13.5.2008

Grænlandsdagar.

Hér segi ég frá því, sem á daga mína dreif um hvítasunnuhelgina, þegar við Rut fórum til Grænlands með Lasse Reimann, sendiherra Danmerkur, og Karin Reimann, ásamt Georg Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslu Íslands, og Völu Oddsdóttur. Ferðin hafði verið á döfinni marga mánuði en skipulag hennar byggðist á því, að unnt yrði að nýta farkosti danska flotans, þannig að við fengjum að fljóta með við eftirlitsstörf þeirra. Að öðrum kosti hefði okkur ekki tekist að sigrast á miklum fjarlægðum á þessum skamma tíma og kynnast því, sem við gerðum. Því meira, sem ég kynnist Grænlandi, þeim mun magnaðra finnst mér það.

Laugardagur 10. 05. 05.

Flugum klukkan 08.30 frá afgreiðslu Suðurflugs frá Keflavíkurflugvelli með Challenger-vél danska hersins um 90 mínútum síðar komum við að ísröndinni við austurströnd Grænlands og héldum með henni í sjónflugi í sólarbirtu í suður allt að Kap Farvel þar var snúið við og flogið í vestur inn eftir Prins Christian Sund og þegar komið var að vesturströndinni var flogið enn lægra í áttina að Narsarsauaq, þar sem við lentum klukkan 11.00 að íslenskum tíma eða 09.00 að grænlenskum eftir sjónflug allan tímann frá því að komið var að Grænlandi. Var áhöfn vélarinnar að sinna reglulegu eftirliti.

Hinn 12. september 2007 sást skemmtiferðaskip með 3600 farþega innan borðs á siglingu í gegnum Prins Christian Sund. Þótti þeim, sem það sáu, ferðin glæfraleg og ekki sýna mikla fyrirhyggju af hálfu skipstjórans. Sérstaklega ef skipið valdi þá leið út úr sundinu að vestan verðu, sem ekki hefur verið kortlögð eða sjómæld. Þar hafi skipstjórinn í raun teflt á tvær hættur miðað við þau sjókort, sem hann hafði við höndina.

(Hinn 8. júlí 2008 barst mér athugasemd við ofangreinda efnisgrein frá Jóni Viðari Sigurðssyni, þar sem sagði:

„1) Af færslunni að dæma er eins og skipið (Grand Princess) hafi bara „dúkkað upp“ í Prins Christian sundi þann 12. september. Hið rétta er að undirbúningur að siglingunni í gegnum sundið var opinber í 18 mánuði. Flotastöðin (Grönlands kommando) var fullkunnugt um siglinguna með löngum fyrirvara og hafði skipið samband við stöðina á 6 tíma fresti allan tímann sem skipið var við Grænland. Engar athugasemdir voru gerðar við siglingu skipsins.

2) Því er haldið fram að farþegar hafi verið 3600. Þeir voru 2950. Í raun getur skipið ekki borið fleiri en 3100 farþega að hámarki.

3) í færslunni er vegið að heiðri og dómgreind skipstjórans, Edwards Perrins. Þetta er ákaflega ósanngjarnt svo ekki sé sterkar að orði komist. Perrin er ábyrgur og hæfur skipstjórandi. Að fullyrða að hann hafi sýnt litla fyrirhyggju með glæfralegi siglingu er hreinn þvættingur. Ég kom að undirbúningi siglingarinnar í gegnum sundið með löngum fyrirvara. Aðstoðaði Perrin við undirbúning og sigldi með skipinu. Allur undirbúningur var til fyrirmyndar. Öryggi farþega og skips voru höfð í fyrirrúmi og ekki hefði verið siglt í gegnum sundið ef veður, ís eða annað hefði valdið óvissu. Aðstæður hinn 12. september voru hinar bestu. Þá má geta þess að skipstjórinn kaus að hafa með reyndan danskan skipstjóra sem hefur áralanga reynslu af siglingum stórra skipa við Grænland jafnt sumar sem vetur og gjörþekkir allar aðstæður.

4) í blogginu er því haldið fram að skipstjórinn hafi valið leið út úr sundinu að vestanverðu sem ekki hafi verið kortlögð. Þetta er þvættingur. Farin var heðfbundin leið út að vestan um Torsukattaq (sem norrænir menn nefndu Tóarfjörð).)

