30.12.2007

Framsóknarflokkur við áramót 2007.

 

 

Margt er sagt um áramót, þegar litið er yfir farinn veg og spáð um framtíðina. Í 24 stundum laugardaginn 29. desember var Aðalsteinn Baldursson, formaður verkalýðsfélags Húsavíkur, spurður um það, hvað hann teldi snilld ársins. Aðalsteinn svaraði: „Hugsanlega þegar Björn Ingi hélt Sjálfstæðisflokknum í bið meðan hann myndaði nýjan meirihluta á bak við tjöldin.“

Misjöfnum augum líta menn snilldina. Ég sagði þetta á sínum tíma um framgöngu Björns Inga:

Sögnin að svíkja á við um framgöngu Björns Inga gagnvart Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, fráfarandi borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins.  Björn Ingi lýsir tilfinningaríkri  vandlætingu  í garð samstarfsmanna Vilhjálms Þ. í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og sakar þá um að bregðast Vilhjálmi á örlagastundu. Sjálfur lét Björn Ingi þannig við Vilhjálm fram eftir kvöldi miðvikudags 10. október, eftir að hann hafði ákveðið að yfirgefa sjálfstæðismenn næsta dag, að Vilhjálmur andmælti af þunga öllum fullyrðingum samstarfsmanna sinna meðal sjálfstæðismanna um, að Björn Ingi væri að fara yfir til vinstrimanna.“

Hvernig nokkur maður, sem á mikið undir samningum við aðra, sama í hvaða stjórnmálaflokki þeir standa, getur kennt framgöngu Björns Inga við snilld, er ofvaxið mínum skilningi.

Valgerður Sverrisdóttir flokkar í 24 stundum hinar pólitísku sviptingar í borgarstjórn Reykjavíkurflokkar undir klúður ársins og segir:

„[Klúður ársins] Hlýtur að vera misheppnuð aðför borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn sínum eigin foringja sem varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hraktist frá völdum í Reykjavík. Þetta er mesta pólitíska klúður sem ég man eftir en vel kann þó að vera að það verði toppað á næsta ári.“

Líklegt er, að Valgerður geri sér vonir um, að pólitísk sviksemi leiði til þess á næsta ári, að Framsóknarflokkurinn komist að nýju í ríkisstjórn. Henni líður verst allra framsóknarmanna utan ríkisstjórnar og málflutningur hennar nú miðar að því að koma illu af stað innan Sjálfstæðisflokksins á alþingi í von um, að á þann veg komist hún að nýju í ráðherrasæti.

Valgerður segir í 24 stundum þegar hún er spurð um, hvað muni bera hæst á næsta ári: „Undirliggjandi og kraumandi óánægjan í Sjálfstæðisflokknum mun að öllum líkindum leiða til sprengingar. Viðsjár í flokknum eru meiri en flesta grunar og varaformaðurinn er farinn að kvarta undan uppreisnarmönnum opinberlega.“

Á vefsíðu sinni hinn 28. desember segir Valgerður Sverrisdóttir:

Það vakti strax athygli mína viðtalið við varaformann Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu. Ástandið í Sjálfstæðisflokknum er greinilega verra en maður hefur gert sér grein fyrir. Þorgerður er að hamast við að réttlæta fyrir sínum eigin flokksmönnum ákvörðunina um að starfa með Samfylkingunni sem hún vissulega ber hvað mestu ábyrgðina á. Hún skýtur hressilega á sína eigin menn þó að hún nafngreini engan.“

Þetta viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem Valgerður nefnir, birtist í Fréttblaðinu 22. desember. Þar segir varaformaður Sjálfstæðisflokksins meðal annars:

En ég viðurkenni alveg að það er meira líf í þessari ríkisstjórn [en í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum]. Menn hafa einbeittan ásetning til að láta þetta ganga og mér líður vel með Samfylkingunni í ríkisstjórn. Ingibjörg er traustsins verð og það er gott að vinna með henni. Það er auðvitað erfitt fyrir marga sjálfstæðismenn að kyngja því; þetta var höfuðandstæðingur okkar í mörg ár. En göngulag okkar er að verða taktvissara og samhæfðara með hverju skrefi.“

Gleðja þessi orð Valgerði Sverrisdóttur, þegar hún leitar að ágreiningi innan Sjálfstæðisflokksins? Sé svo, má með sanni segja: Litlu verður Vöggur feginn. Af orðum Þorgerðar Katrínar er nær að draga þá pólitísku ályktun, að henni líði mun betur í ríkisstjórn með Ingibjörgu Sólrúnu en Valgerði. Ég minnist þess ekki, að Þorgerður Katrín hafi nokkru sinni talað á þennan veg um samstarf sitt við Valgerði Sverrisdóttur.

