21.3.2008

Tíbetum ógnað - söguleg sinnaskipti - vegvísir.

Átökin í Tíbet hafa sett svip sinn á fréttir vikunnar. Snemma að morgni fimmtudagsins 20. mars hlustaði ég í BBC á viðtal við blaðamann þýska vikublaðsins Die Zeit. Hann lýsti ástandinu við brottför sína frá Lasha, höfuðborg Tíbets og sagðist vera síðasti erlendi blaðamaðurinn í borginni. Honum þótti kínverskum stjórnvöldum hafa tekist að brjóta öll mótmæli á bak aftur í borginni og setja mannlífið undir járnhæl sinn.

Í páskablaði Evrópuútgáfu The Wall Street Journal er löng grein um ágreining meðal útlægra Tíbeta. Ungliðar í þeim hópi sætti sig ekki við miðjuleiðina, sem Dalai Lama hefur boðað. Miðjuleiðin felst í því, að Tíbetar fái aukna sjálfstjórn innan Kína en endurheimti ekki sjálfstæði með skilnaði frá Kína. Dalai Lama vill viðræður við Kína í stað árekstra og mælir gegn ofbeldi. Kína gerði Tíbet að sjálfstjórnarsvæði innan landamæra sinna árið 1951.

Í The Wall Street Journal ræðir Peter Wonacott við Tsewang Rigzin, forseta ungliðasamtaka útlægra Tíbeta, en í þeim eru um 30.000 manns. Hann er 37 ára og fæddur utan Tíbet. Foreldrar hans flúðu þaðan til Indlands fyrir tæpum 50 árum. Rigzin ólst upp í Suður-Indlandi en fluttist síðan til Bandaríkjanna. Þaðan sneri hann til Dharmsala á Indlandi árið 2007, þegar hann var kjörinn formaður samtakanna.

Útlagastjórn Tíbets hefur aðsetur í Dharmsala ásamt Dalai Lama. Rigzin og félagar hans lýsa andstöðu við þá stefnu hennar, að Tíbetar eigi ekki að krefjast fulls sjálfstæðis. Rigzin segist ekki sjá, að fólk mótmæli á götum úti í þágu einhverjar miðjuleiðar. Dalai Lama segist munu hverfa frá forystu útlagastjórnarinnar, standi vilji valdbeitingar til að reka Kínverja frá Tíbet. Hann segir ofbeldi jafngilda sjálfsmorði fyrir Tíbeta.

Sumarið 2004 var ég í Kína og hitti þar málsvara stjórnvalda. Í samræðum um mannréttindamál beita þeir aðferðum samanburðarfræðanna – það er þeir bera saman atvik heima fyrir hjá sér og atvik á Vesturlöndum og leggja að jöfnu. Þeir, sem beittu þessum aðferðum á tímum kalda, komust yfirleitt að þeirri niðurstöðu, að Sovétríkin væru ívið betra risaveldi en Bandaríkin!

Viðkvæmi bletturinn á Kína eru Ólympíuleikarnir í sumar. Fyrir kínversk stjórnvöld skiptir mestu að tapa ekki andlitinu vegna þeirra. Þeim er sama um skammir í sinn garð vegna hörku í garð Tíbeta. Þeim er hins vegar ekki sama um niðurlægingu í tengslum við Ólympíuleikana.

Í sögu Ólympíuleikanna eru að sjálfsögðu dæmi um, að ríki haldi sig frá leikunum vegna pólitískra aðstæðna. Harka kínverskra stjórnvalda gagnvart Tíbetum getur vakið svo mikla reiði utan Kína, að bitni á Ólympíuleikunum. Réttlát reiði fær útrás á ýmsan hátt. Reiði vegna ofbeldis Kínverja í garð Tíbeta byggist á ríkri og réttmætri réttlætiskennd.

Söguleg sinnaskipti.

Í sama tölublaði The Wall Street Journal og ég las um ágreining meðal útlægra Tíbeta var grein eftir Daniel Henninger um David Mamet, leikritahöfund, og brotthvarf hans frá vinstrimennsku eða líberalisma, eins og hún heitir í Bandaríkjunum.

Henninger segir frá því, að í síðustu viku [11. mars] hafi David Mamet ritað grein í blaðið The Village Voice undir fyrirsögninni: Why I Am No Longer a’Brain-Dead Liberal’ – Hvers vegna ég er ekki lengur ‘heiladauður vinstrisinni’. Í greininni http://www.villagevoice.com/news/0811,374064,374064,1.html/full segir Mamet:

„I took the liberal view for many decades, but I believe I have changed my mind.

As a child of the '60s, I accepted as an article of faith that government is corrupt, that business is exploitative, and that people are generally good at heart.

These cherished precepts had, over the years, become ingrained as increasingly impracticable prejudices. Why do I say impracticable? Because although I still held these beliefs, I no longer applied them in my life. How do I know? My wife informed me. We were riding along and listening to NPR [National Public Radio]. I felt my facial muscles tightening, and the words beginning to form in my mind: Shut the fuck up. "?" she prompted. And her terse, elegant summation, as always, awakened me to a deeper truth: I had been listening to NPR and reading various organs of national opinion for years, wonder and rage contending for pride of place. Further: I found I had been—rather charmingly, I thought—referring to myself for years as "a brain-dead liberal," and to NPR as "National Palestinian Radio."