Frá flugvellinum í Narsarsuaq var okkur ekið í eftirlitsskipið TULUGAQ (Hrafninn) og lagði það úr höfn um klukkan 09.30 og sigldi út Breiðafjörð og norður eftir fjörðum og sundum þar til komið var að Koparnámuflóa, að við sigldum yfir hann fyrir opnu hafi með tignarlega borgarísjaka á bæði borð. Inni á fjörðum og sundum hafði verið íshröngl, sem berst norður með vesturströndinni úr ísrekinu við vesturströndina.

Veðrið var einstaklega gott og var ævintýri líkast að fá þetta tækifæri til að fá smjörþef af risastærð Grænlands og náttúrukröftunum. Inni á Breiðafirði fyrir austan Brattahlíð og út með firðinum að norðan verðu mátti sjá nokkra bóndabæi og fáeinir hraðbátar, ef svo má kalla, samgöngutæki íbúanna voru á ferð. Annars sáum við ekki neitt mannlíf á tæplega 12 tíma siglingu okkar til Grönnedal, höfuðstöðva danska flotans á Grænlandi í Asuk-firði.

Sjóðleiðin, sem við fórum er um 120 sjómílur, en þegar hún er skoðuð á Grænlandskorti er hún eins og örlítið strik svo risastórt er landið.

Kyrrt var í sjóinn og sól í heiði alla leiðina. Skipherrann sagði, að í Koparnámuflóa gæti oft orðið krappur sjór, ef blési og hafrót myndaðist við straumaskil. Nærvera borgarísjakanna var í senn ógnvekjandi og tignarleg.

Danir hafa haldið úti öflugu eftirlitsstarfi á hafi við Grænland allt frá árinu 1959, þegar Hans Hedtoft, Grænlandsfar, fórst, 30. janúar 1959, með nær 100 manns um borð að leið til Kaupmannahafnar úr fyrstu ferð sinni með varning og fólk til Julianehåb í Eystribyggð við Breiðafjörð.

TULUGAQ fer að ljúka þjónustu sinni fyrir danska flotann. Þrjú skip af þessari gerð hafa þjónað flotanum á þriðja áratug. Danir kalla þau kúttera, en skipin þykja hafa reynst einstaklega vel sem traustir vinnuhestar við hinar erfiðu aðstæður við Grænlandsstrendur. Nú eru að koma til sögunnar mun stærri eftirlitsskip af gerð, sem kennd er við Knud Rasmussen, dansk/grænlenskan landkönnuð og náttúruvísindamann. Knud Rasmussen-skipin eru með þyrlupall og undir honum er allstór, hraðskreiður bátur, sem skjóta má aftur úr skut þeirra og nota til eftirlits á innfjörðum. Líklegt er, að Knud Rasmussen-skipin eigi eftir að sjást í Reykjavík eða öðrum höfnum á Íslandi. Fyrsta skipið var í tilraunasiglingum við vesturströnd Grænlands í vetur og reyndist í alla staði mjög vel.

Eystribyggð á Grænlandi er þar sem Eiríkur rauði settist að með sínu fólki. Vestribyggð er hins vegar norðar með vesturströndinni, það er í nágrenni Nuuk. Svæðið í kringum Grönnedal er kallað Millibyggð af nútímamönnum, en hin byggðaheitin eru frá tíma norrænna manna á Grænlandi en síðasta frásögn af þeim er frá 1408 við brúðkaup í Hvalseyjarkirkju en rústir hennar má enn sjá í Eystribyggð.

Þegar flogið er eins og við gerðum sést vel hinn mikli munur á náttúrufari við austurströnd Grænlands, sem er óbyggileg vegna ísa, og vesturströndinni, þar sem sjá mátti bregða fyrir grænni slikju á túnum í Brattahlíð.

Sunnudagur 11. 05. 08.

Klukkan 10.00 hófst kynningarfundur á starfi Grönlands Kommando – Grænlands herstjórnarinnar en Henrik B. Kudsk, aðmíráll, og hans menn lýstu fyrir okkur verkefnum sínum og tækjabúnaði til að framkvæma hann.

