30.6.2007

Útlendingamál nær og fjær.

Í vikunni hittumst við norrænir ráðherrar útlendingamála á fundi í Reykholti í Borgarfirði og bárum saman bækur okkar, en formennska í norrænu nefndinni um útlendingamál hefur verið í höndum Íslendinga síðasta ár og taka Danir við af okkur nú um mánaðamótin.

Útlendingamál eru alls staðar ofarlega á baugi. Þau setja æ meiri svip á stjórnmálaumræður og snerta marga fleti þeirra. Samvinna Evrópuríkja innan Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins hafa skapað íbúum aðildarlandanna mikið frelsi til að ferðast innan þess, starfa og stofna til atvinnustarfsemi. Höfum við Íslendingar nýtt okkur þetta í ríkum mæli bæði í umsvifum okkar sjálfra erlendis og með því að fá fólk til starfa hér.

 

Evrópusambandið hefur sett nýjar reglur um frjálsa för fólks, þar sem meðal annars nýtt hugtak „union citizen“ er komið til sögunnar auk þess sem mælt er fyrir um aukin réttindi þriðju ríkis borgara. Eins og fram kemur í skýrslu Evrópunefndar töldu stjórnvöld á Íslandi og í Liechtenstein álitamál, hvort þessar nýju reglur um frjálsa för féllu undir EES-samninginn eða ekki. Norðmenn töldu reglurnar falla undir EES.

 

Eftir að togast hafði verið á um málið í viðræðum við Evrópusambandið, tók það af skarið af sinni hálfu og sendi frá sér yfirlýsingu um, að yrðu ákvæði þessara reglna ekki talin falla undir EES-samninginn litið sambandið þannig á, að brotið væri gegn samningnum og það myndi grípa til ráðstafana samkvæmt 102. grein hans (í annað sinn síðan hann gekk í gildi) og setja þennan þátt samstarfsins í uppnám. Frestir samkvæmt því eru byrjaðir að líða.

 

Ríkisstjórnin samþykkti sl. þriðjudag, að leitað yrði leiða til að leysa þennan ágreining við Evrópusambandið með sameiginlegri afstöðu EFTA-ríkjanna þriggja í EES. 

 

Norska ríkisstjórnin lagði sl. föstudag fram frv. til nýrra útlendingalaga með 700 blaðsíðna greinargerð, þar vantaði þó kaflann um stöðuna innan EES vegna þess ágreinings, sem að ofan er lýst. Með vísan til þess, sem ákveðið var í ríkisstjórninni sl. þriðjudag, sagði ég norsku sendinefndinni, að nú liði snarlega að því, að unnt yrði að skrifa þennan kafla í hina ítarlegu norsku greinargerð. Fögnuðu Norðmenn þeim tíðindum.

 

Ég bý mig undir að leggja fram frumvarp um breytingar á útlendingalögum næsta haust. Taka þær mið af reynslunni af framkvæmd laganna undanfarin ár og verður leitast við að fá lögfest ákvæði um úrlausnarefni, sem nú byggjast á mati stjórnvalda. Réttarstaða þeirra, sem hlut eiga að máli skýrist, ef lögin taka á álitamálum.

 

Hér á landi eru tveir aðilar innan stjórnsýslunnar, sem koma að því að meta, hvort veita eigi fólki dvalarleyfi í landinu, það er annars vegar útlendingastofnun og hins vegar vinnumálastofnun – flestir fá hér dvalarleyfi á grundvelli atvinnuleyfis. Sé þrengt að rétti manna til að öðlast atvinnuleyfi eykst þrýstingurinn á að dvalarleyfi séu veitt á öðrum forsendum.

 

Eftir 1. maí 2006, þegar fallið var frá öllum fyrirvörum, varðandi atvinnurétt manna frá 10 nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins hér á landi, voru kröfur hertar varðandi rétt manna til atvinnu frá löndum utan ESB.

 

Hér eins og hvarvetna annars staðar velta menn því fyrir sér, hvernig best sé að skilja hafrana frá sauðunum. Í aðildarríkjum evrópska efnahagssvæðisins snýst þetta um borgara utan þess. Ríki fara í vaxandi mæli inn á þá braut, að geti þeir utan svæðisins, sem óska aðgangs, sannað, að þeir fái starf, sem sé í ákveðnum launaflokki, eigi þeir greiða leið að dvalarleyfi. Þá er jafnframt verið að herða reglur, sem gilda um fjölskyldusameiningu.

 

Nicolas Sarkozy stofnaði sérstakt ráðuneyti til að fjalla um þessi mál í Frakklandi, eftir að hann náði kjöri sem forseti, og varð Brice Hortefeux, nánasti samstarfsmaður Sarkozys til margra ára ráðherra innflytjendamála. Hann hefur þegar boðað nýja löggjöf á þessu sviði, þar sem gerðar eru mun harðari kröfur en áður hafa gilt.

 

Öldungadeild Bandaríkjaþings gafst upp við það nú í vikunni að afgreiða herta innflytjendalöggjöf, sem var þó samin af fulltrúum beggja flokka í samráði við starfsmenn forsetans. Meginþáttur þessarar löggjafar snerist um að breyta stöðu 12 milljóna ólögmætra innflytjenda til Bandaríkjanna í lögmæta.

