28.10.2007

Giscard og Evrópunefndir - Danir og 24 ára reglan - hrakspár og dr. Hannes.

Þegar ég var í flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag á leið til Kaupmannahafnar, hringdi áhugamaður um stjórnmál í mig og spurði, hvort rétt væri, að í skýrslu Evrópunefndar kæmi fram, að Íslendingar þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins (ESB), ef þeir gengju í ESB. Ég sagði þetta ekki rétt, hins vegar hafa tveir fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni, Össur Skarphéðinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson (sem kom í nefndina á síðustu metrunum) komist að þessari niðurstöðu. Það ætti hins vegar ekki við um fjóra nefndarmenn, sem skiluðu sameiginlegu áliti, Ragnar Arnalds og Katrínu Jakobsdóttur frá vinstri/grænum og Einar K. Guðfinnsson og mig frá Sjálfstæðisflokknum.

 

Oft er haft samband við mig vegna skýrslu Evrópunefndar til að fá skýringar á því, sem þar birtist, enda skal leggja hana til grundvallar við framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Hin sameiginlega niðurstaða nefndarinnar er skýr og ótvíræð: Ísland nýtir sér ekki þau tækifæri, sem EES-samningurinn gefur til að hlutast til um stefnu í fjölmörgum málum á EES-svæðinu, ef vilji er til aukinna áhrifa er auðvelt að framkvæma hann með virkari þátttöku af hálfu ríkisstjórnar, stjórnarráðsins og alþingis.

 

Síðan skýrsla Evrópunefndarinnar sá dagsins ljós í mars á þessu ári hefur ekkert gerst, sem hnekkir niðurstöðu hennar. Miklu skiptir, að skipulega verði gengið til þes verks að hrinda niðurstöðum skýrslunnar í framkvæmd og tryggja þannig betur en nú er aðild Íslands að ákvörðunum á EES-svæðinu. Ríkisstjórn, alþingi og einstök ráðuneyti þurfa að skipuleggja hlut sinn á þessu sviði enn betur til að ná meiri árangri og gæta íslenskra hagsmuna.

 

Niðurstöður skýrslunnar eru ígrundaðar og rösktuddar og allt annars eðlis en losaralegt tal um aðild Íslands að ESB – tal, sem byggist  mikið á kveinstöfum en lítið á rökum. Hvaða stjórnmálaflokkur vill aðild Íslands að ESB? Að láta eins og eitthvað sé óljóst um, hver þurfi að vera samningsmarkmið Íslands, byggist í besta falli á þekkingarleysi. ESB gerir kröfu um að fallist sé á öll skilyrði þess, sé eitthvert hik á viðsemjandanum, er hann spurður, hvað hann þurfi langan tíma til að laga sig að þessum kröfum – ESB vill engar sérlausnir, kannki tímabundna aðlögun.

 

Það eru fleiri formenn Evrópunefnda en ég spurðir um álit á sjónarmiðum, sem setja svip á umræður líðandi stundar í ljósi niðurstöðu nefnda þeirra. Þetta á til dæmis við um Valéry Giscard d’Estaing, fyrrverandi Frakklandsforseta, sem var formaður Evrópunefndar ESB, sem samdi sáttmálann um nýja stjórnarskrá ESB, en Frakkar og Hollendingar felldu hann í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2005.

 

Að sáttmálanum skyldi hafnað þótti mikið áfall fyrir ESB. Íslenska Evrópunefndin var á ferð í Brussel, þegar tíðindin um nei-sigurinn í Frakklandi barst. Þá var okkur strax sagt, að leitað yrði leiða til að komast í kringum þetta nei, því að ESB felldi sig aldrei við nei-niðurstöðu almennings. Hann hefði hvort sem er ekkert vit á þeim ofur-stjórnmálum, sem einkenndu ESB-samstarfið.

 

Hinn 18. og 19. október hittust leiðtogar ESB-ríkjanna í Portúgal og lögðu lokahönd á Lissabon-sáttmálann, nýjan stofnsamning ESB, þar sem tekið er á málum, sem voru í sáttmála Giscard d’Estaing og félaga um nýja stjórnarskrá ESB. Nú segja leiðtogarnir, að sá mikli munur sé á þessum Lissabon-sáttmála og skjalinu frá Giscard, að alls ekki þurfi að bera sáttmálann undir þjóðaratkvæðagreiðslu, þetta nýja plagg sé allt öðru vísi en hið gamla.

 

Til að svara spurningum um þetta í eitt skipti fyrir öll hefur Valery Giscard d’Estaing ritað opið bréf til nokkurra evrópskra dagblaða og sá ég það í Politiken, þegar ég kom til Kaupmannahafnar í dag. Þar segir hann meðal annars: „Í Lissabon-sáttmálanum, sem kemur aðeins til sögunnar á grundvelli stjórnarskársáttmálans, eru verkfærin nákvæmlega hin sömu. Hið eina, sem skilur á milli, er, að þeim er raðað á annan hátt í verkfærakassann.“ Hann segir, að öll efnisatriði stjórnarskrársáttmálana séu í Lissabon-sáttmálanum en ákvæðin séu ekki í sömu röð og áður. Giscard segir rétt, að ekki sé lengur talað um stjórnarskrá, fána eða evrópskan „þjóðsöng“ – allt annað sé í raun að finna bæði í stjórnarskrársáttmálanum og Lissabon-sáttmálanum.