Íbúar eru nú taldir um 57 þúsund í Grænlandi en eins og við Íslendingar vitum er landið bæði risastórt og erfitt til ferðalaga og eftirlits. Norðausturhlutinn er þjóðgarður og þar eru innan við 20 manns á vegum danska hersins. Þetta eru einu mennirnir með fasta búsetu, þar af eru aðeins tveir menn búsettir í Meistaravík, hermenn, sem hafa það hlutverk að halda flugvellinum nothæfum.

Herstjórnin treystir á ferðir Twin Otter flugvéla á vegum Flugfélags Íslands til að þjónusta menn sína á austurströnd Grænlands og hafa yfirmenn hennar áhyggjur af því, ef vélar af þessari gerð hverfa frá Íslandi.

Sjómælingar eru skammt á veg komnar við Grænland og lögð áhersla á að mæla firði og flóa við suðvestur ströndina. Þótt rannsóknir hafi verið stundaðar undan austurströndinni er gerð sjókorta þar ekki byggð á mælingum með nútímaaðferðum.

Fjölgun skemmtiferðaskipa með hundruð eða þúsundir manna innanborðs á þessum slóðum er áhyggjuefni fyrir alla, sem ábyrgð bera á ferðum sjófarenda. Þar er ábyrgð Íslands mikil, því að leitar- og björgunarsvæði Íslands nær að strönd Grænlands í Grænlandssundi.

Ísland er næsta land Grænlands í öllu tilliti, þegar litið er til samstarfs við leit og björgun. Andspænis Grænlandi á Labrador er ekki nein byggð eða neinir aðilar, sem geta brugðist við hættu með skömmum fyrirvara. Álíka langt er frá Grænlandi til St. John’s á Nýfundnalandi eða Halifax á Nova Scotia og til meginlands Evrópu. Þess vegna finnst Grænlendingum og yfirvöldum þar augljóst að miða samstarf sitt við önnur ríki við Evrópulönd og þar er Ísland næsti nágranni.

Að lokinni þessari kynningu á starfsemi herstjórnarinnar í Grönnedal var okkur kynnt saga staðarins og næsta nágrennis. Bandaríkjamenn reistu herstöðina 1943 en Danir tóku við rekstri hennar árið 1951, sama árið og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna var gerður og hin sameiginlega herstjórn NATO kom til sögunnar.

Bandaríkjamenn sendu herlið til Grönnedal til að verja krýolít námur sem eru bænum Ivigtut 5 km utar við Asuk-fjörðinn, en námugröftur hófst þar 1853 og var honum hætt 1987. Okkur var ekið frá Grönnedal til Ivigtut. Er þetta eini vegurinn milli tveggja byggðarlaga á Grænlandi.

Þegar við höfðum ekið 4 km var okkur bent á aðmírals-bekkinn, sem er rétt fyrir ofan veginn og sagt, að þessi bekkur hefði verið settur þarna fyrir aðmírál, sem fór með yfirstjórn stöðvarinnar og hafði þann daglega sið að ganga til þessa staðar og síðan aftur til stöðvarinnar.

Krýolít var notað á fyrri hluta síðustu aldar við framleiðslu á áli og var því sérstaklega eftirsótt í síðari heimsstyrjöldinni og óttuðust bandamenn, að Þjóðverjar næðu námunni á sitt vald eða eyðileggðu hana. Til að forða því kom bandaríski herinn á vettvang.

Nú er þarna um hundrað metra djúp risahola, full af sjó, þar sem áður var numið krýolít. Sjórinn hefur flætt inn í gegnum sprungur á námuveggnum, en hann var hertur sérstaklega til að koma í veg fyrir, að þýskir kafbátar gætu sprengt sig inn í námuna með tundurskeytum. Við holuna stendur síðan draugabær. Einu húsanna hefur verið breytt í safn en hin eru misjafnlega vel á sig komin. Yfir hásumarið er rekið lítið hótel á staðnum.

Ef svo fer fram sem horfir munu hús tengd námurekstrinum, sem sum eru glæsileg, drabbast niður í rústir á fáeinum árum. Við sáum að moskuuxar höfðu verið á ferð um bæinn og tveir þeirra voru á beit rétt fyrir utan hann og tóku þeir á rás, þegar þeir urðu okkar varir.