Í Fréttablaðinu 22. desember víkur Þorgerður Katrín að meirihlutaskiptunum í borgarstjórn Reykjavíkur og segir:

„Hvað var það sem skildi menn að í lokin? Það var að sjálfstæðismenn vildu losa sig út [úr REI] á hálfu ári en Björn Ingi árið 2009. Ef menn eru heiðarlegir þá tala þeir sig út úr svona. Við gerðum annað eins í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum.

Það var eitthvað meira sem bjó að baki. Kannski panikkaði Björn Ingi bara, ég veit það ekki.

Ég hef bara aldrei kynnst svona vinnubrögðum og skil þau ekki. Hann hefur alla hæfileika til að standa sig vel í pólitíkinni en ég hef bara aldrei upplifað annað eins.“

Fyrir forystumenn Framsóknarflokksins er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu mati varaformanns Sjálfstæðisflokksins á því, hvernig er að eiga samstarf við framsóknarmenn.

Sagan geymir dæmi um, að allur trúnaður brast milli Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins, og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, snemma á fimmta áratug síðustu aldar og leiddi til áratuga langrar tortryggni milli flokkanna, sem lauk í raun ekki fyrr en undir styrkri stjórnarforystu Davíðs Oddssonar í samstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna árið 1995.

Með framgöngu sinni í borgarstjórn Reykjavíkur hefur Björn Ingi Hrafnsson sáð fræjum þessarar tortryggni að nýju og Valgerður Sverrisdóttir. varaformaður Framsóknarflokksins, elur á henni með málflutningi sínum. Í Fréttablaðinu segir Þorgerður Katrín: „Það er Samfylkingin sem ber núna ábyrgð á Birni Inga. Vesgú, verði henni að góðu.“

Ummæli Valgerðar Sverrisdóttur nú um áramótin ýta undir réttmæti þeirrar skoðunar, að í raun hafi Björn Ingi verið að hefna fyrir það með vistaskiptunum í borgarstjórn, að sjálfstæðismenn leiddu Framsóknarflokkinn ekki til öndvegis í landstjórninni eftir þingskosningarnar 10. maí.

Með því að setja Alfreð Þorsteinsson af sem stjórnarformann húsbyggingarnefndar Landspítalans gaf Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Alfreð tilefni til að leita hefnda, eins og hans er pólitískur vani.

Eðlilegt er, að á stjórnmálavettvangi deili menn um afstöðu til manna og málefna. Samstarf ólíkra flokka byggist á því, að menn leiti lausna á ágreiningsmálum af einurð og heiðarleika. Hitt er ekki til farsældar fyrir neitt samstarf, að gengið sé fram af óheiðarleika, svo að ekki sé minnst á sviksemi.  Framganga af þeim toga dregur allaf dilk á eftir sér.

Þegar Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, kýs að gera það að höfuðvon sinni um þessi áramót, að óeining sé í röðum sjálfstæðismanna, mætti af vinsemd benda henni á að líta sér nær.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, taldi sér best henta fyrir þessi jól að senda frá sér ævisögu, þar sem höfuðmarkmið hans er að skrifa sig frá Halldóri Ásgrímssyni, forvera sínum á formannsstóli flokksins. Í ritdómi í Morgunblaðinu gerði Jón Þ. Þór sagnfræðingur tilraun til að drepa bók Guðna með smásmygli, sem bar helst með sér átök um bókina innan Framsóknarflokksins.

Guðni var ekki einungis að skrifa sig frá Halldóri heldur einnig þeim, sem stóðu honum næst innan Framsóknarflokksins, en þar voru þau Valgerður Sverrisdóttir og Björn Ingi Hrafnsson fremst í flokki.

Hið dapurlega fyrir Framsóknarflokkinn er, að smæð hans veldur því, að flestum er í raun sama um átökin innan hans, flokkurinn sé í raun ekki til skiptanna. Sífellt fleiri spyrja sig að því, hvert sé í raun pólitískt erindi Framsóknarflokksins.

Jón Sigurðsson, sem sagði af sér formennsku í Framsóknarflokknum eftir afhroðið í þingkosningunum í vor, segir í pistli á vefsíðu Framsóknarflokksins 28. desember:

 

„ Í langvarandi ríkisstjórnarsamstarfi virtist Framsóknarflokkurinn ekki lengur vera mótvægi eða valkostur gegn yfirráðum sjálfstæðismanna. Nýir vinstriflokkar komu fram, sögðust lausir við arf fortíðarinnar og kröfðust forystuhlutverka. - En á sama tíma hafði Framsóknarflokkurinn ekki boðið fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og framsóknarmenn þar höfðu fylgt leiðtoga Samfylkingarinnar.