 

Opna bréfið hlýtur að koma sér illa fyrir Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, og Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, sem báðir segja óþarft að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann, af því að hann sé jú allt annars eðlis en stjórnarskrársáttmálinn. Bæði í Bretlandi og Danmörku gerast þær raddir háværari, sem krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um skjalið frá Lissabon og Giscard-bréfið gleður þá áreiðanlega meira, sem vilja slíka atkvæðagreiðslu, en þá, sem telja hana óþarfa.

 

Formenn Evrópunefnda verða að halda fast í niðurstöður nefnda sinna, þótt það kunni að vera óþægilegt fyrir stjórnmálamenn á líðandi stundu.

 

Anders Fogh Rasmussen hefur ýtt kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu á undan sér hér í Danmörku með því að boða til þingkosninga með aðeins þriggja vikna fyrirvara. Gordon Brown hefði einnig getað ýtt málinu á undan sér, ef hann hefði rofið þing, sem hann gerði ekki.

 

Danir hafa ýmsa fyrirvara í ESB-samstarfinu, sem byggjast á niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslum. Sumir spá því, að nokkrum mánuðum eftir þingkosningarnar nú í nóvember verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku til að „losna“ undan þessum fyrirvörum eins og málsvarar ESB segja – og jafnvel til að taka upp evruna, en Danir höfnuðu henni á sínum tíma.

 

Danir og 24 ára reglan.

 

Átakamálin í dönskum stjórnmálum snúast um skatta og velferðarkerfið og auk þess um útlendinga og innflytjendur. Danska þingið samþykkti svonefnda 24 ára reglu árið 2002 með stuðningi Venstre, flokks forsætisráðherrans, Íhaldsflokksins, flokks dómsmálaráðherrans, og Danska þjóðarflokksins, sem er utan stjórnar en styður hana. Reglan er lögfest til að draga úr hættunni á málamyndahjónaböndum. Bæði hjón þurfa að vera orðin 24 ára til að annað þeirra geti sest að í Danmörku á grundvelli reglna um fjölskyldutengsl.

 

Reglan hefur sannað gildi sitt og sósíal demókratar, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, ætlar ekki að hrófla við henni komist hann í stjórn. Nú hefur þeirri spurningu verið varpað fram í kosningabaráttunni, hvort róttækir, Radikale, og vinstri sósíalistar, SF, ætli að setja sig gegn 24 ára reglunni komist þeir í stjórn með sósíal demókrötum og hafa forystumenn beggja flokka sagt, að það muni þeir ekki gera.

 

Þetta kalla Danir „pragmatisma“ í pólitík, en Enhedslisten, næstum því kommúnistar, segist ekki geta slegið af í svo mikilvægu máli.

 

Hrakspár og dr. Hannes.

 

Þessi frétt birtist á visir.is sunnudaginn 28. október:

 

„Vatnsþunginn sem þrýstir á Kárahnjúkastíflu náði hámarki í fyrradag. Landsvirkjunarmenn segja stífluna leka mun minna en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Á byggingartíma Kárahnjúkastíflu komu fram áhyggjur um öryggi stíflunnar, meðal annars í umræðum á Alþingi. Því var velt upp hvort sprungur í berggrunni undir stíflunni kynnu að valda miklum leka úr Hálslóni og íbúar á Jökuldal spurðu hvort þeir þyrftu að óttast stíflurof.

Net mælitækja inni í stíflunni hjálpar Landsvirkjunarmönnum að fylgjast með ástandi mannvirkisins.“

 

Hrakspárnar um Kárahnjúkastífluna eiga heima með þeim dæmum, sem  dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson tók í Lesbóki Morgunblaðsins laugardaginn 27. október, þegar hann sagði:

„Ég hafði bent á ýmis dæmi þess, að vísindamönnum getur skjátlast, hversu margir sem þeir fara saman. Viðvörun Rachel Carsons í Raddir vorsins þagna 1962 við skordýraeitrinu D. D. T. leiddi til banns við notkun þess, svo að milljónir manna í suðrænum löndum hafa látist úr mýrarköldu (malaríu), en D. D. T. er nær hættulaust. Hrakspár í Endimörkum vaxtarins 1972 um væntanlegan skort á nauðsynlegustu hráefnum eins og kolum og olíu rættust ekki. Nóg er til af þessum efnum. Morgunblaðið greindi 10. júní 1977 frá því, að hópur vísindamanna á umhverfisráðstefnu í Reykjavík hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ný ísöld væri á næsta leiti. Hlýnað hefur í veðri síðan. Nær allir virtustu hagfræðingar Breta birtu yfirlýsingu vorið 1981 um, að frú Margrét Thatcher myndi falla, héldi hún fast við stefnu sína. Hún varð langlífasti forsætisráðherra Breta á 20. öld. Þrír íslenskir raunvísindamenn spáðu því 1987, að Tjörnin myndi hverfa á þremur vikum, um leið og hafið yrði að grafa fyrir ráðhúsi. Tjörnin stendur enn. Nýleg hrakspá um, að fiskistofnar myndu hrynja innan fjörutíu ára, reyndist auglýsingabrella.“

Þá má einnig nefna í sömu andrá, að því var spáð, að Hvalfjarðargöngin yrðu svo hættuleg, að fáir eða nokkur myndi nota þau – nú er unnið að því hörðum höndum að hanna ný göng til að anna umferðinni.