Moskuuxastofninn er að ná sér á strik á þessum slóðum en hann keppir þó um beitarland við hreindýr, sem eru nokkru sunnar. Þau eru í eigu Stefáns Magnússonar, sem okkur var sagt, að hefði leyfi fyrir 1800 dýrum en þau væru nú talin vera meira en 5000 og væri fjölgun þeirra nágrönnunum nokkurt áhyggjuefni, þótt tugir ef ekki hundruð kílómetra væru á milli bæja.

Krýolít-námufélagið var auðugt og öflugt í dönsku viðskiptalífi og um tíma stóð námuvinnslan undir öllum kostnaði við að halda uppi mannlífi í Grænlandi. Nú er engin þörf fyrir krýolít lengur og þess vegna man námubærinn sinn fífil fegri – saga hans minnir á frásagnir Chilemanna af því, hvernig öllu var kippt undan saltpétursvinnslu þar með framförum á sviði efnafræði.

Okkur var boðið í lítið timburhús, sem stendur á fallegum stað í Ivigtut, rétt við kirkjugarðinn – í honum hvílir fjöldi ungra manna, sem fórnuðu lífi sínu við námuvinnsluna – húsið var hluti af sýningarskála Norðmanna á heimssýningunni miklu í París um aldamótin 1900. Það var notað þar til að ræða við menn um viðskipti, eftir að þeir höfðu skoðað hinn stóra norska skála. Danir höfðu skála við hlið Norðmanna. Að kvöldi síðasta dags hittust þeir, sem við sýninguna höfðu starfað, til að gera sér glaðan dag. Þá heyrðu Danir, að Norðmenn hygðust rífa þetta litla hús. Dönum þótti það miður, því að þeir höfðu hrifist af glæsileika þess, og spurðu, hvort þeir gætu ekki keypt það – Norðmenn vildu ekki heyra á það minnst, en sögðu Dönum, að þeir mættu eiga það, ef þeir tækju það niður og fjarlægðu. Nú stendur það sem sagt sem skrauthýsi skammt frá Grönnedal og sómir sér vel.

Mánudagur 12. 05. 07.

Þriðja daginn okkar á Grænlandi var sól enn í heiði og sást vel til fjalla. Við fórum með yfirmönnum dönsku herstjórnarinnar í kynnisferð um nágrennið. Að þessu sinni var farið á bát, sem notaður er til sjúkraflutninga og annarra öryggisstarfa á Asuk-firði.

Við sigldum inn í botn fjarðarins að Asuk-skriðjöklinum, sem fellur þar í hafið. Engir borgarísjakar voru þar á sveimi en í fjallshlíðum mátti sjá, hve jökullinn hefur hopað síðustu hundrað ár eða svo.

Okkur var bent á fuglabjarg en þau eru sjaldgæf í suðurhluta Grænlands, þar sem þau fá ekki að vera í friði fyrir ágangi veiðimanna. Einnig sáum við hafarnarhreiður.

Náttúran er óspillt en þó sáum fáein lítil sumarhús, sem eru í eigu sveitarfélagsins eða herstjórnarinnar. Í þessum húsum er unnt að dveljast algjörlega einangraður frá öðrum. Við ármynni var björgunarskýli og við það hafði orðið jökulhlaup fyrir skömmu og mátti greinilega sjá merki þess.

Á heimleið var okkur bent á gamla fallbyssu, sem stóð við fjarðarmynni skammt frá námubænum Ivigtut. Bandaríkjamenn reistu byssuna í síðari heimsstyrjöldinni til varnar gegn óvinaskipum, ef þau hefðu komist inn á fjörðinn.

Tíminn var einnig nýttur til viðræðna um leiðir til að auka enn frekar samstarf Landhelgisgæslu Íslands og herstjórnarinnar í Grönnedal.

Klukkan 21,00 lagði danska eftirlitsskipið Vædderen af stað með okkur frá Grönnedal áleiðis til Narsarsuaq. Það blés köldu, þegar við og áhöfnin öll var kölluð til björgunaræfingar ú á þilfar við brottför.

