt er um sögulega atburði tengda kommúnisma og sósíalisma, að beina huganum að einhverju öðru en því, að ég sé sú hjálparhönd, sem þeir geti stuðst við út úr vandræðum sínum.

Ekkert af því, sem ég hef sagt um þetta fólk kemst í hálfkvisti við þau orð, sem það hefur látið falla um mig eða skoðanabræður mína. Mér dettur þó ekki hug að æskja afsökunar – til dæmis, þegar Ólafur Ragnar segir mig með „sjúklegt“ hugarfar. Eða hafa menn heyrt dr. Þór Whitehead kveinka sér undan því, að Ólafur Ragnar og Steingrímur J. Sigfússon notuðu orðið „svokallaður“ um sagnfræðingstitil Þórs? Málflutningur af þessu tagi er meira til marks um hugarfar kaldastríðsins en orð okkar Þórs eða röksemdirnar fyrir því, að gert sé upp við pólitíska fortíð hér á sama hátt og gert hefur verið annars staðar.