Mörg stefnumál ríkisstjórnarinnar þóttu hægrisinnuð. Þar má nefna endursköpun fjármálakerfis og viðskiptalífs. Sama máli gegndi um sölu viðskiptabanka og aðrar einkavæðingar. Þetta bitnaði meðal annars á gamalgrónum stuðningshópum Framsóknarflokksins. - Þá hefur áhugi ýmissa forystumanna Framsóknarflokksins á Evrópusambandinu vakið andstöðu margra.

Einstök önnur mál höfðu fyrst og fremst áhrif til viðbótar og ýttu við fólki. Nefna má fréttaleka um innri klofning í forystu Framsóknarflokksins. Auglýsingar um húsnæðismál juku fylgið 2003 en þetta snerist síðar alveg. Framsóknarflokkurinn virtist höfða til sumra hægrikjósenda 2003 en það fylgi hvarf líka aftur. - Að auki má nefna deilur um Íraksmál, fjölmiðlafrumvarp, veitingu ríkisborgararéttar og fleira.

Hér er enginn dómur lagður á réttmæti þeirra starfa og stefnumiða sem ofar eru nefnd og alls ekki gert lítið úr mikilvægi þeirra. Og það skiptir alltaf máli hverjir eru frambjóðendur og aðaltalsmenn flokks. En mikilvægt er að framsóknarmenn fjalli um fylgisgrundvöll, stefnu og skírskotun flokksins til framtíðar. Í þessu þurfa menn að meta réttilega ástæðurnar fyrir hruninu 2007. Annars er hætt við að úrræðin verði afturhvarf til viðhorfa sem ekki hæfa framtíðarsókn.“

Jón Sigurðsson reyndi vissulega að finna Framsóknarflokknum nýjan tón, þegar hann gerðist bjargvættur flokksins með því að taka við formennskunni af Halldóri Ásgrímssyni, eftir að Halldóri misheppnaðist að gera Finn Ingólfsson að formanni og bola Guðna Ágústssyni úr sessi varaformanns. Frægt var orðið „þjóðhyggja“, sem Jón notaði til að marka flokknum sérstöðu. Hið slæma var, að ekki var unnt að skýra á fullnægjandi hátt, hvað í orðinu fólst.

Björn Ingi Hrafnsson var einn þeirra, sem skildi ekki pólitískt inntak orðsins. Hann leitaði til Jóns Sigurðssonar og birti skýringu hans á vefsíðu sinni. Þar sagði meðal annars:

„Með þessari orðanotkun er lögð áhersla á þá sögulegu og hugmyndafræðilegu staðreynd að þjóðleg félagshyggja Framsóknarmanna er ekki byggð á sósíalisma eða stéttarhyggju heldur á rætur í sömu arfleifð og forsendum sem sjálfstæðisbaráttan og endurreisn íslenskrar menningar og samfélags.

Þarna er jarðvegur og rætur Framsóknarstefnunnar í félagsmálahreyfingum og menningarstarfi, ungmennafélögum, samvinnufélögum, ræktunarsamtökum hvers konar og þjóðfrelsisstarfi. ..

.. Miðjan er sjálfstæður hugmyndafræðilegur póll sem á sér sínar eigin stjórnmálasögulegu og hugmyndasögulegu rætur, og það er arfleifð evrópskrar þjóðhyggju eða þjóðræknisstefnu undirokaðra smáþjóða álfunnar.

Það hefur aldrei verið brýnna en nú að þessi sjónarmið njóti sín og hljóti umfjöllun og athygli, á tíma opnunar, hraðra breytinga, vaxandi viðskiptaumsvifa og alþjóðavæðingar. Til þess að geta tekið þátt í þessu öllu af innri styrk og metnaði þurfum við einmitt að vita vel hver við erum, hverjar eigin forsendur okkar eru, hvaðan við komum og hvert við viljum halda.“

Þótt Jón Sigurðsson reyndi að bjarga Framsóknarflokknum með orðinu „þjóðhyggja“ og Björn Ingi birti skýringu á því á vefsíðu sinni, skilaði það sér ekki í nýju fylgi í kosningum. Framsóknarmenn eru þingmannslausir í Reykjavík um þessi áramót og skortir enn stefnu eins og Jón Sigurðsson lýsir réttilega.

Síðasta hálmstrá Valgerðar Sverrisdóttur undir árslok er að binda vonir við pólitíska sviksemi í anda Björns Inga. Spurningin verður sífellt áleitnari: Er tími Framsóknarflokksins ekki einfaldlega liðinn? Hvað bendir til þess, að hann eigi í raun meira erindi við kjósendur?