This is, to me, the synthesis of this worldview with which I now found myself disenchanted: that everything is always wrong.“

Mamet segist eftir þetta sögulega atvik í ökuferðinni með konu sinni hafa tekið til við að lesa bækur eftir Thomas Sowell, sem Mamet, kallar mesta núlifandi heimspekinginn, Milton Friedman, Paul Johnson og Shelby Steele auk íhaldssamra rithöfunda og komist að raun um, að hann væri þeim sammála. Skilningur á samtímanum í anda frjálshyggju félli betur að reynslu hans sjálfs en vinstrisinnaðar hugsjónir.

Ævi og störfum Davids Mamets er auðvelt að kynnast með því til dæmis að skoða umsögn um hann í Wikipedia http://en.wikipedia.org/wiki/David_Mamet. Af þeim lestri sést, að hann er áhrifamikill í bandarísku menningarlífi og hefur víða látið að sér kveða. Þar má einnig fræðast um blökkumanninn Thomas Sowell http://en.wikipedia.org/wiki/Thomas_Sowell en nýjasta bók hans: Economic Facts and Fallacieser í senn skemmtileg og fróðleg. Sowell nálgast viðfangsefni sín af raunsæi, sem jaðrar stundum við kaldhæðni. Hafa margar setningar hans orðið fleygar, eins og til dæmis þessi: „Most people who read "The Communist Manifesto" probably have no idea that it was written by a couple of young men who had never worked a day in their lives, and who nevertheless spoke boldly in the name of "the workers".“

En aftur að grein Henningers í The Wall Street Journal hinn 20. mars. Hann segist undrast mikið, að eftir að Mamet skrifaði grein sína og kastaði vinstrimennskunni frá sér hafi enginn sagt eitt einasta orð í höfuðfjölmiðlum Bandaríkjanna. Á hinn bóginn hafi verið sagt frá sinnaskiptum Mamets í Englandi, Kanada og Ástralíu, þar sem menn þekki hinn nafntogaða leikritahöfund. Í London sé Kevin Spacey að leika í leikriti Mamets Speed the Plough og hafi hann verið beðinn að segja álit sitt. Spacey hefði svarað: „Ég tók nú ekki mikið eftir þessu.“

Henninger spyr: Falli vinstrisinni í skógi vinstrisinna og enginn segist hafa heyrt það, jafngildir það því, að það hafi ekki gerst? Skýringin geti þó einfaldlega verið sú, að vinstrisinnaðir álitsgjafar séu önnum kafnir vegna Baracks og Hillary, að þeir geti ekki komið orðum að neinu öðru.

Af þessum skrifum má draga þann lærdóm, að skilin milli vinstri og hægri eru ekki horfin. Flokkadrættir halda áfram eða eins og Thomas Sowell segir: The big divide in this country is not between Democrats and Republicans, or women and men, but between talkers and doers.“

Vegvísir.

Með því að vekja máls á því í sjónvarpsþættinum Mannamáli hjá Sigmundi Erni Rúnarssyni hinn 16. mars síðastliðinn, að við Íslendingar þyrftum helst að vinna heimavinnu okkar, áður en við færum að ræða meira við Evrópusambandið, var ég einmitt að undirstrika muninn á milli því sem Sowell kallar „talkers and doers.“

Ég legg meira upp úr því, að menn séu doers í stjórnmálum en talkers . Að mínu mati hafa hinir síðarnefndu sett alltof mikinn svip á Evrópuumræðurnar síðustu vikur og látið eins og með talinu einu sé unnt að breyta einhverju. Það gerist auðvitað alls ekki. Ef menn vilja ná árangri, verða þeir að taka til hendi í stað þess að tala út í eitt.

Vegvísir segir okkur, hvað þarf að gera til að komast á leiðarenda. Slíkur vegvísir er dreginn í skýrslu Evrópunefndarinnar. Þar er allt tíundað, sem nauðsynlegt er að gera til að búa Ísland undir aðild að Evrópusambandinu, þótt nefndin hafi, trú umboði sínu, ekki gengið lengra í tillögum sínum en þar segir. Skýrslan snýst hins vegar ekki um aðildina eða efnislega þætti þess, sem þarf að gera innan lands, áður en formlegt og pólitískt skref er stigið í átt til hennar.

Ég árétta fyrri orð mín um, að farið sé að tillögum Evrópunefndar og öll tækifæri samkvæmt EES- og Schengen-samningunum nýtt.

Á síðasta kjörtímabili tókst stjórnarskrárnefnd ekki að ná samkomulagi um neitt, sem varðaði nauðsynlegar breytingar í þágu aðildar Íslands að yfirþjóðlegu samstarfi. Miklu fleiri sambærileg verkefni bíða úrlausnar, vilji menn tengjast Evrópusambandinu meira en orðið er. Í huga talkers hafa ábendingar um þetta verið til marks um, að menn vilji ekki umræður um Evrópumálin. Talkers vilja auðvitað ekki annað en umræður!