Þriðjudagur 13. 05. 08.

Um klukkan 04.00 að morgni kom Vædderen að þéttum rekís undan Breiðafirði og hristist skipið og nötraði, þegar það braut ísinn með stefni sínu,

Klukkan 08.00 var lagst við bryggju í Narsarsuaq og rúmum hálftíma síðar héldum við á gúmmíbáti yfir fjörðinn að Brattahlíð, bústað Eiríks rauða og Þjóðhildar, konu hans. Hún tók fyrst allra kristni á Grænlandi árið 1000, þegar sonur hennar, Leifur heppni, kom þangað, sem trúboði á vegum Ólafs konungs Tryggvasonar.

Sumarið 2000 var ég á mikilli hátíð í Brattahlíð, þegar 1000 ára afmæli kristnitökunnar var minnst, meðal annars með því að vígja endurgerð af Þjóðhildarkirkjunni. Þá var einnig vígð eftirgerð af bæ Eiríks rauða. Hlakkaði ég til að sjá, hvernig mannvirkin hefðu staðist tímans tönn og aðstæður allar.

Edda Lyberth, íslensk kona, ættuð af Snæfellsnesi, en gift grænlenskum manni og búsett í Qaqortoq (Julianehåb) hefur umsjá með minjunum í Brattahlíð og var hún okkur til leiðsagnar á tæplega 2ja tíma göngu um byggðina í mildu og góðu veðri.

Þarna er mikið fjárbú, um 2000 fjár. Sauðburður stóð sem hæst og þess vegna hafði skólanum verið lokað, svo að allir gætu sinnt lömbunum. Við litum inn í stórt fjárhús, sem reist var fyrir fáeinum árum, eftir óvenju harðan vetur, sem hafði drepið fé í útigöngu, en hún hafði tíðkast þarna frá því að Otto Fredriksen, ættfaðir byggðarinnar, hafði hafði stórbúskap í Brattahlíð á fjórða áratugnum. Sonur hans, Eiríkur rauði Fredriksen, er nú elsti íbúi byggðalagsins. Íbúar þess eru um 50 yfir veturinn og um 100 á sumrin, meðal annarra spænsk hjón, sem reka hótel á staðnum og bjóða ævintýrferðir á sjó og landi. Má þar nefna 10 daga kajakferð til Kap Farvel.

Þá fórum við í kirkju byggðarinnar, fallegt hús, sem reist var að frumkvæði heimamanna, eftir að kirkjuyfirvöld landsins töldu kirkju óþarfa á staðnum. Bændur stofnuðu kirkjubyggingarsjóð fyrir andvirði af tekjum af óskilafé og fengu stuðning yfirvalda, þegar þau áttuðu sig á einbeittum vilja bændanna.

Fyrir utan kirkjuna er markaður helgasti staðurinn í Brattahlíð, þar sem talin er gröf Eiríks rauða. Síðastliðið sumar voru fulltrúar ólíkra kirkjudeilda á Grænlandi til sameiginlegs bænahalds fyrir framtíð mannkyns. Þeir komu í Brattahlíð og yfirmaður rétttrúnaðarkirkjunnar gaf kirkjunni tvær helgimyndir, sem Edda sýndi okkur.

Síðan skoðuðum við rústir steinkirkju, merki um þingstað og rústir af stórum bæ, sem Edda sagði, að gæti hafa verið bær Eiríks rauða. Fornminjar voru rannsakaðar fyrir á fjórða áratugnum og síðan ekki að nýju fyrr en nú hin síðustu ár.

Loks komum við að Þjóðhildarkirkjunni, sem stendur vel og er falleg, eins og frá fyrsta degi. Edda sagði, að hún ætti von á hleðslumönnum frá Íslandi í sumar til að laga það, sem úrskeiðis hefði farið. Eiríksbærinn er einnig mjög glæsilegt hús og vel með farið. Er augljóst, að Edda og hennar fólk hugsar vel um þessar endurgerðu minjar og leggur sig jafnframt fram um að kynna allt það, sem eldra er og upprunalegt og segir sögu víkinganna eða nordboer, eins og þeir eru kallaðir á Grænlandi.