 

Samhliða því, sem ætlunin var að breyta réttarstöðu þessa mikla fjölda fólks, boðaði forsetinn stórherta vörslu við 3200 km löng sameiginleg landamæri við Mexíkó en talið er allt að milljón manns fari á ólögmætan hátt yfir þau ár hvert. Hefur þegar verið ákveðið að reisa um 1100 km langa vel varða landamæragirðingu til að hindra fólksstrauminn.

 

Hér höfum við kynnst því undanfarin ár, þegar þörfin fyrir erlent vinnuafl hefur vaxið ár frá ári, að efnahagslífið hefði ekki dafnað á þann veg, sem verið hefur, ef útlendingar hefðu ekki komið hingað til starfa. Fulltrúar launþega hreyfa þeim sjónarmiðum í þessu sambandi, að útlendingar haldi launum niðri eða þeir fullnægi ekki kröfum um starfsréttindi. Fulltrúar atvinnurekenda telja á hinn bóginn, að fyrirtækin stöðvist einfaldlega, ef ekki fáist fólk til að vinna í þeim. Sambærileg sjónarmið setja sterkan svip á innflytjenda-umræðurnar í Bandaríkjunum.

 

Frumvarpið, sem dagaði uppi í öldungadeildinni, var talið fjandsamlegt innflytjendum og naut stuðnings þeirra, sem halda fram félagslegum sjónarmiðum í útlendingaumræðunum. Ákafir þjóðernissinnar voru einnig á móti frumvarpinu, af því að þeir töldu, að í því fælist sakaruppgjöf við lögbrjóta, sem ætti helst að draga fyrir dómara og að minnsta kosti að reka úr landi.

 

Hælisleitendur eru þeir, sem óska eftir dvöl í landi á þeirri forsendu, að heima fyrir hjá þeim séu aðstæður þannig að lífið sé þeim óbærilegt. Nú er unnið að því á vettvangi Evrópusambandsins að móta sameiginlegar reglur um það, hvernig staðið skuli að afgreiðslu beiðnj um hæli.

 

Á Norðurlöndunum og í Evrópu almennt, ef ekki í heiminum öllum, hefur Svíþjóð algjöra sérstöðu, þegar rætt er um málefni hælisleitenda, vegna þess hve greiða leið þeir eiga inn í landið. Þeir skipta til dæmis tugum þúsunda, sem leita nú til Svíþjóðar frá Írak, en talið er, að tvær milljónir manna frá Írak hafi flúið til nágrannaríkjanna Sýrlands og Jórdaníu.

 

Danir fylgja þeirri stefnu, að aðstoða flóttafólk frá Írak frekar á heimaslóðum þess en að taka á móti því í Danmörku. Þeir telja það leiða til betri niðurstöðu fyrir fólkið en búferlaflutning auk þess sem fjármunir úr danska ríkissjóðnum til þessa málefnis nýtist best á þennan hátt.

 

Þegar rætt er um hælisleitendur hér á landi, ber að hafa í huga, að þeir koma allir hingað með viðkomu frá heimalandi sínu og á grundvelli þess er tekið á málum þeirra á grundvelli Dublin-samkomulagsins, sem gerir ráð fyrir brottvísun til þess lands, sem var viðkomustaður utan heimalands og er aðili að samkomulaginu.

 

Hér rannsakar útlendingastofnun málefni hælisleitenda og úrskurðar í málum þeirra, en þeir dveljast í Reykjanesbæ, á meðan mál þeirra eru til rannsóknar og gildir um þá tilhögun sérstakt samkomulag, sem hefur gefist vel. Kostnaður vegna hælisleitenda lendir á ríkissjóði og skiptir hann tugum milljóna á ári hverju. Líklegt er, að í ljósi reynslunnar verði lagt til í frumvarpi um breytingu á útlendingalögunum, að veitt verði heimild til að vista hælisleitendur undir meira eftirliti og í lokaðra rými en nú er.

 

Í vikunni vorum við Íslendingar minntir á hið alvarlega ástand, sem ríkir á Miðjarðarhafi vegna ásóknar fólks frá Afríku til Evrópu. 21 flóttamaður fór um borð í flotkvíar aftan í skipinu Eyborgu, einn lést vegna vosbúðar, en fréttir herma, að varðbátur frá Möltu hafi tekið fólkið frá Eyborgu og flutt það til Möltu.

 

Stjórnvöld á Möltu glíma við mikinn vanda vegna ólögmætra innflytjenda, sem flestir eru í lífsháska, þegar þeir koma til eyjarinnar. Pólitísk spenna vegna þessa fólks er mikil á Möltu og andstaða við aðild landsins að Evrópusambandinu er vaxandi vegna þessa – flóttafólkið kemur til Möltu í von um að fá þaðan aðgang að Evrópu allri.

 

Ítalska smáeyjan Lampedusa er einnig vinsæll viðkomustaður flóttafólksins frá Afríku en þaðan er það flutt reglulega til Sikileyjar eða meginlands Ítalíu og snýr líklega fæst til síns heima aftur. Spánn glímir einnig við mikinn fjölda ólögmætra innflytjenda bæði yfir Miðjarðarhaf og einnig frá Afríku til Kanaríeyja.

 

Í Evrópulöndum eru innflytjendur ekki síður ólögmætir en í Bandaríkjunum og gerðar hafa verið ítrekaðar tilraunir til að stemma stigu við ólögmætum innflytjendum. Herskipum undir stjórn NATO hefur verið beitt í þessu skyni á Miðjarðarhafi og nú hefur landamærastofnun Evrópu, Frontex, skipulagt aðgerðir í nafni aðildarríkja sinna, en Ísland er meðal þeirra.