Þarna eru einnig minjar um vetrarhús eskimóa og endurgerð af slíku húsi. Er fróðlegt að sjá, hve það er ólíkt húsi hinna norrænu manna. Einkum er það inngangurinn, sem vekur athygli, en hann er langur og svo lágur, að skríða verður inn um hann. Var þetta gert til að halda sem mestum hita innan veggja, en eskimóar voru klæðalausir í híbýlum sínum.

Heimsóknin í Brattahlíð var hin fróðlegasta vegna góðrar leiðsagnar Eddu og áhuga hennar á því að leggja rækt við sögu staðarins. Ræddum við nauðsyn þess, að Brattahlíð tengdist verkefninu, sem miðar að því að fá víkingabyggð í ólíkum löndum skráða svonefndri raðskráningu á heimsminjaskrá UNESCO til varðveislu fyrir komandi kynslóðir. Hið sama er að segja um forna þingstaði við N-Atlantshaf og víðar í Norðurálfu, en í báðum tilvikum gegnir Ísland lykilhlutverki vegna skráningar Þingvalla á heimsminjaskrána.

(Hér verð ég enn einu sinni að láta þess getið, að Þingvellir voru ekki skráðir á heimsminjaskrá UNESCO vegna náttúru staðarins heldur vegna menningarlegs og sögulegs gildis. Er með nokkrum ólíkindum, að undanfarin misseri skuli andstæðingar tillögu um veg frá Laugarvatni til Reykjavíkur um Lyngdalsheiði láta í veðri vaka, að UNESCO-skráning Þingvalla sé í hættu vegna vegagerðarinnar, þar sem aukin umferð geti spillt Þingvallavatni. Þingvallanefnd hafnaði því á sínum tíma, að vegurinn yrði innan þjóðgarðsins og ekki eru nein áform um að auðvelda umferð gegnum þjóðgarðinn vegna hans.)

Vegna formennsku minnar í Þingvallanefnd og heimsminjaskrárnefnd var mjög gagnlegt að hitta Eddu Lyberth og kynnast viðhorfum hennar og áformum. Þau fjalla mjög að markmiðum Þingvallanefndar og heimsminjaskrárnefndar vegna væntanlegra raðskráninga.

Að loknum hádegisverði kvöddum við skipherra Vædderens og áhöfn hans. Skipið lét tafarlaust úr höfn til frekari eftirlitsstarfa á leið sinni til næsta áfangastaðar, Nuuk. Danska krónprinsparið bauð til móttöku í Vædderen fimmtudaginn 8. maí og strax að henni lokinni lagði skipið af stað til Grænlands. Við austurströnd Grænlands var veður vont og sjógangur mikill, en að sögn skipherrans féll allt í dúnalogn og sjórinn varð spegilsléttur með mjúkri undiröldu, þegar siglt hafði verið fyrir Kap Farvel.

Þorskveiði er að aukast við Grænland eftir um 30 ára ládeyðu. Segja menn þar, að um Íslandsþorsk sé að ræða og óttast margir, að á skömmum tíma verði gengið of nærri stofninum. Rækjuveiði er lítil ef nokkur við Grænland og þess vegna er sóknin í þorskinn meiri en ella væri.

Dönsku eftirlitsskipin fylgjast með fiskiskipum og gæta þess, að öllum reglum sé fylgt. Þess vegna eru þau á ferð fram og aftur strönd landsins, einkum vestanverðri en einnig að austan um sumur.

Challenger-vélin var á flugvellinum í Narsarsuaq. Hún hafði flogið eftirlitsflug alla leið norður til Station Nord og var nú á leið til Danmerkur með viðkomu á Íslandi og við Færeyjar. Frá Narsarsuaq héldum við rétt fyrir klukkan 14.00 að staðartíma í sólskini og blíðu.

Á þeim fjórum sólbjörtu dögum, sem við höfðum verið á Grænlandi, höfðu hlíðarnar við flugvöllinn tekið á sig miklu grænni og sumarlegri lit. Flogið var inn eftir skriðjökulsdal og glampaði á verðandi borgarísjaka í hlíðum jökulsins, þar til við komum yfir jökulbreiðuna sjálfa og tókum stefnu í inn í þoku og lægðina fyrir austan Grænland og til Reykjavíkur.